Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stöðvarstjórinn á Bessastöðum

Olafur Ragnar Grimsson Fifth President Iceland 7Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur að undanförnu komið víða fram og sagt frá sinni sýn á hlutverki forseta.

Það sem stendur uppúr að mínu áliti er að Ólafur Ragnar telur að forsetinn eigi ekki að vera sameiningarafl fyrir þjóðina. Hann tekur embættið hiklaust með sér inn á átakavöll stjórnmálanna og lýsir því í viðtölum m.a. að hann sé andvígur inngöngu Íslands í ESB.

Hann vísar í aðgerðir fyrri forseta, Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, og telur að þangað sé að sækja fordæmi fyrir pólitískum afskiptum forsetans. Hann hefur hins vegar ekki lagt fram mat á því hvort afskipti fyrri forseta hafi verið til góðs fyrir þróun þjóðmála.

Ólafur Ragnar hefur mikið rætt um að Bessastaðir séu „síðasta stoppistöð“ fyrir þjóðina þegar þing og stjórnvöld ganga gegn vilja hennar að mati forseta. Hér vísar hann í Icesave-málið og er einnig að koma því inn hjá kjósendum að ESB aðild sé mál þar sem „síðasta stoppistöð“ og „öryggisventillinn“ geti ráðið úrslitum um „stöðu okkar í samfélagi þjóðanna“.

Að mati Ólafs Ragnars hafa aðrir frambjóðendur ekki þá reynslu og djörfung sem hann býður fram. Stoppistöðvarstjórinn stillir sér upp í eigin persónu, það er aðeins hann sem kann að bregðast við óskum þjóðarinnar og nýta forsetaembættið sem athvarf þjóðar sem þing og ríkisstjórn hafa reynt að svíkja í hendur annarra.

Allir vita þó að aðildin að ESB mun verða ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu án afskipta „öryggisventilsins“.

Hann hefur nefnt að einn frambjóðandinn telji að forsetaembættið eigi ekki að reka eigin utanríkisstefnu. Það telur Ólafur Ragnar fráleitt. Hann hafi hinsvegar axlað það hlutverk „að ganga fram á hinn alþjóðlega völl og verja Ísland hvort sem það er á CNN eða BBC, CNBC eða Al Jazeera eða Bloomberg eða Reuter“. Þannig hafi hann “nánast einn og óstuddur“ bjargað orðstír Íslands 2010 og 2011.

Hvers vegna þurfti að bjarga orðstír Íslands? Jú - vegna þess að áður fyrr fór sá sami Ólafur Ragnar fram á hinn sama völl „nánast einn og óstuddur“ og lýsti íslenskum viðskiptabófum sem sérstöku úrvali manna sem bæru í sér bestu erfðaeiginleika þjóðarinnar, hertir í aldanna rás í baráttu við óblíða náttúru. Þetta var hans utanríkisstefna og þá hjálpaði hann til við að eyðileggja orðstír landsins.

Nú slær hann sér á brjóst og segir að „ef aðrir ráðamenn fara ekki fram á hinn alþjóðlega völl til að verja hina íslensku hagsmuni og verða rödd Íslands á alþjóðavettvangi, þá verður forsetinn að vera tilbúinn til að gera það. Annars mundi stefna í óefni“.

Hér er merkileg lýsing á hugmyndum embættismanns sem er ábyrgðarlaus í stjórnarathöfnum. Þessi lýsing á aðgerðum forseta getur einungis skotið upp í kolli manns sem hefur ofurtrú á eigin hæfileikum og vantrú á „öðrum ráðamönnum“.

Gegn hinni skýru mynd af sjálfum sér í hlutverki bjargvættarins lýsir Ólafur Ragnar því að framboð keppinautanna byggist á ranghugmyndum um að forsetaembættið sé „einhverskonar bíó eða eða showmennska eða einhverja myndasýningu eða fegurðarsamkeppni“ og að „nú allt í einu sé bara fjölmiðladansinn orðinn aðalatriðið“. Hér fer ekki á milli mála að forsetinn freistar þess að niðurlægja Þóru Arnórsdóttur, sem er eini keppinauturinn sem getur komið í veg fyrir að Ólafur Ragnar sitji 20 ár í embætti.

Það er ekki flókið val sem þjóðin stendur frammi fyrir ef lýsingar forsetans á eigin ágæti og göllum annarra eiga að stjórna atkvæðinu í kjörklefanum. En fullyrðingar forsetans um framgöngu keppinautanna eru rangar og einnig tilraunir hans til að sundra þjóðinni. Valið er því ekki erfitt.

(Allar tilvitnanir eru úr viðtölum ÓRG á Útvarpi Sögu, Pressunni og Bylgjunni)


Virðing og velsæmi

ORG2Getur maður sagt við forseta Íslands: „Æi - éttan sjálfur“?

Ég er farinn að hallast að því.

Nú höfum við forseta sem vill ekki vera forseti allra landsmanna - mann sem tekur eigin hagsmuni og sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Hann er í stríði við þingræðið - hann er í baráttuham og þylur upp samsæriskenningar.

Virðingin fyrir honum og embættinu þverr.


Eitraður ryðkláfur

Útvarp SagaÞórarinn Þórarinsson skrifar í Fréttatímann í dag:

„Útvarp Saga er eitraður ryðkláfur, mengunarslys, sem úðar öfgum, undarlegum skoðunum og bullandi fordómum yfir öldur ljósvakans. Stöðin hossar einstrengingslegu öfgafólki og hleypir því reglulega upp á dekk þar sem það skrúfar frá brjáluðum vaðlinum við mikinn fögnuð áhafnarinnar sem kyndir vel undir og bætir í ef eitthvað er.

Á köflum er beinlínis ógnvekjandi að hlýða á vænisjúka og firrta orðræðuna á Sögu en skemmtigildið er þó ótvírætt og maður huggar sig við að þær raddir sem hæst og oftast heyrast á Sögu hljóti að rúmast innan afar þröngs mengis og geti vart talist þverskuður af Íslensku þjóðinni.

Persónugalleríið í símatíma Sögu, bak við hljóðnemana og í hópi eftirlætis viðmælenda stöðvarinnar er svokostulegt og skoplegt í ýktum æsingnum að þegar mest gengur á er Saga eins og útvarpsleikrit samið af David Lynch og leikstýrt af Fellini.“

 

Ég held að skoðanakannanir Útvarps Sögu segi eitt og annað um hlustendahópinn. Þátttakan er ágæt, stundum um 2000 manns. Hér eru nokkur sýnishorn.

Hvern ætlar þú að kjósa sem forseta Íslands? Ólafur Ragnar 89,8%

Er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar að skila árangri? Nei: 85,27%

Á að takmarka straum flóttamanna til Íslands? Já: 92,09

Er þróunaraðstoð skynsamleg ráðstöfun á fjármunum? Nei: 79,59%

Hvaða flokk kysir þú í dag til Alþingis? Hægri grænir: 57,6%

Svo eru stundum kannanir sem sýna hve hlustendurnir eru glöggskyggnir.

Telur þú að Geir H Haarde verði sakfelldur í Landsdómi? Nei: 69,98%

Telur þú að Jón Bjarnason verði rekinn úr ríkisstjórninni? Nei: 54,39%

Svo koma spurningar sem aðeins einn maður getur svarað.

Vill Steingrímur J Sigfússon að Ísland gangi í ESB? Já: 79,12%

Og stundum eru menn svakalega sammála.

Vilt þú að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði næsti forseti Íslands? Nei: 95,11%

Þessar skoðanakannanir eru auðvitað ekkert nema samkvæmisleikur hjá hlustendum Útvarps Sögu og endurspegla enganveginn andlegt ástand þjóðarinnar. Guði sé lof (með þeim fyrirvara að hann sé þarna einhversstaðar).


Riddarinn - reddarinn

ORG riddariVerkfæri þjóðarinnar eru flokkarnir og þingræðið, þar liggur kjarni lýðræðisins - frelsið til að stofna samtök til að vinna sínum áhugamálum framgang.

Þetta dekur við forseta sem situr eins og einhver guð á Bessatöðum og grípur inní þegar „hallar á alþýðuna“ er bara tilraun til þess að búa til draumaveröld.

Forsetar geta verið misjafnir eins og stjórnmálamenn - þetta er því ekki leiðin að bæta við ruglið sem við höfum.

Látum forsetaembættið vera sameiningarafl þjóðarinnar - en ekki drauminn um riddarann sem kemur ríðandi þegar allt er í steik og ekki nema 5 mínútur eftir af kvikmyndinni.


Tjónaskoðunarmaðurinn

SDGSigmundur Davíð formaður Framsóknarflokkskins er mjög skrítið innskot í stjórnmálin.

Hann komst að því í júlí 2009 að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur „væri líklega versta ríkisstjórn í Íslandssögunni“. Hann var þá nýkjörinn á þing og nýtekinn við formennsku Framsóknaflokksins. Flokksins sem var, ásamt Sjálfstæðisflokknum, nýbúinn að skila af sér þjóðarbúinu á hengibrún efnahagshruns. Eða eins og Geir H. Haarde orðaði það: „Guð blessi Ísland“.

Nú er Sigmundur Davíð aftur í fréttum vegna miðstjórnarfundar flokksins. Liðin eru tæp þrjú ár og Sigmundur Davíð segir að „tjónið af þessari ríkisstjórn er orðið meira en af sjálfu hruninu. Þeir klikkuðu á því að taka á lánamálum heimilanna, fjárfesting fór í sögulegt lágmark, atvinnuleysi hefur aukist miklu meira en það hefur þurft að gera. Þegar allt þetta kemur saman er tjónið meira en af hruninu“.

Upptalning Sigmundar er listinn yfir málin sem hrunið leiddi yfir þjóðina, málin sem núverandi ríkisstjórn fékk í arf. Tjónið af hruninu er semsagt meira en tjónið af hruninu - ef marka má Sigmund Davíð.


Lónbúinn - kraftaverkasaga

Í kvöld fer ég á frumsýningu myndarinnar Lónbúinn - kraftaverkasaga. Myndin er afurð mikillar vinnu þeirra Þorkels Harðarsonar, Arnar Marínós Arnarsonar og Arnars Þórissonar. Ég hvet alla til þess að fara í Bíó Paradís og sjá þessa ljóðrænu náttúrulífsmynd.


Heyrðu, hvað erum við að tala um?

GHHHér er orðrétt samtal Geirs Haarde og Sigmars í Kastljósi 23. apríl.

Geir: Það komst inn á þing allskonar ofstækisfólk, eins og til dæmis það fólk sem situr fyrir Hreyfinguna, það eru hatursfullir einstaklingar, bæði í VG og Samfylkingu.

Ég mælist til þess að þeir menn sem hafa tekið á sig þá ábyrgð að hefja þetta mál, þetta gönuhlaup og sneypuför taki nú einu sinni ábyrgð á gerðum sínum. Hverjir eru það þá, þú spyrð að því. Jú það er þá fyrst og fremst höfuðpaurinn í málinu, Steingrímur J Sigfússon og síðan allir þeir sem geta rakið til sjálfs sín hluta af ábyrgðinni í málinu. Ég ætla ekkert að nefna hérna marga, þeir eru auðvitað mjög margir, Samfylking og annað. Þeir eiga auðvitað að hafa manndóm í sér til þess að horfast í augu við það að út úr þessu máli kom ekki það sem til stóð.

Sigmar: Og eiga þessir menn segja af sér?

Geri: Það finnst mér. Það hefði ég gert í þeirra sporum.

Sigmar: Já, en núna hrundi bankakerfið á þinni vakt, heilt bankakerfi hérna yfir þjóðina með tilheyrandi skaða og voða fyrir alla og fjárhagslegu tjóni. Þú vildir ekki segja af þér út af því. Af hverju ættu að vera ríkari kröfur til pólitískra andstæðinga til að segja af sér út af þessu máli þegar þú steigst ekki til hliðar þegar bankakerfið hrundi?

Geir: Vegna þess að við vorum með plan um það hvernig bregðast ætti við og hvernig ætti að vinna landið út úr þessari krísu sem hafin var. Og því miður hefur núverandi ríkisstjórn tafið þar ferli allt saman.

Sigmar: Þú ert að kalla eftir ábyrgð.

Geir: Sjáðu til. Hér hafa menn lagt mikið undir til þess að koma höggi á mig. Það er mjög hátt reitt til höggs til þess að koma höggi á einn einstakling, koma höggi á minn flokk. Þetta högg geigar, það misheppnast og eins og ég sagði áðan þá verður úr þessu sneypuför. Og hvernig væru nú að þeir einstaklingar sem bera ábyrgð á því reyndu einu sinni að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna og tækju nú pokann sinn.

Sigmar: Finnst þér það í alvöru alvarlegra að þú hafi verið dæmdur og þess vegna eigi þeir menn að segja af sér út af þeim málatilbúnaði frekar en að þú hefðir átta að segja af þér þegar bankarnir hrundu?

Geir: Ekki snúa út úr fyrir mér.

Sigmar: Ég er ekki að snúa út úr. Þú ert að tala um ábyrgð.

Geir: Ekki snúa úr úr fyrir mér.

Sigmar: Þú ert að tala um það að ráðherrar eigi að bera ábyrgð, að þeir eigi að standa á bak við sannfæringu sína og víkja ef þeir gera mistök. Það hlýtur að mega að líkja þessu tvennu saman.

Geir: Bankahrunið kom ekki til skjalanna sem ávöxtur af einhverjum mistökum sem við höfðum gert. Það var hér í uppsiglingu í ákveðinn tíma og það var vegna þess að bankarnir voru allt of lengi...

Sigmar: Annað segir nú skýrslan sem rannsakaði þetta.

Geir: Nei nei. Skýrslan segir að fyrst og fremst var þetta bönkunum sjálfum að kenna og svo komu utanaðkomandi faktorar og auðvitað..

Sigmar: Og stjórnvöld líka, þú getur ekki gert svona lítið úr því sem skýrslan sagði um ykkur.

Geir: Heyrðu, hvað erum við að tala um? Erum við að tala um ábyrgð manna hérna - núna, eða ætlum við að fara að tala um skýrslu Rannsóknarnefndarinnar?

Sigmar: Nei nei.

Geir: Nei, ég segi það var reitt hátt til höggs, það var reynt að koma mér varanlega til hliðar bæði í stjórnmálum og á opinberum vettvangi almennt. Það var reynt að koma þannig höggi á Sjálfstæðisflokkinn að hann biði þess aldrei bætur. Þetta misheppnast allt, þetta geigar allt, þetta eru klámhögg og fólk á að horfast í augu við það og taka pokann sinn. Þeir sem á annað borð vilja kannast við einhverja ábyrgð á sínum gerðum.


Gunnar Heiðarsson og fáviskan

gunnar hei arssonKarlmaður sem heitir Gunnar Heiðarsson fann nýlega hjá sér hvöt til að skrifa eftirfarandi orð og birta á bloggsíðu sinni með fyrirsögninni Fáviskan í hámarki:

„Það er landsbyggðin og ekki síst Vestfirðir, sem skapa verðmætin í þjóðfélaginu. Þaðan koma peningarnir sem halda uppi latte lepjandi Reykvíkingum, þaðan koma peningarnir sem halda uppi ríkissjóð! Vestfirðingar borga sína skatta eins og aðrir landsmenn, en hin raunverulega verðmætasköpun verður nánast öll til utan Reykjavíkur! Það yrði lítið úr Reykjavík og afætum þjóðfélagsins sem þar býr, ef landsbyggðin segði sig úr sambandi við það. Ef landsbyggðin ákvæði að stofna eigið lýðveldi án Reykjavíkur og þorpanna umhverfis hana! Svei þessu fólki, svei þeim sem ekki skilur á hverju land og þjóð lifir!!

Nú kann þessi Gunnar að vera hinn vænsti maður, góður fjölskyldufaðir og duglegur í vinnunni, ég veit ekkert um það. En af skrifum hans má sjá að hann kýs að skipta fólki upp í „okkur“ og „hina“; landsbyggðarfólkið og íbúa höfuðborgarinnar.

Annar aðilinn gerir lítið sem ekkert gagn en hinn skapar verðmætin. Andstæðar fylkingar með andstæða hagsmuni ef marka má skrif Gunnars (sem kanski veir ekkert skemmtilegra en að lesa ljóð).

Sundrungartaktíkin er mjög vinsælt og eldgamalt lýðskrumstrikk sem virkar á sumar sálir. Þetta bragð er notað í pólitíkinni þegar stjórnmálmenn með vondan málstað reyna að lappa uppá fylgið. Einræðisherrar sem vilja beina augum almennings frá aumu ástandi þjóðmála brúka einnig þessa aðferð. Kynþáttahatarar kunna lýðskrumslistina og fleiri fól sem vilja vinna mannkyninu mein.

Nú vaknar hjá mér spurningin hvers vegna Gunnar þessi, kanski vinsæll í sínu nánasta umhverfi - hvað veit ég um það - hvers vegna grípur hann til þessa ómerkilega málflutnings gegn stórum hluta þjóðarinnar sem hann tilheyrir? Hvað ætli Reykvíkingar hafa gert á hlut Gunnars (sem kanski syngur í karlakór)? Hvernig hefur sú hugmynd ratað í hans koll að Reykvíkingar séu „afætur þjóðfélagsins“?

Skoðum þetta betur. Tökum dæmi og sjáum hvernig hugmyndum Gunnars Heiðarssonar (sem gæti verið kattarvinur) reiðir af þegar þær komast í kast við raunveruleikann.

Konan mín er fæddur Vestfirðingur og vinnur núna á elliheimili í Reykjavík (meira að segja í hinu alræmda póstnúmeri 101) við aðhlynningu eldra fólks sem reyndar að stórum hluta fæddist utan Reykjavíkur. Pabbi minn var að austan, fæddur á Vopnafirði og þar sem ég marga ættingja og þar starfaði ég í síldarvinnu nokkur sumur. Annar afi minn var úr Mýrdalnum og einn langafi frá Vestfjörðum.

Þetta litla sýnishorn er dæmigert fyrir Reykjavík, fólk að uppruna frá öllum landshlutum með tengsl við ættingja og vini um allt land. Er þetta „afætulýðurinn“ hans Gunnars? Venjulegir Íslendingar sem hafa ekkert gert til þess að angra Gunnar (sem kanski spilar á píanó eða gítar) annað en að vera til og lifa og starfa á öðrum stað en hann.

Gunnar fullyrðir að það „yrði lítið“ úr þessu fólk „ef landsbyggðin segði sig úr sambandi við það“. Hvers vegna kemur upp svona hugmynd í kolli Gunnars (og fleiri sbr. viðbrögð á bloggi hans)? Er það vegna þess að hans hugmyndaheimur takmarkast við fisk og slátur?

Ekki veit ég neitt um hans hagi, kanski er hann félagi í áhugaleikfélaginu í sínum heimabæ, kanski er hann búinn að lesa gjörvallann Laxnes. Ég skil ekki þessar hugmyndir hans og ég átta mig ekki á því hvaðan þær koma.

Og hvaða tilgangi þjóna skrif Gunnars (sem hefur kanski komið til Reykjavíkur og kíkt á kaffihús) - hvar endar hugmyndin - hvert á hún að leiða okkur?

Gunnar Heiðarsson, upplýstu mig, segður mér eitthvað sem getur hjálpað mér að skilja þær hugmyndir sem þú virðist fylgja svo einarðlega.


Hrun krónunnar er borgað af almenningi

ÞrosturÉg vek athygli á grein Þrastar Ólafssonar hagfræðings sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þröstur veit hvað hann syngur.

Hér eru tvö sýnishorn úr greininni:

„Hrun krónunnar er borgað af almenningi, sérstaklega þeim sem tekið hafa verðtryggð lán. Sveigjanleiki krónunnar er ekki kostur eins og sumir vilja vera láta, heldur versti bölvaldur almennings. Núverandi gjaldmiðill er stærsti vandi þjóðarinnar. Hann verður ekki leystur nema skipta krónunni út.“

„Hins vegar er mikil brotalöm á íslenskum stjórnmálum. Þar víkur almannahagur gjarnan fyrir sérhagsmunum og mun svo að öllum líkindum verða áfram. Íslensk stjórnmál eru í fjötrum sérhagsmuna auðlindaatvinnuvega og kjördæma. Ekkert bendir til þess að sérhagsmunagæsla sé á undanhaldi. Hrunið megnaði ekki einu sinni að hrófla við henni. Þarna er fyrst og fremst fámenni okkar um að kenna. Stjórnmálamenn eru of veikburða gegn ágengum og nálægum sérhagsmunum sem tengdir eru við kjósendur í gegnum kjördæmi með útblásinn kosningarétt. Auðlindaatvinnuvegir, einkum landbúnaður og sjávarútvegur, hafa í krafti handhafnar þeirra á íslenskum auðlindum ofurtök á íslensku efnahagslífi.“

Ég hvet menn til að lesa þessa grein. 

http://www.visir.is/hvorki-kanadadal-ne-islenska-kronu/article/2012703159961


„Mér finnst 16 ár ansi langur tími“

ORG r

Hér er yfirlýsing frá Ólafi Ragnari frá kosningabaráttunni 1996:

„þess beri að gæta að samleið þjóðar og forseta sé með eðlilegum hætti. Mér finnst 16 ár ansi langur tími þótt í því felist engin gagnrýni á Vigdísi Finnbogadóttur né Ásgeir Ásgeirsson… Ég segi fyrir mig að við lifum á tímum þar sem samfélagsbreytingar eru miklar og hraðar. Allir lífshættir og hugmyndakerfi þjóða taka á sig nýja mynd. Það er mjög óvenjulegt að einstaklingur sem gegnir embætti forseta á slíkum tímum geti átt samleið með þjóðinni mjög lengi. Fljótt á litið eru 8 til 12 ár eðlilegri tími heldur en 16 ár.“

(DV 27. júní 1996)

Loksins er ég sammála honum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband