Sorry Jón og sorry Stína.

Hvalfj.g21. feb. s.l. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Guðmundur Edgarsson málmenntafræðing, um ríkisstyrkta menningarstarfsemi.

Skrif Guðmundar er dæmi um hinn „árlega héraðsbrest“, eins og Pétur Gunnarsson rithöfundur nefnir viðbrögðin, þegar úthlutun listamannalauna er kynnt opinberlega.

Að hætti frjálshyggjumanna setur Guðmundur upp hið einfalda dæmi að skattgreiðendur skuli ekki greiða fyrir menningarstarfsemi sem þeir hafa ekki áhuga á. Guðmundur ræðir málefni Þjóðleikhússins, sem nýtur töluverðra framlaga af skattfé, og Skjás Eins, sem heyr sína lífsbaráttu á grundvelli eigin ágætis og vinsælda.

Að sögn Guðmundar þá er „leikhúsrekstur er eins og hver annar atvinnurekstur og á því að lúta lögmálum markaðarins.“ Þetta er skýrt, list sem ekki höfðar til nægilega margra deyr drottni sínum.

Guðmundur er ekki einn um þessa skoðun, nýlega birti Kristinn Ingi Jónsson ritstjóri sus.is, grein með fyrirsögninni List er fyrir listunnendur. Kristinn leggur fram einfalda spurningu: „Hvernig getur það þá verið, að allir skattgreiðendur, sama hvort þeir unni list eður ei, séu neyddir til að greiða ákveðnum listamönnum laun?“Niðurstaða Kristins Inga er sú sama; þeir sem vilja njóta lista eiga að borga það sjálfir.

Nú rorra þeir sælir í sinni trú félagarnir Guðmundur og Kristinn og ekkert haggar þeirra sælu sannfæringu. Enda málið fremur augljóst og skýrt séð frá þeirra sjónarhól. Þetta þarf ekki að ræða frekar.

Ræðum því eitthvað annað, t.d. vegakerfið, jafnvel jarðgöng. Jarðgöng eru grafin gegnum fjöll og undir hafsbotninn til þess að auðvelda samgöngur. Það er rætt um að vetrarfærð sé víða varasöm og sumsstaðar geta jarðgöng leyst vandann. Víða eru hættulegir fjallvegir lagðir af og jarðgöng koma í staðinn. Þetta flokkast undir framfarir.

En það er einn galli á jarðgöngum, þau eru staðbundin og yfirleitt greidd af almannafé. Reykvíkingur getur ekki nýtt sér jarðgöng milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar nema endrum og eins. Og þarf að fara langa leið til þess. Samt er hann þátttakandi í kostnaði við gerð ganganna - og viðhaldi þeirra.

Hér er augljóslega verið að sniðganga lögmál Guðmundar og Kristins; jarðgöng eru fyrir jarðgangnaunnendur, þau eiga að lúta lögmálum markaðarins. Það þýðir ekkert að benda á gagnsemi jarðgangna, t.d. samgöngubætur og lægri slysatíðni, grundvallaratriðin eru á hreinu: þeir sem nota jarðgöng eiga að borga þau.

Útreikningar sýna að jarðgöng á Austfjörðum geta aldrei borgað sig nema með himinháum veggjöldum. Sem enginn mundi greiða. Arðsemi Vaðlaheiðaganga, sem eru þó á þéttbýlla svæði, er reiknuð fram og aftur og óvíst um sjálfbærni framkvæmdanna. Margt bendir til þess að vegfarendur aki gamla veginn í stað þess að borga sannvirði fyrir styttri leið í gegnum göngin.

En það er eins með jarðgöng og listina, þau eru þarna vegna þess að sameiginlegt átak skattgreiðenda greiddi kostnaðinn að hluta. Og líkt og listin, þá skila jarðgöng verðmætum til baka. Ég minntist á slysatíðni og við má bæta minni bensíneyðslu og lengri endingu ökutækja sem fara oft sömu leið. Og tími er einnig peningar í einhverjum fræðum.

Hvað fáum við fyrir skattfé sem greitt er til menningarstarfsemi? Íslenskt leikhús, íslenskar kvikmyndir, íslenska tónlist, íslenska myndlist og íslenskar bækur. Ennfremur þýdd erlend leikverk, þýddar bækur og hingað koma stórgóðir erlendir listamenn.

En af prinsipástæðum fara Guðmundur og Kristinn aldrei í leikhús, lesa engar bækur á íslensku og sjá aldrei íslenska kvikmynd - og keyra aldrei um íslenska jarðgöng - þeir vita því fátt um það sem þeir fara á mis við.

Félagarnir Kristinn og Guðmundur telja báðir að Jón og Stína eigi að greiða fyrir sína menningarneyslu, burt séð frá efnum þeirra og aðstæðum. Stína er fremur blönk tveggja barna einstæð móðir og Jón er í hjólastól.

Spólum hratt áfram: Kiddi og Gummi hafa fengið sitt fram. Nú fer Stína ekki í leikhús vegna þess að miðarnir kosta það sem þeir þurfa að kosta 15 - 20,000 pr. sýningu. Jón fer ekki í leikhús vegna þess að hann og nokkrir aðrir fatlaðir geta ekki borgað brú fyrir fatlaða við Þjóðleikhúsið. Þau vita fátt skemmtilegra en að fara í leikhús. En sorry Jón og sorry Stína - samfélagið styður ekki listir og menningu.

Kenningar frjálshyggjumanna um listir og menningu eru af sama sauðahúsi og kenningar þeirra um efnahagsmál. Þær eru skemmtilegt umræðuefni - en stórslys í framkvæmd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Á þessum forsendum má einnig mælast til að taka upp stefnuna: "lækning fyrir veika" Þar sem veikir og slasaðir greiða fyrir rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Helst þurfa menn að vera búnir að ákveða hvort þeir ætla að veikjast, áður en að næsta skattár byrjar. "Vegir fyrir ökumenn" er önnur frábær ídea þar sem settar verða upp bómur á alla vegaspotta landsins og þeir greiði aðeins fyrir uppbyggingu og viðhald, sem leið eiga um.

Raunar skil ég ekki í því að svokallaðir frjálshyggjumenn skuli tala svona, því þetta er ídeológía Vinstrimanna í raun. 

Þeir sem fara í bíó greiða þar að mig minnir 2% nefskatt sem ætlaður er kvikmyndasjóði.  Mér er til efs um að kvikmyndasjóður fái meira en 2% þeirra tekna.

Mér er þó engin eftirsjá í þjóðleikhúsinu. Það má fara fjandans til fyrir mér.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2012 kl. 01:07

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er líkast til enginn munur á kapítalisma og sósíalisma þegar snýr að aurum og krónum. Það breytir engu hvort ég er arðrændur af hinu opinbera eða frjálshuga einstaklingi.  Það kemur á sama stað niður.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2012 kl. 01:10

3 identicon

Frábær grein!

Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 9.3.2012 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband