Grein sem Mogginn hefur ekki birt enn

Ég sendi þessa grein til Morgunblaðsins 25. mars.
Hún hefur ekki verið birt svo að ég skelli henni hér:
GAZAGETTÓIÐ og sjónarmið Síonistans

Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi skrifaði grein í Morgunblaðið 17. mars s.l. með fyrirsögninni „Hryðjuverk og viðbrögð við þeim“
Kjarni greinarinnar er þessi: Ef hryðjuverkamennirnir í Hamas hætta að skjóta eldflaugum, ráðast á ísraelsk heimili, sjúkrahús, trúarskóla og barnaheimili þá muni ríkja friður. Ísraelsher hefði þá enga ástæðu til þess að ráðast á Palestínumenn.
Sendiherrann reynir að telja lesendum Mbl. trú um að andspyrna Palestínumanna sé orsök átakanna, hún lýsir Ísraelum sem fórnarlömbum. Við eigum að trúa því að þjóð sem á fjórða sterkasta herinn og nýtur stuðnings öflugasta herveldisins, sé fórnarlamb þjóðar í herkví!
Það er fróðlegt að kynnast málflutningi sendiherrans, hún er opinber talsmaður Ísraelsstjórnar og flytur því afstöðu stjórnarinnar og sjónarmið Síonista ómengaða til okkar. Hún opinberar það sem er svo mikilvægt að almenningur skilji: Talsmenn Ísraela segja aldrei satt og rétt frá þegar þeir ræða átökin við Palestínumenn. Sendiherrann er að verja málstað þeirra sem eru hægt og bítandi eru að reyna að útrýma heilli þjóð! Það er ekki góður málstaður og þess vegna verður að bera fram miklar blekkingar
Sendiherra Síonistanna er djörf í grein sinni; hún hikar ekki við að vísa Palestínumönnum leiðina til lífshamingjunnar og skrifar: „ef hryðjuverkaáætlanir, vopnasmíð og upphafning haturs vikju fyrir eðlilegri atvinnustarfsemi“. Þessi leiðarvísir sendiherrans hlýtur að vekja upp spurningu; Hvað er eðlileg atvinnustarfsemi hjá þjóð sem hefur verið undirokuð í áratugi? Er hægt að stunda eðlilega atvinnustarfsemi þar sem hernámslið setur upp mörg hundruð vegatálma – þar sem akrar eru eyðilagðir – þar sem húsnæði er lagt í rúst – þar sem fólki er meinaður aðgangur að vatni – þar sem fólki er meinuð afnot af vegum – þar sem skattatekjum er stolið – þar sem fólki er neitað um lifsnauðsynlegan aðgang að heilbrigðisstofnunum – þar sem fullkomnustu herþotur varpa sprengjum á þéttbýli – þar sem stöðugt er skotið úr skriðdrekum og stórskotaliðsbyssum – þar sem ekki er hægt að fá einföldustu varahluti – þar sem rafmagn getur farið fyrirvaralaust – þar sem ríkir hafnbann – þar sem flugvöllurinn hefur verið sprengdur í loft upp – þar sem margra metra hár múr skilur að þorp og akra – þar sem fatlað fólk er drepið með jarðýtum - þar sem menn geta átt von á fyrirvaralausri fangelsun – þar sem börn horfa á foreldra sína niðurlægða – þar sem börn eru skotinn til bana á leið í skóla eða við leik - þar sem skólakerfi er skipulega lagt í rúst – þar sem tölvum með upplýsingum um þjóðina er stolið – þar sem holræsakerfi eru eyðilögð – þar sem skriðdrekum er ekið vísvitandi yfir bíla í eigu einstaklinga – þar sem land heimamanna er tekið með hervaldi og lagt undir nýbyggingar vopnaðra landtökumanna – þar sem fjöldamorð eru regla en ekki undantekning?

Orð sendiherrans um „eðilega atvinnustarfsemi“ afhjúpa takmarkalausan hroka Ísraelsstjórnar gagnvart umheiminum.
Almenningur á Íslandi veit að það eru Palestínumenn sem eru sviptir landi sínu, mannréttindum og möguleikum til þess að lifa því lífi sem allar þjóðir eiga rétt á. Og það eru Ísraelar sem hafa hertekið þessa þjóð, drepið þúsundir, fangelsað þúsundir, eyðilagt heimili tugþúsunda og svipt 10,5 milljónir Palestínumanna landi sínu.
Allir Palestínumenn eru í heljargreipum Ísraela; 4,5 milljónir eru í herkví í Gazagettóinu og á Vesturbakkanum, 1,3 milljónir lifa við skert réttindi í Ísrael og milljónir eru flóttamenn um allan heim og fá ekki að snúa heim. Andspyrna Palestínumanna er réttmæt barátta fyrir réttindum sínum. Þetta er hinn einfaldi sannleikur og blekkingatilraunir sendiherra Síonistanna geta ekki falið raunveruleikann.

Hvað segja íslenskir ráðamenn um þetta ástand? Hvernig geta þeir samþykkt með aðgerðaleysi sínu að svona sé farið með eina þjóð?
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að því miður hafi Ísraelar „leiðst út í ógöngur“ þegar hann fjallar um nýleg fjöldamorð þeirra í Gazagettóinu. Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra heimsótti svæðið, skoðaði rörasprengjur í Sderot og sá með eigin augum fangelsismúrinn sem Ísraelar stækka daglega. Hún skrifaði bréf til utanríkisráðherra Ísrael og mótmælti framferði þeirra á Gaza. En þetta eru máttlausar aðgerðir, hryðjuverkamenn Ísraela hlusta ekki á svona aðfinnslur – það er margsannað.

Ofbeldisstjórninni í S-Afríku var komið á kné með baráttu heimamanna og stuðningi umheimsins. Það var sett viðskiptabann á stjórn hvíta minnihlutans í S-Afríku og flest ríki frystu sín samskipti við hana (Ísrael var eitt fárra ríkja sem hélt góðu sambandi).
Ríkisstjórn Íslands á að fylgja hvatningu Desmond Tutu biskups, en hann hefur hvatt til viðskiptabanns á Ísrael. Ef utanríkisráðherra Íslands vill freista þess að hafa áhrif á ástandið þá verður hún að taka skrefið og rjúfa öll samskipti við stjórnvöld í Ísrael. Það er það eina sem fær þau til að skilja að umheimurinn muni ekki líða framferði þeirra. Eftir 60 ára kúgun er kominn tími til aðgerða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

blésaður kaddlinn. vjelkominn í bloggheima. nú verður þú að fara að safna bloggvinum og óvinum. best er að hafa sem blandaðastan hóp svo að það verði stuð í athugasemdakerfinu. en mér sýnist það vera það sem morgablorgið gengur útá.  nú er svo bara að vona að dóttir nr. 2 verði ekki fúl yfir að vera nr. 2....muahaha...... ps. þú ert orðinn tengill hjá mér sömuleiðis.

dóttir nr. 1 (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 23:34

2 identicon

saell pabbi.

 velkominn. Mikid er videigandi ad vid systur gerdum athugasemdir i theirri rod sem vid erum numeradar.

dottir nr.2 (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband