Forsetinn mun undirrita

Bessast.Þrátt fyrir smekklausa áeggjan Hrafns Gunnlaugssonar mun forseti Íslands tilkynna á næstu dögum að hann hafi ákveðið að undirrita nýsamþykkt lög frá Alþingi um afgreiðslu Icesave málsins.

Ég fæ ekki séð að hann geti, jafnvel þótt hann langaði til, neitað að undirrita og skjóta þar með málinu í þjóðarinnar.

Í fyrsta lagi tel ég að hann geti ekki horft framhjá vilja þingsins. Aðeins 16 af 63 þingmönnum voru á móti. Þingmenn eru allir kjörnir með lýðræðislegum og löglegum hætti og því er það þjóðin sem ber ábyrgð á þinginu eins og það er samsett.

Í öðru lagi eru undirskriftasafnanir og skoðanakannanir ekki þær leiðir sem landinu er stjórnað eftir - það eru þingskosningar sem gilda.

Undirskriftasöfnunin sem nú hefur veið afhent forsetanum um er stórgölluð og hefði forsetinn ekki átt að taka við henni. Hvað þá að láta hana hafa einhver áhrif á afgreiðslu málsins.Undirskriftasögnunin er án allra tæknilegra varnagla sem auðvelt er að viðhafa. Það er auðvelt að setja inn nöfn annarra og rannsókn á „gæðum“ listanna er yfirklór.Að hringja í 100 manns og ná í 69 er ótækt. Að bera saman nöfn og kennitölur segir ekkert um það hvort fólk hafi sjálft skrifað undir eður ei.

Þjóðaratkvæðagreiðslur er nýjung fyrir Íslendinga - þökk sé Sjálfstæðisflokknum sem hefur lengi lagst gegn endurbótum á lýðræðinu. Síðast beittu þingmenn hans málþófi til að hindra lagabætur á þessu sviði.  Nú þykjast þeir vilja þjóðaratkvæðagreiðslur - og afhjúpa pólitískan hráskinnaleik sinn.  Þetta veit forsetinn og því ritar hann undir nýju lögin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef forsetinn fellur ekki ofan í pólitískan seyruvökvann eins og þú gerir hér þá mun hann að sjálfsögðu vísa málinu til þjóðarinnar sem er æðri alþingi. Umboð alþingis til að fjalla um þetta mál var afturkallað í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Auk þess eru fjórflokksmenn vanhæfir til að fjalla um málið vegna tengsla sinna við þau fjármálahryðjuverk sem framin hafa verið fyrir og eftir hrun.

Árni (IP-tala skráð) 19.2.2011 kl. 23:27

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Alveg sammála þessu Hjálmtýr.  Neiti hann að skrifa undir er hann kominn á verulega hálan ís. Þá fara undirskriftasafnanir á netinu til að heimta kosningar um alla skapaða hluti að verða daglegt brauð.  Svo var þetta mikill minnihluti kjósenda sem skrifuðu sig á þennan lista. Og hræddur er ég um að miðað við hæstaréttardóminn um stjórnlagaþingskosninguna,  fengi þessi undirskriftasöfnun algera falleinkunn.  Svo get ég ekki ímyndað mér að hann fari að gleðja sinn gamla fjandmann, Davíð með því að vísa þessu í þjóðaratkvæði.

Þórir Kjartansson, 19.2.2011 kl. 23:28

3 identicon

En svo gæti hann vegna þessarar fréttar hér >; http://www.svipan.is/?p=21780 ákveðið að skjóta til þjóðarinnar. Og kannski ætlar hann að bjóða sig fram til forseta aftur og vill hafa málskotsréttinn á hreinu ?

Guðrún (IP-tala skráð) 19.2.2011 kl. 23:46

4 identicon

Ég held að Ólafur undirriti lögin til að koma hjólum atvinnulífsins af stað.  Aðeins með öflugu atvinnulífi verður hægt að standa undir heilsugæslu og góðu skólakerfi.  Við verðum að klára þetta mál til að koma því út úr umræðunni.  Þegar við loksins byrjum að borga vextina og síðan vaxtavextina getum við hætt að fabúlera um hvað kæmi út úr dómstólaleiðinni eða einhverri annari leið.  Því þá verða þær ekkert í boði.  Samningur er samningur sem allir vinnandi Íslendingar eiga að vera stoltir af.  Og ef við getum borgað þetta án þess að bogna í baki eða brotna verðum betri og hófsamari þjóð á eftir. 

Það er síðan bara bónus ef árslaun fjölskyldunnar fara í að borga Icesave ef Davíð og Krummi fýla það ekki.

Björn Brauð (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 00:14

5 Smámynd: Vendetta

Jahá, svo að það var þess vegna sem Bjarni Ben féllst á að greiða atkvæði með IceSlave III. Það var vegna friðhelgis vinanna frá sakamálarannsóknum en ekki vegna baktjaldamakks um kvótakerfið. Óþverrinn og spillingin í sambandi við þennan samning fer að verða æ ljósari.

Vendetta, 20.2.2011 kl. 00:23

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú tekur stórt upp í þig, Hjálmtýr, þykist þekkja hug forseta Íslands.

Ertu ekki einfaldlega í vinstriflokka-meðvirkninni enn einu sinni, þótt báðir séu komnir óralangt frá uppruna sínum?

Hvað ætli Einar Olgeirsson gerði, þar sem hann liggur, ef hann vissi af þessum gerningum eftirmanna sinna í Vinstri grænum? Ætli hann sneri sér ekki bara við í einum grænum?

Þú ert varla svo ungur að árum, að þú munir ekki hatur hans á brezkri nýlendu- og heimsvaldastefnu, á BP og Unilever og græðginni sem límdi saman heimsveldið.

Þá var nú Lúðvík Jósepsson snilld í samanburði við þessa uppstríluðu vesalinga, í glímu hans við brezka heimsveldið grátt fyrir járnum.

Haustið 2008 sagði Steingrímur, að það væri ekkert í ESB-löggjöfinni um innistæðutryggingar sem skyldaði okkur til að greiða. 28. okt. 2008 sagði hann (eins og Vilhjálmur Birgisson, alvöru-verkalýðsforingi á Akranesi, minnti á í Vikulokunum á Rás 1 í morgun): "Ef þessar byrðar verða lagðar á íslenzku þjóðina, þá verður styrjöld hér á götum úti." En það er margt gert fyrir ráðherrastólana!

Forsetinn hefur áður tekið tillit til skoðanakannana – en ég skil fælni þína við þær í þessu Icesave-máli – og einnig til áskorana, og ég bendi þér á, að jafnvel með mestu grisjun listans á Kjósum.is er fjöldinn þar nokkrum þúsundum meiri en á þeim lista sem herra Ólafi barst vegna fjölmiðlamálsins 2004 og hann tók tillit til.

Þar að auki er hér um ítrekuð stjórnarskrárbrot að ræða, og lagabrot Össurar í tengslum við Mischcon de Reya-lögfræðiálitið er nú bara frágangssök í sjálfu sér, samt fær hann að fylgja þessu máli fram og í greinilegri velþókknan ESB, sbr. orð ungverska sendiherrans þar um í Fréttablaðs-frétt fyrr í vikunni.

Jón Valur Jensson, 20.2.2011 kl. 00:46

7 Smámynd: Elle_

Ótrúlegt er að lesa vitleysuna í Hjálmtý og Þóri og hefur klárlega enga þýðingu að rökræða við svona spillta og gjörsamlega vegvillta menn.  Þið viljið ólöglega fjárkúgun yfir börnin okkar og það fyrir hvað??

Elle_, 20.2.2011 kl. 01:58

8 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hjól atvinnulífsins fara ekkert frekar af stað við það að auka skuldir þjóðarinnar.

Ég einfaldlega stóla á að forsetin vísi þessu máli til þjóðarinnar, og ef hann samþykkir þetta  nú þá vitum við væntanlega hvert við eigum að fara. 

Hann verður hér þá væntanlega hér eftir á samt Jóhönnu og Steingrími til að moka heitavatns holur, skurði  og fiski fyrir spánskan Karlo frá Evrópusambands hjörðinni sem aldrei kemur til með að fá nóg.

    

Hrólfur Þ Hraundal, 20.2.2011 kl. 02:15

9 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Það var nú naumur meirihluti fyrir því að vísa þessu ekki til þjóðarinnar, svo naumur að hann er ekki marktækur í svona stóru máli!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 20.2.2011 kl. 03:05

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég þakka fyrir innlitin.

Það er háttur siðaðra manna að ræða mál með lausnir í huga. Ég vil benda þeim sem tala um ólögvarðar kröfur og fjárkúgun ofl. í þeim dúr, að Íslendingar eru í þeirri stöðu að þeir þurfa að vera í tengslum við umheiminn. Málið mun ekki leysast í bráð ef þjóðin fellir það í atkvæðagreiðslu og það mun eingöngu verða til bölvunar. Stjórnvöld skuldbundu okkur árið 2008 að tryggja allar lágmarksinnistæður í íslenskum bönkum, og skipti þá ekki máli hvort Íslendingar eða aðriri áttu í hlut.

Það getur verið að þjóðarstolt (sem oft reynist bara þjóðremba) geri mörgum erfitt fyrir þegar meta skal stöðu mála.

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.2.2011 kl. 09:35

11 identicon

Ég er sammála Týra frænda að þjóðir heims verða að standa saman og borga skuldir bankabófa.  Annað kemur ekki til greina svo hægt sé að halda leiknum áfram og koma hjólum atvinnulífsins af stað.   Nú erum við búinn að vera í herkví Hollendinga og Breta í rúm tvö ár.  Hefur Jón Valur kíkt út í búð, ekkert MM með peanutbutter!  Það eru fleiri tegundir sem ekki fást út í búð vegna málsins og mig langur í.

Svo vil ég benda Hrólfi á að hjól atvinnulífsins fara víst að snúast ef við tökum að okkur fleiri skuldir.  Hagkerfi heimsins, sem alþjóðlega bankamafían stjórnar,  gengur fyrir ógreiddum skuldum sem ófædd börn eiga eftir að borga.  Ég og þú erum veðið sem bankarnir nota til að prenta peninga.  Debit og kredit og allt það. 

Það hefur gengið illa að fá stór lán til að reisa álver og stinga í vasann vegna Icesave.  Þessu verðum við að breyta svo hægt sé að reisa álver í öllum fjörðum og halda leiknum áfram sem byrjaði rétt eftir aldamótin.  Prenta peninga með veðum í ófæddum börnum næstu 500 árin eða svo.  

Björn Þór Heiðdal (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 10:03

12 identicon

Eins og svo oft sést í skrifum Hjálmtýrs, þá er þessi pistill fáránlega heimskulegur. Hér er öllu snúið á haus af yfirveguðu fláræði. Það sem er rétt heldur Hjálmtýr fram að sé rangt og það sem er rangt vill hann meina að sé rétt. Svona fullyrðinga-glamur er í bezta falli hlægilegt.

 

Forseti Íslands á ekki einu sinni möguleika að ganga á sveig við þjóðarviljann. Sem umboðsmanni almennings ber honum að hafna undirskrift Icesave-frumvarpsins og vísa þannig ákvörðun málsins til handhafa fullveldisins. Ef minnsti vafi leikur um vilja þjóðarinnar, á forsetinn þann kost einan að kalla fram þann vilja.

 

Samkvæmt Stjórnarskránni fer Alþingi einungis með löggjafar-valdið og það ásamt forsetanum. Mikil firra er sú hugmynd að með kosningu þingmanna fái Alþingi alræðisvald. Ef hægt er að tala um alræðisvald í lýðræðisríki, þá hvílir það í höndum fullveldishafans sem er almenningur.

 

Þingmenn bera sjálfir ábyrgð á gerðum sínum og ekki landsmenn. Hjálmtýr hefur líklega ekki heyrt af Landsdómi sem brátt verður kallaður saman, til að draga til ábyrgðar fyrrverandi forsætisráðherra. Þú ættir að hugsa þig um Hjálmtýr, áður en þú opnar munninn.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 11:17

13 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Núna eru 20 mínútur þar til að forsetinn tilkynnir niðurstöðu sína.

Það vekur athygli mína að sumir eyða miklu púðri í ljót orð og skítkast:

„Þú ættir að hugsa þig um Hjálmtýr, áður en þú opnar munninn“

„þá er þessi pistill fáránlega heimskulegur“

„ofan í pólitískan seyruvökvann eins og þú“

„Ótrúlegt er að lesa vitleysuna í Hjálmtý“

„spillta og gjörsamlega vegvillta menn.“

En það skrifar hver eins og eðli hans og hugur er.

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.2.2011 kl. 13:43

14 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

"Þú tekur stórt upp í þig, Hjálmtýr, þykist þekkja hug forseta Íslands." segir maðurinn, sem hiklaust gerir sínar skoðanir að skoðunum Jóns Sigurðssonar "forseta", sem sem fráleitt liggur kyrr undir þeim öfgum og bulli. 

Það er eitt að þekkja þankagang samtímafólks eða gera einhverjum, sem legið hefur undir 6 fetum í 132 ár, upp skoðanir um nútíma málefni. En sumum er auðvitað ekkert heilagt.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 20.2.2011 kl. 14:39

15 Smámynd: Pétur Harðarson

Eitt sem ég vil benda á Hjálmtýr. Nú hafa skoðanakannanir sýnt að traust almennings til alþingis og stjórnarinnar er rétt um 10% þannig að maður hlýtur að spyrja sig hversu gott umboð alþingi hefur yfirleitt til að ráða málum þjóðarinnar. Þetta mál hefur einu sinni áður verið tekið af stjórninni og það var þjóðin sem tryggði okkur betri samningsstöðu í þessu máli. Það eina rétta er að leyfa þjóðinni að ákveða um framhaldið. Gamlar deilur úr fortíðinni eiga ekki að ráða niðurstöðu forsetans.

Hitt er annað að það er í raun ekkert sem tryggir að hjól atvinnulífsins fari að snúast eitthvað hraðar við undirskrift samningsins. Mér finnst líklegra að þetta mál snúist um pólitíska hagmsmuni þeirra sem sitja í stjórn og sumra þeirra er sitja á þingi. Hagsmunir almennings eru í öðru sæti hjá stjórnmálamönnum í dag. Það sést best á þeirri skökku mynd sem þeir hafa af ástandi þeirra verst stöddu í þjóðfélaginu.

Ég vil að þjóðin fái að klára þetta mál. Pólitíkusarnir okkar, sama úr hvað flokki þeir koma, eru einfaldlega ekki traustsins verðir í þessu máli frekar en öðrum. Ég er hræddur um að ef að þjóðin fari ekki að grípa inn í þessa óstjórn sem er við lýði núna þá sé kreppan rétt að byrja hér á Íslandi.

Pétur Harðarson, 20.2.2011 kl. 14:43

16 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þá er ljóst að forsetinn ætlar í framboð enn eitt kjörtímabilið.

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.2.2011 kl. 15:21

17 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Enn hvað það eru góðar fréttir Heiðdal minn. Ég mun kjósa hann. Hann ber höfuð og herðar yfir aðra vinstrimenn á Íslandi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.2.2011 kl. 15:25

18 Smámynd: Pétur Harðarson

Rökstuðningur forsetans við ákvörðun sína var mjög góður. Þetta var eina rökrétta ákvörðunin. Það er gott að Ólafur tekur ekki þátt í skrípaleik vinstri manna á þingi.

Pétur Harðarson, 20.2.2011 kl. 15:45

19 Smámynd: Rauða Ljónið

Í dag sigraði lýðræðið alræði.
Forseti vor er sverð okkar og skjöldur.
Til Hamingju Íslendingar.

Rauða Ljónið, 20.2.2011 kl. 15:57

20 Smámynd: Vendetta

Takk, sömuleiðis, Ljón.

Vendetta, 21.2.2011 kl. 02:40

21 Smámynd: Jens Guð

  Ég hef grun um að forsetinn vísi málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jens Guð, 22.2.2011 kl. 01:50

22 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Mig skortir þína spádómsgáfu Jens.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.2.2011 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband