
Ég hitti mann í dag sem hefur fengið að upplifa hið furðulega ástand sem nú ríkir með sérstökum hætti. Þessi maður átti fyrirtæki sem heitir Samson, löngu fyrir daga Samsonarfélags Björgólfsfeðga. Umræddur maður gerði eins og margur annar, hann keypti sér bílnúmeraplötu með nafni síns gamla fyrirtækis: SAMSON. Fram til þessa hefur hann ekið stoltur um bæinn eins og hver annar. En nú eru breyttir tímar. Eftir þjóðarbömmerinn hafa einhverjir náungar gert sér lítið fyrir og skorið á öll fjögur dekk bílsins, rispað hann og stolið annarri númeraplötunni með hinn afdrifaríku áletrun. Þó er bíllinn bara venjulegur jeppi sem Björgólfarnir myndu aldrei láta sjá sig akandi í. Í æsingnum hafa skemmdarvargarnir ekki hugsað út í slík smáatriði svona birtist hin gamla útrás. Útrás fyrir reiði. Hún birtist sem árás - á hina nýju og afdrifaríku útrás. Skjótt skipast verður í lofti. Bakari hengdur fyrir smið osfrv.
Athugasemdir
Þetta er ljótt að heyra!
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.10.2008 kl. 00:51
Ja, sorglegt ef satt er, ég er alltaf jafn hissa að sjá reiði fólks bitna á þotuliðinu, þeir spiluðu eftir leikreglum sem stjórnvöld settu þeim. Þeir gerðu svo sem ekkert rangt, nema ef það er rangt að stunda bissness. Það eru stjórnvöld sem eru fyrst og síðast ábyrg fyrir stöðu mála, þau lýstu velþóknun sinni á braskinu, spiluðu með og tóku ekki mark á varnaðarorðum þeirra sem sáu hvert srefndi
Sigfús Axfjörð Sigfússon, 11.10.2008 kl. 00:54
Þetta er allt sama grínið. Fólk lætur stela af sér og finnur síðan einhverja algjörlega saklausa til að láta reiði sína bitna á. Nú þarf bara að finna Bjöggana, Jón Ásgeir, Hannes og flengja þá duglega t.d. fyrir framan Alþingishúsið þar sem Bubbi hélt tónleikana. Síðan má alveg kjöldraga Davíð Oddsson sem að sjálfsögðu ber 100% ábyrgð á þessu en ekki hvað.
Björn Heiðdal, 11.10.2008 kl. 08:35
Ef þú finnur Bjöggana, Jón Ásgeir og Hannes, smellir þeim í gapastokk á Austurvelli og leyfir almenningi að slá á botninn á þeim (duglega eins og þú skrifar) - þá hlýt ég að spyrja: til hvers? Hver er tilgangurinn? Að beina reiðinni í réttan farveg? Eru líkamlegar refsingar ekki miðaldalegar? Vilt þú fara svo langt aftur? Ég vil miklu frekar taka fyrir stjórnmálamennina og þeirra kerfi. Hverjir seldu bankana og voru (eru?) að undirbúa einkavæðingu menntakerfisins og heilbrigðisþjónustunnar? Hannes Hólmsteinn segir að kapitalisminn sé ekki það sama og kapitalistar. Að rassskella nokkra kapitalista er einmitt það sem Hannes vill. Hann vill ekki hrófla við sjálfum kapitalismanum.
Hjálmtýr V Heiðdal, 11.10.2008 kl. 08:46
Nei, þetta er rétt hjá þér. Þú ert ábyrgur fyrir þessu rugli með því að kjósa Ingibjörgu og þennan Björgvin viðskiptaráðherra sem veit ekki hversu margir vinna í bönkunum sem þó heyra undir hann. Allt liðinu að kenna sem setti engin lög um þetta heldur tók þau beint frá ESB. Auðvitað á að rassskella alla þessa kalla og kellingar.
Björn Heiðdal, 11.10.2008 kl. 10:00
Hvað kaust þú? Ekki var mitt auma atkvæði upphafið að þessu öllu. En vissulega þarf að fara með kústinn í öll horn og skot. Og líka undir píanóið sem leikið var á.
Hjálmtýr V Heiðdal, 11.10.2008 kl. 10:05
Ætli ég hafi ekki kosið hann Ómar fyrst þú endilega vilt vita. Ég er fyrir löngu hættur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nema þá til að koma í veg fyrir að Samfylkingin fái hreinan meirihluta.
Björn Heiðdal, 11.10.2008 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.