Gunnar Heiðarsson og fáviskan

gunnar hei arssonKarlmaður sem heitir Gunnar Heiðarsson fann nýlega hjá sér hvöt til að skrifa eftirfarandi orð og birta á bloggsíðu sinni með fyrirsögninni Fáviskan í hámarki:

„Það er landsbyggðin og ekki síst Vestfirðir, sem skapa verðmætin í þjóðfélaginu. Þaðan koma peningarnir sem halda uppi latte lepjandi Reykvíkingum, þaðan koma peningarnir sem halda uppi ríkissjóð! Vestfirðingar borga sína skatta eins og aðrir landsmenn, en hin raunverulega verðmætasköpun verður nánast öll til utan Reykjavíkur! Það yrði lítið úr Reykjavík og afætum þjóðfélagsins sem þar býr, ef landsbyggðin segði sig úr sambandi við það. Ef landsbyggðin ákvæði að stofna eigið lýðveldi án Reykjavíkur og þorpanna umhverfis hana! Svei þessu fólki, svei þeim sem ekki skilur á hverju land og þjóð lifir!!

Nú kann þessi Gunnar að vera hinn vænsti maður, góður fjölskyldufaðir og duglegur í vinnunni, ég veit ekkert um það. En af skrifum hans má sjá að hann kýs að skipta fólki upp í „okkur“ og „hina“; landsbyggðarfólkið og íbúa höfuðborgarinnar.

Annar aðilinn gerir lítið sem ekkert gagn en hinn skapar verðmætin. Andstæðar fylkingar með andstæða hagsmuni ef marka má skrif Gunnars (sem kanski veir ekkert skemmtilegra en að lesa ljóð).

Sundrungartaktíkin er mjög vinsælt og eldgamalt lýðskrumstrikk sem virkar á sumar sálir. Þetta bragð er notað í pólitíkinni þegar stjórnmálmenn með vondan málstað reyna að lappa uppá fylgið. Einræðisherrar sem vilja beina augum almennings frá aumu ástandi þjóðmála brúka einnig þessa aðferð. Kynþáttahatarar kunna lýðskrumslistina og fleiri fól sem vilja vinna mannkyninu mein.

Nú vaknar hjá mér spurningin hvers vegna Gunnar þessi, kanski vinsæll í sínu nánasta umhverfi - hvað veit ég um það - hvers vegna grípur hann til þessa ómerkilega málflutnings gegn stórum hluta þjóðarinnar sem hann tilheyrir? Hvað ætli Reykvíkingar hafa gert á hlut Gunnars (sem kanski syngur í karlakór)? Hvernig hefur sú hugmynd ratað í hans koll að Reykvíkingar séu „afætur þjóðfélagsins“?

Skoðum þetta betur. Tökum dæmi og sjáum hvernig hugmyndum Gunnars Heiðarssonar (sem gæti verið kattarvinur) reiðir af þegar þær komast í kast við raunveruleikann.

Konan mín er fæddur Vestfirðingur og vinnur núna á elliheimili í Reykjavík (meira að segja í hinu alræmda póstnúmeri 101) við aðhlynningu eldra fólks sem reyndar að stórum hluta fæddist utan Reykjavíkur. Pabbi minn var að austan, fæddur á Vopnafirði og þar sem ég marga ættingja og þar starfaði ég í síldarvinnu nokkur sumur. Annar afi minn var úr Mýrdalnum og einn langafi frá Vestfjörðum.

Þetta litla sýnishorn er dæmigert fyrir Reykjavík, fólk að uppruna frá öllum landshlutum með tengsl við ættingja og vini um allt land. Er þetta „afætulýðurinn“ hans Gunnars? Venjulegir Íslendingar sem hafa ekkert gert til þess að angra Gunnar (sem kanski spilar á píanó eða gítar) annað en að vera til og lifa og starfa á öðrum stað en hann.

Gunnar fullyrðir að það „yrði lítið“ úr þessu fólk „ef landsbyggðin segði sig úr sambandi við það“. Hvers vegna kemur upp svona hugmynd í kolli Gunnars (og fleiri sbr. viðbrögð á bloggi hans)? Er það vegna þess að hans hugmyndaheimur takmarkast við fisk og slátur?

Ekki veit ég neitt um hans hagi, kanski er hann félagi í áhugaleikfélaginu í sínum heimabæ, kanski er hann búinn að lesa gjörvallann Laxnes. Ég skil ekki þessar hugmyndir hans og ég átta mig ekki á því hvaðan þær koma.

Og hvaða tilgangi þjóna skrif Gunnars (sem hefur kanski komið til Reykjavíkur og kíkt á kaffihús) - hvar endar hugmyndin - hvert á hún að leiða okkur?

Gunnar Heiðarsson, upplýstu mig, segður mér eitthvað sem getur hjálpað mér að skilja þær hugmyndir sem þú virðist fylgja svo einarðlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll; Hjálmtýr !

Gunnar Heiðarsson; knár og hreinskilinn Skagamaður (á Akranesi búsettur), er einn minna beztu vina, hér á vefnum - og því frábið ég, sem margur annarra, niðurtal þitt, til hans.

Hann segir einfaldlega hlutina; eins og við honum blasa, án þess að fara, eins og Köttur, í kringum heitan graut, um hlutina.

Ló Gunnar nokkru til; um ótilhlýðilegt uppihald Vestfirðinga - sem annarra á Landsbyggðinni, á ykkur þeim, sem við Faxaflóa miðbik búið, og ætlist til, að geta ráðskast með landshagi alla, ár og síð, Hjálmtýr kvikmyndajöfur ?

Þú talar um sundrungu Hjálmtýr; ef einhverjir, eru höfuðorsakavaldar hennar, eru það fræðinga- og skrifræðisöflin, suður í Reykjavík, sýnist mér nú, aldeilis !   

Með; fremur snúðugum kveðjum, úr Árnesþingi, að þessu sinni /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 18:55

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki veit ég hvort skrif þín séu svaraverð Hjálmtýr, en ég þakka þér innlitið á síðu mína.

Mér þykir gaman að lesa ljóð, er ekki í karlakór, er vinur allra dýra, spila ekki á gítar og einungis einnar handarmaður á pínó, er ekki í áhugamannaleikfélagi í minni heimabyggð og fer yfirleitt ekki á kaffihús í Reykjavík. Fiskur og slátur er hin besta fæða, en heimurinn er þó stærri en það. Reyndar sé ég ekki hvað þetta kemur við mínum skrifum, en þau hafa greinilega farið verulega í taugar þér.

Þú segir að ég skipti fólki upp í tvær andstæðar fylkingar. Má vera að svo sé, en ég er ekki einn um það. Hversu oft hefur maður ekki heyrt hina ýmsu stjórnmálamenn tala niður til landsbyggðarfólks, opinberlega? Þetta hefur viðgengist í áratugi og hefur ríkisútvarpið verið duglegt að koma "boðskapnum" áfram. Er það ekki skipting á þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar? Þar hefur vissulega sérstaklega einn stjórnmálaflokkur og áhangaendur hans verið framarlega. Það skýtur skökku við þegar stjórnmálamenn tala með þeim hætti, að aumur bloggari með tiltölulega fáar heimsóknir má ekki ýja að hinu sama, bara með öðrum formerkjum. Blogg mitt var jú um ummæli Lilju Rafneyjar og þau ummæli voru vissulega í þessum anda, þó hún hafi þó haft vit á að tala undir rós!

Ég geri mér fulla grein fyrir því að meginn fjöldi íbúa Reykjavíkur getur rakið ættir sínar út á land, að nokkur fjöldi er uppalinn á landsbyggðinni. Ég geri mér einnig grein fyrir því að upp til hópa eru Reykvíkingar hið vænsta fólk, en þegar kemur að pólitík virðist oftar en ekki sem skynsemin yfirgefi margt af þessu ágæta fólki.

Í landi voru er enn málfrelsi. Blogg mitt var ekki ærumeiðandi á neinn einstakling, öfugt við þetta blogg þitt. Ég frábið mér að þurfa að vera undir ritskoðun settur og skrifa það sem mér er efst í hug hverju sinni og ekki ætlast ég til að fólk sé sammála mér. Þetta blogg þitt breytir engu þar um.

Eins og ég sagði í upphafi, þá eru þess skrif þín ekki svaraverð, en þar sem þú nefnir mig sérstaklega í fyrirsögn,  taldi ég mig verða að svara, þó þetta svar sé einungis brot af því sem mér í brjósti býr. Ég tel mig ekki þurfa að upplýsa þig um eitt né neitt og mun því ekki svara spurningum þínum að öðru leyti en að ofan. Minn hugarheimur er mitt og ég hef jafnan rétt til að hafa hann og þú þinn.

Hér læt ég staðarnumið og mun ekki leggja frekara orð í belg um þetta mál á þessari síðu.

Gunnar Heiðarsson, 19.4.2012 kl. 20:20

3 identicon

Fáviskan hefur mörg andlit - 1996 kom fréttatím frá sænskri sjónvarpsstöð til Flateyrar, það er ári eftir snóflóðið mikla og því var gert góð skil.

Sjómannsfrú með tvö börn fékk meðal annars spurninguna.

"En það hefur ekki hvarlað að ykkur hjónunum að flytja á einhvern annann stað, þar sem ekki er snjóflóðahætta?"

Frúin hugsaði sig lengi um og svo kom svarið- " Hvert á að flytja, það eru allstaðar fjöll!" (Já, það er nefnilega það).

Þetta er fólkið sem heldur Íslenska samfélaginu uppi, slítur sér út á krummaskuðunum og þorir ekki út fyrir túngaðinn, greiðir skatta og moðar undir afturendann á misheimskum stjórnmálamönnum, sem flestir eru útsmognir lygarar úr ólíkum byggðarlögum.

Eru ekki fiskverkunarstöðvar í Reykjavík? Svona sem dæmi!

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 20:34

4 identicon

Ég tek undir með þér Hjálmtýr að þessi umræða, um höfuðborgarsvæðið versus dreifbýlið, er svolítið hvimleið.

Sumir menn kynda af alefli undir sundrungu milli þessara landahluta.

Ég hef alltaf álitið að þessi svæði væru í raun sitt hvor hliðin á peningnum og styrktu hvort annað.

Oft hef ég heyrt að Reykvíkingar væru í raun snýkjudýr á landsbyggðinni. Þá er umræðan gjarna krydduð með orðum um lattelepjandi lýð í 101 Reykjavík.

Sjálfur er ég Reykvíkingur, en faðir minn var Eyfirðingur, móðir mín Skagfirðingur og konan mín frá Vestfjörðum.

Mest allan minn starfsaldur vann ég hjá Símanum ( samtals um 40 ár). Þar vann ég við uppsetningu á talsíma- og radíókerfum um allt land.

Vonandi hef ég ekki verið, allan minn starfsaldur, snýkjudýr á þjóðinni !

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 21:48

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orðin "afætulýður" og "sníkjudýr" teljast víst ekki ærumeiðandi. Né heldur "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík" sem við erum víst öll sem erum "byrði á þjóðinni." 

Höldum áfram  á þessu plani og skoðum fleira. Mestu afætur Íslendinga voru samkvæmt þessum skilningi Jón Sigurðsson og Fjölnismenn af því að þeir löptu kaffi og vín í kaffihúsum Kaupmannahafnar á meðan landar þeirra áttu heima í torfkofum og strituðu og stjönuðu undir rassgatinu á þeim heima á Fróni.

Alhæfingin er alger, - við sem ekki erum til heimilis úti á landi erum ónytjungar og til óþurftar.  Ég telst vera "lattelepjandi kaffihúsamaður" þótt ég hafi aldrei drukkið kaffi á kaffihúsi og komi helst aldrei á slíka staði.

Gaman væri að nefna nokkur fyrirtæki í Reykjavík sem eru "byrði á þjóðinni og afætur".

Læt eitt nægja. CCP heitir fyrirtæki í 101 Reykjavík sem er byggt á hugviti örfárra manna. Það gefur landinu meiri gjaldeyristekjur en sem nemur öllum störfum í álverum á Íslandi.

En "afætur" skulu þeir heita.

Ómar Ragnarsson, 19.4.2012 kl. 23:06

6 identicon

Komið þið sælir; á ný !

V. Jóhannson - Svavar, og Ómar !

Vitaskuld; væri hyggilegast, að þið Reykjavíkur búar, segðuð ykkur frá okkur, sem Landsbyggðina byggjum, og stofnuðuð ykkar Borgríki, á eigin forsendum.

Ég hygg; að það mætti alveg ríkja kaldur friður, okkar; í millum.

Eftir reynslu okkar; sem úti á Lndsbyggðinni búum, af skrifræðis miðstýringu Reykjavíkur, undanfarna áratugi, væri þetta albezta lausnin; ykkur, að segja.

Með sömu kveðjum; sem seinustu /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 23:35

7 identicon

V.Jóhannsson; afsakaðu Helvízka fljótfærni mína, ágæti drengur, hvað stafsetningu varðaði, á nafni þínu.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 23:44

8 identicon

Í hefðbundnu sjáfarplássi á Íslandi er aðeins þrent hægt að gera í atvinnumálum og hefur verið svo í áratugi og mun vera um ókmna framtíð.(Kannski smá háð).

Tek fram að ef einhverjar nýjungar koma uppá, þá eiga þeir fyrir sunnann að redda því, ekki heimamenn. Það sagði allavega hreppsnefndin á síðasta fundi.

Þessi þrjú atriði eru - Ráða sig í frystihúsið, segja upp í frystihúsinu og /eða fara sjálfkrafa á atvinnuleysisbætur því frystihúsið er lokað vegna hráefnisskorts.

Basta.

ÓHH , Það þarf ekki að afsaka nafnabrengl. Ég hef verið skráður svona opinberlega erlendis í 19 ár. kv.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 01:41

9 identicon

Sælir; sem fyrr !

V. Jóhannsson !

Þakka þér fyrir lítillætið; en jú, annað s ið vantaði í eftirnafn þitt (í athugas. nr. 6), svo fram komi. 

Kannski; óþarfa smásmygli, af minni hálfu, en fannst ærlegast, að leiðrétta það, að sjálfsögðu.

Með þeim sömu kveðjum - sem síðustu /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 01:47

10 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Þegar um er að ræða skattlagningu sem að lang mestu leiti leggst á landsbyggðina, er þá ekki eðlilegt að ræða um landsbyggðina versus borgina?

Ég skil ekki hvað er óeðlilegt við það í það minsta.  Það mætti þá hugsa til þessa áður en slíkir skattar eru lagðir til.  Væri eðlilegt að leggja á sérstakan ofbeldisskatt eða tímaeyðsluskatt á CCP sem býr til tölvuleiki Ómar Ragnarsson?

Vona að þú segðir nei við því.

Það að ræða um kaffilattelepjandi borgarlýð sem gefur í skyn að Ísfirðingar þurfi að greiða þessa sérskatta til að fá lagða vegi er víst of sterkt þykir sumum.  Sama fólkinu sem ekki þætti eðlilegt að koma með skattaskýrsluna á spítalann svona til að sjá hvar á biðlistanum þau ættu að lenda þyrftu þau á læknishjálp að halda.

Svona orð skilja flestir að eru ekki alhæfingar, heldur frekar orðanotkun til að auka á bragðið.

Það má segja hlutina eins og þeir eru, og jafnvel aðeins krydda söguna.

Þetta er líka nákvæmlega svona í Noregi.  Oslo hefur fólkið, menntunina og valdið.  En hvar eru verðmætin unnin?

Jón Ásgeir Bjarnason, 20.4.2012 kl. 13:22

11 identicon

Auðvitað á ekki að ræða þetta mál á ærumeiðandi nótum. En það sem að Gunnar Heiðarsson vildi sagt hafa, er að ójafnvægið í byggð landsins er einhver stærsta meinsemd þjóðfélagsins. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi samþjöppun peningavaldsins og stjórnsýslunnar, sem leiðir af sér spillingu og klíkukrati, hafi verið megin orsök Hrunsins. Líklega er það engin tilviljun, að það ríki Evrópu sem er í svipaðri stöðu og við, Grikkland, hefur við sama vandamál að stríða. Þar snýst allt í kringum eina borg, Aþenu.

Haukur Kristinssonh (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 13:29

12 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hjálmtýr, ég tók eftir því að þegar þú vísar beint í pistil Gunnars - innan gæsalappa, þá sleppirðu upphafsorðum hans:

"Lilja Rafney segir eðlilegt að Vestfirðingar borgi skatta til þjóðfélagsins, ef þeir vildu fá göng og vægi."

Ef þessi upphafsorð eru klippt út, þá ertu búinn að skapa ónotalegan pistil, vissulega.

En í reynd eru orð Lilju Rafneyjar verðari gagnrýni, en nokkur umsögn um þau.

Kolbrún Hilmars, 20.4.2012 kl. 16:23

13 identicon

Komið þið sæl; að nýju !

Kolbrún fornvinkona Hilmars !

Drengilega; kemur þú Gunnari vini okkar til varna, með glöggskyggni þinni, sem alkunnri nákvæmni í öllu því, sem frá þér fer. Ekkert 1/2 kák þar - og mætti Hjálmtýr síðuhafi og aðrir honum samþykkjandi, gaumgæfa þína ábendingu, sem því næmi, aldeilis.

Í fljótaskrift minni; á dögunum, hafði mér algjörlega yfirsézt, þetta atriði, Kolbrún mín.

Með; ekkert síðri kveðjum - en hinum seinustu /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 17:12

14 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Kolbrún og Óskar Helgi

Þegar orð Liju eru ekki tekin með þá blasir við það sem ég tel ámælisvert í grein Gunnars. Fordómar og hemskulegir sleggjudómar um fólk. Þessi skrif Gunnars eru dæmi um leiðinlegan umræðustíl sem grasserar á netinu. Það er fremur slakt hjá ykkur að reyna að finna einhvern vitrænan flöt á framlagi Gunnars, bendir jafnvel til þess að þið hafið samúð með þessum vonda málflutningi (sem reyndar má lesa af orðum Óskars Helga).

Gunnar skrifar „Minn hugarheimur er mitt“ og virðist móðgaður vegna ádrepunnar frá mér. En hann kaus að deila þessum „hugarheimi“ með okkur á netinu og það er enginn sem bannar honum það. Nema ef það væri hans eigin smekkvísi og möguleg umhugsun. Það er ekki eðlilegt og engum hollt að ástunda málflutning sem byggir ekki einu sinni á staðreyndum - bara forpokuðum hugmyndum sem nærast á minnimáttakennd og fáfræði - eða ímynduðum gáfum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.4.2012 kl. 11:31

15 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hjálmtýr,  ég er eiginlega orðlaus núna eftir þessa síðustu athugasemd. 

Sem er eflaust ágætt, því annars gæti ég sagt eitthvað ljótt um sjálfskipaðar skoðanalöggur hér á blogginu...

Kolbrún Hilmars, 21.4.2012 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband