30.6.2010 | 09:46
Kalt mat og hrútspungar
Andstæðingar ESB vitna mikið í nýjustu skoðanakannanir og þykjast góðir þegar þeim líkar útkoman.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins er hlynnt aðildarviðræðum við ESB og hefur séð tímana tvenna í pólitík. Hún birti á bloggsíðu sinni í gær þrjár tilvitnanir í forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Þessir forystumenn eru núna yfirlýstir andstæðingar aðildarviðræðna og samkvæmt köldu mati þeirra á að hætta aðildarviðræðum hið snarasta. En eins og aðrar skoðanir, hvort sem þær birtast í skoðanakönnunum eða í ræðu og riti, þá eru skoðanir forystumannanna breytilegar.
Þetta sagði Björn Bjarnason í grein árið 1991: Við erum þegar farin að sjá til þess hóps manna, sem þykist betur í stakk búinn en aðrir til að segja afdráttarlaust fyrir um það, að íslenska þjóðin glati sjálfstæði sínu, menningu og tungu með frekara samstarfi við aðrar þjóðir, einkum Evrópuþjóðirnar. Þeir sem þannig tala hafa þann sið að gera sem minnst úr málefnalegum rökum viðmælenda sinna og láta eins og þau hnígi öll að því að þurrka íslensku þjóðina út úr samfélagi þjóðanna. Hræðsluáróður af þessu tagi er alls ekki nýr í íslenskum stjórnmálaumræðum. Kommúnistar héldu honum á loft um árabil í umræðum um varnir þjóðarinnar.
Þótt menn hafi ekki komist til botns í máli og geri ekki mikið meira en gára á því yfirborðið, stofna þeir samtök gegn málefninu. Er það til marks um einlægan vilja til málefnalegra umræðna?Evrópumálin voru á dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 1989.
Í skýrslu Aldamótanefndar, hverrar Davíð Oddsson var formaður, segir m.a. Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.
Í mars 2009 sagði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins En til lengri tíma finnst mér ólíklegt, að við getum aukið stöðugleikann með krónunni. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar á komandi árum. Í pólitísku og peningamálalegu samhengi tel ég engan valkost jafn sterkan eins og evran með ESB-aðild.
Hið kalda mat forystumanna Sjálfstæðisflokksins er greinilega ekki við frostmarkið, þeir eiga það til að skipta um skoðun eins og dæmin sýna.
En talandi um mat þá eru hér nýleg skrif um þorramat í ljósi ESB umræðunnar:
Bloggari að nafni Júlíus Valsson skrifar á þjóðlegu nótunum um aðild að ESB: Það snýst ekki um það hvort við þurfum að borga 4 milljarða fyrir umsóknina eða hvort við fáum 4 milljarða í (van-)þróunarstyrki frá ESB. Það snýst að vissu leyti um það, hvort við fáum að veiða fisk, rækta fé og íslenskar agúrkur. Það snýst þó meira um það, hvort við fáum áfram að borða hvalkjöt og súrt hvalsrengi, hákarl, súrsaða hrútspunga og reykt sauðakjöt. 

Það snýst algjörlega um það, hvort við fáum að kalla matinn okkar áfram sínu rétta nafni. Það er nefnilega svo, að í ESB ræður nefndin því, hvað menn láta ofan í sig og ekki síst hvað menn kalla matinn sinn. Allt þarf að fylgja Evrópustöðlum. "Hólavallahangikjöt" yrði væntanlega bannorð. "Þorramatur" myndi gera menn óða. 

Veljum íslenskt.
Júlíus er búinn að evrópuvæða hrútspungana og nefnir þá Eurotesticles
Þessi góði maður er dæmigerður fyrir þá sem finna upp annmarka á ESB og býsnast svo yfir þeim sjálfir fullir vandlætingar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Facebook
Athugasemdir
Góður Hjálmtýr!
Gleymum því þó ekki að Svíar fengu bágt fyrir að kalla þjóðlegu pylsurnar sínar "Falukorv". Ég er mjög hlynntur ESB fyrir hönd þeirra þjóða, sen eiga það skilið.
Júlíus Valsson, 30.6.2010 kl. 14:17
Ragnheiður Ríkharðsdóttir er nýliði í pólitík og á margt ólært.Upphefð hennar innan flokksins er óverðskulduð ög byggist á flumbrugangi. Það að ganga í flokk sem aðhyllist ákveðna stefnu semg viðkomandi er ósammála , en heimta svo að allir flokksmenn skipti um stefnu er barnaleg frekja.
Hér er góð lesning fyrir ykkur bæði.
Það hefur auðvitað legið fyrir að krónan er okkur gagnleg við að vinna okkur út úr núverandi erfiðleikum af ástæðum sem Flanagan nefnir,“ segir Helgi Hjörvar, Samfylkingunni, formaður efnahags- og skattanefndar.
„Gengi hennar aðlagast hratt breyttum aðstæðum og hefur áhrif til að draga úr innflutningi og efla og styrkja útflutningsatvinnuvegi, sem er það sem við þurfum á að halda við núverandi aðstæður,“ segir Helgi.
Haft var eftir Mark Flanagan, yfirmanni sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í fréttum RÚV í fyrrakvöld að mun erfiðara yrði fyrir ríkisstjórnina að bregðast við fjárhagsáföllum gengi Ísland í Evrópusambandið og tæki upp evruna. Ein ástæða þess að efnahagskreppan nú hefði orðið grynnri en búist var við væri sveigjanleiki gjaldmiðilsins.
Nánar í Morgunblaðinu. Smelltu hér til að gerast áskrifandi.
K.H.S., 30.6.2010 kl. 16:57
Sæll Hjálmtýr. Það er eins og fyrri daginn. Það stekkur fram á ritvöllinn "sérfræðingur" um Ragnheiði Ríkharðsdóttir og finnur henni allt til foráttu. En sú forátta er sennilega bara sú á RR er ekki sammála honum í Evrópumálum.
Gaman að lesa greinina eftir Björn Bjarnason og enn meira gaman að skoða hlutann úr skýrslu Aldamótanefndarinnar. Langbest er þó myndin af reiða manninum á Evrópufánanum.
Það besta í þessu öllu er að þessi andstæðingahópur er kominn út í horn og hefur sagt sig frá samningagerðinni, sem er náttúrlega fáránlega heimskulegt enda ættað frá LÍÚ.
Bjarni Ben er auðvitað Evrópusinni í hjarta sínu, þó hann hafi sett þá sannfæringu sína í vasann til að fá formannsstólinn.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.6.2010 kl. 22:40
Týri hvað ertu að reyna að segja með þessari færslu þinni? Er bannað að breyta afstöðu sinni til ESB? Ég var sjálfur um nokkurra ára skeið mjög hlynntur því að við færum þarna inn. Það var á þeim árum sem Jón Baldvin talaði sem mest um ágæti klúbbsins. Sannfæringarmáttur hans var mikill. En eftir að hafa kynnt mér málið betur og fylgst með þróuninni innan ESB og hvert sambandið stefnir í raun hef ég algjörlega snúist. E.t.v. gæti maður eins og Jón Baldvin undið ofan af þessari skoðun minni í dag, en því miður hefur enginn talsmaður ESB sinna getað sannfært mig. Það sem ESB fólkið þarf núna er mann/konu sem getur hrifið þjóðina með sér inní draumalandið. Ég er farinn að halda að ástæðan fyrir því að erfitt sé að sannfæra þjóðina um aðild sé að eigin sannfæring þeirra sem fyrir henni tala er ekki nógu mikil.
Aftur á móti eru rök þeirra sem harðast berjast á móti aðild mun þyngri í umræðunni og kannski þess vegna sem Samfylkingin er að einangrast í þessu ferli. Svona blasir þetta við mér a.m.k.
þinn
GJ
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 00:36
Afneitunin og óskhyggjan tekur á ig unarlegustu myndir Hjálmtýr minn. Það sést á ólunarskrifum þínum og fleiri í þessu trúarkölti. Þið haldið máske að þið þurfið ekki að bretta upp ermar og gera nokkurn hlut ef móðurlandið tekur ykkur upp á arma sína. Kannski er tvöþúsundogsjöið ekki alveg runnið af ykkur. Ég get samt fullvissað þig um að lalalandið ykkar var ekki bara raumsýn, helur tálsýn. Svona svipað og himinn og helvíti í öðrum trúarköltum.
Þú ert nú þó þeirrar tegunar að þú munt aldrei fallast á að hafa rangt fyrir þér í nokkrum hlut, svo það hefur svipað mikið upp á sig að hnýta í þig og grundfirðinginn ógurlega Jón Frímann.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.7.2010 kl. 07:04
Ég stóð í þeirri meiningu að orð Davíðs og Björns væru ekki marktæk. Ekki bara stundum heldur alltaf. Þetta væru óalandi frekjur sem hugsuðu þjóðinni þegjandi þörfina og hötuðu lítil börn. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur heldur ekki fengið háa einkunn hjá síðuhöfundi.
p.s. Var Bjössi að tala um ESB eða EFTA?
Björn Heiðdal, 2.7.2010 kl. 12:12
Sæl Hólmfríður
Þú séð á skrifum ESB andstæðinganna að það fer ekki mikið fyrir beinni röksemdafærslu. Þegar ég (og Ragnnh. Ríkharðsd.) vitnum í forystumenn Sjálfstæðisflokksins þá er það gert m.a. í þeim tilgangi að sýna lesendum að ekki er allt fast í hendi þótt ein skoðanakönnun eða tvær sýna einhverja niðurstöðu með misjöfnu vísindaqlegu undirlagi. En þú sérð t.d. á svari Björns frænda að hann bullar eitthvað um hvort orð Davíðs O eða BB séu marktæk við hentugleika. Það er ekki það sem málið snýst um. Ef mennirnir segja eitt í dag og annað á morgun þá sýnir það t.d. að þeir taka mál misjöfnum tökum eftir aðstæðum. Núna þegar Sjálfstæðisflokkurinn ætlar alfarið að framfylgja hagsmunum LÍÚ þá verða fyrri orð þeirra merkileg.
Þú sérð einnig Hólmfríður, að Jón Steinar, sá skarpi maður, byrjar að tala um trúarkölt og ólundarskrif. Það er ekki mikið að marka svona viðbrögð. Svo er hann eitthvað að hnýta í mig - vonandi líður honum betur eftir það.
Gunnar vinur minn og fyrrum samstarfsmaður er óviss, ekki rígbundinn. Hann er að þykjast þegar hann segist vera búinn að kynna sér málin.
Þessi Kári H er krónuaðdánandi. Það er ég ekki. Búinn að búa við hana með göllum og gæðum. Veit að hún getur stundum virst nothæf - en er það ekki til lengdar.
Við verðum í sambandi með blogginu.
Hjálmtýr V Heiðdal, 2.7.2010 kl. 17:45
Týri,
Ég er örugglega búinn að kynna mér málin jafnvel eða betur en þú. En þú segir að það fari ekki mikið fyrir beinni röksemdafærslu hjá ESB andstæðingum. Ég veit ekki betur en að ég hafi skrifað þér hvern pistilinn á fætur öðrum þar sem ég færi rök fyrir afstöðu minni. Þessi rök eru a.m.k. ekki verri en þín rök fyrir hinu gagnstæða. Annars held ég að þú ættir ekki að vera að kvarta yfir skorti á málefnalegri umræðu, maður sem þrífst helst á því að gera lítið úr öðrum með gríni, útútsnúningum og niðurlægjandi persónulegum athugasemdum sem koma málefnum ekkert við. Það er ekki snjallt og er beinlínis til að veikja þinn auma málstað.
Þinn,
GJ
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 22:09
Kæri Gunnar,
Það er ekkert að marka Týra í þessari ESB umræðu því hann hefur lítið kynnt sér málið í heild. Skoðar afmarkaða hluti og velur það sem honum líst best á. Reyndar er það ekki einu sinni þannig. Heldur finnst Týra hugmyndin bara svo góð. Allir að vinna saman og hjálpa hvor öðrum.
En hvað hann er að kvarta undan skorti á röksemdafærslum frá ímynduðum andstæðingum sínum botna ég minna en ekkert í. Því Týri hefur líst því yfir áður að efnisleg rök koma áhuga hans á inngöngu í ESB ekki einni krónu við og heldur ekki evru.
Hvernig rökræður maður við einhvern eins og Týra og Hólmfríði? ESB ofsatrúarfólk sem vill í ESB sama hvort evran gagnast okkur eða ekki. Sama hvort matarverð lækki eða hækki. Sama hvort ESB verði miðstýrt sambandsríki eða haldi áfram að vera niðurgreiðsluapparat fyrir franska bændur. Sama hvort þjóðin þarf að greiða með sér til að fá inngöngu eða fái grilljónir úr sjóðum ESB. Sama hvort hætti þurfi hvala- og þorskveiðum o.s.fr.
Ég ætla bara að halda mig á ykkar plan þegar ég gogga í hausinn ykkar hérna á blogginu.
Björn Heiðdal, 2.7.2010 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.