10.3.2010 | 12:28
Skynsemin ræður
Eitt sinn voru starfandi hér á landi samtök sem báru hið góða nafn SKYNSEMIN RÆÐUR. Félagar í samtökunum áttu það sameiginlegt að keyra um á austur-þýskum Trabant bílum.
Trabantinn var ekki draumabíll þeirra sem vildu berast á og aka á ofurhraða. Hann hafði hinsvegar þann mikilvæga kost að koma eigandanum og fjölskyldu hans á milli staða í lang flestum tilfellum.
Bíllin var innfluttur eins og allir bílar sem aka á íslenskum vegum og hann var sparneytinn. Trabantinn þannig úr garði gerður að með skrúfjárni og skiptilykli gat handlaginn eigandi sjálfur gert við ýmislegt sem fór úrskeiðis. Þetta þótti Trabanteigendum svo augljósir kostir að þeir gáfu samtökum sínum þetta skemmtilega nafn.
Nú er kominn tími til að samtökin SKYNSEMIN RÆÐUR verði endurreist án þess að það verði enn inngönguskilyrði að eiga eintak af hinum sögufræga bíl. Nýju samtökin verða öllum opin svo lengi sem þeir eru tilbúnir til þess að láta skynsemina ráða. Mörg mál verða rædd innan samtakanna. Við skulum byrja á umfjöllun um íslensku krónuna og framtíð hennar.
Hvar sem þið eruð stödd við lestur þessa bloggpistils þá blasir við ykkur umhverfi sem er að mestum hluta innflutt. Tölvan, borðið, stóllinn, ljósið, gólfefnið, glugginn og í raun næstum allt sem þið sjáið - allt innflutt. Bíllinn sem bíður í skúrnum eða við húsvegginn er erlendur og keyptur fyrir gjaldeyrir. Og auðvitað bensínið á tankinn. Maturinn er að stórum hluta innfluttur, kjúklingurinn eða fiskurinn sem þú borðar er alinn, veiddur, unninn og innpakkaður með tækjum sem eru keypt fyrir gjaldeyrir. Og allt verður því dýrara þegar krónan fellur og jafnframt hækka verðtryggðu lánin þín. Verðmæti íbúðarinnar fellur líka og lánin hafa hækkað þín eign rýrnar.
Vegna krónunnar þá verður að verðtryggja skuldir, því annars fengist enginn til þess að lána í krónum nema gegn mjög háum vöxtum sem fáir ráða við.
Fiskveiðar, framleiðslugeta iðnvera og umfang ferðamannaþjónustu eru allt auðlindir sem hafa sín þolmörk. Eina leiðin til að auka tekjur af útflutningi er hærra verð í erlendum gjaldeyri og aukið magn.
Verðinu getum við ekki stjórnað að vild og aukin ásókn í auðlindir er ófær leið nema menn vilji pissa í skóinn sinn fyrir skammgóðan varma.
Lækkun á gengi krónunnar færir því ekki þjóðarbúinu aukna fjármuni í raun þótt skýrslur sýni fleiri krónur tekjumeginn. Allt sem við verðum að kaupa fyrir gjaldeyrinn sem aflað er verður ekki greitt í krónum eins og búið er að benda á.
Íslenska krónan er því nánast eins og Matadorpeningar, þeir gilda bara á spilaborðinu og ekki mögulegt aðskipta þeim í gjaldgenga mynt. Íslenska krónan er vernduð með gjaldeyrishöftumog skipting hennar yfir í annan gjaldeyri kostar sitt og kemur glöggt í ljós þegar landinn hyggst fá sér bjórglas á erlendri grund.
Krónan er hluti af einangrun Íslands. Einangrunin verður meiri og meiri ef hún verður ekki rofinnmeð því að skipta um mynt. Innganga í ESB og skipti yfir í evru er eina raunhæfa leiðin sem þjóðin á kost á. Allt annað eru leiðir sem eru ekki í boði eða geta ekki orðið að veruleika í náinni framtíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:45 | Facebook
Athugasemdir
Nafn þessara gömlu samtaka var öfugmæli, þessir bílar voru eyðslufrekir, menguðu mikið og voru alltaf bilandi. Þannig að þó handlagnir menn hafi getað með skiptilykli og skrúfjárni gert við ýmislegt þá dugði það ekki, menn gáfust einfaldlega upp.
Það að sýna skynsemi er hins vegar aldrei of oft mælt, en hvort upptaka evru sé skynsemi er ekki víst. Nú eru miklar hræringar í Evrópu og alls óvíst hvað um evruna verður, þannig að það hlýtur að vera skynsemi í því að bíða og sjá hvernig það fer.
Það er heldur ekki víst að evra væri okkur neitt betri. Til að geta tekið upp evru þurfum við að sýna fram á ákveðinn stöðugleika og ákveðin verðbólgumarkmið í nokkurn tíma. Ef við getum það hví ættum við þá ekki að geta haldið þeim stöðugleika.
Svo má ekki gleyma því að til að geta tekið upp evru verðum við að ganga inn í ESB. Það er varla mikil skynsemi í því. Að vísu er verið að kanna hversu mikið af okkar sjálfstæði við þurfum að fórna til þess. Það er því mesta skynsemin fólgin í því að bíða og sjá hvað út ú því kemur.
Þá getum við með SKYNSÖMUM hætti tekið ákvörðun.
Gunnar Heiðarsson, 10.3.2010 kl. 15:39
Trabantinn mengaði ekki meira en venjulegur bíll - það var hinsvegar meiri lykt sem þú fannst í þínu nefi. Um eyðsluna veit ég ekki en einn eigandi sagði mér að hann væri sparsamur. Og svo var þetta tvígengisvél og þannig sparaðist eitthvað.
En Trabantinn er ekki málið eins og við vitum. Meira svona inngangur.
Þú skrifar: „Ef við getum það hví ættum við þá ekki að geta haldið þeim stöðugleika.“ Hér er málið í kjarna sínum, með krónunnier ekki hægt að halda stöðugleika. Það er búið að sýna sig áratugum saman. Inn á milli hafa komið sturr tímabil með jafnvægi en megineinkenni á okkar efnahagslífi er óstöðugleiki. Að vísu hafa misgóðir ráðamenn hjálpað til með stórframkvæmdum sem ætlað er að veiða atkvæði. Hvers vegna „er varla mikil skynsemi í“ að ganga í ESB?
Hjálmtýr V Heiðdal, 10.3.2010 kl. 16:08
á að vera: „stutt tímabil“
Hjálmtýr V Heiðdal, 10.3.2010 kl. 16:09
ESB og Evra er eina lausnin sem getur fært íslensku þjóðinni gæfu og ríkidæmi. Þetta veit Hjálmtýr Heiðdal og getur með stolti orðið formaður í þessum nýja klúbbi.
ESB, 10.3.2010 kl. 17:41
Forðum las ég í afturrúðu Trabants: Ef ég væri skynsamur fengi ég mér reiðhjól.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 10.3.2010 kl. 20:47
Það væri mjög skynsamleg ákvörðun. Notkun hjólsins gefur að auki hreyfingu - enginn bíll býður uppá svo heilbrigða aukaverkun.
Hjálmtýr V Heiðdal, 10.3.2010 kl. 20:59
Ég sé að þú æsist allur upp í þessari ESB umræðu og gömlu, góðu tímarnir rifjast upp fyrir þér. Þegar harðstjóranir í Austur Evrópu voru góðu kallarnir og Trabantinn sönnun þess. Síðan virðist þú ekki skilja af hverju það er gott hafa sína eigin mynt og stjórn á efnahagsmálum. Jú, jú, óstjórn er slæm en það kemur krónunni ekkert við nema síður sé.
Það er algalinn hugsun að láta fjarlægar stofnanir sjá um stjórn landsins, hvort sem það er í peningamálum eða utanríkisstefnu. Til hvers að kjósa fólk á þing eða í stjórn hagsmunasamtaka ef við ætlum síðan bara taka við skipunum að utan? Þú bara fyrirgefur en ég sé ekki tilganginn.
Síðan er ég ekkert viss um að Hannes Smárason eða Björgólfur Thor hefðu farið sé hægar í kökuátinu ef Ísland væri með Evru. Sé það eiginlega ekki fyrir mér.
Í rekstri fyrirtækja er vinnuframlag yfirleitt dýrasti hlutinn en ekki innkaup á erlendu stöffi. Þannig að í raun er íslenska hagkerfið ekki rekið áfram með erlendu fé heldur vinnuframlagi fólks sem býr á Íslandi. Hvað hefði gerst ef við værum með evru núna? Hefðu launin ekki þurft að lækka ennþá meira eða hvað.
Eina lausnin sem eitthvað vit er í er tengin krónunnar við myntkörfu viðskipalanda okkar (evru, dollar, pund etc.) Þetta gamla góða með hógværum gegnisfellingum og vörnum gegn spákaupmennsku!
ESB, 10.3.2010 kl. 22:54
Hjálmtýr ég veit að mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar hefur hlínað um hjartarætur við þessi skrif þín. Trabantinn var stolt austurþýsku þjóðarinnar. Minnist þess þegar við vorum á fundum í menntaskóla, þá var litið til Austurþýskulands sem draumalandið. Margir voru farnir að efast um Sovétríkin, en Bandaríkin voru hötuð með all sem þeim fylgdi.
Við sendum okkar bestu menn til þess að mennta sig til Austurþýskulands, Svavar Gestsson og Indriða og þeir komu heim og miðluðu okkur af reynslu sinni og þekkingu. Þetta var Nýja Ísland.
Nú er komin ríkisstjórn sem er einmitt á þessari línu. Við köllum í Svavar og Indriða og þeir munu sjá um alla samningagerð fyrir okkur Íslendinga í nánustu framtíð. Við gleðjumst við því að nú er komin upp hreyfing í Þýskalandi sem vill endurvekja Austur Þýskaland og segja sig frá VesturÞýskalandi. Byrja að framleiða trabantinn aftur. Ef þessi ríkisstjórn verður áfram við völd mun Ísland verða fyrsta þjóðin sem viðurkennir endurreist Austurþýskuland. Við gætum verið tilbúin með sendiherra strax í dag. Og ESB, við vitum báðir að það er ekkert fylgi við slíkt á þingi,enda passar það ekki inn í stefnu ríkisstjórnarinnar. Æðsta takmarkið er ekki ESB, heldur Öreigar allra landa sameinist.
Sigurður Þorsteinsson, 11.3.2010 kl. 06:29
Mig grunaði að það gæti valdið misskilningi sumra þegar ég nefndi Trabantinn til sögunnar. En svona eru sumir, þeir sjá ekki stóru myndina og gleyma sér í eigin rugli og skammsýni. En svona er lífið.
Hjálmtýr V Heiðdal, 11.3.2010 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.