Geir og Solla lesa bloggið mitt!

Geir og Solla skoða bloggið  mitt14. október s.l. setti ég lista á bloggsíðuna mína. Þar setti ég fram nokkur atriði sem ég taldi brýnt að framkvæma hið fyrsta. Nú er komið í ljós að forystumenn ríkisstjórnarinnar lesa bloggið mitt og taka mig alvarlega. Listinn náði yfir átta aðgerðir og nú eru Geir og Solla byrjuð að vinna í fjórum og hljóta að vinda sér í næstu atriði fljótlega. Þetta gleður mitt geð og nú verð ég að halda áfram að setja fram nýjar og gagnlegar hugmyndir - og fjarstýra ríkisstjórninni. Ég er opinn fyrir því að aðrir nýti sér þetta samband og sendi mér nýjar hugmyndir og lagfæri gamlar.

Hér er listinn frá 14. okt.: 

1 - Afnema skal strax eftirlaunafríðindin sem þingmenn samþykktu sér til handa. Það verður engin samstaða meðan að hópar sem til þess hafa aðstöðu skara eld að sinni köku. Þeir stjórnmálamenn sem vilja að almenningur hlusti á þeirra ráð og hugmyndir geta ekki neitað þessari kröfu.

2 - Laun allra háttsettra embættismanna í hinu opinbera kerfi, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum, einnig laun þingmanna og ráðherra, verði ekki hærri en kr. 450,000 á mánuði. Allar sporslur og aukagreiðslur afnumdar. Þessi ráðstöfun er í raun afleiðing þess að hið opinbera brást hlutverki sínu. Hún er einnig nauðsynleg til þess að hér skapist samstaða um þær ráðstafanir sem verður að framkvæma.

3 – Kjör ellilífeyrisþega og öryrkja verði ekki skert.

4 - Burt með vaxtaokrið.

5 - Fiskurinn í sjónum verði aftur þjóðareign. Kvótamálið er eitt stærsta jafnréttismál Íslandssögunnar. Þjóðarsátt verður að kveða á um breytingu kerfisins í anda þess jafnréttis (allir í súpunni) sem nú er boðað. Útgerðin er skuldug og það eru hinir nýju ríkisbankar sem hafa þar með eignast hluta skuldanna. Þessi staða verði nýtt til þess að færa þjóðinni réttmæta eign sína til baka í áföngum. Ýmsar aðferðir er hægt að ræða til að svo geti orðið. T.d. sú hugmynd að hver fjárráða Íslendingur fái bréf sem er ávísun á hans hlut í þjóðareigninni eftir að ákvörðun um aflamagn liggur fyrir. Hver og einn ráðstafar síðan sínum hlut skv. þeim boðum sem koma frá útgerðinni. Þannig geta menn í útgerðarbæjum stutt við sitt byggðarlag með því að leigja útgerð í heimabyggð sinn kvóta. Settar verði skýrar reglur um meðferð almenningskvótans til þess að fyrirbyggja brask og misferli.

6 - Framlög til menntunar og menningar verði ekki skert. Menntun og menning eru ólík efnislegum gæðum. Menningararfurinn er sameign þjóðarinnar en efnisleg gæði eru mjög ójöfn. Menntun er grunnur að framtíðinni. Það verður því að leggja áherslu á að þessar undirstöður þjóðlífsins. Þrátt fyrir áföll er þjóðin rík. Víða má spara, en þjóðin má ekki eyðileggja þessar undirstöður.

7 - Efling atvinnulífsins með stuðningi við nýsköpun og sprotafyrirtæki um land allt. Horfið verði frá stóriðjustefnunni sem skapar óeðlilega þenslu og leiðir til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru landsins.

8 - Skipuð verður fjölmenn uppgjörsnefnd valinkunnra einstaklinga sem njóta trausts. Margskonar samtök skipi fólk í nefndina, m.a. stjórnmálaflokkar, verkalýðshreyfing, samtök atvinnurekenda, samtök náttúruverndarmanna, mannúðar- og friðarsamtök, samtök listamanna ofl. Nefndin fær það hlutverk að fara ofan í þróun mála, jafnt á sviði stjórnmála og efnahagsmála undanfarinna ára. Málin sem verða skoðuð er einkavæðing ríkisfyrirtækja, sala bankanna og stjórnun þeirra, peningamálastefnan, hlutur Seðlabankans, stóriðjustefnan og afleiðingar hennar. Sérstaklega skal þáttur stjórnmálamanna og flokka í ákvarðanatöku um þessi mál rannsakaður og þjóðhagslegar afleiðingar skilgreindar. Allir forsprakkar þeirra fyrirtækja sem stunduðu s.k. útrás, með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir, verða að gera grein fyrir sínum störfum. Nefndin skal einnig fara ofan í saumana á umdeildum ákvörðunum s.s. stuðningi við innrásina í Írak. Starf nefndarinnar verði unnið fyrir opnum tjöldum og starfi sem n.k. þjóðarvettvangur.


mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Vona að þau vinni eftir listanum þínum

Hólmdís Hjartardóttir, 21.11.2008 kl. 18:10

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þú ert líka svo borgaralegur!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.11.2008 kl. 19:43

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Langalangalangafi minn var kallaður Einar Borgari. Spáðu í það Villi!

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.11.2008 kl. 20:05

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ég stundum bæði hugsa um þetta og hitt

og hamast við að verða rosa fitt.

Guð minn góður bæði og holy shitt

og Geir og Solla lásu bloggið mitt.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 21.11.2008 kl. 22:58

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Þetta fólk er hættulegt og þarf að stoppa með öllum tiltækum ráðum.  Solla sæta segir að hún beri enga ábyrgð á ástandinu og það megi alls ekki kjósa.  Er þetta kona sem hlustar á fólkið í landinu.  Er þetta kona sem hlustar á kjósendur sína?  Nei, henni dettur það ekki hug enda er hún ekki að vinna fyrir þá.  Hún er að vinna fyrir erlenda auðhringa og bankamenn.  Vinna fyrir græðgisvæðingu ESB og IMF.  Ingibjörg Sólrún er ómerkileg, lygin og óheiðarleg.  Hún hefur tekið þátt í bankasukkinu og hagnast vel á því eins og margir aðrir ráðherrar.  Heimtum rannsókn á leynireikningum ráðherra og gæðinga kerfisins, krefjumst réttlætis.

Björn Heiðdal, 22.11.2008 kl. 23:43

6 identicon

Ég myndir nú verða hræddur ef umrætt par færu að fara eftir hugmyndum mínum ....

Erling Ólafsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband