Rauði þráðurinn um Icesave

xSSem sannur Samfylkingarmaður þá birti ég hér bréf frá Rauða þræðinum sem mér barst í dag:

Rauði þráðurinn 42. tbl. 4. árg. 23. júní 2009

Umræðan um efnisatriði svokallaðra Icesave samninga er farin einkennast af þeim ljóta leik að spila á ótta fólks og óöryggi með rangtúlkunum og villandi upplýsingum. Andstæðingar aðildarumsóknar til Evrópusambandins beita sér líka hart í því að blanda þessum samningi við umræðu um aðild þótt þessi mál séu með öllu ótengd og óskyld. Sjálfskipaðir sérfræðingar í alþjóðasamningum afhjúpa hver á fætur öðrum að þeir hafa aldrei séð lánasamning milli ríkja fyrr og skilja ekki efni þeirra. Vegna þessa er afar brýnt að sem flestir haldi á lofti réttum efnisatriðum málsins hvar sem því verður við komið. Þessi póstur er nokkuð ítarlegur enda margt sem fara þarf yfir:

Um afsal friðhelgi fullveldisréttar og íslenskar eigur að veði

Mikið veður hefur verið gert út af ákvæði um að Ísland afsali sér friðhelgi vegna fullveldisréttar og fullyrt að þar með geti bresk stjórnvöld gengið að hvaða eigum sem er. Staðreyndin er sú að svona ákvæði um "waiver of sovereign immunity" er regla í lánasamningum milli ríkja og tíðkast m.a. í öðrum lánasamningum sem Ísland hefur gert eða er að vinna að. Ástæðan er sú að þetta er eina leiðin sem lánveitandi hefur til að koma ágreiningi vegna endurgreiðslu fyrir dómstóla. Án þessa ákvæðis er lántökuríkið ónæmt og varið á bak við fullveldisrétt sinn og sá sem afhent hefur fjármuni á engin úrræði því eitt ríki dregur ekki annað ríki fyrir dóm nema með samþykki beggja aðila. Sú fullyrðing að með þessu séu allar íslenskar eigur undir án takmarkana er sömuleiðis röng. Jafnvel þótt ákvæðið sjálft innihaldi ekki takmarkanir þá leiða þær bæði af alþjóðasáttmálum og íslenskum lögum og stjórnarskrá auk þess sem enginn dómstóll myndi gefa lánveitanda sjálfdæmi um eignir upp í skuld. Þá fylgja samningum gjarnan ítarlegra bréf eða fylgiskjal um friðhelgi.

Um lögsögu breskra dómstóla í málinu

Venjan í alþjóðlegum lánasamningum hefur verið sú að miða við lögsögu lánveitanda eða þriðja ríkis og þá helst Bandaríkjanna eða Bretlands. Sem dæmi má taka að samkvæmt fréttum er gert ráð fyrir því að mál vegna lána hinna Norðurlandaþjóðanna verði rekin fyrir dómstólum hvers og eins þeirra.

Um einhliða íþyngjandi ákvæði í samningnum

Þessi túlkun er afar sérkennileg í ljósi þess að um lánasamning er að ræða þar sem skyldur annars aðilans eru afar einfaldar og felast í því að lána tiltekna upphæð. Samningurinn sem slíkur fjallar því óhjákvæmilega ítarlega um tvennt: Skyldur lántakanda við að endurgreiða og leiðir til að lánveitandi hafi úrræði til að fá endurgreitt. Þegar um er að ræða tvær fullvalda þjóðir er staðan í upphafi sú að lánveitandi sem hefur afhent öðru fullvalda ríki fjármuni er í mjög veikri stöðu til að sækja nokkurn rétt og getur t.d. ekki dregið ríki fyrir dómstóla. Vegna hins sterka fullveldisréttar eru ákvæði í lánasamningum milli ríkja yfirleitt afar ítarleg og lúta að því að skapa lánveitanda einhverja réttarstöðu. Skiljanlegt er að fólk sem ekki hefur almennt lesið alþjóðlega lánasamninga eða þekkir hefðbundið efni þeirra bregði við að sjá í fyrst sinn dæmigerðan samningstexta. Sérfræðingar í alþjóðarétti og alþjóðlegum lánsfjármörkuðum segja aftur á móti að ekkert í efni þessa samnings komi á óvart eða sé frábrugðið því sem almennt tíðkast.

Um óhjákvæmileg áhrif á lánshæfismat Íslands

Matsfyrirtækin byggja ekki einkunnagjöf sína á einum samningi heldur mörgum þáttum svo ekkert er hægt að gefa sér um niðurstöðuna. Skuldbindingin vegna Icesave hefur einnig verið þekkt frá því bankarnir hrundu sl. haust og var m.a. inni í Viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Matsfyrirtækin hafa því þekkt þessa skuldbindingu. Þau áföll sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir hafa óhjákvæmilega haft slæm áhrif á lánshæfismat ríkisins. IceSave er þó einungis einn af nokkrum þáttum þar og raunar ekki sá sem vegur þyngst. Skuldasöfnun ríkisins vegna fyrirsjáanlegs fjárlagahalla áranna 2009-2012 hefur meiri áhrif. Einnig vegur tap ríkisins vegna lána Seðlabanka Íslands til íslenskra fjármálafyrirtækja þungt. En samningurinn við Breta og Hollendinga tryggir að íslenska ríkið þarf ekki að greiða neitt vegna IceSave á næstu sjö árum og að það sem þá stendur út af verður greitt á næstu átta árum þar á eftir. Þetta þýðir bæði að ekki reynir á lausafjárstöðu eða greiðsluhæfi ríkisins vegna IceSave á meðan mestu erfiðleikarnir í efnahagsmálum ganga yfir og að árleg greiðslubyrði verður fyrirsjáanlega vel innan þeirra marka sem ríkið ræður við. Miklu skiptir að verið er að eyða óvissu sem hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat. Samningarnir um IceSave eyða mikilli óvissu. Margt annað mun skýrast á næstu vikum, m.a. fæst niðurstaða í samninga við hin Norðurlöndin um lán, gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja bankakerfins, línur lagðar í fjármálum ríkisins til næstu ára og tekin ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að ESB. Langtímahorfur fyrir Ísland munu því skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir.

Um yfirvofandi gjaldþrot íslenska ríkisins vegna samningsins

Ekkert gefur ástæðu til að ætla að íslenska ríkið komist í greiðsluþrot á næstu árum. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lánin sem verið er að ganga frá í tengslum við þá áætlun tryggja íslenska ríkinu verulega sjóði á næstu árum, á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir. Skuldir íslenska ríkisins munu einungis í tiltölulega stuttan tíma fara yfir 100% af landsframleiðslu en verða þegar til lengdar lætur vel innan við landsframleiðslu eins árs. Skuldir íslenska ríkisins verða þá í lægri kantinum í samanburði við önnur Vesturlönd en skuldir flestra þeirra hafa vaxið talsvert undanfarið vegna aðgerða til að bjarga fjármálafyrirtækjum og munu fyrirsjáanlega halda áfram að vaxa á næstu árum vegna mikils fjárlagahalla. Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar, þótt óneitanlega þurfi að grípa til afar erfiðra aðgerða á næstu árum. Hér skiptir m.a. miklu að allar líkur eru á því að skattstofnar landsmanna jafni sig smám saman þegar mesti samdrátturinn gengur til baka. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar búa við nánast fullfjármagnað lífeyriskerfi, ólíkt flestum öðrum löndum. Það og hagstæð aldursskipting þjóðarinnar þýðir að ekki er útlit fyrir að íslenska ríkið verði fyrir verulegum útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar, ólíkt flestum Vesturlöndum. Raunar er íslenska ríkið í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga von á verulegum skatttekjum þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast á næstu áratugum. Það er allt önnur staða en uppi er í flestum nágrannaríkja okkar.

Um viðurkenningu ábyrgðar vegna Icesave reikninganna

Sú fullyrðing að Íslendingar séu með þessum samningi að viðurkenna skuldbindingu sína vegna Icesave reikninganna er röng því samkomulagið við Breta og Hollendinga snýst aðeins um uppgjör ábyrgðar íslenska ríkisins vegna lágmarkstryggingar innstæðna á ESS svæðinu. Þrátt fyrir að önnur sjónarmið hafi heyrst í umræðunni hér innanlands í kjölfar hruns bankanna hefur í reynd verið gengið út frá þessari ábyrgð frá upphafi í öllum áætlunum og yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda: Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember 2008 er gert ráð fyrir að áætluð fjármögnunarþörf íslenska ríkisins vegna lágmarksinnstæðutrygginga sé hluti af þeim lánum sem taka þarf. Þetta kemur m.a. fram í lið 12 í áætluninni og skýringum með honum. Á upplýsingavef forsætisráðuneytisins um áætlunina er þessi skilningur á fjármögnunarþörfinni ítrekaður í liðnum „spurt og svarað“ en þar segir m.a.: „Í lið 12 er því einnig gert ráð fyrir að inni í áætlaðri lánsfjárþörf ríkisins vegna bankakreppunnar séu lán til að mæta erlendum kostnaði við innstæðutryggingar í samræmi við ákvæði EES samningsins.“ Þessi liður í efnahagsáætluninni er í samræmi við þann ítrekaða skilning íslenskra stjórnvalda að ábyrgðir á sparifé á reikningum í útibúum íslensku bankanna takmarkist ekki við þá fjármuni sem til voru í Tryggingarsjóði innstæðueigenda heldur muni ríkissjóður þvert á móti styðja sjóðinn. Í yfirlýsingu forsætisráðherra frá 8. október 2008 segir orðrétt: „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“ Í bréfi frá íslenska viðskiptaráðuneytinu til Clive Maxwell HM Treasury, dagsettu 20. ágúst 2008, segir orðrétt: „In the, in our view unlikely, event that the Board of Directors of the Depositors' and Investors' Guarantee Fund could not raise necessary funds on the financial markets, we would assure you that the Icelandic Government would do everything that any responsible government would do in such a situation, including assisting the Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits.“ Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart Innstæðutryggingasjóði var svo enn ítrekuð í bréf viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 5. október 2008. Þar segir m.a. orðrétt: „If needed the Icelandic Government will support the Depositors' and Investors' Guarantee Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits in the event of a failure of Landsbanki and its UK branch.“ Í símtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands þann 7. október er þessi sami skilningur enn á ný staðfestur af Íslands hálfu og vísað í stuðning stjórnvalda við Innstæðutryggingasjóðinn, sbr. útskrift á samtalinu. Þar sagði fjármálaráðherra Íslands: „We have the [deposit] insurance fund according to the directive and how that works is explained in this letter [from Iceland's Trade Ministry to Britain's Treasury] and the pledge of support from the [Icelandic] Government to the fund.“ Þann 11. október 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Hollendinga. Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um samkomulagið segir m.a.: „Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur“.

Um niðurstöðu núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins

Í ljósi alls þessa er ekki að undra þótt Bjarni Benediktsson, þáverandi fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi komist að afdráttarlausri niðurstöðu við umræður um samkomulag um Icesave á Alþingi 29. nóvember 2008: "Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. [...]Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli."

Efni samningsins og skýringar á www.island.is Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér efni samningsins ásamt skýringum á einstökum greinum eru hvattir til að fara inn á vefinn www.island.is . Finnist fólki eitthvað vanta eða ef spurningar vakna má senda fyrirspurn á uppgefið netfang og mun svar þá birtast um leið og það er tilbúið.

Með bestu kveðjum,ritstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Snýst ekki málið um að bresk og hollensk stjórnvöld tryggðu ALLAR innistæður Icesave að fullu. Tryggingasjóðurinn íslenski tryggir einungis ákveðna lágmarksupphæð eins og þú nefnir en afganginn greiddu þarlend stjórnvöld og hafa því forgangskröfur á þrotabú Landsbankans. M.ö.o. allar innistæðukröfur vegna Icesave verða greiddar, ekki einungis tryggingarupphæðin og eignir Landsbankans hrökkva ekki fyrir skuldunum og því lendir það sem eftir er (ekki vitað hversu mikið vegna óvissu um eignahlutann) á Íslenska ríkinu.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 23.6.2009 kl. 12:24

2 identicon

Takk fyrir þetta og er ég alveg samála þér á þessum hlutum og fyrri um hús eigandan. Það þarf að klára þessi mál þannig að ég sem lítil fyrirtækja eigandi geti farið að horfa á batnandi verðlag og gengi.

Ég vil samt taka fram að það væri hægt að gera meira í að koma til skila þessum peningum sem voru teknir út fyrir hrunið og taka til baka eignir og fleira af sumum útrásarvíkingum. Jafnvel hótta að svipta ríkisborgararétt þeirra sem íslendingar.

Svo er margt spurt um sparnað og niðurskurð í þjóðinni og hér er einn í viðbót. Skera niður alþingið úr 63 í 49 eða jafnvel 39 þingmenn, ekki eru margar þjóðir sem geta talið 1 per 5000 einstaklinga eins og ísland.

Þorsteinn Halldórsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 15:06

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Bestu þakkir fyrir þetta innlegg Týri minn. Það verður ekki af ykkur Svavari skafið að þið eruð mestu snillingar í samningatækni sem íslensk þjóð hefur alið. Þjóðin ber bara ekkert skynbragð á snilli ykkar og við hlustum ekki á þetta sérfræðingatal sem allt þykist kunna.  Eina sem á vantaði upp á Steini flakari hefði mætt á samningafundina með kutann, og rekið hann hressilega í borðið hjá Bretunum, Þá hefðu þeir nú orðið hræddir. Vissulega var það styrkur að þú tækir þetta upp á vélina þína. Þrátt fyrir að þú og Svavar séu hataðir núna, þá er ég viss um að ykkar tími mun koma. Mundu hvað gerðist með Jóhönnu. Ef til vill mun flokkurinn launa þér trygglyndið og fréttabréfið með ráðherradómi einhvern tíma seinna. Eða sendiherrastöðu. Áfram Týri, áfram Týri.

Sigurður Þorsteinsson, 23.6.2009 kl. 19:26

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Hjálmtýr sendiherra, hljómar vel.  En er ekki einhver smá villandi áróður í þessu bréfi.  Það er talað um bætt gengi, hækkandi lánsmat, öfundsverð staða, skuldir í lægri kantinum o.s.fr.  Allt orð og frasar sem passa ekki við veruleikann, guð blessi þjóðina og allt það.  Er þjóðinni einhver greiði gerður með svona barnatali.  Er ekki hægt að halda sig við veruleikann.  Björgólfur stal, Davíð blessaði og heilög Jóhanna handrukkar. 

Getur verið að Hjálmtýr trúi á jólasveininn ef hann er í Samfylkingunni?

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 20:03

5 identicon

Það er villandi að setja erlendar skuldir í erlendri mynt vegna Icsave í samhengi við innlendar skuldir annarra ríkja. Það fjármagn sem verður greitt vegna þeirra skulda mun ekki streyma út úr hagkerfum viðkomandi landa og afborganirnar munu ekki keyra niður gengi gjaldmiðla þeirra.

Það er eðlilegra að skoða greiðslubyrgði vegna Icesave í samhengi við útflutningstekjur en líkur eru á að vaxtabyrðin ein slagi hátt í 10% af útflutningstekjum. Það er einfaldlega ekki viðráðanlegt. Það getur hver maður séð. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 20:51

6 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Ekkert gefur ástæðu til að ætla að ríkið komist í greiðslu .....

Ég á því miður engin málefnaleg komment á þessa vitleysu. Afsakaðu það. Maður verður ráðþrota við að lesa þetta.

Hið rétta er að ísland í heild, allt hagkerfið, er í greiðsluþroti gagnvart útlöndum og nú krossum við fingur um að ástandið lagist ytra, bæði hratt og mikið.

Við getum huggað okkur við að til stendur að keyra endurreisnarplan IMF af sama tagi og hefur aldrei virkað. Kannski gerist það fyrst hér!?

Ólafur Eiríksson, 23.6.2009 kl. 20:54

7 Smámynd: Björn Heiðdal

Plan IMF aldrei virkað, í alvöru?  Það virkar nákvæmlega eins og það á að gera.  Koma þjóðum á kné og selja síðan auðlindir fyrir skuldum.  Dæmin sanna þetta og vitrarari menn en ég hafa sýnt fram á þetta. 

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 21:00

8 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Ég bíð mjög spenntur eftir næsta skerfi farsans. Sem er að það á að taka risalán frá AGS og norrænu þjóðunum og nota í gjaldeyrisvaraforða. Stjórnvöld halda því statt og stöðugt fram að forðinn verði bara til vara og aldrei notaður. Þórólfur Mattíasson prófessor hefur þannig haldið áfram og lýst því að sjóðinn megi nota til að borga niður aðrar skuldir eftir að við komumst inn í ESB því að þar þurfi ekki gjaldeyrisvarasjóð. (Ísland yrði þá eina ríkið í sambandinu án evru sem væri laust við það fyrir utan að aðild hefur ekkert með málið að gera til að byrja með) Á sama tíma spá AGS því sjálfir að verulega gangi á sjóðinn þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt í áföngum. Þetta passar allt mjög vel saman og hljómar rökrétt. Ef að líkum lætur þá tæmist sjóðurinn með tíð og tíma ef ekki strax, annar möguleiki er að seðlabankamenn fari á taugum þegar þriðjungur er eftir og setji gjaldeyrishöftin upp aftur.

Hér mætast tveir frumkraftar, íslensk hagfræði og AGS.

Ólafur Eiríksson, 23.6.2009 kl. 21:29

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Björn frændi - ekkert lítilæti. Vitrari menn en þú fyrirfinnast ekki. Þú sérð í gegnum allt plottið og lygarnar -veist allt um AGS...„selja auðlindir fyrir skuldum“. Þetta geta engir nema djúpvitringar fundið úr og upplýst. Samfylkingin er varnarlaus gegn skarpskyggni þinni og rökfestu. Ég veit að það er samkeppni á þessu sviði upplýsingasnillinga og skarpra penna - það sannar bloggið. En þú ert í forystusveitinni. Þú ert meistarinn. Ég bugta mig í lotningu.

Hjálmtýr V Heiðdal, 23.6.2009 kl. 21:32

10 Smámynd: Björn Heiðdal

Þýðir þetta svar að þú trúir á jólaveininn?

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 21:34

11 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Um leið og þú útskýrir tilveru hans fyrir mér þá tek ég trúna. Nema þú afhjúpir að hann sé alls ekki til.

Hjálmtýr V Heiðdal, 23.6.2009 kl. 21:37

12 Smámynd: Björn Heiðdal

Þegar aðilar deila er yfirleitt reynt að mætast á miðri leið.  Í þessu tilviki var ekki um slíkt að ræða.  Allir virðast vera sammála um að þetta sé frekar pólitískt frekar en lögfræðilegt deilumál.  Þess vegna er það þeim mun óskiljanlegra að ekki var hægt að ná betra samkomulagi.  Borga t.d. eitthvað málamiðlunargjald en ekki alla upphæðina plús fulla vexti.
 
Svona miðað við skeytasendingar síðuhöfundar, sem virðast yfirleitt ná hámarki þegar ég reyni að rökræða við hann, hefur hann ekki áhuga á að ræða hluti efnislega.  Leitar útgönguleiða og finnur.   Hvort þetta er ættgengt eða fylgir þáttöku í íslenskum stjórnmálum verða aðrir að dæma um.  
 
Hjálmtýr fellur í sömu gryfju og Ísraelska ríkisstjórninn og aðrir zionistar nota.  Þar á bæ eru menn stimplaðir rasistar ef þeir bera saman sumar aðferðir nasista t.d. gettó við aðgerðir Ísraels á Gasabúum.  Gert er lítið úr viðkomandi og gagnrýni hans á framferði Ísraels er ekki svaraverð.  Nú er ég ekki að segja að Hjálmtýr sé Ariel Sharon risinn upp frá dauðum ef einhver heldur það.
 

 
 

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 22:16

13 Smámynd: Björn Heiðdal

Mér sýnist þú heldur betur hitta naglann á höfuðið í færslu kl. 21 37.  Ég þarf eiginlega bæði að sanna tilvist Jólasveinsins (verðum að borga icesave á forsendum Breta) og sýna fram á að hann sé ekki til (þurfum ekki að tala við þá um eitt eða neitt) til að ég hafi eitthvað til míns máls.  En þetta er ekki hægt og ekki mín afstaða heldur. 

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 22:22

14 Smámynd: Björn Heiðdal

Eiginlega hef ég á tillfinningunni að skoðum manni mótist af flokkakerfinu.  Pósturinn hér að ofan sýnir þetta glöggt.  Trúuðum í Samfylkingunni er skammtað orðfæri til að verja Iceslave.  Ekkert nýtt undir sólinni, staðlaður samningur, oft gert svona áður, batnandi hagur og eyða óvissu.  Bara bull ef þú þekkir muninn á milljón og milljarði.  Þarf að loka öllum skólum í landinu eða skammta bensín?

Þetta er bara veruleikinn og því miður mun ekki duga að bugta sig og bóndabeygja fyrir skörpum upplýsingasnillingum eins og mér.

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband