5.2.2010 | 08:56
Heildarmyndin
Hin harða og ofsafengna barátta stjórnarandstöðunnar gegn lausn Icesave málsins virðist ætla að enda í ákvöðrun um vaxtaprósentu. Digurbarkarnir hafa úthrópað ríkisstjórnina og fundið henni allt til foráttu og ruglukollarnir á Útvarpi Sögu og á Alþingi aldrei sparað brigsl um landráð og þjónkun við óvininn. Þvælan náði hvað hæstum hæðum þegar stundatöfluþingmaður Framsóknar, Vigdís Hauksdóttir, settist í hljóðstofu Útvarps Sögu við hlið Arnþrúðar og Péturs lögmanns í nýliðinni viku. Sá þáttur verður trúlega notaður sem kennsluefni í félagsvísindadeildum háskólanna um allt land.
En nú skal þetta allt enda í viðræðum um vaxtaprósentu eftir 15 mánaða orrahríð.
Lítum nú á heildarmyndina, allt sviðið og öflin sem leika sér að fjöreggi þjóðarinnar. Allir vita hvaða flokkar leiddu þjóðina þegar stærsti þjófnaður lýðveldissögunnar, kvótagjöfin, var samþykkt á þingi. Allir vita hverjir komu okkur í þá aðstöðu að styðja ólöglegt stríð og allir vita hvaða tveir menn tóku bankana úr eigu þjóðarinnar og afhentu þá sérstökum vildarvinum með frægum árangri.
Hvað er það sem kemur þessum aðilum og stuðningsmönnum þeirra og arftökum best?
Að fyrstu vinstristjórninni sem sest á valdastóla takist vel upp og vinni það afrek að endurreisa landið úr rústinni sem ævintýri Eimreiðarhópsins endaði í?
Að núverandi ríkisstjórn haldi völdum og fái vinnufrið til þess að mál verði upplýst allt ferlið bæði það sem fór fram fyrir opnum tjöldum og það sem var hulið almenningi á tímum græðisvæðingarinnar.
Nei þvert á móti. Það hentar þessum hrunaflokkum best að ríkisstjórnin sé undir stöðugri skothríð og vinnufriður lítill. Allt er gert tortryggilegt meira að segja ferð forsætisráðherra til Brussel verður tilefni til upphrópana og þvælu.
Og hér kemur Icesavemálið eins og pöntuð himnasending. Mál sem á uppruna sinn hjá mönnunum sem fengu banka gefins og störfuðu í skjóli pólitískrar lömunar sem réði hjá eftirlitsaðilum og stofnunum undir stjórn flokkshollra manna.
Icesave upphæðin er ekki hið stóra vandamál, hún er hluti af miklu stærra vandamáli. En þetta mál hentar til þess að æsa upp lýðinn og hentaði forsetanum sem var kominn í skammarkrókinn til að gera kommbakk áratugarins.
Og svo gengur þjóðin til atkvæðagreiðslu og fellir samninginn eins og stjórnarandstaðan (bæði utan og innan stjórnarliðsins) vill. Það verður engin skemmtiganga niður Laugaveginn eða þjóðhátíð á Þingvöllum þegar þjóðin hefur kosið yfir sig ný vandamál. Það verður kanski litið í glas og skálað hjá auðmönnunum sem stýra þessum tveimur flokkum. Formennirnir geta þá skýrt hinum raunverulegu valdhöfum flokkanna frá góðum árangri þeir hafa náð að fífla þjóðina.
Öðru sinni mun þjóðin fá að súpa seyðið af stefnunni sem botnar í sérgæskunni og gróðafíkninni. Félagshyggjufólk verður aftur að taka við þá erfiðu vinnu að koma hér á skikkanlegu þjóðfélagi nýju Íslandi. Kanski mun það ganga betur eftir aðra kollsteypu en dýrara verður það fyrir þessa fámennu þjóð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Facebook
Athugasemdir
Mælikvarðinn á það hvort þessi orrahríð hafi verið þess virði er skýr! Samningurinn sem Ólafur skrifaði undir með fyrirvörum, vs. samningurinn sem Ólafur neitaði að skrifa undir vs. samningurinn sem endanlega skrifað verður undir. Þegar þetta verður allt um garð gengið þá verður hægt að kveða úr um lýðskrum eða ekki lýðskrum!
Ekki reyna að halda halda Samfylkingunni aftan við bendifingurinn, pólitísku sakborningarnir eru 3, í þessari röð.
Sjálfstæði, Framsókn og Samfylking.
Bjorn jonasson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 10:28
„Þegar allt verður um garð gengið“ - það er lóðið.
Vonandi fer þessi skýrsla að birtast svo bendifingurinn fari að virka.
Hjálmtýr V Heiðdal, 5.2.2010 kl. 10:56
Sæll Týri,
Vissir þú að vextirnir sem við eigum að borga af þessu láni eru hundrað milljónir á dag!!! Svo skrifar þú eins og það muni nú ekkert um einhverjar vaxtaprósentur. Við erum að tala um að vextirnir einir og sér muni nema um 20% af vergri þjóðarframleiðslu. Það er skiljanlegt að þú skulir vera svekktur með að draumastjórnin þín skuli vera rekin heim með þennan ömurlega samning en þú mátt ekki gera lítið úr ávinningnum sem skárri samningur getur fært okkur. Reyndar er ég á því að nýr samningur þurfi að fela mun meira í sér fyrir okkur en bara lækkun vaxta.
Svo má ég til með að minnast aðeins á digurbarkana þína. Þú hefur nú varið miklum tíma í að gera lítið úr noregsferð framsóknarmanna þar sem þeir freistuðu þess að fá norska ráðamenn að íhuga þann möguleika að lána okkur fé án tillits til AGS eða Icesave. Allt endaði þetta með því að forsætisráðherrann okkar skrifaði norska kollega sínum bréf og bað hann að slá þetta af borðinu, enda væri hún með málið í farvegi. Hvað er að koma á daginn núna Týri? Norðmenn sjá að íslenska þjóðin ætlar ekki að láta bjóða sér hvað sem er og nú eru þeir að ræða það í fullri alvöru á norska þinginu að lána okkur á þessum forsendum. Þeir eru jafnvel farnir að ræða lán til íslands til að standa straum af Icesave með mun lægri vöxtum!! Það skyldi þó aldrei vera að noregsförin fræga hafi haft a.m.k. eitthvað að segja.
Að lokum langar mig til að spyrja þig hvaða stjórnmálaflokkar á íslandi hafa stutt hvað myndarlegast við bakið á íslenskri kvikmyndagerð? Og hvað flokkar eru það sem eru að þínu mati að ganga frá stéttinni dauðri. Þinni eigin stétt Hjálmtýr!!!
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 18:25
Sorglegt framferði stjórnarandstöðu.
Það sem er þó verst og mikið áhyggjuefni, er hve margir ísl. hafa keypt sig inná lýðskrumsbullið með einum eða öðrum hætti.
Það er stórfurfurðulegt og sér rannsóknarefni. (sem eg hef vissar skoðanir á en ætla eigi að fara útí hér)
"Það hentar þessum hrunaflokkum best að ríkisstjórnin sé undir stöðugri skothríð og vinnufriður lítill"
Þetta er náttúrulega rétt - og þessvegna var þvílík himnasending fyrir sjalla og framara að fá lilju og ögmund í lið með sér og að mínu mati vantar enn fullnægjandi skýringar á háttalagi þeirra - sérstaklega ögmundar.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.2.2010 kl. 19:56
Jæja Gunnar góði vinur
Við náum ekki saman um þessi mál. En bíðum eftir skýrslunni góðu.
Noregsferðin er og verður gamanmál. Jóahanna vex og dafnar - í mínum augum. Mundu bara ef færi gefst innan flokksins þíns að kjósa ekki Vigdísi Hauks í embætti sem krefst umhugsunar og rökfestu.
Hjálmtýr V Heiðdal, 5.2.2010 kl. 21:22
Góður pistill Hjálmtýr... mér hefur oft ofboðið hræsnin og leikaraskapurinn í stjórnarandstöðunni... láta eins og bankahrunið hafi ekkert með þeirra flokka að gera, eins og þeir hafi ekki komið nálægt stjórn landsins svo öldum skiptir... leyniskyttur þeirra skjóta björgunarfólkið við öll tækifæri...
Brattur, 6.2.2010 kl. 00:40
Elsku Týri,
Mig langar að minna á að ég varpaði fram spurningu til þín í fyrri færslu minni og þætti vænt um að fá svar við henni. Bara svona þegar þú mátt vera að.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.2.2010 kl. 11:56
Sæll Gunni kæri vinur.
Þú vilt að ég greini kvikmyndaumhverfið eftir stjórnmálaflokkum. Gott og vel. Sjálfstæðisflokkurinn stýrði menningarráðuneytinu óslitið ítvo áratugi. Hvernig stendur Ríkissjónvarpið eftir þá tíð? Hvað tók það kvikmyndagerðarmenn langan tíma að ná samningi við ríkið sem virkilega kom vindi í seglin um aldamótin?
Það er vonandi ljóst í huga okkar beggja að stjórnmálaflokkar eru ekki það sem við getum hengt okkar vonir á. Nú er hart sótt að greininni og það með meiri niðurskurði en á ýmsum öðrum sviðum menningarmála. Mín niðurstaða er sú að okkar eigin barátta verður að vera hafin yfir stjórnmálaflokkadrætti. Auðvitað verðum við að sækja okkar hagsmuni jafnt utan þings sem innan - en dyntir stjórnmmálamanna eru erfiðir. Og skiptir þá ekki máli hvaða flokkskápu þeir bera.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.2.2010 kl. 12:20
Þú ert fyndinn kall Týri.
Ég held með Þrótti og hef alltaf gert og mun líklega alltaf gera og þá skiptir engu máli hvernig þeir standa sig eða hvaða stefna er tekin í rekstri félagsins. Þó svo þjálfarinn sé að mínu mati alveg glataður þá kemur það ekki í veg fyrir að ég styðji félagið. Þróttur er einfaldlega mitt lið. Því miður er það þannig að sumir fylgja stjórnmálaflokkum á sama hátt og ég fylgi Þrótti, sama hvað. Þú ert einn af þeim. Það er frekar ódýrt að afgreiða verk stjórnmálamanna sem dynti. Má kannski segja að stuðningur okkar við stríðið í Írak hafi bara verið dyntir í Halldóri og Davíð?
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.2.2010 kl. 17:45
Sæll Hjálmtýr. Þú lýsir ástandinu bara eins og það er, en slíkt er auðvitað varasamt í augum þeirra sem enn styðja Hrun-flokkana, sem ég á reyndar erfitt með að slikja að nokkur geti með góðri samvisku. En kannski liggur hundurinn grafinn í samviskunni, ég meina skorti á samvisku. Sú afneitun sem hluti þjóðarinnar er í, nú rúmu ári eftir hrunið getur trúlega talist eðlileg að einhverju leiti, en samt er hún ótrúleg.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.2.2010 kl. 18:29
Sæl Hólmfríður
Mér sýnist að við séum yfirleitt sammála um ástandið. En það verður ekki sagt um hann Gunnar vin minn. Hann skilur ekki alltaf það sem ég er að reyna að segja og stundum held ég að þetta skilningsleysi hans sé vegna þess að hann er rígfastur við Framsóknarflokkinn um þessar mundir. Kanski eru þetta bara dyntir í honum?
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.2.2010 kl. 19:27
Það að skilja er eitt og að viðurkenna er annað. Það er ekki ólíklegt að Gunnar vinur þinn skilji hvað um er að vera, en svo að bara allt annað hvort hann getur viðurkennt hlutina eins og þeir eru í raun. Það er mjög slæm pest og kallast afneitun, svei mér þá ef hún er nokkuð betri en Svínaflensan ef út í það er farið.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.2.2010 kl. 09:43
Mesta afneitunin sem er í gangi núna í þjóðfélaginu er hjá þeim sem stutt hafa Icesave samninginn þvert á eigin vitund, enda eru æ fleiri sem eru a.m.k. að viðurkenna með sjálfum sér að þetta sé óviðunandi samningur.
Hjálmtýr vinur minn er t.d. æfur yfir niðurskurði til kvikmyndamiðstöðvar á sama tíma og hann segist vilja samþykkja fyrir hönd þjóðarinnar að taka lán þar sem vaxtagreiðslurnar einar eru ríflega fimmtíuföld framlög til kvikmyndamiðstöðvar árið 2009 !!! Hann er hneykslaður yfir því að allt málið skuli á endanum snúast um vaxtaprósentu og talar eins og það skipti ekki svo miklu máli og sé ekki góð uppskera eftir allt sem á undan er gengið. Hver er í afneitun spyr ég.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.2.2010 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.