3.6.2008 | 10:21
Meira um Mogens
Ég kíkti betur á Kastljósið frá því í gær og danska stjórnmálamanninn Mogens Camre. Hann er afdráttarlaus: Það er bara til ein siðmenning, og það er okkar siðmenning.
Menn eins og Mogens gera hlutina einfalda, þeir pakka pólitíkinni í neytendavænar umbúðir, ekkert vesen, einfalt og þægilegt. Hann skiptir heiminum í okkur og hina sem eru á lægra siðferðisstigi.
Þegar samskiptasaga vestrænna nýlenduvelda við heim múslima eru skoðuð þá gæti sú hugsun skotið upp kollinum að þar sé að finna hluta þess vanda sem Mogens þykist vera með lausnina á.
Bretar, Bandaríkjamenn og Frakkar eiga ljóta sögu að baki í heimi múslima. Stóra afrekið var auðvitað að stofna Ísrael með endalausum átökum sem ekki lýkur í bráð.
Það er athyglisvert að í september 1947, skömmu áður en Allsherjarþing SÞ samþykkti skiptingu Palestínu, voru margir sérfræðingar í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna algjörlega mótfallnir því að BNA styddu skiptingu landsins. Loy Henderson, stjórnandi þeirra deildar innan ráðuneytisins sem annaðist málefni Austurlanda nær, skrifaði minnisblað sem vert er að skoða í ljósi reynslunnar. Henderson skrifaði í skýrslu sinni að skiptingin væri ávísun á endalaus vandræði: áætlun nefndarinnar (UNSCOP-sérnefnd SÞ um málefni Palestínu) er ekki aðeins óframkvæmanleg; ef henni verður hrint í framkvæmd mun það tryggja að Palestínuvandamálið verður varanlegt og enn flóknara eftir því sem tímar líða. Tillögur nefndarinnar sniðganga ekki aðeins grundvallaratriði alþjóðasamskipta, en viðhald þeirra þjónar hagsmunum Bandaríkjanna, þær eru einnig andstæðar ýmsum ákvæðum sáttmála SÞ og grundvallaratriðum sem bandarísk stjórnsýsla byggir á
Tillögurnar sniðganga grundvallarréttindi s.s. rétt til sjálfsákvörðunar og meirihlutavalds. Tillögur sem felast í áætlun nefndarinnar eru ekki aðeins á skjön við reglur, í þeim er viðurkennt að byggja megi ríki á trúalegum grunni og kynþáttamismun og leyfir í mörgum tilfellum mismunun á grundvelli trúar og uppruna gegn fólki sem býr utan Palestínu. Fram til þessa höfum við alltaf fylgt þeirri reglu í samskiptum við önnur lönd, að bandarískir borgarar njóti jafnræðis án tillits til uppruna og trúar. Sú áhersla sem hér er lögð á það hvort menn séu gyðingar eður ei mun örugglega auka þá tilfinningu meðal gyðinga og annarra að þeir hafi sérstöðu. Okkur ber engin skylda til þess að stuðla að stofnun gyðingaríkis.
Svo mörg voru þau orð. Varnaðarorð Loy Henderson sýna okkur hversu illa var staðið að málum þegar 33 ríki, þar á meðal Ísland, ákváðu að hundsa réttindi Palestínumanna. Afstaða nýlenduveldanna ásamt sögulegum skírskotunum gyðinga og ofsóknum nasista leiddu til stofnunar Ísraelsríkis 1948. Fyrstu afleiðingarnar voru skipulagðar þjóðernishreinsanir, brottrekstur 750,000 Palestínumanna og útþurrkun 300 Palestínskra þorpa af yfirborði jarðar.
Framferði Bandaríkjanna í seinni tíð og öll saga Ísraels eru m.a. ástæður vaxandi öfga meðal múslima. Sem síðan vekja til lífsins danska öfgasinna sem Mogens nærir með sínum málflutningi. Innrásin í Írak, gerð undir því yfirskyni að velta einsræðisherra búinn gereyðingavopnum, er bara einn þáttur þessa máls.
(Mér varð það á í síðasta bloggi að þýða torklæde sem handklæði - en mér skilst nú að Danir noti þetta orð yfir slæður)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.