Nagladekk og brennivín

kronanAndstæðingar ESB hafa slegið skjaldborg um íslensku krónuna. Henni er hampað sem bjargvætti og þarfaþingi nú þegar þjóðin er að reyna að feta sig út úr kreppunni.

Sömu aðilar eru, eins og meginþorri Íslendinga, óhressir með verðtryggingu lána sem rýrir eiginir og laun þegar verðbólga nær sér á strik.  Krónan er þó ein helsta orsök umkvörtunarefnanna, hún er svo gott sem ónýtur gjaldmiðill, lifir hér á eyjunni með belti, axlabönd og nálgunarbann.

Á mínum vinnustað ræða menn aftur og aftur þessa klemmu sem venjulegir launamenn sitja í hér á landi. Þeir sem eru hræddir við ESB bölva verðtryggingunni en vilja samt halda í krónuna.

Þetta segi ég að sé sama afstaða og sá hefur sem ekur um á nagladekkjum (sem orsaka 60% af svifryksmengun í þéttbýli) og kvartar svo undan mengunarskýjunum á stilltum vetrardögum.

Ennfremur má líkja þessu við mann sem hefur sökum drykkjuskapar eyðilagt allt sitt nánasta fjölskyduumhverfi en neitar að yfirgefa brennivínið.

Það er hægt að ræða vandamál launafólks og húseigenda fram og aftur – en ef menn sjá ekki samhengið, og hlut krónunnar í vandanum, þá er tilgangslaust að ræða aðrar lausnir. Því þær eru ekki til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Óskaplega er þetta nú "þunn" umfjöllun hjá þér og ekki virðist nú þekkingin vera að flækjast mikið fyrir þér.  Málið er nefnilega bara einfaldlega það að það er alls ekki krónan (gjaldmiðillinn okkar) sem á nokkra sök á ástandinu hér  - heldur er það EFNAHAGSSTJÓRNUNIN alveg frá upphafi lýðveldisstofnunar, sem hefur verið ARFASLÖK og ekki á vetur setjandi.

Jóhann Elíasson, 26.7.2010 kl. 14:35

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ekki ætla ég að hrósa efnahagsstjórninni og margar vitleysurnar ráðið för.

En það er hluti af vitrænni efnahagsstjórn að setja krónuna á Þjóðminjasafnið. Og þótt ég sé „þunnur“ og „þekkingarlaus“ þá er þetta svo augljóst að jafnvel ég kem auga á þessa staðreynd.

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 15:01

3 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Það er þessi ríkisstjórn sem hefur slegið skjalborg utan um íslensku krónuna. Þeir sjá bara evruna sem lausn í gegnum aðild að ESB. Það þýðir að þjóðin þarf að búa við ,,ónýta" íslenska krónu, eins og ykkur ESB-aðildarssinnum er tíðrætt um, í næstu 5-10 árin eða svo. Væri ekki ráð að fara að leysa gjaldmiðlamálið strax á morgun í stað þess að bíða í allt að 10 ár eða jafnvel lengur?

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 15:16

4 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Og það er eins og Jóhann bendir á gert m.a. með því að koma hér skikk á efnahagsmálin og peningamálastjórnina í landinu. Gjaldmiðilinn er ,,hitamælir" hagkerfisins og við leysum ekki undirliggjandi vanda með því að skipta um mælitæki.

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 15:18

5 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Hvað lausn hefur þú í huga Jón Baldur? Dollar - Yen - Sv. Franka - Norskar krónur?

Ég endurtek: það er hluti af vitrænni efnahagsstjórn að setja krónuna á Þjóðminjasafnið.

Þú segir að það leysi ekki „undirliggjandi vanda“ að skipta á krónu og stöðugri gjaldmiðli. En kanski hjálpar það??

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 15:34

6 identicon

Undirliggjandi vandamálið hérna er spilling sem orsakast af kunningjasamfélaginu, þar sem menn ráða aðeins ættingja, flokksfélaga eða mönnum sem þarf að halda góðum, í ábyrgðafullar stöður. Efnahagsstjórnin hefur líka allt of lengi snúist í kringum sjávarútveginn og kvótakónga.

Inngaanga í ESB gæti aðstoðað okkur eitthvað í að berjast á móti spillingunni sem þrýfst í kunningasafélaginu.

Bjöggi (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 16:48

7 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Í fyrsta lagi að fara í að leysa hinn undirliggjandi vanda í hagkerfinu t.a.m. með þjóðarsátt sbr. pistil minn um stjórnarsáttmála í 12 liðum. Í öðru lagi að hefja alvöru vinnu við að treysta gjaldmiðilinn, hvort sem það er að halda íslensku krónunni, tengja hana við aðra mynt t.d. norsku krónuna eða dollar, eða skipta henni alveg út. Með því að fara í alvöru viðræður við Evrópusambandið, sem öll þjóðin stæði að baki, um endurskoðun á samningnum um EES þá væri að hægt skoða hvort einhverskonar gjaldmiðlasamstarf kæmi til greina. Um þetta skrifaði ég grein í Morgunblaðið fyrir ári síðan eða svo. Hér þarf allt að vera upp á borði og allar leiðir þarf að skoða af alvöru - án þess þó að missa forræðið yfir peningamálastjórninni t.d ef grípa þarf í neyðarhemla vegna stórra áfalla. Þá er betra að taka á sig tímabundna kjaraskerðingu til að halda uppi atvinnustiginu, eins og hefur verið gert hér. Það sem vantar hins vegar upp á er að finna varanlega lausn á þessum málum en það er ríkisstjórnin ekki að gera. Að allt leysist hér með Evrópusambandsaðild er álíka tálsýn og að útrás íslenska fjármálakerfisins ætti hér að leysa allt.

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 17:41

8 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Bjöggi hefur alrangt fyrir sér í að aðild að Evrópusambandinu leysti þetta ,,vandamál" sem hann talar um. Ef eitthvað er þá yrði vandinn meiri enda væri nú aldeilis hægt að raða á garðann í Brussel og í stjórnsýslustofnunum hér heima í því bákni sem þyrfti að byggja upp í embættismannakerfinu. Hér tæki við ,,spillt" embættismannastjórn eins og þegar Danir stjórnuðu hér öllu.

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 17:44

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

„Að allt leysist hér með Evrópusambandsaðild er álíka tálsýn“ Hvers vegna eru ESB andstæðinga sífellt að klifa á þessu. Það er rætt um að ESB sinnar trúi á „töfralausnir“, „allsherjarlausnir“ osvfrv. Þetta er fátækleg klisja og sýnir fremur lélegan málflutning.

Enginn ESB sinni gengur með þessi gleraugu á nefinu - það hefur ekkert uppá sig að slá þessu fram aftur og aftur.

Jón Baldur - þú ræðir um „alvöru viðræður við Evrópusambandið“ og ert sjálfsagt einn þeirra sem eru á móti þeim alvöruviðræðum sem við erum að byrja við ESB. Hvernig litist þér á það að fara þá leið og skoða málið af raunsæi í raunverulegu ferli??

Þið eruð sífellt með einhverja útúrdúra og reynið að flækja málin með tillögum sem hafa lítið sem ekkert raunhæft gildi.

Stundum eru nefndir allir gjaldmiðlar heims sem mögulegir valkostir - barar til þess að þurfa ekki að ræða þann augljósasta.

Svo er rætt um ríkjasamband við Kanada eða að ganga Noregskonungi á hönd á ný. Nú er það nýjasta að ræða tvíhliða samning við ESB og eins og þú segir (nýr variant) að endurskoða EES samninginn.

Svo ræðir þú um þörf á neyðarhemlum vegna stórra áfalla. Þú vilt í raun viðhalda sömu vitleysunni áfram. Sem þýðir að lélegir stjórnmálamenn hafa krónuna til að skella skítnum yfir á launafólk þegar þeir eru búnir að klúðra málum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 17:56

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

„Hér tæki við ,,spillt" embættismannastjórn eins og þegar Danir stjórnuðu hér öllu.“ Ég verð að lýsa frati á þessa „framtíðarsýn“ þína. Þetta er svo hallærislegt - að hefja umræðu um stjórn Dana þegar við lutum þeirra ríkisvaldi - og allir eiga að sjá sannleikan um ESB: ný nýlendustjórn. Er Danmörk þá nýlenda innan ESB? Og þá hverra? Hver á nýlenduna Svíþjóð? Hver á nýlenduna Holland??

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 18:03

11 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Hjálmtýr: Embættismannastjórn er nákvæmlega það sem orðið segir til um. Þú sem ert sérfróður um aðstæður í Palestínu. Hvað kallarðu stjórn Fatah hreyfingarinnar? Lýðræðisstjórn eða stjórna embættismenn? Hvernig er málum háttað í Gaza undir stjórn Hamas? Tek þó fram að ekki vil ég bera þetta saman að öðru leyti en því að benda á hinn langa veg milli fólksins og þeirra sem stjórna í raun.

Varðandi endurskoðun EES þá er það ekki nýtt afbrigði. Á þetta hefur t.d. Björn Bjarnason og sjálfstæðismenn bent á lengi. Þessu hefur hins vegar verið ýtt út af borðinu með þeim orðum að ESB hafi ekki áhuga á EES lengur. Það er ekki rangt. Þar á bæ er áhugi á að viðhalda þeim samningi enda miklir hagsmunir í húfi meðan Norðmenn eru þar ennþá innandyra.

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 18:19

12 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Átti að sjálfsögð að standa ... það er rangt!

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 18:19

13 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég er að missa þráðinn í þessum skoðanskiptum. Stjórn Fatah er umboðslaus og er orðin leppstjórn í rauninni. Ég kem ekki auga á ESB/Palestínusamhengið. Hamas hefur heldur meira umboð en stjórn Abbas þar sem hún fékk meirihluta í síðustu kosningum sem fóru fram með miklum ágætum skv. eftirlitsaðilum. Hamasstjórnin er tengd fólkinu á Gaza og þar eru ekki umsvifamikil ráðuneyti eða annað apparat. Hamas hreyfingin vann sér það til fylgis að stunda mikla vinnu við velferð hinnar hernumdu þjóðar og út á það vann hún sinn sigur gegn spilltum Fatahmönnum.

Flókin og umsvifamikli kerfi eins og ESB eða stjórnun USA virka alltaf fjarlæg. Meira að segja íslensk stjórnvöld hafa lag á að búa til flækjur valdsins. ESB er ríkjasamtök þar sem unnið er bæði á vettvangi ríkisstjórna/embættiskerfa og á almennari vettvangi. Unnið er að því að auka allra ríkjanna til að standa sem jöfnust og búandi við sömu eða svipaðar leikreglur. Þetta er stefna sem er ekki beint gegn þjóðunum til undirokunar. ESB er ekki fullkomið og enn á margt eftir að breytast - undir sömu formerkjum og ég nefndi.

Í hverju fælist endurskoðun EES? Nefndu dæmi.

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 18:34

14 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

villa: á að vera ...auka getu allra ríkjanna...

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 18:38

15 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Ég skal viðurkenna að samlíkingin með ringulreiðinni í Palestínu er kannski heldur langsótt en sé að þú hefur skilið hvað ég átti við. Þú gleymir samt að nefna að ennþá hafa Hamas á stefnuskrá útrýmingu Ísraelsríkis, eins  og PLO hafði en hefur dregið til baka. Þetta er með öllu óásættanlegt ef ná á friðarsamningum á grunni tveggja ríkja lausnar Kvartetins. 

Varðandi endurskoðun á EES vísa ég í pistil minn frá 16. mars 2009 um að sáttaleiðina í ESB málum. 

Jón Baldur Lorange, 26.7.2010 kl. 19:06

16 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Hamas og Íransforseti segja réttilega að Ísraelsríki í núverandi mynd verði að hverfa. Það þýðir ekki að íbúarnir, bæði gyðingatrúar og af öðrum trúflokkum og ættflokkum verði að yfirgefa landið. Í raun verður vandamálið með öfgafulla stefnu Ísraelsstjórna ekki leyst fyrr en lýðræðislegt fjölmenningarsamfélag tekur við af gyðingaríkinu.

En þetta var útidúr.

Ég ætla að skoða greinina þína og sjáum hvert það leiðir.

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.7.2010 kl. 23:04

17 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Jón Baldur

Ég las skrif þín og segi þetta: allt sem þú ert að hugleiða mun koma fram í aðildarviðræðum sem eru að fara af stað. Það er ekki skynsemi í því að reyna aðrar leiðir eins og málin standa í dag. Þjóðin mun eiga síðasta orðið og því verða allir að lúta. Þjóðin þarf að hafa skýra valkosti og eiga skynsamlega og öfgalausa umræðu um það sem felst í inngöngu í ESB samkvæmt þeim samningi sem kemur út úr viðræðunum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 27.7.2010 kl. 11:33

18 identicon

Hæ Týri,

Það sem hefur truflað mig við málflutning ykkar ESB sinna er hversu sveiflukennd rökin hafa verið allt eftir því hvernig vindar blása á Íslandi.  Kostir aðildar að ykkar mati er ávallt að lækna einhver tímabundin þjóðfélagsmein.  Mikið hefur t.d. verið skrifað og rætt um það hversu miklu ódýrara það verður að kaupta matvöru hér eftir inngöngu í ESB og þá var ekki minnst einu orði á stöðugan sterkan gjaldmiðil enda stóð krónan nokkuð vel að vígi þá.  Núna hentar það best að benda á ónýta krónu sem helstu ástæðu þess að ganga þarna inn.

Ef ónýta krónan og upptaka evru er helsta ástæða þess að við eigum að gangast undir vald ESB þá er ég persónulega á því að upptaka USD sé miklu fljótvirkari og skilvirkari leið fyrir okkur.  Við fáum enga evru hér í fyrirsjáanlegri framtíð en dollar getum við fengið með mjög stuttum fyrirvara.

Síðan er það mikill misskilningur að hér verði eitthvað betri stjórnsýsla með aðild að ESB.  Ég hef ekki getað séð rökin fyrir því enda sýna dæmin okkur víða um evrópu að svo er alls ekki enda hafa einstök ríki beinlínis ógnað tilvist myntbandalagsins með óráðsíu og óstjórn heima fyrir.

Það er svo orðið þreytt hjá þér að vera með samlíkinguna við Danmörk, Svíþjóð og Holland.  Við erum örríki og verðum eitt minnsta ríkið innan ESB ef af verður og það er beinlínis barnalegt að halda að við hefðum nokkuð um þróun mála inna sambandsins að segja enda fara 2-3 stærstu ríkin innan ESB með meirihluta atkvæða og ráða í raun ferðinni í öllum veigamestu atriðum.

Það hafa verið uppi hugmyndir um að stíga skrefið til fulls í að gera ESB að ríkjasambandi með eina stjórnarskrá og miðstýrða fjárlagagerð enda væri það eðlilegt framhald í þróun sambandsins.  Kannski væri það fínt fyrir okkur að vera eitt ríkjanna í samtökum á borð við ESB eða USA en ég efast um að vilji þjóðarinna standi til þess í augnablikinu.

kv

GJ

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 15:39

19 identicon

gleymdi alveg að minnast á þá fjölmörgu sem héldu því fram að hlutirnir yrðu strax miklu betri á Íslandi strax eftir að ríkisstjórnin gaf það út að ætla að sækjast eftir aðild - en auðvitað rættist það ekki  og þá er ekki á það minnst meir.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 15:41

20 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Gunnar og velkominn á bloggið mitt - enn og aftur.

Þér til upplýsingar þá ertu á röngu róli varðandi afstöðu mína til krónunnar. Ég hef skrifað á blogginu að ég hef lengi haft skömm á krónunni. Eða allt frá því að ég fór til náms í öðrum löndum og fann hverlags matadorpeningur þetta var og er. Sífelldar gengisfellingar gerðu okkur mjög erfitt fyrir í útlöndum þar sem tekjur okkar voru á íslandi en námskostnaðurinn í útlöndum.

Svo þetta stensta ekki hjá þérhvað mig varðar og kanski gagnvart fleirum sem aðhyllast ESB aðild.

Jæja - þá varðandi stjórnsýsluna. Skýrsla nefndarinnar sem Alþingi skipaði sýndi hversu léleg íslensk stjórnsýsla hefur verið. Um það þarf ekki að deila. Umbætur sem hafa orðið í stjórnsýslu hérlendis koma frá ESB í gegnum EES samninginn. Svo að ekki getur hún versnað eins og dæmin sanna - hið óttalega skrifræði ESB sem þú og fleiri básúnið er yfirleitt ekkert nema vönduð stjórnsýsla.

Þú skrifar „enda hafa einstök ríki beinlínis ógnað tilvist myntbandalagsins með óráðsíu og óstjórn heima fyrir“. Og hvað gerist í þessum tilfellum? Ríkin fá skömm í hattinn og verða að laga stjórnsýsluna til að uppfylla kröfur ESB.

Svo þú ert orrðinn þreyttur á samlíkingum við nærtæk lönd s.s. Svíþjóð og Danmörk. Þreyta þín getur stafað af því að þér er illa við raunveruleg dæmi ef þau skemma þín ESB-andsnúnu heimsmynd. Ég get ekkert hjálpað þér hér.

En þú og fleiri eruð alltaf að tala um „örríkið“ Ísland sem verður leiksoppur stærri ríkja osfrv. Samt eruð þið kokhraustir náungar upp til hópa og eruð ekki hræddir við að sigla landinu sem lengst frá öðrum þjóðum. Eru örríki best komin ein og sér eða eiga þau að vera þátttakendur í samstarfi við önnur lýðræðisríki? Um meint áhrifaleysi smáríkisins í samstarfinu þá get ég upplýst þig um að ESB er jákvætt gagnvart smærri einingum og gerir ýmislegt til að jafna hlut þeirra. Þetta veit ég vel í gegnum Mediaferlið (kvikmyndastyrkir) sem ég hef gengið í gegnum oftar en einu sinni. Ég get frætt þig um þessi atriði en geri það ekki nema þú biðjir mig. Ég vil ekki skemma allt sem þú heldur (vont) um ESB strax. Það bíður þess tíma þegar Össur kemur með samninginn heim og við byrjum að rýna í hann.

Það sem þú gleymdir að minnast á getur þú ekkert fullyrt um – það getur allt átt eftir að rætast þegar málið er skoðað í heild sinni. En það að menn hafa verið of bjartsýnir í einhverjum atriðum er ekki frágangssök.

Hjálmtýr V Heiðdal, 27.7.2010 kl. 17:32

21 identicon

Þú snýrð útúr öllu sem ég skrifa Týri.  Ég sagði að þið minntust ekkert á ónýtu krónuna þegar það hentaði ekki, heldur matarverð.  Núna hentar betur að nota krónuna en lítið talað um matarverðið enda löngu búið að sýna framá að við erum fullfær um að lækka það án hjálpar ESB.

Ég skil nú ekki alveg hvað þú ert að meina með stjórnsýsluna.  Þú segir að hér hafi orðið umbætur í stjórnsýslunni í gegnum EES samninginn á sama tíma og þú segir að hún geti ekki versnað.  Staðreyndin er hinsvegar sú að íslensk stjórnsýsla hefur ekkert batnað þrátt fyrir EES samninginn heldur þvert á móti.  Við réðum ekki við það frelsi sem honum fylgdi og því fór sem fór.  Kannski má segja að jafnaðarmennirnir sem keyrðu þann samning í gegn hafi ekki undirbúið stjórnsýsluna nógu vel.

Svo heldur þú að það sé alltaf hægt að skamma ríki fyrir óstjórn og spillingu.  Ég var að reyna að benda þér á að það munaði minnstu að slík óstjórn ylli hruni evrunnar með skelfilegum afleiðingum.  Fullseint að segja skammastu þín!!!  Þetta er ein ástæða þess að aukin áhersla er komin í þá átt að auka miðstýringuna varðandi fjárlög og minnka um leið sjálfstæði ríkjanna enn frekar.

Samræmd skattastefna er t.d. ömurleg hugmynd.  Við mættum ekki laða til okkar erlenda fjárfestingu með lægri sköttum.  Samkeppni milli ríkja yrði hreinlega bönnuð á þessu sviði, sem og mörgum öðrum. 

Mediaferlið þarftu ekkert að útskýra fyrir mér enda er það tittlingaskítur þegar kemur að stóru myndinni varðandi þróun bandalagsins og helstu stýrimenn í því ferli.  Þar munum við þjóna sem viðvaningar á dekki og ekki hafa neitt um það að segja hvert skútunni verður siglt. Ég óttast einfaldlega að við getum aldrei orðið annað en farþegar á þessari skútu og sá ótti er fráleitt ástæðulaus.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 28.7.2010 kl. 01:41

22 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er ekki útúrsnúningur hjá mér sem um er að ræða. Þú skrifaðir: „Það sem hefur truflað mig við málflutning ykkar ESB sinna er hversu sveiflukennd rökin hafa verið allt eftir því hvernig vindar blása á Íslandi.“. Og svo segir þú að nú vilji menn ræða krónuna og áður matarverð. Það er ekki hægt að ræða alla hluti hverju sinni og það er eðlilegt að áherslur breytast. Í mínu bloggi sem er kveikjan að þínum athugasemdurm þá er ég að ræða krónuna. Ekki vegna þess að ég vilji ekki ræða matarverð – heldur vegna þess að umræðan um krónuna er nú ofarlega á baugi.

Þú skrifar: „Kostir aðildar að ykkar mati er ávallt að lækna einhver tímabundin þjóðfélagsmein.“ Þetta er einhver misskilningur hjá þér. Það er einmitt til þess að losna við „tímabundnar“ lækningar sem við viljum stöðugra umhverfi. Íslenskt efnahagslíf hefur einkennst af tilhlaupum, gengisfellingar og höft hér áður fyrr.

Varðandi stjórnsýsluna, „að hún geti ekki versnað“ og áhrif EES samningsins. Stjórnsýsluumbætur sem má nefna eru lög um opnari stjórnsýslu, umhverfismál, dómsmál. Allt svið þar sem Íslendingar hafa bætt vegna áhrifa frá hinu óttalega ESB. Vondu hliðarnar eru hindvegar þær að innan stjórnkerfisins hefur alltaf leikið lausum hala spilling í „óspilltasta landi heims“. Helstu uppsprettur eru í stjórnmálaflokkum. Nægir að nefna skipan í embætti á vegum Davíðs Oddssonar með hlauptíkum s.s. Árna Matt. Árni fékk á baukinn eins og þú veist. Þessar aðferðir, sem nú heyra vonandi sögunni til, grafa undan trausti almennings á dómskerfinu – og það er grafalvarlegt mál.

Frelsið sem kom með EES var auðvitað misnotað þannig að eftirlitskerfið var lamað innanfrá með pólitískum ákvörðunum og svo gátu reynslulausir athafnamenn skrattast um með fjöregg þjóðarinnar. Siðferði þeirra reyndist misjafnt, hlutur Framsóknarflokksins í þessu (Finnur og félagara) er mjög ljótur eins og þú veist núna.

„Svo heldur þú að það sé alltaf hægt að skamma ríki fyrir óstjórn og spillingu.“ Skil ekki að mitt „hald“ um þetta sé eitthvað skrítið.

„Mediaferlið þarftu ekkert að útskýra fyrir mér enda er það tittlingaskítur“. Ég er ekki að ræað magn. Það eru grundvallarhugmyndirnar sem ég reyni að koma á framfæri með þessu dæmi.

„Þar munum við þjóna sem viðvaningar á dekki og ekki hafa neitt um það að segja hvert skútunni verður siglt. Ég óttast einfaldlega að við getum aldrei orðið annað en farþegar á þessari skútu og sá ótti er fráleitt ástæðulaus.“

Farþegar hafa auðvitað ekkert að segja um stefnu skipanna sem þeir sigla með. Þess vegna er rétt að breyta og hætta sem farþegar (EES) og komast uppá dekk (ESB). Viðvaningsbragurinn gæti þá smátt og smátt breyst í fagmennsku. Íslendingar geta örugglega lært hluti af öðrum og komið með eigin nýjungar þar sem það á við.

Hjálmtýr V Heiðdal, 28.7.2010 kl. 08:48

23 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Athyglisverð umræða. Aðalmálið hér er að við getum afhent vandamálin okkar öðrum til að leysa. Við eigum að leysa þau sjálf sem þjóð. Gjaldmiðilinn er mælitæki á hagkerfið. Vandinn hefur hins vegar verið sá að vegna þess hve hann er lítill þá leika gjaldeyrisbraskarar sér að honum til að hagnast óhóflega þ.e.a.s. meðan EES leyfir frjálsa fjármagnsflutninga. Vandinn er þannig tvíþættur; annars vegar hagkerfið og hins vegar frjálsir fjármagnsflutningar. Það síðara stendur til að ná utan um á vettvangi alþjóðakerfisins og hafa menn nefnt t.d. skattlagningu í því sambandi til að takmarka flutningana. Það kann þó að gera vandann meiri. Það fyrra er að við tökum á málum innanlands og rekum hér þjóðfélag sem er arðbært, sjálfbært og með litlar sveiflur. Að taka upp evru áður en það er gert er eins og að pissa í skóinn sinn.

Jón Baldur Lorange, 28.7.2010 kl. 12:17

24 Smámynd: Jón Baldur Lorange

.. getum ekki afhent .. átti þetta að vera

Jón Baldur Lorange, 28.7.2010 kl. 12:18

25 identicon

Sem sannur Samfylkingarmaður og þar áður bandbrjálaður kommi hatar Hjálmtýr Heiðdal frelsi lands og þjóðar.  Öll lönd skulu steypt í sama formið þar sem miðstýring og vel heppnaðar fimm ára áætlanir ráða ríkjum.

Eins og Týri bendir hér réttilega á enn og aftur þá er honum alveg sama hvort krónan sé nothæf eða verðlaust drasl.  Honum er líka sama um matarverðið.  Í ESB skal þjóðin með góðu eða illu.  

Týri er því líkari fyllibyttunni sem neitar góðri hjálp.  Nei, segir hann um rökin sem venjulega fólkið notar um með eða á móti ESB, þau skipta mig ekki máli.  Það skiptir mig ekki máli hvort brennivínið sé holt eða bráðdrepandi ég ætla samt að drekka það.  Komdu með flöskuna, helv, fíflið þitttjsfdmn,..... hikk.

Ég legg til að Týri gangi í Kukux klan, leðuhommafélagið, ESB eða hvern þann félagsskap sem hann kýs en leyfi mér að standa utan þessara samtaka.  Ég er sko ekki leðurhommi eða ESB gaur.!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

kryppa.com (IP-tala skráð) 28.7.2010 kl. 19:06

26 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Hjálmtýr, ég er sammála þér!  Sérstaklega þegar þú segir:"það er hluti af vitrænni efnahagsstjórn að setja krónuna á Þjóðminjasafnið"

Það vita það líka allir að lækkun matvælaverðs hér á landi hélst í hendur við lækkun krónunnar og kaupmáttarskerðingu landsmanna.  Krónan skilaði því lækkun matvælaverðs, því er ekki að neita, en hún skilaði okkur einnig minni kaupmætti og því getum við keypt minna af matvælum en áður.

Lúðvík Júlíusson, 29.7.2010 kl. 05:17

27 Smámynd: Björn Heiðdal

Lúðvík Júlíusson er greinilega einn af þessum ESB gaurum sem heldur að verð á íslenskum matvælum hafi hækkað jafn mikið og þeim innflutti eftir fall krónunnar. 

Björn Heiðdal, 29.7.2010 kl. 10:15

28 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Björn minn, hefur þú ekki tekið eftir rýrnun kaupmáttar?  Hefur þú ekki tekið eftir hruni krónunnar?  Eins og ég segi í fyrstu færslu minni þá skilar þetta okkur hvort tveggja minni kaupgetu en áður, mest eftir innfluttum matvælum en einnig eftir innlendum matvælum.  Hvort tveggja er vegna krónunnar , ég held að fáir séu henni þakklátir fyrir það.

Lúðvík Júlíusson, 29.7.2010 kl. 10:32

29 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Lúðvík

Það er pólitík í krónunni - Björn frændi og fleiri hafa nú skyndilega ást á henni vegna þess að það passar inn í málflutninginn. Jónas Kristjánsson hittir naglann á höfuðið: „Það er von, að við elskum krónuna og hötum evruna. Fall krónunnar minnkaði kaupmátt okkar um þriðjung. Von, að við elskum krónuna og hötum evruna. Fall krónunnar hækkaði verðtryggðar skuldir um 100% og gerði marga gjaldþrota. Von, að við elskum krónuna og hötum evruna. Fall krónunnar er alfa og ómega þeirra vandamála, sem þjóðin hefur við að glíma. Krónan er svo sveigjanleg, segja excel-fræðingar með ástúð í röddinni. Evran hins vegar er afleit, hún hindrar hrun kaupmáttar, hindrar tvöföldun skulda. Tekur vandann af fólki og setur hann á herðar stjórnvalda. Fáheyrt. Það er von, að við hötum evruna.“

Hjálmtýr V Heiðdal, 29.7.2010 kl. 13:13

30 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég hef tekið eftir rýrnun kaupmáttar og reynt á eigin skinni fall krónunnar.  Þannig að einhverjar skítapillur til mín um að ég haldi eitthvað annað hitta varla afturendann.

Fólk sem vill taka upp evru eða þá dollar eða norska krónu fattar ekki að sjálfstæður gjaldmiðill er forsenda að Íslendingar geti stjórnað sínum eigin efnahagsmálum.  Í tilviki Týra þá vill hann ekki að Íslendingar stjórni sínum málum sjálfir og er því löglega afsakaður.  Allir hinir eru og verða áfram á rangri leið.  

Björn Heiðdal, 29.7.2010 kl. 19:46

31 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Björn frændi segir að krónan sé sjálfstæður gjaldmiðill. Þetta er sennilega rétt - algjörlega sjálfstætt fyrirbrigði sem fer sínar eigin leiðir án áhrifa frá öðrum. Hún tekur dýfur niður í kjallara og þeytist svo upp í rjáfur. Þetta er sérstaklega skemmtilegur og óútreiknanlegur gjaldmiðill fyrir launamenn og lántakendur. Einnig er hún í miklu uppáhaldi með fyrirtækja sem eiga viðskipti við útlönd. T.d. þeir sem þurfa erlend aðföng. Svo krefst hún þess að hér sé alltaf til staðar sjóður sem heitir gjaldeyrisvarasjóður sem grípa verður til þegar krónan tekur sín brjálæðisköst. Kanski á hún ekki heima á Þjóðminjasafninu eins og ég skrifaði fyrr. Ætli húsdýragarðurinn sé ekki betri - geymd í búri og bannað að gefa henni að éta.

Hjálmtýr V Heiðdal, 29.7.2010 kl. 20:24

32 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

leiðr. ...meðal fyrirtækja...

Hjálmtýr V Heiðdal, 29.7.2010 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband