Eflum félagshyggjuna

FlugeldarÞað kemur betur og betur í ljós að íslenska þjóðin hefur verið í mjög kostnaðarsamri kennslustund. Hinn endanlegi kostnaður er ekki kominn fram. Nú vitum við öll hverju óheft gróðasókn skilar okkur. Gróðafíkn tiltölulega fárra einstaklinga líktist mikilli flugeldasýningu – henni lauk með hvelli og þegar reykurinn er farinn frá þá kemur reikningurinn af himnum ofan og hafnar í kjöltu þjóðarinnar. Trúboðar frjálshyggjunnar hafa verið fyrirferðamiklir undanfarna þrjá áratugi. Þeir töldu að þeirra stefna hefði endanlega sigrað og að sigur þeirra á félagshyggjunni væri bara tímaspursmál. Nú hikstar vél kapitalsimans hressilega, hjólin við að stöðvast og gífurlegt tap blasir við þjóðum og einstaklingum. Það hlýtur því að vera fróðlegt að rýna í það sem nú kemur úr penna eins helsta talsmanns kapitalismans á Íslandi, hinn eina og sanna Hannes Hólmstein Gissurarson.

HHG skrifar grein í Fréttablaðið 17. okt. s.l., þar líkt og í opnuviðtali í Morgunblaðinu 3. okt. stendur hann óhaggaður og ver frjálshyggjuna: „Við frjáls viðskipti á alþjóðavettvangi, harða samkeppni fyrirtækja og séreign á framleiðslutækjum skapast mestu verðmætin“ (HHG Fréttabl. 17.10) Hannes vill með þessum orðum útskýra grunnþætti mála og orsakasamhengi fyrir fólkinu sem nú bíður dómsins: Hvað verður um eignir okkar?, hversu há verður verðbólgan?, held ég vinnunni? Lýsing HHG er áferðarfalleg en ekki sönn. Hvar er græðgin í þessari lýsingu? Hin brjálæðislega sókn í meiri og meiri gróða sem að lokum hefur skilað okkur hruni.

Frjálshyggjuævintýrið hefur verið innleitt í áföngum. Greinilegir áfangar á leiðinn til núverandi ástands er einkavæðingin, sameign gerð að séreign. Síðan frjáls viðskipti um allan heim undir eftirliti lamaðra eftirlitsstofnana og hér heima með Seðlabanka undir pólitískri stjórn. Það sýnir alvöru íslenskra stjórnmálamannanna sem hafa verið í fararbroddi á valdatíma Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkanna að yfir-seðlabankastjórar skuli ætíð vera stjórnmálamenn með enga sérmenntun á sviði efnahagsmála. Hörð samkeppni sem á samkvæmt kenningunni að skila hagræði setur þjóðina nánast á hausinn. Samkeppnin var á stundum eingöngu slagurinn milli hópa með bakland í stjórnarflokkunum um það hver fengi að gleypa tiltekin fyrirtæki og banka.

HHG segir okkur að rætur lánsfjárkreppunnar 2008 sé að leita í Hvíta húsinu. Nánar í einhverskonar misskilinni félagshyggju hjá ríkisstjórn Clintons. Ef málið væri jafn einfalt og HHG vill telja okkur trú um þá væri ekki frekari ástæða til þess að rýna í hans stefnu. HHG skrifar: „Að frumkvæði Robertu Achtenberg, sem var aðstoðarráðherra í stjórn Clintons forseta um miðjan tíunda áratug, var lánastofnunum bannað að mismuna minnihlutahópum (til dæmis að lána hlutfallslega meira til hvítra manna en svartra), og skipti þá greiðslugeta litlu máli. Afleiðingin var, að eignasöfn banka fylltust af undirmálslánum, og hver hætti loks að treysta öðrum. 
Kapítalismi hvílir á trausti“. Ekki svo flókið að því að virðist.En eiga þessar upplýsingar að segja okkur að kapitalismi HHG sé í lagi bara ef menn gera ekki vitleysur? En hvað með allar hinar kreppurnar? Þær eru eins og allir vita fastur liður í hagskerfi kapitalismans. Misdjúpar en búa allar yfir eyðingarmætti. Og allar eiga þær upptök í kerfinu sjálfu.

HHG skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann lagði sig allan fram við að skýra út að kapitalismi sé ekki það sama og kapitailsti. Hann er að halda því fram að kapitalisminn sé glæislegt kerfi en eins sé og brennivínið að því leiti að það eru ofneytendur sem koma óorðinu á. Með svipaðri röksemdafærslu má segja að Sovétkommúnisminn hafi verið mikil himnasending – en Stalín hafi skemmt kerfið. Það er skv. þessu rétt að rassskella Jón Ásgeir, Björgólfana og örfáa aðra. Þá er búið að refsa kapitalistunum er kerfið skal standa skv. kenningu HHG. Og þá eigum við bara að bíða eftir næstu kreppu! Því þótt margvíslega lagfæringar verða gerða á peningakerfinu þá segir saga síðustu 200 ára að það sem fer upp mun koma niður. Þetta er saga kapitalismans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll félagi!. Það er í raun ótrúlegt að HH þori að halda frjálshyggjunni á lofti, eftir hrunið. Af því að HH á nú að heita "félagsvísindamaður" á Háskólalóðinni ætti hann að vita að traust og trúnaður (social capital) er mestur í löndum sem búa við mikil ríkisafskipti og minnstur þar sem frjálshyggjan hefur fengið að leysa upp öll félagsleg bönd. HH hefur kanski aldrei komist svo langt í fræðunum.

Hverju hefur þetta íslenska eintak af frjálshyggju skilað í verðmætum. Minna en engu og það líka þó svo að bankarnir hefðuekki farið um koll. Tapið var komið fram í fyrra. Tölur Hagstofunnar segja alla söguna. 1998 störfuðu 4700 manns í fjármálaþjónustu. Þetta sama ár störfuðu 7400 í fiskiðnaði. Árið 2007 hafði fjölgað upp í 8700 í fjármálaþjónustu en fækkað í 2900 í fiskiðnaði.

Það verður líklega einhver afturkippur í fjármálaþjónustunni á næstunni.

Albert (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 19:27

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Væri nú ekki alveg tilvalið að Hjálmtýr Heiðdal útskýri fyrir fáfróðum atvinnurekanda muninum á kapitalisma og sosialisma. 

Björn Heiðdal, 31.10.2008 kl. 21:41

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Orðið atvinnurekandi er ágætis útgangspunktur. Er viðkomandi (þótt fáfróður sé) með atvinnusköpun sem höfuðmarkmið eða er hann að hugsa um gróðann sem afrakstur atvinnuþiggjendanna getur skapað fyrirtækinu og verið rekandanum til ráðstöfunar? Gróðasækni fyrir einstaklinga er dæmigerð fyrir auðhyggju (kapitalisma) og þá ætti hið andstæða að vera stefna sameignarsinna (sósíalista).

Við getum því skoðað annarsvegar sameign og séreign. Kommúnistar vilja sameign á öllum atvinnutækjum en þeir sem aðhyllast hreinustu mynd auðmagnsstefnunna vilja einkaeigna alls. Þetta eru greinilega ósamrýmanlegar stefnur og eru yst á skalanum til beggja handa. Skynsamt fólk, og þeir sem voru áður fáfróðir fyrir lestur þessa pistils, hlýtur að leita einhvers jafnvægis. Með því að varast það versta og taka það besta sem er til staðar í lífinu þá er sjens á vitrænu jafnvægi sem gerir næstum því öllum gott.

Þetta er fyrsta kennslustund.

Hjálmtýr V Heiðdal, 1.11.2008 kl. 10:48

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Sem sagt kapitalsismi=slæmur og sósialismi=slæmur.  Mér finnst líka felast í orðum þínum að ef vel gengur að græða peninga þá sé það verri en ef illa gengur.  Þú notar reyndar orðin atvinnusköpun og gróði til að lýsa þessu.  Nú hefur Hannes Smárason tapað miklum peningum og eina sem hann hefur skilið eftir sig er tímabundin atvinnusköpun.  Hann ætti þá að vera í miðjuhópnum samkvæmt þinni skilgreiningu!

Björn Heiðdal, 1.11.2008 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband