27.2.2012 | 15:58
Lítið lóð á vogarskál réttlætisins
Birgir Þórainsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, birti grein um málefni Palestínu og Ísraels í Morgunblaðinu 9. feb. s.l.
Þar lýsir Birgir áhyggjum sínum vegna viðurkenningar Íslands á rétti Palestínumanna til að búa við sjálfstæði líkt og Íslendingar. Það kemur fram í grein Birgis að hann heimsótti Knesset, þing Ísraela, og átti fund með landbúnaðarmálaráðherra Ísraels.
Skilaboð Birgis til Íslendinga eftir förina til Ísrael eru m.a. þau að viðurkenning Íslands á rétti Palestínumanna vinni gegn svokölluðu friðaferli. Að sögn Birgis þá eru Helstu sérfræðingar í deilum Ísraels og Palestínu sammála um að friðarsamkomulag sé forsenda friðar og sjálfstæðis Palestínu. Það kemur ekki fram í grein Birgis hverjir eru helstu sérfræðingarnir, en aðrir fróðir menn telja að sífelld brot Ísraela á alþjóðalögum séu helsta ástæða þess að friðarviðræður, sem staðið hafa í tvo áratugi, hafa ekki skilað árangri.
Aðgerðir síonista, landtökubyggðir á landi Palestínumanna, bygging heilu borganna á stolnu landi og brottrekstur Palestínumanna frá A-Jerúsalem, hafa grafið undan viðræðunum. Hið einfalda lögmál að menn geta ekki étið alla kökuna og samtímis deilt henni með öðrum er í fullu gildi. Það vita helstu sérfræðingar og allt hugsandi fólk.
Það er ójafn leikur þegar hersetin þjóð ræðir frið við hernámsliðið. Viðurkenning Íslands á rétti Palestínumanna er lítið lóð á vogarskál réttlætisins.
Birgir, sem virðist trúa öllu sem ráðherra og þingmenn síonista sögðu honum, flytur okkur sögufalsanir sem helstu sérfræðingar hafa leiðrétt. Birgir skrifar: Ísraelsríki var stofnað af Sameinuðu þjóðunum eftir helför nasista. Þetta er rangt, Ísraelsríki var ekki stofnað af SÞ, það gerðu síonistar með hervaldi 1948. Þann 29. nóvember 1947 samþykkti Allsherjarþing SÞ tillögu um að skipta landi Palestínu milli frumbyggja landsins og aðkomumanna frá Evrópu. Skýrt var skráð í samþykkt SÞ að í engu skyldi svipta aðra íbúa landsins réttindum sínum. Raunin varð önnur.
Áætlanir síonista um stofnun ríkis í Palestínu og brottrekstur Palestínumanna, má hinsvegar rekja allt aftur til ársins 1897 þegar þing alþjóðahreyfingar þeirra ákvað að framtíðarheimili gyðinga skyldi vera í Palestínu. Helförin varð hins vegar til þess að samviskubit Vesturlanda vaknaði og þau samþykktu að ræna Palestínumenn sínum grundvallarréttindum í krafti nýlenduyfirráða sinna.
Dr. Björn Þórðarson, forsætisráðherra Íslands 1942 - 1944, skrifaði árið 1950 um sjálfsákvörðunarrétt þjóða; Arabarnir í Palestínu töldu, að þessi sjálfsákvörðunarréttur ætti einnig að ná til sín. En af því varð nú ekki, og að þessu leyti var farið með þá sem sigraða þjóð. Þeir voru ekki aðeins settir undir forræði annarra, heldur sviptir heimild til að ráða nokkru um það, hvernig farið yrði með land þeirra. Vissum flokki útlendinga úr öllum heimi var boðið upp á að setjast að í landinu, og heimaþjóðinni var það alveg um megn, að spyrna hér á móti broddunum. Hin sigrandi stórveldi heimsins höfðu gert samþykkt um, að þetta land skyldi notað handa öðrum eftir þörfum. (Gyðingar koma heim útg. 1950, bls. 145).
Hér talar einn helsti sérfræðingur okkar á sínum tíma um örlög Palestínumanna þegar vissum flokki útlendinga er gert kleyft að ræna þá heimilum sínum, jarðeignum og réttindum. Var Dr. Björn þó enginn andstæðingur gyðinga, hann dáði þá fyrir dugnað og elju við að vinna að framgangi mála sinna.
Birgir Þórarinsson veit fátt um forsögu málins sem hann ræðir um og lepur upp málflutning þeirra sem rændu landinu og ráku frumbyggja þess á brott. Hann vitnar í ræðu Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og segir ræðuna ákall um frið. Netanyahu er helsti sérfræðingur Ísraels í landráni og kúgun, hann hefur hrósað sjálfum sér fyrir að hindra friðaviðræður með kænskubrögðum. (sjá á slóðinni: http://www.youtube.com/watch?v=eeT_KLuCdug&feature=related).
Ákall um frið frá Benjamin Netanyahu er því blekkingarleikur - og Birgir féll í gildruna.
Birgir telur málefni Ísraels og Palestínu viðkvæm og flókin, væntanlega að mati helstu sérfræðinga. En málið er ekki flókið og alls ekki viðkvæmt ef kappkostað er að halda því á lofti sem felur í sér réttlæti og mannréttindi. Ef Ísrael samþykkti að fara eftir alþjóðareglum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, virða mannréttindi Palestínumanna og hætta hernámi og þjófnaði á landi þeirra, þá leysast málin á undraskömmum tíma. Þetta þarf ekki að bera undir helstu sérfræðinga, þessi lausn liggur á borðinu og bíður eftir samþykkt Ísraels og Bandaríkjastjórnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.2.2012 kl. 13:15 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Hjálmtýr
Góð grein hjá þér, ég veit ekki hvort þú tókst eftir þessari grein sem ég skrifaði, eða "Viðurkenning fyrir sjálfstæði og fullveldi Palestínu" er birtist reyndar í MBL. þann 21. febrúar sl. eða þar sem ég benti á að allur þessi málflutingur Birgis væri rakalaus. En það er gott til þess að vita að einhver annar en ég svaraði þessari grein og með svona sterkum áherslum.
KV. ÞST
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 00:49
Sæll Þorsteinn
Ég kaupi ekki Moggann - getur þú sent mér þína grein í tölvupósti: hheiddal@seylan.is
Birgir er skráður sem sérfræðingur í alþjóðasamskiptum. Mér sýnist að sérfræðin sé fremur fátækleg hjá honum.
Hjálmtýr V Heiðdal, 28.2.2012 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.