9.1.2012 | 16:36
Falskur kór
Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Viðskiptablaðinu: http://www.vb.is/blog/skodun/68934/
Hún er svar við grein eftir Gísla Frey Valdórsson blaðamann Vb. Hans grein er neðar á síðunni. Myndin hér til hliðar sýnir fornleifauppgröft í Jerúsalem.
Falskur kór
Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður Viðskiptablaðsins, skrifaði grein í blaðið þ. 2. des. s.l. vegna viðurkenningar Íslands á sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Fyrirsögn greinarinnar Engin Palestína gefur tóninn.
Gísli gerir það að meginmáli að Palestínumenn hafa aldrei ráðið eigin ríki. Hann er í kórnum sem syngur þetta sama stef, enda er það einn af grunntónum síonismans og hefur verið sunginn hátt og snjallt í rúm 100 ár. Kannski veit Gísli ekki að hann er bakrödd í þessum gamla kór, og kannski veit hann ekki hvað hann syngur.
Aðrir kórfélagar sem hafa nýlega látið í sér heyra eru bandaríski frambjóðandinn Newt Gingrich sem segir Palestínumenn vera tilbúning, e. invented people, og Ólafía Jóhannesdóttir sem segir Palestínumenn vera þjóðleysu (í Mbl.). Áróðurinn um tilvistarleysi Palestínuríkisins hefur þann undirtón að það séu engir Palestínumenn til í raun.
Á þingi síonistahreyfingarinnar árið 1897 var samin fræg yfirlýsing um að Palestína væri land án þjóðar fyrir þjóð án lands (e. Land without people for people without land). Síonistar vissu þó að í landinu fyrirheitna (gjöf guðs til útvalinnar þjóðar) bjó um hálf milljón manns, þar af aðeins um 35.000 gyðingatrúar.En síonistar litu á íbúa Palestínu sem réttlausa aðkomumenn og lögðu strax á ráðin um brottrekstur þeirra.
Blaðamaðurinn Gísli birtist nýlega í þættinum Ísrael í dag, á sjónvarpsstöðinni Omega. Þar á bæ er rekinn linnulaus áróður fyrir stefnu síonista í Ísrael og Bandaríkjunum. Afstaða Omegamanna gagnvart Ísrael hvílir á trúarlegum grunni Gamla Testamentisins þar sem guðinn Jahve leiðir karlmenn, konur, börn og búfénað til slátrunar undir lúðrablæstri rétttrúnaðarins.
Síonisminn og Ísraelsríki byggja alla sína tilveru á goðsögnum Biblíunnar. Hugmyndir um endurkomu gyðinga til Palestínu eiga eingöngu uppruna sinn í þessum sögum. Það er ímyndun margra að landið helga væri til eilífðar frátekið fyrir útvalinn hóp manna, trúarhóp sem hafði talið sjálfum sér og heiminum trú um sannleiksgildi Gamla testamentisins. Stjórnmálamenn Vesturlanda, þ.á.m. íslenskir, trúðu blekkingunum um land án fólks fyrir fólk án lands.
Rannsóknir ísraelskra fornleifafræðinga undanfarin ár hafa sýnt þá niðurstöðu að frásögn Biblíunnar er röng; forn-Ísraelar voru aldrei þrælar í Egyptalandi og þeir lögðu ekki undir sig lönd Kananíta. Niðurstaða margra ára fornleifarannsókna í Jerúsalem sýna að glæsilegt ríki Davíðs og Salómons var í raun aldrei til. Og Ísraelar voru ekki reknir í útlegð af Rómverjum. Þeir sendu yfirstéttir og presta í útlegð en aldrei heilar þjóðir sökum þess að með því hurfu skatttekjurnar. Allar hugmyndir um endurkomu gyðinga og landsréttindi þeirra í Palestínu byggja á Biblíunni, en hún er ekki sagnfræðirit og hefur lítið sagnfræðilegt gildi (sjá Finkelstein og Silberman: The Bible Unearthed: Archaeologys New Vision of Ancient Israel).
Blaðamaðurinn Gísli skrifar að viðurkenning á sjálfstæðu ríki Palestínu vinni gegn hagsmunum Palestínumanna, tímasetningin sé röng og Palestínumönnum enginn greiði gerður með viðurkenningu á sjálfstæðu ríki. Forvitnilegt er að vita hvenær Gísli telur að viðurkenningin sé rétt tímasett, hvenær hún eflir hag Palestínumanna og hvenær það verður góður greiði við þá að bjóða þá velkomna í samfélag sjálfstæðra ríkja?
Grein Gísla:
Engin Palestína?
Gallinn við pólitískan rétttrúnað er hvað hann dreifir sér fljótt. Ef enginn spyrnir við fótum nær rétttrúnaðurinn tökum á ístöðulausum stjórnmálamönnum, svokölluðum álitsgjöfum, vel menntuðum einstaklingum úr akademíunni og auðvitað fjölmiðlum.
Þetta kristallaðist ágætlega þegar meirihluti Alþingis samþykkti í vikunni að veita ríkisstjórninni umboð til þess að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Tæplega 40 þingmenn samþykktu tillöguna en þingmenn Sjálfstæðisflokksins þorðu ekki að greiða atkvæði í málinu.
Nú kann einhver, uppfullur af pólitískum rétttrúnaði, að spyrja hvað sé að því að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og hvað sá sem hér heldur á penna hafi á móti Palestínumönnum. Svarið við því er einfalt. Með hag Palestínumanna fyrir brjósti er þetta röng tímasetning auk þess sem Palestínumönnum er enginn greiði gerður með þessari samþykkt.
Málið verður ekki rakið í heild sinni í stuttum skoðanapistli en það er vert að nefna nokkra punkta. Alþingi telur rétt að miða landamæri Palestínu innan landamæranna fyrir sex daga stríðið 1967. Snillingarnir á
Alþingi vilja þá væntanlega að Jórdanir taki aftur yfir Vesturbakkann, því þeir réðu yfir því svæði áður en sjö arabaríki réðust á Ísrael árið 1967. Sömu þingmenn vilja væntanlega að Egyptar taki aftur yfir Gazaströndina, sem þeir höfðu yfirráð yfir fram til ársins 1967. Þeir hljóta að vita að landið var ekki tekið af Palestínumönnum, enda aldrei verið neitt til sem heitir ríki Palestínu.
Þingmennirnir sem í vikunni náðu varla andanum við að taka við hamingjuóskum hver frá öðrum vegna málsins hefðu átt að spyrja hvað hafi orðið um öll jórdönsku vegabréfin sem hinir svokölluðu Palestínumenn hafa borið hingað til.
En fjölmiðlar tóku líka þátt í fagnaðarlátunum. Enginn fjölmiðill sem greindi frá málinu reyndi að kryfja það með nokkrum hætti, ekki einu sinni Fréttastofa Ríkisins. Allir tóku þeir þó fram að Sjálfstæðismenn hefðu setið hjá í málinu, væntanlega með vísan til þess að það væri röng afstaða. Sem hún auðvitað var því Sjálfstæðismenn áttu að kjósa á móti þessari tillögu. En hjáseta virðist eiga meira upp á pallborðið þar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú hefur vonandi ekki verið í tíma í fornleifafræði hjá mági þínum Heiðdal?
Allt, bæði GT, NT, líkamsmannfræði, erfðafræði og fornleifafræði sýna að Gyðingar eiga ótvíræðan sögulegan rétt á því landsvæði sem þeir kalla þjóðríki sitt í dag. Sum af þinum rökum hér og áður flokkast undir þau rök sem nasistar og gyðingahatarar hafa lengi verið með.
Erfðafræðin hefur meira að segja sýnt okkur að margir Palestínumenn er líklegast afkomendur gyðinga sem var nauðgað af múslímum og neyddir undir Íslam. Aðrir Palestínumenn geta hins vegar aðeins rekið ættir sínar 100 ár aftur í tíman til Egyptalands, Tyrklands og jafnvel Albaníu eins og t.d. Arafat. Hann var að hluta til af Albönsku bergi brotinn.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.1.2012 kl. 09:11
Grundvöllurinn er Biblían eins og Ben Gurion sagði: The Bible is our mandate. Það er ekki búið að finna borg Davíðs og hinar „glæsilegu hallir“ hans. Gamla Testamentið er hið eina sem menn hanga á. Og ekki er allt fagurt sem þar er skráð. Það er ekki erfitt að lenda í flokki gyðingahatara hjá þér Vilhjámur, nánast má ekkert skrifa um málefni Ísraels og Ísraela nema halelúja - annars flokkast menn sem gyðingahatarar.
Þú ert á hálum ís kall minn með allt tal um erfðafræði og uppruna manna - jafnt gyðinga sem Palestínumanna.
Hjálmtýr V Heiðdal, 10.1.2012 kl. 12:30
HVH, Málefni Ísraels eru nær aldrei rædd af stuðningsmönnum Palestínumanna á Íslandi án þess að einhverju ógeði sé blandað þar inn í. Þú ert manna sterkastur í því að líkja Ísraelsmönnum við böðla gyðinga í Síðari heimsstyrjöld. Formaður Félagsins Ísland Palestína skrifaði t.d. grein sem hann kallað "Israel, Israel über alles" og svona mætti lengi telja og hef ég svo sem skrifað um það.
Í ESB (EU), því sem þú vilt ólmur tilheyra, er Holocaust-relativísmi eins og þú hefur gjarnan í frammi skilgreindur af þar til gerðum stofnunum sem anti-Semitísmi, þ.e. gyðingahatur. Spurðu bara séra Baldur bloggara eða prófessor Wolfgang Benz í Berlín, sem staðfesti það fyrir nokkrum árum gagnvart nokkrum Palestínuvinum sem komu til Akureyrar til að hlusta á ráðstefnu um gyðingahatur við háskólann á Akureyri, þar sem ég flutti m.a. erindi.
Palestínumenn, sem þið eruð sjálfskipaðir umboðsmenn fyrir, stunda líka þetta ógeð, afneita flestir helför gyðinga og Mein Kampf hefur verið gefin út og seld í Palestínu. Fylgist þú ekki með í fréttum?
Ég er ekki á hálum ís hvað varðar erfðafræði gyðinga. Þekki hana mjög vel og hef kynnt mér hana og takmarkanir hennar, sem sýndu sig t.d. þegar deDoce sagði Dorrit að hún væri af ítölskum ættum. Margir Palestínumenn eru afkomendur gyðinga sem var misþyrmt af múslímum, það er erfðafræðileg staðreynd.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.1.2012 kl. 13:47
Vilhjálmur skrifar: „Málefni Ísraels eru nær aldrei rædd af stuðningsmönnum Palestínumanna á Íslandi án þess að einhverju ógeði sé blandað þar inn í.“ Ég er þeirra skoðunar að umræða um Ísrael innihaldi fyrst og fremst „ógeðið“ sem felst í framferði Ísraelshers og landtökumanna gegn Palestínumönnum. Það eru ekki fallegar frásagnir og margt ógeðselgt. Mín skrif um þessi mál snúast um að framfylgja réttlæti og alþjóðalögum. Flóknara er það ekki.
Hjálmtýr V Heiðdal, 10.1.2012 kl. 14:14
Við þetta má bæta að þvert á fullyrðingar Vilhjálms við í félaginu höfum sannarlega haldið á lofti starfi Ísraela sem berjast friði, gegn hernámi og fyrir því að alþjóðalögum og réttlæti sé framfylgt. Hér má nefna Gush Shalom, en við höfum oft birt greinar eftir forystumann þeirra friðarsamtaka, Uri Avnery, í blaðinu okkar, Anarchists Against The Wall, Bereaved Families for Peace (auk þess að þýða grein eftir Dr. Nurit Peled-Elhanan, en dóttir hennar var myrt í sjálfsmorðsárás), Rabbía gegn zíonisma, Breaking the Silence, Ísraela sem neita að gegna hermennsku af samviskuástæðum, Peace Now, B'tselem, blaðamenn á borð við Gideon Levy og Amiru Hass. Eins höfum við fjallað um Störf Örnu Mer-Khamis og Julianos sonar hennar og þýtt áhrifamikla grein eftir Dov Yermiya ( svona svo eitthvað sé nefnt. Þá höfum við bent á störf fræðimanna eins og Ilan Pappé, Benny Morris ((það er mælt er með bók hans, The Birth of the Palestinian Refugee Problem á vefsíðu félagsins), , Avi Shlaim og Tom Segev. Álíti Vilhjálmur þetta engu að síður ógeð verðu hann að eiga það við sjálfan sig. Loks má geta þess að það eru um 800 manns í félaginu, ef mér reiknast rétt, allir með sínar skoðanir, og því býsna hæpið að ætla að alhæfa um þann hóp hvernig hann tjáir sig um Ísrael.
Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 21:20
*höfum við í félaginu
Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 21:22
"Mein Kampf hefur verið gefin út og seld í Palestínu."
Kommúnistaávarpið hefur líka verið gefið út og selt á Íslandi, Vilhjálmur. Gerir það Íslendinga upp til hópa að kommúnistum?
Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 21:36
Ein sú mesta áródursíða sem fyrirfinnst er síða zionista á Íslandi á facebook. þar er öllu neikvæðu frá öfgasinnuðum islamistum snúið uppá múslíma og þrætt fyrir að eitthvað sem heitir öfgasinnaður zionismi sé yfirhöfuð til.
Þar má finna mesta sorasafn öfgasinna á Íslandi lepja drulluna upp eftir hvern annan. Medan þeir hvetja til greftrunar svína á fyrirhugaðri lóð undir mosku á Íslandi leggja þeir drög að byggingu sinagógu.
Hér er slóð á síðuna fyrir þá sem vilja lesa um hvað gerist í kollinum á þessu fólki: https://www.facebook.com/pages/M%C3%B3tm%C3%A6lum-mosku-%C3%A1-%C3%8Dslandi/134937909889448
Jón Páll Garðarsson (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 01:15
Það minnir mig á þetta ágæta myndband með Jon Stewart í The Daily Show, þar sem hann gerir íslamófóba í Florida Family Association að skotspæni og dregur sundur og saman í háði. Íslamófóbinn kvartaði sumsé yfir því að raunveruleikasjónvarsþáttur um múslima í Bandaríkjunum sýndi ekki nógu mikið af neikvæðum hliðum íslams. http://popwatch.ew.com/2011/12/14/jon-stewart-talks-all-american-muslim-fiasco/#more-172256
Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.