6.4.2011 | 08:36
Icesave málið er prinsipmál
Hvernig sem já-sinnar eða nei-sinnar velta Icesavemálinum fyrir sér og ræða dómstólaleiðina eða aðra mögulega niðurstöðu þessa máls þá er í raun aðeins ein leið til að meta það.
Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.
Allir sem setja fé á bankareikning ætlast til þess að peningarnir séu til staðar þegar þeim hentar að taka féð út aftur. Bankar verða að vera öruggar stofnanir, jafnvel þótt þeir hafi verið einkavinavæddir.
Þetta er svo augljóst að það ætti varla að þurfa að benda á þetta - en í öllum látunum kringum þetta mál þá er eins og að sumir hafi gleymt þessari grundvallarreglu.
Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu. Banki má ekki mismuna Englendingi sem býr í Reykjavík og geymir sitt sparifé í útibúi bankans í Reykjavík gagnvart Englendingi sem býr í London og geymir sitt fé í útibúi sama banka í London. Sama gildir um Íslendinga sem búa á Íslandi eða í Englandi. Allir innistæðueigendurnir skulu eiga sömu réttindi og sofa því sælir í sínum heimabæ.
Þetta er grundvallarreglan í Icesavemálinu. Nú er ljóst að neiti Íslendingar að ganga frá málinu með fyrirliggjandi samningi þá eru þeir að segja að þessi regla sé ekki í gildi. Það má mismuna.
Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin kúgun (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).
Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima. Og nú er búið að semja um að íslenska ríkið standi með sama hætti að baki tryggingasjóðnum gagnvart erlendum innistæðueigendum. Sem betur fer þá duga eiginir þrotabús Landsbankans næstum fyrir allri greiðslunni.
Segjum já!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Facebook
Athugasemdir
Þú segir prinsipmál. Af hverju viltu þá ekki borga gömlu konunni á Guernsey sem missti allt sitt eða viltu það? Þú segir líka að þetta mál snúist um venjulega sparifjáreigendur og einkabankar verði að hafa ríkissábyrgð. Ef Icesave hefði verið komið í öll Evrópulönd og væri 100 sinnum stærra. Tryggingasjóður galtómur og forsendur svipaðar og þær eru í dag. Líka 100% ríkisábyrgð?
Ef þú ert prinsipmaður þá segir þú Já við báðum þessum spurningum. Ef þú blaktir eins og Össur í vindi þá segir þú eitthvað annað eða ekki neitt.
Björn Heiðdal, 6.4.2011 kl. 09:09
Fín og góð útskýring. Þetta er algerlega augljóst.
Björn Heiðdal: Er Guernsey á EES svæðinu?
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 09:13
Þegar banki býður ávöxtunarreikning sem gefur það háa vexti að hægt er að fara í annan banka, taka þar lán, leggja inn á þennan reikning og koma út með gróða, ættu allir fjárfestar að sjá að dæmið gengur ekki upp.
Staðreyndin er sú að flestir þeir sem lögðu inn á þessa reikninga og allir sem áttu þar upphæðir yfir 20.880 evru markið, vissu þetta, en tóku áhættu.
Gunnar Heiðarsson, 6.4.2011 kl. 09:26
Björn frændi - prinsipið er: lágmarkstrygging innistæðna og jafnræði. Nú veit ég ekkert um vinkonu þína á Guernsey en vona að hún hafi fengið sína lágmarkstryggingu.Ef áætlun Landsbanakmanna um að opna Icesave í 11 löndum hefði gengið eftir þá væri það skínandi dæmi um það hve eftirlitsleysið var á háu stigi hér heima. Yfirvöld í Hollandi og Englandi reyndu að grípa inní en það var orðið of seint og Dabbi var búinn að lýsa því yfir að þetta væri allt tryggt og í öruggum höndum.
Gunnar Heiðarsson, það má vera að gylliboð Landsbankans hafi dregið að sér fólk sem vildi hærri ávöxtun. En það breytir engu um réttindi þeirra um lágmarkstryggingu. Þetta hlýtur þú að skilja - þú hefur einhverntíman lagt peninga í banka - er það ekki?.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 09:47
Það er venjulegum sparifjáreiganda til hagsbóta að hryðjuverkamaður verði leiddur fyrir dóm. Venjulegur sparifjáreigandi segir nei við Icesave.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 10:17
Blessaður kæri Hjálmtýr !
Það sem ég held að sé aðalástæða þess að þú villt segja já er að þú óttast að nei skaði aðildarumræður okkar inn í ESB.
Er það rétt hjá mér ?
Er ekki full dýr miðinn inn í ESB og er ekki frekar slöpp byrjun ef við byrjum strax að lúffa fyrir öllu sem ESB elítann skipar okkur til að gera ? Hvernig heldur þú að framtíðin verði ef við stöndum ekki í lappirnar núna heldur fórum inn í þetta samband með skottið milli lappana ?
Þú talar um prinsip mál og réttindi erlendu sparisjóðseiganda. Hvað með mín réttindi ?
Ég segi nei.
Skilaðu kveðju til þér og þinna.
Þröstur Heiðar Guðmundsson, 6.4.2011 kl. 11:23
Sæll Þröstur
Þetta er stór hluti af mínum áhyggjum - ESB innganga er nauðsynleg að mínu mati.
Vertu ekki að tala um „ESB elítu“ og annað slíkt - þetta er ekki málefnalegt.
Þínir hagsmunir og réttindi er það sem ég er að hugsa um.
Bið að heilsa norður.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 11:44
Það mætti umorða 2. málsgrein hjá þér og hafa hana svona:
Það er óverjandi að íslensk alþýða axli vaxtaberandi tryggingu vegna ríkisábyrgðar á falli einkabanka. Hinn venjulegi sparifjáreigandi í Bretlandi og Hollandi er búinn að fá sitt. Enda er þetta ekki neitt hitamál í augum bresks almennings, sbr. þetta.
Ég segi nei á laugardaginn. Að segja Já jaðrar við brjálæði.
Haraldur Hansson, 6.4.2011 kl. 12:37
Þetta snýst um innistæðueigendur.
Að segja að þetta snúist aðeins um íslenska skattgreiðendur er rangt.
Auðvitað snýst þetta um innistæðueigendur svo og skattgreiðendur.
Þegar Icesave var opnað, þá mótmæltu íslenskir skattgreiðendur því ekki.
Icesave er hluti af þeirri ábyrgð að vera hluti af samfélagi, af þjóð. Þjóð sem er í EES.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 12:47
Sæll Haraldur
Þú ert ekki að skilja mín skrif og því rangt að reyna að leiðrétta þau. Skattgreiðendur bera vissulega kostnaðinn af hruninu, bæði einstaklingar og fyrirtæki sem greiða skatta og skyldur. Og það gildir jafnt í Englandi, Hollandi og Íslandi. Eins og Stefán bendir á þá er þetta spurning um ábyrgð og samspil manna í viðskiptum þjóða. Ef Íslendingar vilja að þeir séu teknir alvarlega í samskiptum (eins og þeir voru áður) þá verða menn að setjast niður og hugsa. Þá rennur það kanski upp fyrir mönnum að hið kristilega boðorð: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“
Ef sumir Íslendingar (þú?) vilja að þeir séu með sérreglur og geti mismunað öðrum þá geta þeir ekki vælt yfir gjörðum annarra þótt þær séu þeim andstæðar.
Svona er lífið oft einfalt - þetta sérð þú eftir smá yfirvegun.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 13:27
Týri,
Sú ráðstöfun að tryggja allar innstæður í bönkum á Íslandi var neyðarráðstöfun. Hún var til þess fallin að koma í veg fyrir allsherjar hrun og upplausn í landinu. Almennt er þessi réttur viðurkenndur þ.e.a.s. að ríki geti sett neyðarlög til verndar samfélagsstoðunum. En neyðarlögin okkar miðuðu líka að því að koma til móts við innstæðueigendur erlendis með því að veita þeim forgang í þrotabúið. Bjartsýnustu menn telja nú að þrotabúið geti staðið undir þessu öllu og því ætti ekki að vera mikil hætta á ferðum. Ef hins vegar neyðarlögunum yrði hnekkt fyrir dómi, væri ákaflega erfitt fyrir okkur að hafa kosið yfir okkur og viðurkennt ríkisábyrgð á öllum pakkanum. Ef við segjum nei munum við þó eiga vonarglætu ef þetta gerist. Þess vegna segi ég að Nei sé miklu öruggari kostur, og reyndar óþægilegt að þurfa að kjósa um þetta á meðan óvissan um neyðarlögin hangir enn yfir.
Björn frændi þinn benti þér líka á að þú værir líklega ekki eins áfjáður í að taka á þig þessar skuldir ef þær væru t.d. 50 sinnum hærri.
Svo má kannski minna á að innstæður á íslandi voru ekki tryggðar með innstæðutryggingasjóð, heldur var það gert með kennitöluflakki, svipuðu því sem yfirvöld ætla nú að fara að setja lög á - sem er náttúrulega bráðfyndið.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 16:10
Gunnar - neyðarrétturinn fólst í því að tryggja allar innistæður upp í topp. þessar íslensku innistæður voru að sjálfsögðu tryggðar með lágmarkstryggingunni. Ekki vera að flækja málið með þínum einbeitta brotavilja.
Ef neyðarlögunum verður hnekkt þá hefur það' ekki með tryggingasjóðinn að gera - hann er fyrir lágmarkstryggingu og er grundvöllur bankasystemsins eins og þú veist ef þú hugsar málið.
Aðgerðir stjórnvalda í hruninu voru m.a. til þess að tryggja greiðslukerfi landsins. Það hefði orðið hopp og hó ef kredit- og debetkortin hefðu hætt að virka.
Björn frændi er grínisti að eigin áliti og er nýfarinn til Guernsey til að hitta gamla konu sem hann vonar að sé rík ekkja.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 16:40
"Ef neyðarlögunum verður hnekkt þá hefur það' ekki með tryggingasjóðinn að gera"
Ég veit ekki hvort þú skiljir málið eða bara vilt ekki skilja. Forsenda þess Týri að fyrirliggjandi samningur komi út eins og bjartsýnustu menn eru að vona er sú að neyðarlögin haldi gildi sínu, því eignir tryggingasjóðsins hrökkva engan veginn fyrir þessu. Ef breski og hollenski tryggingasjóðirnir fá ekki forgang í eignir þrotabúsins, mun það bitna á íslenska tryggingasjóðnum að greiða meira. Eignirnar í okkar sjóði eru náttúrulega bara dropi í hafið uppí icesave pakkann, en þar ætlar þú að hlaupa undir bagga og gangast í ábyrgð. Íslenski tryggingasjóðurinn hefur ekki verið hreyfður frá hruni og ekkert úr honum greitt. Kynntu þér málið.
Nýju bankarnir voru settir á fót með kennitöluflakki þar sem eignir (lánin okkar) úr gömlu bönkunum voru tekin á móti skuldum (innstæðum), afgangurinn var svo skilinn eftir í hinum gjaldþrota bönkum. Ég vona að þetta sé ekki of flókið fyrir þig að skilja.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 17:11
Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.
Hver sá sem leggur fé sitt inn á banka veit það núna að samkvæmt reglugerðum þá er hæsta mögulega endurgreiðsla 20.887 evrur (nema annað sé tekið sérstaklega fram), við almenningur vorum bara látin halda að það væri full ábyrgð, svona er þetta bara.
Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu.
Engum var mismunað eftir þjóðerni eða búsetu, það var mismunað eftir því hvar innistæðan lá, ekki hver átti hana eða hvar hann bjó. Bretar hafa sjálfir gert þetta að mismuna eftir útibúi svo það er komið fordæmi sem við erum bara að fylgja, einnig er réttur hvers lands að verja sitt eigið hagkerfi hærri heldur en jafnaðarreglan.
Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga „ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna“. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin „kúgun“ (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).
Ef krafan er ólögvarin og það er beitt hótunum til að fá samþykki (Ekkert esb, engin lán, engir samningar etc etc) þá er þetta ekkert annað en kúgun, hvernig skilgreinir þú annars kúgun?
Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima.
Landsbankinn var einnig með innistæðutryggingu erlendis, svo ef innistæðutryggingakerfið hér heima er ekki nógu öflugt til að standast undir kostnaði við endurgreiðslur þá ber hinu kerfinu að bæta við því sem upp á vantar.
Þetta var ekki trygging þannig séð, eignir (útlán) og skuldir (innlán) bankans voru keypt út úr gamla bankanum og færð á nýja kennitölu (nýtt fyrirtæki).
Íslenska innistæðutryggingakerfi var fullkomnlega löglegt, það var nýlega búið að yfirfara það stuttu fyrir hrun af ESB og ekkert var út á það að setja, svo er tekið skýrt fram í lögum um innistæðutryggingakerfi að ríkisábyrgð sé ekki leyfileg ef búið er að koma á fót innistæðutryggingakerfi.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.4.2011 kl. 17:16
Maybe I Should Have, hét myndin með gömlu konunni á Guernsey. En íbúar þar sem lögðu inn á Icesave fá ekki krónu með gati frá breskum stjórnvöldum. ESB tryggingin nær ekki þangað og ekki heldur til líknarfélaga, sveitastjórna, o.s.fr. í Bretlandi. Er sanngjarnt að þessir aðilar fái ekkert. Ég segi Nei, það er ekki sanngjarnt. Og ef þetta er bara prinsipmál um að borga Icesave þá á líka að borga þessum aðilum. Annað gengur bara alls ekki!!
Björn Heiðdal, 6.4.2011 kl. 17:50
Þetta Icesave snýst um þetta á Heimasíðu FSCS UK:
http://www.fscs.org.uk/what-we-cover/products/investments/eea-top-ups/
Birgir Rúnar Sæmundsson, 6.4.2011 kl. 17:50
,,Engum var mismunað eftir þjóðerni eða búsetu, það var mismunað eftir því hvar innistæðan lá, ekki hver átti hana eða hvar hann bjó."
Nuuú, mar mismununin svoleiðis já. Ok. þá er þetta í lagi.
Og ætliði með svona upplegg ,,fyir dóm" eða?
Svo finnst mér skrítið og eg er ekki viss um hvernig tekið verður í það, að þið skulið vilja að innstæður á SP-Kef verði þurkaðar út. Það var verið að bjarga þeim bara í gær. Eða hvað - áttuð þið kannski eitthvað þar inni?
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.4.2011 kl. 18:34
,,Þetta Icesave snýst um þetta á Heimasíðu FSCS UK:
http://www.fscs.org.uk/what-we-cover/products/investments/eea-top-ups/"
Og?
Ef þú ætlar að fara að endurtaka einhverja ,,icesave-sprengju" sem Loftur&Kó eru með þessa daganna - þá er það upplegg u.þ.b. það heimskulegasta sem eg hef nokkru sinni heyrt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.4.2011 kl. 18:37
Gunnar Jóhannsson. Það ákvæði neyðarlaganna að setja innistæður í forgang var nauðsynleg neyðarráðstöfun til að tryggja að greiðslukerfi héldist gangandi á Íslandi. Það hefur verið viðurkennt af ESA. Það hefur hins vegar ekki verið viðrueknnt af neinum að það að tryggja innistæður á Íslandi upp í topp hafi verið nauðsynlegt til þess. Það hefði nægt að tryggja eitthvert lágmark eins og til dæmis 10 eða 20 milljónir eða jafnvel bara 3 milljóna lágmarksinnistæðuna.
Þess vegna er borin von að misnunun milli innistæðueigenda eftir því hvar þeir áttu sína reikninga standist EES reglur né heldur jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar fari málið fyrir íslenska dómstóla.
Halldór Björgvin Jóhannsson. Það er líka ólöglegt að mismuna innistæðueigendum í sama banka eftir því hvar þeir áttu sína reikninga. Það er jafn ólöglegt að mismuna eftir þjóerni óbeint eins og beint samkvæmt EES reglum. Vissulega getur það hugsanlega staðist að íslenska ríkið greiði íslenskum innistæðueigendum mismunin á því sem þeir fá úr þrotabúinu og því sem þeir áttu inni og tryggi innistæður þannig upp í topp. Það er þó ekki víst. Hins vegar höfum við ekki farið þá leið heldur tókum við þá upphæð úr þrotabúinu og þar með frá öðrum innistæðueigendum. Slíkt er þjófnaður úr þrotabúi. Við munum aldei fá það viðurkennt að eðlilegt sé að Bretar og Hollendingar greiði kostnaðinn við að tryggja íslenskar innistæður í topp í íslenskum banka.
Íslenskar innistæður í Landsbankanum voru 470 milljarðar. Miðað við það að þrotabúið dekki 90% af innistæðum þá er beinn kostnaður við að tryggja íslenskar innistæður upp í topp 47 milljarðar. Það nær ekki einu sinni þeirri upphæð sem við þurfum að greiða fyrir Icesave samningin ef áætlanir ganga eftir. Ef þrotabúið dekkar aðeins 80% af innistæðum er þessi kostnaður 94 milljarðar.
Fyrir utan það að standast engin lagaákvæði þá stenst það heldur enga útgáfu af sanngirni að Bretar og Hollendingar greiði þennan kostnað. Þessi kostnaður fellur vegna laga frá Alþingi og því ber ríkissjóður Íslands ábyrgð á að greiða þann kostnað.
Sigurður M Grétarsson, 6.4.2011 kl. 18:40
Það er líka ólöglegt að mismuna innistæðueigendum í sama banka eftir því hvar þeir áttu sína reikninga.Það er jafn ólöglegt að mismuna eftir þjóerni óbeint eins og beint samkvæmt EES reglum.
Það var enginn mismunun eftir þjóðerni eða búsetu, hvorki beint eða óbeint. Hollendingar og bretar ákváðu sjálfir að borga út til innistæðueigenda í sínum löndum án þess að ráðfæra sig við Íslenska aðila, þarna eru þeir búnir að ákveða að taka ábyrgð á þeim innistæðum sem eru þarna erlendis og ber því ríkissjóður Íslands engar ábyrgðir á því sem þeir eru að greiða út, einnig eru þeir að ræna frá íslenskum almenningi í Icesave 3 samningnum þegar þeir heimta að þrotabúið borgi fyrir meira en lágmarkstryggingu og að ríkið borgi helming af því sem upp á vantar.
og Hollendingar greiði þennan kostnað. Þessi kostnaður fellur vegna laga frá Alþingi og því ber ríkissjóður Íslands ábyrgð á að greiða þann kostnað.
Bretar og hollendingar eru ekki að fara bera þann kostnað, þeir fá allan þann pening sem þarf upp í að greiða lágmarkskröfur út úr þrotabúinu, þeir hinsvegar vilja meira.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.4.2011 kl. 20:14
það er glórulaust að skattgreiðendur eigi að vera tryggingarsjóður fyrir sparifjáreigendur. það leiðir af sér óábyrg viðskipti og kærileysi í því hverja menn kjósa að eiga viðskipti við.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.4.2011 kl. 20:48
Er það rétt að Landsbankinn hafi keypt tryggingu vegna Icesave í Bretlandi?
Er það rétt að þessi sjóður hafi greitt út innstæður Breta í Icesave upp að 50 þús evrum?
Samkvæmt því sem kemur fram á FSCS virðist þetta vera raunin
Þetta kemur heim og saman við það sem mér var sagt af aðila sem þekkir vel til í málefnum Landsbankans og Icesave.
Í tilskipun ESB er heimild til að takmarka ábyrgð á innstæðum fagfjárfesta, s.s. ríkja, sveitarfélaga, tryggingafélaga o.s.frv.Viðskiptaráðuneytið fékk ábendingu um það árið 2006 að e.t.v. væri rétt að nýta heimildina. Hinn 30. maí 2007 skipaði nýr ráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, nefnd til að yfirfara ákvæði laga um innstæðutryggingar. Nefndin átti að ljúka störfum í september sama ár. Nefndin hélt fjölmarga fundi en innleiddi aldrei tilskipunina.
Þegar ég leitaði eftir skýringu á því í byrjun árs 2009 hvers vegna umrædd tilskipun var ekki innleidd var mér tjáð að það hefðu verið vegna þess að stjórnendur landsbankans hefðu keypt tryggingu upp að 50 þúsund Evra. Því væri þessi tilskipun óþörf.
Því er nú haldið fram að þessari tryggingu hafi borið að bæta breskum innstæðueigendum innstæður sínar upp að 50 þúsund EVRA. Sögur herma einnig að það hafi verið gert.
Hvers vegna hefur RUV ekki fjallað um þetta?
Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki fjallað um þetta?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.4.2011 kl. 20:49
Það er ekki rétt að neyðarlögin hafi komið hinum almenna íslendingi vel. Með neyðarlögunum var leikreglunum breytt á einni nóttu, innistæður voru tryggðar, verðbólgan fór á flug með tilheyrandi hækkun verðtryggðra lána. Þrátt fyrir hástemmd verðbólgumarkmið vernduðu neyðarlögin ekki skuldarar þessa lands, né lífeyrissparnað borgaranna. Í kjölfarið var svo farið inn á heimili landsins og þau rænd um eignahlut sinn í húsnæði í gegnum verðtrygginguna.
Með því að breyta leikreglunum með neyðarlögunum sem sett voru undir miðnætti 6. október 2008 var fyrirhyggja margra íslendinga gerð að engu og þeir rændir ævistarfinu. Til að lýsa þessu get ég best tekið persónuleg dæmi;
Eins og margir þá höfum við hjónin lagt okkur eftir að eiga íbúðarhúsnæði heimilisins, sem er 90 m2 blokkaríbúð. Eftirstöðvar skulda miðað við upphaflegt kaupverð voru um 50% við hrun, ef miðað var við markaðsverð þá voru þær ca. 30%. Árið 2007 keyptum við aðra íbúð í raðhúsi sem þurfti verulegra endurbóta við og þar sem ég er iðnaðarmaður taldi ég mig í þokkalegum málum að fá hana á 75% af markaðsverði. Með því að greiða 10% af kaupverðinu með sparnaði heimilisins þá var skuldahlutfallið ekki hátt. Eftir að hafa lagt í endurbætur þannig að íbúðin var sem ný, var húsnæðismarkaðurinn botn frosinn á árinu 2008. Í dag er þessi íbúð búin að falla um 30% í verði samkvæmt faseignamati. Þó svo að við höfum greitt af báðum þessum eignum þá er eignarhluturinn í þeim á núlli samkvæmt skattframtali rúmum 2 árum eftir hrun.
Svo til alla mína starfsæfi hef ég unnið við eigin atvinnurekstur, tengdan byggingariðnaði. Árið 2008 voru fyrirtækin mín tvö. Annað verktakafyrirtæki í byggingariðnaði með 10 manns í vinnu auk þess að reka sérverslun með flísar og baðtæki. Hitt fasteignafélag sem leigir út húsnæði. Árin 2008-9 urðu margir af mínum stærstu viðskiptavinum gjaldþrota, verkefnin gufuðu upp, tapið er ómælt. Skuldir fasteignafélagsins stökkbreyttust.
Bæði fyrirtækin voru byggð upp í samstarfi við aðra, verktakafyrirtækið keypti ég svo af félögum mínum seint á árinu 2007. Það hefði þurft 2 - 3- þokkaleg ár til að komast slétt frá þeim kaupum. Fasteignafélagið á ég svo með öðrum félaga. Tveir af þremur félögum mínum í þessum atvinnurekstri eru fluttir til Noregs. Þeir fluttu þangað fyrir rúmu 1 1/2 ári síðan til að hefja nýtt líf. Ég sé óumræðanlega eftir þessum vinum mínum yfir hafið. Og kemur oft í hug það sem annar þeirra sagði; "Maggi ég sé ekki betur en komandi ár á Íslandi verði hreint helvíti. Ég ætla ekki að eyða seinni hluta ævinnar í að borga húsið mitt aftur".
Frá árinu 2005 hafði ég keypt gjaldeyrir fyrir afgang tekna og lagt hann inn á gjaldeyrisreikning. Ég hafði gætt að því að fara ekki uppfyrir 20 þús. evrurnar sem sagðar voru tryggðar með innistæðutryggingu, frekar lagt það í að greiða niður skuldir. Nú má ætla að þesskonar fyrirhyggja hefði átt að koma sér vel við fall bankanna. Svo reyndist ekki nema að hluta, gengið hefur ekki verið rétt skráð frá hruni og ómögulegt reyndist að fá innistæðurnar greiddar út í erlendri mynt ég varða að skipta því sem ég hef þurft að nota á íslenska genginu.
Miðað við leikreglurnar fyrir hrunið 2008 var það einfaldlega svo að hver gat verið sinnar gæfu smiður. Neyðarlögin breyttu öllum forsemdum ég hef oft velt því fyrir mér hvaða Íslendinga þau vernduðu umfram icesave innistæðuhafana. Eftir því sem frá líður get ég aðeins getið mér þess til, því ég þekki engan persónulega.
Magnús Sigurðsson, 6.4.2011 kl. 21:31
,,Því er nú haldið fram að þessari tryggingu hafi borið að bæta breskum innstæðueigendum innstæður sínar upp að 50 þúsund EVRA. Sögur herma einnig að það hafi verið gert.Hvers vegna hefur RUV ekki fjallað um þetta?Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki fjallað um þetta?"
Já afhverju. Eg skal svara.
Af því að, einfaldlega, að þetta er u.þ.b. það heimskulegasta sem þið öfga sjallar hafið komið með só far.
Svo heimtið þið að fá að kjósa um þetta.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.4.2011 kl. 22:02
Hvað lástu lengi undir feldi Hjálmtýr, til að finna þessa snilld út? Tek þó undir að þetta er prinsippmál, þótt ekki sé það eins og þú heldur. Prinsippið stendur um það að ná því fordæmi að braskarar framtíðarinnar þurfi aldrei að bera ábyrgð á Nígeríusvindli sínu, því skal dömpað á samneysluna. Bankabrask verður áhættulaust þar eftir. Nærðu þessu?
Varðandi það prinsipp, sem þú af ótrúlegri glámskyggni hefur fundið, þá vil ég spyrja þig að því hvort það sé þá málið að gera ríkissjóði ábyrga fyrir innistæðum manna? Jafnvel þeirra, sem í græðgi sinni lögðu undir í Nígeríusvindl á borð við Icesave? Þú veist náttúrlega ríkið þarf að ná þessu til baka með skattahækkunum og öðrum fantaskap? Heldur þú að þetta fyrirkomulag sé vilji almennings og stjórnvalda um víðan völl?
Ég get frætt þig um að hvergi í heiminum standa sjálfstæðir tryggingasjóðir undir falli banka. Ekki einu sinni eins meðalstórs banka. Það er enginn áhugi fyrir því að binda svo stórar upphæðir. Það er í raun ekki hægt, en það má engin vita það. Bankar eru í eðli sínu gjaldþrota í ofanálag. Velgengni þeirra og fall byggist á orðrómnum einum. Þetta veistu náttúrlega.
Þú ert hér að leggja til (og ég held svei mér að þú trúir því að það sé vit í þessu) að rekstur banka verði áfram í höndum einkaaðila en ábyrgðir af ríkinu. Er ég kannski að misskilja þig? Þú kemur hér með einhver tilfinningarök um að setja okkur í spor annarra. Ég get sagt þér hvað ég hefði hugsað ef ég hefði lagt allt í Icesave. Ég hefði gert það fyrir auglýsta ávöxtun, sem var too good to be true en látið slag standa af því að ég var gráðugur. Ef svo þetta hryndi, þá hefði sætt mig við tapið og skammast mín, rétt eins og ég hefði verið dreginn á asnaeyrunum til Nígeríu til að leysa út milljarðabréf einhvers látins hershöfðingja gegn þóknun.
Ég veit ekki í hvaða loftbólu þú býrð, en svona er þetta bara ekki. Það má þó segja að þessum vesalings sparifjáreigendum í Icesave til varnar (sem voru að mestu ofursparieigendur og heilu sveitafelögin auk "góðgerðarsjóða", sem í raun er annað nafn yfir skattaskjól og undansláttarleið) að sparifé þeirra var tryggt af tryggingasjóði í Bretlandi og í því trausti öktuðu þeir. Þetta má þó ekki hafa hátt um, eða hvað.
Allavega þetta er sú aumasta réttlæting fyrir að taka nauðguninni sem enn hefur komið fram í öll þessi ár sem ég hef fylgst með málinu og get ég ekki annað en gratúlerað með það.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.4.2011 kl. 22:02
Kæri Jón Steinar
Hjálmtýr Heiðdal er prinsipmaður og þess vegna vill hann borga Icesave. Það hefur líka komið fram í hans máli fyrir nokkru síðan að honum finnist að íslenska þjóðin þurfi að læra lexiu af þessu. Hún þurfi líka að vera dýr svo brennt barn(íslenska þjóðin) forðist eldin í framtíðinni. Og svo er líka gott að fá á baukinn öðru hvoru til að koma manni niður á jörðina.
Þess vegna hefði ég haldið að hann vildi borga allt upp í topp í þessu Icesave máli. Hverja einustu krónur með vöxtum og vaxtav0xtum. Það hefði prinsipmaðurinn gert með bros á vör. En í þessu tilviki vil Tyri semja og fá að borga eins lítið og mögulegt er. Sleppa gömlu konuni í Guernsey og líknarfélögum í Bretlandi o.s.fr.
Hjálmtýr er því ekki 100% borgunarmaður í þessu máli heldu diplómat sem vill semja um lægstu mögulegu greiðslu. Ég sé því ekki betur en þú og frændi minn séu í sama liðinu en spilið á sitt hvort markið
Björn Heiðdal, 7.4.2011 kl. 08:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.