19.10.2010 | 16:08
Ný stjórnarskrá - nokkrar hugmyndir
Núverandi stjórnarskrá skiptist í 7 kafla og er að stórum hluta útlistun á embætti forsetans og gangvirki Alþingis, dómstóla og ýmissa skipulagsmála ríkisins.Mannréttindakaflinn, mikilvægasti hluti þessa plaggs, er í síðasta kaflanum.
Ég vil gjörbreyta þessu og setja þann kafla fremst. Stjórnarskrá sem byrjar á langri útlistun á embætti forsetans er ekki samin með nútíma þjóðfélag í huga. Hún er óaðgengileg og torlesin. Hún er tæknilega kórrétt en er ekki fallin til þess að kveikja vitund einstaklingsins sem les hana, um þjóðfélagið og stöðu sína í því.
Í upphafi núverandi mannréttindakafla segir: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Ég tel að í upphafi sé rétt að nefna til leiks landið þar sem þessi stjórnarskrá gildir og síðan fólkið sem á þessa sameiginlegu stefnuskrá.
T.d.: Ísland er land jafnaðar, velferðar og lýðræðis. Hér skal hver einstaklingur njóta jafnréttis, virðingar og mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Hver einstaklingur skal njóta frelsis til þroska og athafna sem ekki brýtur gegn sömu réttindum annarra og gegn reglum samfélagsins.
Önnur atriði sem ég tel mikilvæg og mun fjalla um síðar eru:
Stjórnarskráin tryggi öllum réttinn til menntunar og velferðar.
Þjóðaratkvæðagreiðslur. Mikilvægt er að þjóðin geti sagt hug sinn oftar en á fjögurra ára fresti og þá milliliðalaust. Nútíma tækni verði nýtt til þess að auðvelda landsmönnum að kjósa um mikilvæg mál.
Landið verði eitt kjördæmi. Núverandi misvægi atkvæða er andlýðræðislegt.
Aðskilnaður ríkis og kirkju. Trúfrelsi tryggt, trú er einkamál.
Sjálfstæði löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu. Ráðherrar sitji ekki á þingi.
Breytingar á skipan embættismanna og dómara. Hindra pólitísk hrossakaup.
Trygging þess að mikilvægar auðlindir séu í sameign þjóðarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:02 | Facebook
Athugasemdir
Þarf ekki líka kafla um ábyrgð og ný ákvæði svo farið sé eftir stjórnarskránni. Á svoleiðis kannski bara heima í lögum sem Alþingi situr?
Björn Heiðdal, 19.10.2010 kl. 18:40
Hvernig líst þér á að skrá þessar tillögur í hugmyndabankann á www.austurvollur.is ?
austurvollur.is (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 04:27
Hæ,
Hvernig viltu hafa greinina sem heimilar stjórnvöldum afsal á hluta fullveldisins? Er það ekki grein sem verður að vera komin í þetta plagg áður en við göngum í ESB?
kv
GJ
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.