Kynning á frambjóðanda

Ég var í frambjóðendaviðtali hjá RÚV. Það voru lagðar fyrir okkur tvær spurningar og hér eru mín svör.

Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?- Hverju helst?

Stjórnarskrá á að vera eins einföld og aðgengilegt og mögulegt er.Núverandi stjórnarskrá uppfyllir ekki þau skilyrði.Ég legg áherslu á nokkur lykilatriði.

Mannréttindi er að búa við frelsi - og jafnrétti er leiðin til þess að búa öllum frelsi. En frelsinu fylgja bæði réttindi og mikil ábyrgð. Mannréttindakaflinn er aftasti kaflinn í núverandi stjórnarskrá. Ég vil setja hann fremst og skerpa áherslu á réttindi minnihlutahópa s.s. fatlaðra og „hinseigins fólks“ m.a. homma og lespía.Jafnrétti er undirstaða í þeirri ætlun okkar að búa saman í landinu við bestu skilyrði sem við getum búið okkur.

Lýðræðið er hluti frelsisins og byggir á jafnrétti. Þjóðin hefur nú upplifað ögurstund og það er leiðin út úr hremmingunum að efla lýðræðið. Þjóðin hefur klofnað í mikilvægum málum, hermálið, virkjanir og stóriðja og nú ESB. Aukinn réttur þjóðarinnar til að ganga til atkvæðagreiðslu um slík mál er liður í betra lýðræði. Þetta er vandmeðfarið og má ekki verða lýðskrumi að bráð, Hver einasta þjóðaratkvæðagreiðsla verður að koma í kjölfarið á upplýstri umræðu um mikilvæg mál.Þingræðið er hornsteinn okkar stjórnskipulags og það verður að efla umgjörð þingsins. Ýmsar lagfæringar koma til greina, kjördæmaskipan, skýrari aðgreining framkvæmdavalds og löggjafarvalds.

Náttúruvernd snýst um réttindi afkomenda okkar sem nú byggjum þetta land og rétt okkar núlifandi til þess að nýta með sjálfbærum hætti auðlindirnar. Náttúruauðlindirnar verða því að vera í skilyrðislausri þjóðareign – það verður stjórnarskráin að staðfesta.

Fleiri mál get ég nefnt, t.d. að staða íslenskunnar sé tryggð í stjórnarskránni.

Af hverju gefur þú kost á þér?

Alþingi hefur mistekist að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni í 60 ár.Eftir hrunið þá fór ég að hugsa meira um þjóðmálin og ástand þjóðarinnar. Ég var strax viss um að endurskoðun á stjórnarskrá gæti verið liður í að mennta og þroska þjóðina. Og ég tel mig ágætlega í stakk búinn til þess að nýta reynslu mína í þágu þessa verkefnis.

Ein hugmynd sem ég vil fylgja eftir nái ég kjöri er að senda afrakstur stjórnlagaþingsins til umræðu meðal þjóðarinnar um leið og hún fer til þingsins. Það felur í sér að á hvreju heimil, í hverri skólastofu og á hverjum vinnustað ræða menn opið og heiðarlega um þær breytingar sem stjórnlagaþingið leggur fram. Ég vil taka þátt í að breyta stjórnarskránni svo að hún verði aðgengilegri og að menn geri sér betur grein fyrir réttindum sínum og skyldum og beri meiri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll,

Mig langar að spyrja þig nokkurra spurninga.

Ein af ástæðum þess að nú er efnt til stjórnlagaþings er sú að ákveðnar breytingar verða að eiga sér stað í stjórnarskránni til þess að staðfesta megi samninginn um aðild okkar að ESB.  Sú breyting felur í sér heimildir stjórnvalda til að afsala fullveldi að hluta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Ákvæði sem þessi eru til staðar í stjórnarskrá allra aðildarríja ESB og hafa verið notuð við inngöngu þeirra í sambandið.  Teldir þú rétt að þegar stjórnvöld nýta sér slík ákvæði skuli aukinn meirihluta þjóðarinnar þurfa til staðfestingar slíku afsali eða bara einfaldan meirihluta?

Telur þú að tillaga stjórnlagaþingsins eigi að  fara óbreytt til atkvæðagreiðslu í þinginu eða reiknar þú með miklum breytingum í meðförum þingsins?

Telur þú að köflum stjórnarskrárinnar sé eða eigi að vera raðað upp eftir mikilvægi þeirra?

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 22.11.2010 kl. 01:39

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Gunnar

Hver er munurinn á inngöngu í ESB, þátttöku í EES, NATO og SÞ?

Hvaða ákvæði stjórnarskráinnar önnur en 21. greinin fjalla um þetta?

„Teldir þú rétt að þegar stjórnvöld nýta sér slík ákvæði skuli aukinn meirihluta þjóðarinnar þurfa til staðfestingar slíku afsali eða bara einfaldan meirihluta?“ Ég vil að hver maður hafi jafngilt atkvæði.

„Telur þú að tillaga stjórnlagaþingsins eigi að fara óbreytt til atkvæðagreiðslu í þinginu eða reiknar þú með miklum breytingum í meðförum þingsins?“ Ég tel að Alþingi eigi ekki að krukka mikið í afrakstur stjórnlagaþingsins. Ég hef sett fram þá skoðun að öll þjóðin eigi að skoða plaggið samtímis Alþingi.

„Telur þú að köflum stjórnarskrárinnar sé eða eigi að vera raðað upp eftir mikilvægi þeirra?“

Ég tel mannréttindakaflann og „ramman um þjóðina“ mikilvægastan og því vil ég hann fremstann. Ég hef ekki velt fyrir mér öðrum köflum í þessu tilliti.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.11.2010 kl. 11:07

3 identicon

Sæll aftur,

Það er töluverður munur á þessu sem þú nefnir enda hefur EES samningurinn verið umdeildur af þessari ástæðu.  Innganga í ESB hefði það hinsvegar í för með sér að stofnanir ESB geta sett reglur sem fá beint lagagildi á Íslandi án milligöngu Alþingis eða íslenskra framkvæmdavaldshafa.  Þar að auki fengi Evrópudómstóllinn heimild til að kveða upp úrskurði sem eru bindandi fyrir íslenska dómstóla.

Ég hélt að það væri ekki lengur deilt um að stjórnarskráin okkar þurfi að kveða skýrar á um þetta atriði, enda er það ein meginástæðan fyrir stjórnlagaþinginu og tilurð þess þ.e.a.s. undirbúa stjórnarskrána fyrir ESB.

Flest aðildarríkin nýttu sér við inngöngu ákvæði í sínum stjórnarskrám sem heimila framsal fullveldisins að hluta.  Jafnframt hafa flest þeirra sett skilyrðu um aukinn meirihluta þingmanna til að fá slíkt framsal samþykkt.  Danir ganga þar lengst þar sem 4/5 hluta þingmanna þarf til að staðfesta slíkan samning.  Af svari þínu má þó skilja að einfaldur meirihluti eigi að ráða, eða hvað?

Hver ætti tilgangur skoðunarinnar að vera ef ekki má krukka í afraksturinn?  Þingið þarf að samþykkja þessar tillögur og þess vegna óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir  breytingum.

Að lokum má til gamans geta þess að atkvæðavægið verður töluvert brenglað í þessum kosningum þar sem konur eru töluvert færri í framboði en vegna reglna um kynjaskiptingu verða atkvæði greidd konu mun þyngri en atkvæði greidd körlum.  Hver kona í framboði á mun meiri séns en þú að komast inn.  Hvað finnst þér um það?

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 22.11.2010 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband