19.5.2008 | 17:25
Hvenær á að ræða málin af alvöru?
Geir H. vill ekki ganga í ESB, þá vitum við það. En hann er smeykur við að ræða málin og reynir að stýra flokki sínum frá vitrænni umræðu um málið. Það þykir mér merkilegt, stærsti flokkurinn þorir ekki að taka á einu stærsta málinu. Hvað öfl eru það í flokknum sem eru svona stygg?
Geir nefnir sem dæmi um kosti þess að vara utan ESB að þá hefðum við ekki getað brugðist við þeim vanda sem nú er mestur í efnahagsmálum. En eins og ýmsir hafa bent á þá er það vandi sem við búum til sjálf, og væri sjálfsagt ekki til ef að við hefðum lagað okkar hagkerfi m.a. með því að kasta krónunni.
EES samningurinn og aðlögun okkar að Evrópu hefur skilað bótum í réttarkerfinu, bætt íslenska stjórnsýslu og komið umhverfislöggjöf okkar í betra horf.
Enginn pólitíkus hefur opinberað þá skoðun að við ættum að losa okkur frá EES samningnum. Nú tökum við upp margvíslegar tilskipanir og breytum lögum hér vegna aðildarinnar að EES. En við eigum enga möguleika á að hafa bein áhrif þær umræður og atkvæðagreiðslur þar sem þessar tilskipanir verða til. Það er mjög sérkennileg staða hjá þjóð sem segist vera svo stolt og sjálfstæð.
Það eru kostir og gallar við ESB, að sjálfsögðu. Ef að íslenskur almenningur gæti uppskorið lægra vöruverð og frelsi frá mesta vaxtaokrinu þá hlýtur það að vega mjög þungt á vogarskálinni.
Mér sýnist það blasa við að rökrétt skref í dag er að hefja aðildarviðræður við ESB og sjá hvernig kaupin gerast á Eyrinni. Ef það kemur í ljós að þjóðin telur skilmálana óaðgengilega þá er málið komið á nýtt stig. En að þora ekki að ræða málin og að hefja viðræður ég get ekki skilið þá afstöðu. A.m.k. hefur engin umræða átt sér stað sem hefur getað sannfært mig um að afstaða Geirs H. og Ragnar Arnalds sé í lagi. Jón Sigurðsson fv. ráðherra er á réttri braut og það væri gaman ef að Geir hefði hugrekki til þess að fylgja honum í ítarlegri umræðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.