Í hraða nútímans – rjúkandi réttir á faraldsfæti

Fréttablaðið birti þ. 18. júlí viðtal við Stefán Stefánsson veitingamann sem hefur, ásamt eignkonu sinni, opnað nýjan veitingastað. Það er ekki fréttnæmt að nýir veitingastaðir skjóti upp kollinum í Reykjavík, en það sem stingur í augun er nafn staðarins – Just Food to go. Hvað býr að baki þegar íslenskur veitingamaður sem rekur veitingastað á Íslandi velur slíkt nafn? Stefán hyggst svara kalli tímans og selja góðan mat „í hraða nútímans“. Nafn staðarins á að upplýsa okkur um þetta en tekst illa að mínu mati. Bein þýðing er erfið – „eingöngu matur til að taka með“. Uppsetning nafnsins eins og það birtist í fréttinni sýnir orðin Just Food sem aðalnafn. Sem má skilja sem „réttlát fæða“ eða „eingöngu matur“. Maturinn hjá Stefáni er seldur eftir vigt og felst „réttlætið“ kanski í þeirri aðferð.
Stefán gerir sér sjálfsagt grein fyrir því að það eru stundum fleiri útlendingar á Íslandi en innfæddir. Hingað koma 500,000 ferðamenn og svo eru einhverjir tugir þúsunda útlendinga sem vinna hér um lengri eða skemmri tíma. Væntanlegir viðskiptavinir hans eru íslenskir borgarbúar og útlendingar. Hann á ekki marga viðskiptavini meðal dreifbýlisbúa og eldri borgarbúa, þeir elda sinn mat heima eða borða í mötuneytum. Það eru ferðamenn og yngri borgarbúar sem „fara út að borða“. Nýi veitingastaðurinn virðist þó eiga að sinna þörfum þeirra sem vilja taka matinn með sér heim og þá eru ferðamennirnir ekki líklegir viðskiptavinir. Þessi nýi veitingastaður virðist því aðallega þjóna Íslendingum sem eru að flýta sér.
Ég tel réttast í svona tilfellum, þegar viðskiptavinirnir eru f.o.f. íslenskir, að finna gott íslenskt nafn og hafa svo undirtitil á ensku. Allt annað virkar fremur hallærislegt í mínum augum.
Og Stefán í Just Food to go verður að átta sig á því að útlendingar sem hingað koma vilja upplifa Ísland sem eitthvað sérstakt, ekki bara sem enn eitt útibú amríkaniseringunnar. Og svo eru ekki allir útlendingar enskumælandi.
Stefán rak áður veitingastaðinn Rauðará við Rauðarárstíg. Ekki féll hann í þá freistingu að kalla staðinn Red River Restaurant.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algjörlega sammála.

Edda (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 11:55

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þessi Stefán heldur etv. að hann sé heimsborgari með því að nota enskt nafn á staðinn, en í raun er hann smáborgari. Hugsanlegt er að íslenskir smáborgarar flykkist á staðinn í misskilinni viðleitni sinni við að vera heimsborgarar. Ég vona að Stephan meiki monní á þessu. En það eru ekki bara veitingamenn sem eru smáborgarar heldur líka þeir sem skírðu eitt húsið sem rísa á við hafnarbakkann í Reykjavík World Trade Center. Hvaða hálfvita datt í hug að Reykjavík sé eða verði viðskiptamiðja heimsins? Hlægilegt.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 19.7.2008 kl. 15:27

3 identicon

 Matur til að taka með sér hefur frá upphafi vega heitið NESTI á íslensku.

"Matur í nestið" gaeti gengi sem þýðing.

 En annars er ég sammála síðasta ræðumanni um að þessi eftiröpun á enskum frösum  er skopleg, sbr. "Tími fyrir te".

Fussum svei!

 Tjallaþefur í helli mínum!

Helgi Haraldsson (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 16:58

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég tel að það sé ekki rétt að stimpla Stefán sem smáborgara eða heimsborgara. Hann er örugglega harðduglegur veitingamaður - en kærulaus þegar kemur að nafnavalinu.

Ég hef ekkert lesið um væntanlegt World Trade Center - trúi því varla að einhverjir láti sér detta svona í hug.

Ég ítreka þá skoðun mína að íslenskir athafnamenn eiga að forðast að klína enskum heitum á fyrirtæki sín sem f.o.f. eiga viðskipti við Íslendinga. Fyrirtæki sem eiga mikil viðskipti við erlenda aðila þurfa auðvitað að finna þjál nöfn sem þvælast ekki fyrir í viðskiptunum. En það verður að hafa íslenskuna í fyrirrúmi hér, annað er lágkúra.

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.7.2008 kl. 10:56

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Mæli með þessum stað.  Um að gera að prófa.

Björn Heiðdal, 22.7.2008 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband