21.7.2011 | 13:53
Eina leiðin
Þegar málefni Ísraels og Palestínu ber á góma hérlendis þá verða ætíð mjög fyrirsjáanleg viðbrögð hjá hópi manna sem styður þjófnað Ísraels á landi frumbyggja Palestínu.
Nú síðast kviknaði umræða vegna ferðar Össurar utanríkisráðherra á fund Palestínumanna.
Viðbrögð stuðningshópsins byggjast aðallega á því að gera alla sem ekki fallast á framferði Ísraels gagnvart Palestínumönnum tortryggilega. Þeir eru sagðir óupplýstir um raunverulegan gang mála, stuðningsmenn hryðjuverkamanna og gjarnan er því bætt við að gagnrýnendur Ísraels séu gyðingahatarar.

Ólafur Jóhannsson, formaður samtakanna Zion, vinir Ísraels segir að Össur þekki ekki aðstæður þeirra sem hafa búið þarna. Ég hef búið þarna lengi og þekki vel til.Ólöf Einarsdóttir, íslensk móðir í Ísrael sem gift er ísraelskum gyðingi skrifar í Morgunblaðið það sem hann (Össur) hefur látið eftir sér hafa í blaðaviðtölum er lýsandi dæmi um skilningsleysi hans á stöðu mála hérna.
Nú er það svo að staða mála á þessu svæði er öllum augljós, bæði þeim sem styðja málefni Ísraels og hinna sem gagnrýna þá og styðja málstaða Palestínumanna.
Báðir aðilar vita að það er tekist á um landsvæði og að Ísrael tekur æ stærri hluta Palestínu af frumbyggjunum með hernaði og brottrekstri. Báðir vita að gyðingar telja sig eiga landið og báðir aðilar vita að Palestínumenn hafa barist gegn framrás Ísraela.Það þarf enginn að vera búsettur í Ísrael til að vita þetta og skilja aðstæðurnar.
Svo er hin það hliðin á þessu máli: Hvor aðilinn á meiri rétt til landsins? Ríkið Ísrael er afsprengi síonismans og Ísraelar eru flestir fæddir utan landsins eða afkomendur innflytjenda. Palestínumenn eru hinsvegar afkomendur fólksins sem hefur búið í landinu í þúsundir ára. Vandamálið verður flóknara vegna þess að menn blanda trúarbrögðum í málið.
Hin einfalda lausn er hinsvegar sú að menn fylgi samþykktum Sameinuðu þjóðanna, ákvæðum um mannréttindi og alþjóðalögum um samskipti þjóða.
Þetta er eina leiðin til þess að allir sem búa á hinu umdeilda landi, bæði Ísraelar og Palestínumenn, geti búið þar til framtíðar í friði og farsæld.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það væri lausn lausnanna ef aðilar fylgdu samþykktum Sameinuðu þjóðanna. En ef ég man rétt þá hefur Ísrael hundsað allar ályktanir S.þ. og komist upp með það, ólíkt öðrum ríkjum m.a. þarna í nágrenninu.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.7.2011 kl. 15:01
Þar liggur kanski hundurinn grafinn - eða hnífurinn í kúnni. Ísrael kemst upp með að sniðganga allar reglur og lög.
Hjálmtýr V Heiðdal, 21.7.2011 kl. 17:29
Hjálmtýr. Takk fyrir þennan pistil. Almenningur í þessum löndum í dag, er ekki upphafsfólk af þessu hörmulega stríði, heldur fórnarlömb, og á rétt á að lifa í friði og sátt, óháð því hverjir og hvers vegna þetta byrjaði allt, og hverjir eru að viðhalda stríðinu.
Hvernig á svo að hjálpa þessum þjóðum við að fá þann frið sem það verðskuldar, er vandasamara en flest í þessum heimi.
Össur þarf að heimsækja Ísrael líka, ef friður á að verða árangur af hans heimsókn til Palestínu. Það er eflaust svo eldfimt andrúmsloft þarna, að ekki þarf mikið til að ýfa upp allt það gamla og bitra á báða bóga. Að heimsækja annað landið en ekki hitt, virkar eins og olía á eld, sem allir vilja í raun slökkva, en ráða ekki við.
Ég get ekki sett mig í spor gyðinga, vegna þess að ég hef ekki einu sinni brot af þeirra lífsreynslu. Allt sem almennir gyðingar þurftu að þola að ósekju, með útskúfun og útrýmingar-aðgerðum, er ekki hægt að skilja, nema hafa upplifað. Og vera miskunnarlaust hraktir frá sínu landi, eða drepnir eins og Palestínumenn hafa þurft að þola, er líka óskiljanlegt fyrir þann sem ekki hefur upplifað.
Afleiðingar hryllingsaðgerða stríða skaðar í marga mannsaldra. Ísrael og Palestína eru skýrt dæmi um það.
Stjórnendur heimsins verða að skilja mikilvægi heimsfriðar, ef friður á að nást. En það er ósk sem ekki rætist strax, svo mikið er víst. Því miður.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.7.2011 kl. 17:44
Það sem við horfum upp á er að öfgamúslimar hafa gert börn og konur að fallbyssufóðri. Palestínska sjálfstjórnarsvæðið á Gaza er rekið einsog "death cult". Leiðtogar okkar á vesturlöndum hafa stofnað Ísrael og það hefur fest sig í sessi en er mjög veikburða og viðkvæmt. Þeir eru umkringdir óvinum og eiga hendur sínar að verja. Ég tel það fráleitt að tilslakanir við leitogana á Gaza muni leiða til annars en tíðari árása á Ísrael og gera ástandið enn verra jafnvel óverjandi. Það myndi þýða tortýmingu Ísraels og fjöldamorð á þeim sem eftir verða. Það verður að koma í veg fyrir slíkt með öllum ráðum. Palestínuarabar hafa átt raunverulegt val og kapítúlera og mennta sig og losa sig við spillta trúarleiðtoga með falskan þjóðrembuáróður sem þeir meina ekkert með annað en að slá ryki í augu "velmeinandi" vinstrimanna. Nú eiga þeir ekki þetta val? Hvers vegna skyldi það vera?
Gísli Ingvarsson, 21.7.2011 kl. 18:27
Við íslendingar sem engin áhrif getum haft á þessi bræðravíg í Palestínu (þmt Ísrael) eigum bara tvo kosti:
a) að styðja hvorugan
b) að styðja báða
Utanríkisráðherranum væri sæmst að halda sig við veislusalina í Brussel. Greinilegt er að hans framlag hefur ekki bætt ástandið þarna eystra.
Kolbrún Hilmars, 21.7.2011 kl. 18:49
Besta leiðin Kolbrún, er auðvitað að styðja báða, eina leiðin til þess er stuðningur við formlega stofnun Palestínu sem yrði sjálfstætt ríki við hlið Ísraels.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.7.2011 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.