22.8.2011 | 10:10
Menningarnótt
Ég sá um lítið atriði á Menningarnótt:
Gönguferð þar sem þátttakendur fá innsýn í sögu miðborgarinnar og líf og störf forfeðra sögumanns í borginni. Meðal þeirra sem kynntir verða til sögunnar eru Bernhöft bakari, Einar borgari, Ingibjörg kona Jóns Sigurðssonar, Þorlákur Ó Johnson kaupmaður og Jafet lóskeri hjá Innréttingunum sem bjó í Grjóta.
Ég fór þrjár ferðir og hátt í 200 manns röltu með mér. Fyrsta ferðin kl. 10 tókst vel eftir smá tafir af völdum Maraþonhlaupsins. Af einhverjum ástæðum þá töldu skipuleggjendur hlaupsins nauðsynlegt að spila tónlist á fullum dampi milli þess sem hópar þátttakenda hlupu af stað.
Ferð númer tvö, kl. 12, varð sú besta þótt víða þurfti að sveigja af leið vegna tónlistarflutnings.
Þriðja ferðin, kl. 14, varð verst úti því þá var byrjað að þenja hljóðfæri á mörgum stöðum. Á Austurvelli var töluverður hávaði frá mótorhjólamönnum sem þar sýndu listir sínar. Í Aðalstræti var tónleikahávaðinn svo mikill um kl. 15 að ég gat ekki fylgt áætluninni og flúði með minn hóp á kyrrlátari stað og varð ég því að sleppa hluta af mínu prógrammi.
Eftir þessa reynslu fór ég að velta fyrir mér hvort þessi yfirþyrmandi flutningur á popptónlist á Menningarnótt sé ekki kominn út fyrir æskileg mörk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.