Ef Akranes yrði óbyggilegt

Afstaða Magnúsar Þórs Hafsteinssonar til flóttamanna er byggð á skammsýni og reynsluleysi. Hann hefur ekki sagt eða skrifað neitt svo ég viti sem flokkast sem kynþáttahyggja. En þó gæti hún leynst í hugskotum hans og er þá sama byggingarefnið notað til að mynda slíka fordóma: skammsýni og reynsluleysi.
Setjum svo að Magnús Þór og Skagamenn lentu í verulegum hremmingum. Til dæmis nýtt Básendaflóð, allt á kaf ; Akranes óbyggilegt og íbúarnir neyðast til að flýja. Þá gerist auðvitað það sama og í Vestmannaeyjagosinu: allir reyna að rétta hjálparhönd. Þetta er eðlilegt og nauðsynlegt. Eðlilegt því að flestir menn eru góðir inn við beinið og nauðsynlegt vegna þess að með þessum hætti heldur lífið áfram og menn ná sér aftur á strik.
Flóttamannavandamálin úti í heimi eru til kominn sökum þess að einstaklingar eða hópar geta ekki búið lengur í sínum heimahögum. Það geta verið stríðsátök eða náttúruhamfarir sem skapa þetta ástand. Eftir að náttúruhamförum linnir þá snúa menn til síns heima. Sama gerist þegar að stríðsátökum linnir, flestir reyna að snúa heim.
En á meðan ástandið varir þá þurfa flóttamennirnir aðstoð, annað hvort alþjóðlega eða staðbundna.
Palestínskir flóttamenn geta ekki snúið aftur til sinna heimahaga vegna þess að Ísraelsríki er búið að ræna landi þeirra og þeir fá ekki að fara heim.
Þá geta Skagamenn komið til sögunnar. Þeir geta tekið nokkra flóttamenn til sín og hjálpað þeim til að komast á réttan kjöl. Lítill dropi í hafið, en dropi sem sýnir að skammsýnin hefur ekki yfirhöndina alla daga.
Allt tal um að það eigi að leysa öll félagsleg vandamál heimafyrir áður en öðrum er sinnt er bara vitleysa. Væri sú afstaða ráðandi þá myndi ekkert ríki taka við flóttamönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þér til upprifjunar er rétt að benda á að Magnús Þór bjó um árabil í Noregi.

Sigurjón Þórðarson, 20.5.2008 kl. 01:06

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Sigurjón

Ekki sé ég að Noregsdvöl MÞH komi þessu máli við. Hann er að burðast með sína skammsýni hér á Íslandi í dag. Ég bjó í Svíþjóð og hef heimsótt tæplega 40 lönd önnur. Þar á meðal Palestínu. Hverju bætir þessi upptalning við málið?

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.5.2008 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband