Til upprifjunar

ORG rMargir þeirra sem hvað harðast ganga gegn því að þjóðin samþykki Icesave III í komandi atkvæðagreiðslu hrósa Ólafi Ragnari forseta fyrir að gera mönnum mögulegt að kjósa um málið. Eitt helsta slagorð þessa hóps er fengið úr smiðju ritstjórans á sprungusvæðinu við Rauðavatn: „Við borgum ekki skuldir óreiðumanna“

Nú vita allir að óreiðumennirnir voru meðal helstu glæframannanna sem kenndir voru við útrásina. Æstustu aðdáendur forsetans eru greinilega búnir að fyrirgefa honum það að hann var mikill áróðursmaður þeirra manna sem skópu Icesave fárið.

Það nægir að kíkja í ræðu sem Ólafur Ragnar flutti hjá Sagnfræðingafélaginu 10. janúar 2006 til að sjá hve kröftugur áróðursmaður forsetinn var fyrir „óreiðumennina“:

„Útrásin er þó staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga, fyrirheit um kröftugra sóknarskeið en þjóðin hefur áður kynnst, ekki aðeins í viðskiptum og fjármálalífi heldur einnig í vísindum, listum, greinum þar sem hugsun og menning, arfleifð og nýsköpun eru forsendur framfara.

Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingar hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga. Nauðsyn þess að allir komi að brýnu verki var kjarninn í lífsbaráttu bænda og sjómanna á fyrri tíð, fólkið tók höndum saman til að koma heyi í hús meðan þurrkur varði eða gerði strax að afla sem barst á land.

Það er forvitnilegt umræðuefni hvernig menning og saga móta útrásina, hvernig eiginleikar sem eiga sér rætur í arfleifð okkar gefa Íslendingum hugsanlega forskot á alþjóðavelli, hvernig vitund og venjur sem um aldir mótuðu samfélagið hafa reynst útrásarsveitinni haldgott veganesti.“

Reynslunni ríkari vitum við nú að útrásin var ekki: „staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga“ og hún var ekki byggð á „hæfni og getu, þjálfun og þroska“. Þetta var þjófnaður og glæfraspil og forsetinn tók þátt í því að blekkja þjóðina. Hann var á þeytingi um allar jarðir til að boða fagnaðarerindið sem hér birtist.

Bóndinn á Bessastöðum spilar djarft og hann spilar stórt hlutverk í okkar litla samfélagi. Hann hjálpaði þjóðinni fram af bjargbrúninni og nú truflar hann endurreisnarstarfið. Geri aðrir betur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Já það er ekki laust við að maður fái aulahroll við að rifja upp þessa klappstýrutakta Ólafs...

hilmar jónsson, 24.2.2011 kl. 21:14

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Aulahrollurinn á rétt á sér - ekki var gott að átta sig á hversu vitleysan risti djúpt. Enn er verið að grafa upp skít og skömm.

Hjálmtýr V Heiðdal, 24.2.2011 kl. 21:37

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Ég stóðst ekki mátið með að fá lánað brot af þessari dásemd á bloggið mitt. Vona að það sé í lagi..

hilmar jónsson, 24.2.2011 kl. 21:46

4 identicon

Það er kannski full langt gengið að segja hann hafa tekið þátt í að blekkja þjóðina, því eins og þú segir sjálfur var ekki gott að átta sig á hversu vitleysan risti djúpt.  Flest okkar reyndar held ég að hafi ekki getað ímyndað sér að sumir þessara manna hafi beinlínis verið glæpamenn, nema kannski vinur þinn á sprungusvæðinu, og sá fékk heldur betur bágt fyrir.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 21:57

5 Smámynd: Pétur Harðarson

Ólafur Ragnar er og hefur alltaf verið Ólafur Ragnar. Hann er eins og hann er, tækifærissinni út í fingurgóma og snillingur í að endurskilgreina sjálfann sig. En í staðinn fyrir að ráðast á persónu hans, löskuð eins og hún er, hvernig væri þá að reyna að hrekja rökstuðning hans fyrir atkvæðagreiðslunni. Var hún ekki nokkuð góð? Ef við ætlum að hengja menn fyrir persónugalla þá ættum við nú að byrja á forsætis- og fjármálaráðherrunum okkar.

Pétur Harðarson, 25.2.2011 kl. 03:51

6 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Ég verð nú að segja um sjálfan mig að eftir að hafa blöskrað þenslan sem var hér fyrir hrun þá var ég farinn að laumast til að halda að þessir gæjar væru virkilega svona klárir! Jú og forsetinn og prófessorar við háskólann voru að dásama athafnir þessara manna. En síðan fór sem fór.

Núna verð ég að segja að forsetinn er að taka rétta ákvörðun að mínu mati að færa "hreinsunina" til þjóðarinnar. Ég verð að segja af sjálfum mér eftir að hafa kynnst hvílík hrossakaup hafa átt sér stað  inná þingi treysti ég varla nokkrum manni sem situr á þinginu til að taka sjálfstæða ákvörðun. Það er því miður eins og Davíðs-isminn þar sem einræðis-tilburðir formannanna var alger sé enn við líði. Alþingismenn virðast ekki skilja að þjóðin vill ekki svona tilburði.  Mín skoðun er að það eigi að stór auka notkun þjóðaratkvæðagreiðslu við ákvörðun mála sem brenna á þjóðinni og hafa bein áhrif á afkomu fólks. Ég hræðist ekki dóm þjóðarinnar en hef þungar áhyggjur af þinginu.

Ólafur Örn Jónsson, 25.2.2011 kl. 06:39

7 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Í nokkur ár sátu Íslendingar undir þeim áróðri að allt væri í lukkunar velstandi og á í lok hvers fréttatíma birti Sjónvarpið langa upptalningu um stöðu hlutabréfavístitalna frá öllum heimshornum. Fréttir um að eitt fyrirtæki hefði keypt annað og það þriðja hafi greitt milljarðatugi í arð voru daglegt brauð. Forsetinn var virkur þátttakandi og hefði sérstöðu sem farandpredikari þess sem síðar reyndist svik og prettir. Hann gekk til verka með bros á vör og sauðsvartur almúginn varnarlaus. Forsetinn, fjölmiðlarnir, stjórnmálamennirnir og eftirlitskefrið - allt brást.

Hjálmtýr V Heiðdal, 25.2.2011 kl. 10:00

8 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

eftirlitskerfið hjá mér brást - bið forláts á innsláttarvillum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 25.2.2011 kl. 10:02

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að kröfuhafar í þrotabú gömlu bankana sem eru öll helstu fjármálafyrirtæki heims eru nú með í gangi málaferli sem ætlað er að hnekkja neyðarlögunum.

Færustu lögspekingar heims vinna nú að því að fá neyðarlögunum hnekkt. Verði neyðarlögunum hnekkt þá eignast þessir kröfuhafar þrotabúið. Verðmæti þess er um 1.200 milljarðar. Þessir aðilar munu ekki gefa þessa 1.200 milljarða eftir baráttulaust.

Verði neyðarlögunum hnekkt fyrir dómi þá verða innistæður ekki lengur forgangakröfur í þrotabúum bankana.

Það þýðir að við getum ekki notað eignir þrotabús Landsbankans til að greiða Icesave.

Ef við samþykkjum ríkisábyrgð á Icesave og neyðarlögunum verður hnekkt og við fáum ekki krónu úr þrotabúi Landsbankans upp í Icesasve þá þarf ríkissjóður samt að borga þessar 1.200 ma.

Þess vegna hafa Bretar og Hollendingar sótt það svo fast að fá þessa ríkisábyrgð. Þeir óttast að neyðarlögunum verði hnekkt og ef það gerist þá verður að vera ríkisábyrgð á Icesave þannig að við neyðumst til að taka fé úr ríkissjóði til að borga Icesave.

Verði neyðarlögunum hnekkt þá falla 1.200 milljarðar á ríkisjóð.

Þess vegna má ekki samþykkja Icesave.

Það má ekki veita þessa ríkisábyrgð.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 14:31

10 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég veit ekki betur en að það hafi verið talið til skinsemda að menn leiðréttu stefnunna þegar skekkjan varð ljós.  Þó að Ó. Grímsson hafi ekki verið minn maður þá kann ég honum miklar þakkir fyrir að hafa hafnað Icesave II. Og III. Og þar með gefið þeim sem eiga að borga, tækifæri til að segja sitt álit. 

Núverandi ríkisstjórn hefur allt á hornum sér vegna þess að fólkið sem átti að borga þennan skemmtiþátt Steingríms, Jóhönnu og Svavars fékk að segja sitt álit, og það sama er uppi nú.  Það er rétt fyrir öfgamenn sem og aðra að hafa það í huga ævinlega, að stjórnvöld á hverjum tíma eru í vinnu hjá þeim sem gefa þeim umboð. Tilhvers er samnefnari þjóðar ef ekki til að standa vörð um hagsmuni hennar og vilja?  Má þjóð ekki hafa álit? 

Það er ekki öllum gefið að fá aula hroll, en til hamingju með hann þið vitringar.   Límið í öfgamönnum er nokkuð gott og þolir sprungusvæði, en skinsemi og öfgar passa illa saman, jafnvel  þó froðan sé mikil.

 

   

 

 

Hrólfur Þ Hraundal, 25.2.2011 kl. 15:21

11 Smámynd: Björn Heiðdal

Hvers vegna er ekki gerð sú sjálfsagða krafa að fangelsa Björgólfana og Sjálfstæðisflokkinn.  Væri ekki nær að hamast á þeim sem stálu þessum peningum frekar en Óla grís. 

Nei, alveg rétt.  Það er ekki í tísku hjá ríkisstjórnarbloggurum:)

Björn Heiðdal, 26.2.2011 kl. 10:15

12 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Athugasemd þín Björn er þannig að eitt eigi að útiloka annað. Þeir sem skrifa gegn loftfimleikum ÓRG eru sem sagt ekki hlynntir eða áhugasamir - eða vilja ekki - (eða eitthvað annað sem þú hlýtur að upplýsa um fljótlega) um aðför að Flokknum og feðgunum frægu. Og þú reynir að botna málið þanniga að það sé háð tísku. Þarf ég að skrifa lengra mál eða ertu búinn að fatta hvað þú ert með flatneskjulega nálgun? Ertu með textatillögu fyrir handtökuskipun á Sjálfstæðisflokkinn? Og þá meina ég texta sem byggir á landslögum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.2.2011 kl. 12:49

13 Smámynd: Pétur Harðarson

Þessi togstreita á milli vinstri og hægri afla er orðin þreytt og leiðinleg og gerir lítið annað en að flækjast fyrir. Segjum að við gætum handtekið alla útrásarvíkingana strax og sett lögbann á Sjálfstæðisflokkinn. Hverju myndi það breyta? Færi ríkisstjórnin að vinna betur? Myndi atvinnulausum og fátækum fækka? Ég held ekki. Sjálfstæðisflokkurinn má fara mín vegna og kannski væri það til að friða einhverja en það breytir því ekki að þessi ríkisstjórn er einfaldlega ekki að standa sig og þarf að stíga frá.

Pétur Harðarson, 27.2.2011 kl. 01:30

14 Smámynd: Björn Heiðdal

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna Ólafur, maðurinn sem innleiddi þjóðaratkvæðagreiðslur inn í íslenskan samtíma, fær slíkar gusur frá þér en ekki þeir sem tóku peninginn.  Ekki ein einasta færsla um þá sem tóku milljarða úr bönkunum og settu í eigin vasa.  Ekki ein einasta!!  Bara, Davíð, ljóti Sjálfstæðisflokkurinn, ennþá verri Framsóknargrýla og kjánarnir sem kusu Nei síðast.

Best er nú samt þegar þú kvartar yfir orðavali þeirra sem skrifa hérna en notar álíka einræðisilegt orðaval sjálfur í öllum tilvikum þegar það hentar.  Nú er ég ekki að kvarta undan því í sjálfu sér aðeins að benda þér á þetta.

Björn Heiðdal, 27.2.2011 kl. 11:05

15 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ef ég skrifa um ástandið og nefni ekki alla sem hafa gert eitthvað misjafnt hverju sinni þá mátt þú ekki í einfeldni þinni draga þá ályktun að ég sé þar með að draga úr glæpum einhverra sem ég nefni ekki það skiptið.

Hjálmtýr V Heiðdal, 27.2.2011 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband