Þjóðarsúpan

Súpan

Íslenska þjóðin fær nú þau skilaboð að gjörvöll þjóðin sitji í súpunni, þjóðarskútan hefur steytt á skeri. Svart sé framundan og það verði að skerða lífskjör almennings. Laun munu lækka í verðbólgu, lífeyrisgreiðslur geta skroppið saman, margvísleg félagsleg þjónusta kannski skert, eftilvill dregið úr framlögum til mennta og menningar ofl. ófýsilegt.

Ef stjórnvöld og stjórnmálamenn ætlast til þess að íslenskur almenningur taki þá alvarlega og samþykki áframhaldandi starf og leiðsögn þeirra þá verða að koma til ýmsar breytingar. Í „súpuskálinni“ verður að ríkja sem mest jafnrétti, annars er ekki hægt að krefjast þjóðarsamstöðu. Það er nauðsynlegt að hreinsa andrúmsloftið og ræða málin í réttu samhengi. Til þess að svo geti orðið verður þjóðin að komast að samkomulagi um mörg mikilvæg mál. 

Hér eru nokkur þeirra sem ég tel að skipti máli:

1 - Afnema skal strax eftirlaunafríðindin sem þingmenn samþykktu sér til handa. Það verður engin samstaða meðan að hópar sem til þess hafa aðstöðu skara eld að sinni köku. Þeir stjórnmálamenn sem vilja að almenningur hlusti á þeirra ráð og hugmyndir geta ekki neitað þessari kröfu.

2 - Laun allra háttsettra embættismanna í hinu opinbera kerfi, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum, einnig laun þingmanna og ráðherra, verði ekki hærri en kr. 450,000 á mánuði. Allar sporslur og aukagreiðslur afnumdar. Þessi ráðstöfun er í raun afleiðing þess að hið opinbera brást hlutverki sínu. Hún er einnig nauðsynleg til þess að hér skapist samstaða um þær ráðstafanir sem verður að framkvæma.

3 – Kjör ellilífeyrisþega og öryrkja verði ekki skert.

4 - Burt með vaxtaokrið. 

5 - Fiskurinn í sjónum verði aftur þjóðareign. Kvótamálið er eitt stærsta jafnréttismál Íslandssögunnar. Þjóðarsátt verður að kveða á um breytingu kerfisins í anda þess jafnréttis (allir í súpunni) sem nú er boðað. Útgerðin er skuldug og það eru hinir nýju ríkisbankar sem hafa þar með eignast hluta skuldanna. Þessi staða verði nýtt til þess að færa þjóðinni réttmæta eign sína til baka í áföngum. Ýmsar aðferðir er hægt að ræða til að svo geti orðið. T.d. sú hugmynd að hver fjárráða Íslendingur fái bréf sem er ávísun á hans hlut í þjóðareigninni eftir að ákvörðun um aflamagn liggur fyrir. Hver og einn ráðstafar síðan sínum hlut skv. þeim boðum sem koma frá útgerðinni. Þannig geta menn í útgerðarbæjum stutt við sitt byggðarlag með því að leigja útgerð í heimabyggð sinn kvóta. Settar verði skýrar reglur um meðferð almenningskvótans til þess að fyrirbyggja brask og misferli.

6 - Framlög til menntunar og menningar verði ekki skert. Menntun og menning eru ólík efnislegum gæðum. Menningararfurinn er sameign þjóðarinnar en efnisleg gæði eru mjög ójöfn. Menntun er grunnur að framtíðinni. Það verður því að leggja áherslu á að þessar undirstöður þjóðlífsins. Þrátt fyrir áföll er þjóðin rík. Víða má spara, en þjóðin má ekki eyðileggja þessar undirstöður. 

7 - Efling atvinnulífsins með stuðningi við nýsköpun og sprotafyrirtæki um land allt. Horfið verði frá stóriðjustefnunni sem skapar óeðlilega þenslu og leiðir til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru landsins.

8 - Skipuð verður fjölmenn uppgjörsnefnd valinkunnra einstaklinga sem njóta trausts. Margskonar samtök skipi fólk í nefndina, m.a. stjórnmálaflokkar, verkalýðshreyfing, samtök atvinnurekenda, samtök náttúruverndarmanna, mannúðar- og friðarsamtök, samtök listamanna ofl. Nefndin fær það hlutverk að fara ofan í þróun mála, jafnt á sviði stjórnmála og efnahagsmála undanfarinna ára. Málin sem verða skoðuð er einkavæðing ríkisfyrirtækja, sala bankanna og stjórnun þeirra, peningamálastefnan, hlutur Seðlabankans, stóriðjustefnan og afleiðingar hennar. Sérstaklega skal þáttur stjórnmálamanna og flokka í ákvarðanatöku um þessi mál rannsakaður og þjóðhagslegar afleiðingar skilgreindar. Allir forsprakkar þeirra fyrirtækja sem stunduðu s.k. útrás, með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir, verða að gera grein fyrir sínum störfum. Nefndin skal einnig fara ofan í saumana á umdeildum ákvörðunum s.s. stuðningi við innrásina í Írak. Starf nefndarinnar verði unnið fyrir opnum tjöldum og starfi sem n.k. þjóðarvettvangur. 

Og lengra er ég ekki kominn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Endilega haltu áfram..þetta eru mjög fínar hugmyndir og alveg í takt við það sem ég hef verið að hugsa. Það verður að gera breytingar og þeir sem eru í framvarðasveitinni verða að ganga á undan með góðu fordæmi. Mér líst líka vel á þessa nefnd sem þú nefnir.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.10.2008 kl. 19:43

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Líst vel á tillögur þínar!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.10.2008 kl. 23:40

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr heyr, þetta eru frábærar tillögur.  Ég styð þær allar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.10.2008 kl. 01:48

4 Smámynd: AK-72

Smátterí í púkkið hjá mér.

Fækkun sendiráða og annarar yfirbygginar fyrir útúrbrunna stjórnmálamenn.

Einnig er það fjármagnstekjuskatturinn sem er orðinn gagnslaus og aðeins fyrir fáa. Hækka hann upp í það sama og venjulegan tekjuskatt.

Og já, þeir sem bera ábyrgð á ástandinu og hafa orsakað þetta, verði látnir greiða mestan baggann, ekki við almenningur.

AK-72, 15.10.2008 kl. 09:19

5 identicon

Hjartanlega sammála þér - Það versta er að sennilega mun þetta lið allt sleppa - það er venjan hér hjá okkur að hvítflibbaglæpamenn og spilltir stjórnmálamenn fá að vera í friði með sína glæpi gegn þjóðfélaginu. Arg....!

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 11:35

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

1. Sammála.

2. Ég efast um að verðbólgan sem framundan er geri það mögulegt að halda launum alþingismanna í einhverri krónutölu. Það væri fínt að byrja á 450.000 og láta launin fylgja almennum kjarasamningum.

3 og 4. Sammála.

5. Ég er hræddur um að kerfið urði þungt og erfitt ef allir fengju sinn smáhlut. Væri ekki betra ef rikið fengi kvótann, leigði hann hæstbjóðanda og notaði þann pening í að greiða niður skuldir?

6-8. Sammála.

Vil bæta 9 við. AK-72 minntist reyndar á þetta. Það ætti að taka öll fyrirtæki skyld gömlu bönkunum, svo sem Baug, upp í skuldir.

Villi Asgeirsson, 15.10.2008 kl. 11:39

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gaui. Þannig var það. Nú er það okkar að sjá til að hlutirnir fari ekki aftur í sama farveg.

Villi Asgeirsson, 15.10.2008 kl. 11:40

8 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég vildi kannski sjá kvótamálin í einfaldari lausn en að öðru leiti eru þetta góðar hugmyndir. Og við megum ekki láta pólitíkusana sleppa. Né vanvitana í Seðlabankanum. Vonum bara að þetta leysist ekki upp í Animal Farm.

Ævar Rafn Kjartansson, 15.10.2008 kl. 21:20

9 identicon

Margar goðar hugmyndir her Hjaltyr. Hvernig væri ad setja thingmenn (og annad lykilfolk) a föst laun pluss bonus ? Lista upp fyrir hvert ar markmidum sem eiga ad nast og svo meta i lok ars hvernig gengid hefur. a thann hatt hefur atvinnurekandinn (thjodin) betra kontroll a sinum starfsmönnum. Føstu launin gætu verid fall af lagmarkslaunum i landinu.

The outlaw (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband