14.11.2008 | 11:42
Segðu það tvisvar!
Ég er að velta fyrir mér þeim orðum Björgólfs Guðmundssonar í Kastljósi gærkvöldsins að setning neyðarlaganna í byrjun október hafi haft afgerandi áhrif á gang mála. Þegar viðbrögð Evrópuríkja eru skoðuð þá virðist sem að beiting s.k. hryðjuverkalaga fari ekki svo mjög fyrir brjóstið á öðrum en Íslendingum. Orð Ingibjargar Sólrúnar á Stöð 2 í gær segja mér að eitthvað sé í gangi sem hefur ekki verið upplýst hér á landi - eins og svo marg annað. Getur það verið að neyðarlögin og orð Davíðs Oddssonar hafi verið stórfelld árás á grunngildi EES samningsins sem allt íslenska bankavafstrið erlendis byggði á? Árás sem ekki er hægt að una og hefur m.a. þau áhrif að Íslendingar komast hvorki lönd né strönd fyrr en að þessi mál eru leyst. Geir Haarde sagði að hann léti segja sér það tvisvar að menn tengdu lausn Icesavemálsins við fyrirgreiðslu IMF og annarra þjóða. Ég held að það sé búið að segja honum þetta tuttugu sinnum. En hann er ekki að hlusta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg hugsanlegt að neyðarlögin hafi verið mistök að því leyti að réttarríkinu var gefið langt nef með mismunun á innistæðueigendum. Skýrir það reiðina gagnvart Íslandi? En hvað er það sem Esb er hrætt við, hvers vegna má ekki fara dómstólaleiðina varðandi ábyrgðir á reikningum?
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 14.11.2008 kl. 12:48
Reiðin ytra stafar ugglaust af því að við lögðum út í kennitöluflakk og mismunun milli kröfuhafa. Við þurfum sjálffsagt að súpa seiðið af því. Jafnljóst ætti að vera að ofsafengin viðbrögð Breta, sem meðal annars felldu Kaupþing (Singer and Friedlander), eiga að fara fyrir dómstóla.
Friðrik Þór Guðmundsson, 14.11.2008 kl. 13:50
Auðvitað beinist reiði manna í ýmsar áttir, og því miður viðrist það stundum ráðast af tryggð manna við tiltekin stjórnmálaöfl, hver það er sem fær skammasúpuna.
Mér verður hugsað til þess eftir lestur á bloggfærslu Indriða Þorlákssonar, hvort við höfum fengið að heyra sannleikann um það hverju menn voru að bregðast við þegar bankarnir voru hirtir af hlutafélögunum. Hvort sem menn kalla einkavæðingu bankanna gjöf eða ekki, þá getum við verið sammála um að þeir sem hrepptu hnossið hafi fengið nokkuð forskot á okkur hin.
Hafi þessir aðilar í framhaldi af því stundað áhættufjárfestingar erlendis til að hagnast persónulega á því, þá er vel skiljanlegt að ríkið hiki við að lána þeim hundruð milljóna til að þeir geti haldið áfram. Þá er maður nú farinn að upplifa það í veruleikanum sem haldið var spaug og léttúð. (Athugið vel niðurlagið, síðustu 2-3 mínúturnar)
Flosi Kristjánsson, 14.11.2008 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.