14.2.2012 | 12:07
Grunnskólakennarinn
Snorri Óskarsson er ekki bara að hnýta út í homma og lesbíur á bloggi sínu - hann er með langan lista yfir mál þar sem það skín í gegn hversu stórfellt afturhald hann er. Allt í nafni guðsins sem hann hefur ánetjast. Allar tilvitnanir eru sóttar á blogg Snorra.
Hann styður sömu hugmyndir og t.d. Sara Palin, fyrrv. frambjóðandi til forseta í BNA, um aldur lífsins á jörðinni og blæs á vísindarannsóknir sem sýna að stengervingar risaeðlanna eru margra milljóna ára gamlir. Menn eru kannski farnir að sjá að lífið hafi ekki haft jafn langan tíma og fyrr var talið, nema um afturgöngu sé að ræða?
Snorri kennir í grunnskóla árið 2012.
Hann styður landvinningastríð síonista í Ísrael og reyndar styður hann nýlendustefnu og landtöku nýlenduþjóða: Þannig eignuðust Bretar land og lýð.(í Palestínu, innsk. HH) Þannig er háttað með sigurvegara í stríði bæði skv. gömlum og nýjum bókum.
Barnakennarinn Snorri kennir kanski sögu og landafræði?.
Hann telur mannréttindi skv. okkar lögum lægra sett en þau réttindi sem hann les út úr Biblíunni. Hann skrifar: Þannig hafa árekstrarnir við samkynhneigðina verið allsstaðar eins, milli hins Evangelíska orðs og svo "mannréttinda".
Kennarinn Snorri setur mannréttindi innan gæsalappa.
Hann er andsnúinn mannréttindum homma og lesbía, hann telur þau ill. Snorri vill ekki leyfa hjónaband þeirra og atyrðir presta sem eru ósammála honum. Svona undirstrikar Guð að hjónabandið er aðeins milli karls og konu. Lög landsins breyta þessu ekki nema til ills.
Snorri, fyrirmynd nemendanna í Brekkuskóla.
Snorri ræðir á bloggi sínu um ólánsmanninn Anders Brevik sem myrti tugi manna í Noregi. Skiptir svo yfir á umræðu um baráttu Palestínumanna fyrir frelsi - en þá er ekki notað orðið ólánsmenn, þá skrifar Snorri hryðjuverkamenn.
Barnakennarinn Snorri.
Hann er andsnúinn flóttamannahjálp ef flóttamennirnir eru af rangri gerð Hann skrifar gegn Palestínukonunum á Akranesi: Við á Íslandi gætum þess vegna lent í því eftir heila öld að Akranes verði gert að sjálfstæðu ríki Múslima á Íslandi ef þeir fjölga sér og neita að lúta íslenskum lögum og reglum.
Snorri, skólakennarinn á Akureyri þar sem nemendurnir eiga að læra um mannréttindi og umheiminn.
Hann er á móti trúfrelsi og atyrðir önnur trúarbrögð og skrifar að: Okkar skylda er að endurhæfa Múslima til að virða kristin gildi og kristna trú.
Snorri kennari í skóla þar sem umburðarlyndi og trúfrelsi er einn af grunnþáttum uppeldisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Facebook
Athugasemdir
Hjálmar, Snorri er auðvitað "bókstafstrúarmaður", og margar skoðanir hans eru auðvitað brenglaðar vegna trúarskoðana hans. En það er samt alveg óþarfi að reyna að lesa eitthvað meira í skrifin hans heldur en kemur beint fram.
Til dæmis gerirðu mikið úr því að Snorri hafi ekki kallað Brevik "hryðjuverkamann", en ef maður skoðar færsluna hans, þá byrjar hún á: "Það er athyglisvert að fylgjast með umfjölluninni um fjöldamorðin og hryðjuverkin í Noregi. "
Skoðanir hans eru nógu undarlegar fyrir. Svona vinnubrögð eru óþarfi.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 14.2.2012 kl. 12:29
Snorri er undarlegur tappi, skemmdur af trúarofstæki. Hann er illa í mótsögn við sjálfan sig. Hann gefur sér og óttast að múslimir á Akranesi muni neita að hlýða íslenskum lögum og reglum í framtíðinni. En hver er afstaða Snorra sjálfs til íslenskra laga og reglna, stangist þau á við bókarskrudduna hans?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 14.2.2012 kl. 12:35
Það sem er meginatriði er að Snorri elur á fordómum. Hjalti, það kann að vera að ég hafi ekki vitnað í allt sem Snorri skráði varðandi Breivik. En að ræða um ólánsmann í þessu máli virkar illa á mig og í því samhengi sem það var sett fram (í samanburði við Palestínumenn) var það fáránlegt.
Hjálmtýr V Heiðdal, 14.2.2012 kl. 12:56
Meginatriðið er að Snorri er jafn forstokkaður eintrjáningur og múslimirnir sem hann fordæmir og hefur ekki þá sjálfsvirðingu að gæta orða sinna í samræmi við það starf sem honum hefur verið trúað fyrir. Svo virðist sem hann tíni það út úr biblíunni sem hentar hans pappakassa en horfi gjörsamleg framhjá meginboðskap hennar: umburðarlyndi og fyrirgefningu.
En stóra spurningin er, sem ég hef hvergi séð spurt og því síður séð svar við: hefur hann boðað nemendum sínum í grunnskólanum sínar forstokkuðu hugmyndir?
Sigurður Hreiðar, 14.2.2012 kl. 13:21
Bókstafstrúarmenn allrahanda geta verið til vandræða svo ekki sé meira sagt. Ég veit ekkert um kennarastörf Snorra, en sem foreldri væri ég ekki sáttur við að „eintrjáningurinn“ kenndi mínum börnum. Ég veit ekki hvaða fög hann kennir - en hann er svo fastur fyrir - Biblían er hið eina sanna - að það hlýtur að vera erfitt fyrir hann að kenna eitthvað tengt nútímavísindum sem stangast á við hans bjargföstu sannfæringu. Ég virði trúfrelsi og tjáningarfrelsi (skoðanafrelsi er ekki til umræðu þar sem það getur átt sér griðastað milli eyrnanna og verið þar) - en tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð eins og stjórnarskrá og hegningarlög sýna ljóslega.
Hjálmtýr V Heiðdal, 14.2.2012 kl. 13:50
Bókstafstrúarmenn allrahanda ERU til vandræða og geta ekki verið annað. Sama að hverju hún beinist og verst þegar svokallaðir „trúbræður“ láta öfgum hennar ómótmælt og hvern fjandann sem er viðgangast í krafti þeirra. Þetta er mín skoðun sem ég viðra óhikað þó hún eigi uppsprettu og griðastað milli eyrna minna.
Sigurður Hreiðar, 14.2.2012 kl. 14:51
Þetta hér er forvitnilegt:
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP9343?fb_ref=top&fb_source=home_multiline
Skeggi Skaftason, 14.2.2012 kl. 20:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.