Sniðgangan

BDSSNIÐGÖNGUHREYFING
Umræðan um samþykkt meirihlutans í Reykjavík, um að borgin sniðgangi vörur frá Ísrael meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir, tekur á sig ýmsar myndir.

Mikið ber á upphrópunum um að þetta sýni gyðingahatur. Jón Magnússon lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar „Óneitanlega er það dapurt að borgarstjórn Reykjavíkur skuli haldin slíku Gyðingahatri“ og Júlíus Hafstein, einnig framámaður úr Sjálfstæðisflokknum skrifar að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi „farið af stað með Gyðing-haturs herferð eins og tíðkaðist í seinni heimstyrjöldinni“.
Aðrir, þ.á.m. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sakar meirihlutann um tvískinnung og hræsni. Hann segir ennfremur að næsta skref hljóti að vera að samþykkja viðskiptabann á Kína sem einnig stundi mannréttindabrot.

Landránið á Vesturbakkanum og herkvíin um Gaza eru ólöglegar aðgerðir skv. alþjóðasáttmálum og því ber öllum ríkjum og opinberum aðilum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að vinna gegn framferði ríkja sem brjóta alþjóðalög um mannréttindi og samskipti ríkja. 
Af ýmsum ástæðum hefur Ísrael getað haldið sinni ólöglegu stefnu til streitu. Sama hve langt þeir ganga þá halda BNA og mörg ríki Evrópu verndarhendi yfir þeim. Hvert sinn sem tillaga um að Öryggisráð SÞ beiti sér gegn stefnu Ísraels þá nýta BNA neitunarvald sitt.

Sniðgönguhreyfingin gegn framferði Ísraels er vaxandi víða um heim. Útbreiðsla sniðgöngunnar er farin að valda ráðamönnum í Ísrael áhyggjum og segir það nokkuð um árangurinn. Þessi sniðgönguhreyfing er grasrótarhreyfing og má sjá hve víðtæk og árangursrík hún er á heimasíðum s.s. http://www.bdsmovement.net

MÁLFLUTNINGUR SJÁLFSTÆÐISMANNA
Rökþrota stuðningsmenn ísraelsríkis grípa ætíð til upphrópana um „gyðingahatur“ þegar menn gagnrýna hernámið á Vesturbakkanum og umsátrið um Gaza. Þessi málflutningur er fáránlegur og eignar öllum gyðingum glæpi síonista í Ísraelsríki. Þetta er jafn fáránlegt og að kenna öllum múslimum um glæpi ISIS og öllum kristnum mönnum glæpi Breivik og annarra glæpamanna sem segjast vera kristnir.

Skrif Júlíusar Hafstein um að hér sé á ferðinni „gyðingahaturs herferð eins og tíðkaðist í seinni heimstyrjöldinni“ er ótrúlega heimskuleg. Gyðingahatur og ofsóknir gegn þeim trúflokki eru aldagamalt fyrirbrigði sem náði hámarki með skipulagðri útrýmingaherferð nasista í seinnni heimstyrjöldinni. Samlíking Júlíusar er því fáránleg og lýsir þekkingarleysi og getuleysi höfundarins til að hugsa rökrétt.

Hugmyndir Kjartans um að ef það eigi að fordæma mannréttindi einhverra þá verði allur pakkinn að fljóta með er bara hræsni. Auðvitað eiga allir mannréttindasinnar að fordæma öll brot gegn réttindum einstaklinga og þjóða. En aðstæður hverju sinni eru breytilegar og geta manna til að ná áhrifum mismunandi sökum þess.
Hreyfingin sem starfar að sniðgöngu gegn glæpum Ísraels vinnur samkvæmt hvatningu frá Palestínumönnum sjálfum. Þeir biðja um hjálp og þeir vita að sterk sniðgönguhreyfing hjálpar þeim í þeirra baráttu.

Í Ísrael er málfrelsi og frjáls fjölmiðlun þótt það fjari undan lýðræðinu undir stjórn Netanjahu. Þess vegna skilar það sér til landsmanna þegar almenningsálitið í heiminum er ekki tilbúið að samþykkja landránið og hernámið á Vesturbakkanum og umsátrið um Gaza.
Og það getur hægt og bítandi haft áhrif á stjórnvöld.

Andstaða gegn hernámi Kínverja á Tíbet getur ekki skilað sér með sama hætti og sniðgangan gegn Ísrael getur gert. Í Kína er alræði og engin frjáls fjölmiðlun né frjáls skoðanaskipti. Menn verða alltaf að velja sér stað og stund fyrir mannréttindabaráttuna . Ríkisstjórnir margra ríkja láta kínverska ráðamenn heyra af andúð sinni á framferði þeirra í mannréttindamálum. En almenningur hefur takmarkaðan vettvang til að beita sér.
Tal Kjartans um hræsni meirihlutans í borginni er því að mestu marklaust og er í raun tilkomið vegna þess að hann fylgir sömu stefnu og Bjarni Benidiktsson formaður flokksins hefur lýst með orðunum „það verður að taka tillit til hagsmuna Ísraels“. Kjartan er því bara málpípa fyrir mannréttindabrot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ósanngirni þín, Hjálmtýr, er er ekki lítil, þegar þú fullyrðir hér, að Kjartan Magnússon sé "bara málpípa fyrir mannréttindabrot." Það er laukrétt hjá honum, að það væri miklu meiri ástæða til að beita sér gegn Kína heldur en Ísrael vegna mannréttindamála. Ísrael er eitt örfárra landa í Mið-Austurlöndum, þar sem múslimar (rúm 20% íbúa landsins) hafa kosningarétt. Þér tjóar ekki að reyna að halda því fram, að við getum ekki beitt okkur gegn hrikalegri meðferð (þjóðernishreinsunum og annarri kúgun) á Tíbetum, af því að "almenningur" þar (í Kína) "hefur takmarkaðan vettvang til að beita sér." Borgarstjórn hefur nákvæmlega sama "vettvang" til þess eins og í Ísraelsmálinu! En reyndar er allt þetta ferli í Ráðhúsinu alvarlegt lögbrot, sveitarfélög hafa ekkert vald í utanríkismálum:

Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður greindi þetta vel:

Hann "segir ákvörðunina ekki vera í samræmi við lagabókstafinn.

„Sveitarfélög eru stjórnvöld og þau mega bara framkvæma það sem þeim er falið með lögum. Degi B. Eggertssyni og Reykjavíkurborg hefur ekki verið falið utanríkismál eða það að ákveða viðskiptaþvinganir gegn erlendum ríkjum. Þannig að þeir eru komnir langt út fyrir hlutverk sitt sem sveitarfélag. Auk þess gæti ekki einu sinni ríkisstjórn tekið svona ákvörðun, það þyrfti heimild frá Alþingi.“

Einar segir borgina ekki geta skýlt sér á bak við aðgerðir ísraelskra stjórnvalda eða ástandið í Mið-Austurlöndum; Reykjavíkuborg hafi hreinlega ekki heimild til að mismuna fólki í viðskiptum.

„Þetta er í andstöðu við stjórnarskrána. Þetta er jafnmikið lögbrot eins og að neita viðskiptum við rauðhærða og það þýðir ekkert að skírskota til meints framferðis Ísraela. Ísland er með stjórnmálasamband við þetta ríki og það þýðir ekkert fyrir borgina að halda að þeir séu með einu réttu skoðunina á flóknum málefnum Austurlanda og það réttlæti svona ákvörðun. Þetta er öldungis sambærilegt við það að mismuna fólki eftir þyngd eða litarhætti,“"

sagði Einar Gautur að lokum skv. viðtali á Visir.is (og var einnig í Rúv, þótt reynt væri að gera þar minna úr þeirri frétt en efni stóðu til).

Og ekki færðu miklar undirtektir hér við málflutning þinn, kominn með 1 "læk", þótt 300 hafi heimsótt síðuna!

Jón Valur Jensson, 17.9.2015 kl. 13:37

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, reyndar eru gestir í dag orðnir 140.

 

Jón Valur Jensson, 17.9.2015 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband