28.12.2008 | 16:22
Á biðstofunni
Mér skilst að ég sé að bíða. Ég sit inni á biðstofu Sjálfstæðisflokksins og bíð eftir að flokkurinn haldi landsfund til að ákveða stefnu í s.k. Evrópumálum. Öll þjóðin virðist vera þarna inni. Á biðstofunni liggja frammi ýmis blöð og plögg líkt og hjá tannlækninum. Sum gömul og önnur nýrri. Hér eru greinar eftir Hannes Hólmstein, bæklingar um íslenska efnahagsundrið, ræða Geirs H Haarde frá síðasta landsfundi þ. 26. apríl 2007. Ég flétti í gegnum hana í skyndi, gríp setningu og setningu..
Við horfum til nýrra tíma með nýjum tækifærum...
Við höfum náð að styrkja efnahagslegu stöðu þjóðarinnar með þeim hætti að aðdáun hefur vakið víða um heim. Þau viðfangsefni sem við glímum nú við í efnahagsstjórninni hér á landi þættu flestum öðrum ríkjum öfundsverð...
Útrás íslenskra fyrirtækja hefur bæði skapað ungu fólki ný og spennandi atvinnutækifæri og verðmæta reynslu en einnig fært þjóðarbúinu nýjar tekjur úr ýmsum áttum. Lífskjörin í landinu hafa stórbatnað og mun meira en í nálægum löndum. Það er meira til skiptanna en áður fyrir alla....
Staða okkar í alþjóðasamfélaginu hefur styrkst og Íslendingar njóta virðingar á alþjóðavettvangi....
Krafturinn í íslensku samfélagi á sér engin takmörk. Ísland er orðið það sem við sjálfstæðismenn lofuðum - land tækifæranna....
En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við 
sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim. Nei, góðir fundarmenn. Stóru hagstjórnarmistökin yrðu þau, að Vinstrigrænir og Samfylking tækju hér við stjórn efnahagsmála...
Við höfum byggt traustan grunn á síðustu árum, lagt grunninn að frekari framförum íslensku þjóðarinnar. Framundan eru nýjar áskoranir, ný tækifæri nýir tímar...
Nenni ekki að lesa meira af þessu. Til að drepa meiri tíma þá gríp ég grein eftir Styrmi Gunnarsson sem ber heitið Á leið til Munchen. Þetta reynist ekki vera ferðasaga eins og ætla mætti af titlinum. Hér er Styrmir hinn innvígði og innmúraði fyrrum ritstjóri að tjá sig um afstöðuna til ESB. Hér skín hrokinn í geng, hrokinn sem hefur alltaf einkennt afstöðu Sjálfstæðismanna til pólitískra andstæðinga sinna og náði hámarki í afstöðu Davíðs við borgum ekki Oddssonar. Styrmir skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lokið því verki að móta og marka nýja utanríkisstefnu fyrir land og þjóð í ljósi breytra aðstæðna eftir að kalda stríðinu lauk og bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott. Það er ástæða til að gagnrýna forystumenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa ekki tekið það verkefni fastari tökum. 
Í því tómarúmi, sem hefur skapazt á undanförnum árum af þeim sökum í utanríkismálum okkar hafa ýmsir leikið lausum hala. Forseti lýðveldisins hefur ferðast um heiminn, talað eins og þar væri fulltrúi stórþjóðar á ferð og flutt ræður, sem mörgum var þá ljóst að voru ekki annað en innihaldslaus orð en þjóðin öll gerir sér nú grein fyrir. Núverandi utanríkisráðherra hóf feril sinn í því embætti með barnalegum hugmyndum um, að Ísland gæti lagt eitthvað, sem máli skipti af mörkum til lausnar deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessi ofurhroki á alþjóðavettvangi birtist skýrast í framboði okkar til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú er þessi blaðra sprungin
Skrifum sínum lýkur Styrmir með þessum orðum:
Ég tel ekki að það eigi að verða utanríkispólitísktmarkmið Sjálfstæðisflokksins, að gera Ísland að áhrifalausum útkjálka í útjaðri Evrópu.
Í þeim fróðlegu umræðum, sem nú fara fram á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um málefni Íslands og Evrópusambandsins hefur það sjónarmið komið fram, að þar sé á ferðinni friðþæging (appeasement) gagnvart Samfylkingunni til þess að koma í veg fyrir stjórnarslit. Með þeirri orðanotkun er raunverulega spurt, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en nú í haust voru liðin 70 ár frá því að Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með pappírsblað, sem þeir höfðu sett nafn sitt á, hann og Adolf Hitler og Chamberlain taldi að mundi tryggja frið í heiminumum okkar daga. (Heimkomu Chamberlains má sjá á YouTube).
Mér dettur ekki í hug að Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en til þess að hann slysist ekki í þá vegferð þarf grasrótin í flokknum að taka af skarið.
Þetta er merkilegt. Mögulegar aðildarviðræður, því það er ekki verið að ræða fleiri skref að sinni, er hér líkt við feigðarflanið í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar! Menn finna hér þyt sögunnar leika um sali (biðstofuna). Flokkurinn sem hefur haft forystu um að gera Ísland að tímabundnum þurfaling á ekki að gera Ísland að áhrifalausum útkjálka í útjaðri Evrópu. Útkjálki í útjaðri Það er þykkt smurt viðbitið í Valhöll.
Eru menn ekki að taka sig full hátíðlega hér á bæ? Ég nenni þessu ekki lengur og yfirgef biðstofuna - og sé þá að flestir eru farnir, biðstofan er næstum tóm.
Ég held að ég geri best í því að fara til Ingibjargar og biðja hana um að koma okkur í kosningar hið fyrsta. Annað gengur ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Facebook
Athugasemdir
hvað er að frétta af Írlandi, drauma ríki ESB sinna?
og hvað er að frétta af lýðræðisást ESB sem ekki vilja leyfa þjóðum sambandsins að taka lýðræðislegar ákvarðanir varðandi stjórnarskránna sem núna er kölluð Lissabon sáttmálinn?
hvernig er það með lýðærðislegan vilja Íra? gildir kosning þeirra og niðurstaða hennar, Neiið eitthvað eða er það bara lýðræði hjá ykkur ESB sinnunum ef allir eru sammála ykkur og segja Já?
Fannar frá Rifi, 28.12.2008 kl. 18:27
Týri, ég skal biðja fyrir þér!
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.12.2008 kl. 20:50
En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim.
Þessi setning er ekkert annað en stórfengleg
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 29.12.2008 kl. 10:56
Hvað vilt þú á brauðhneyðina þína Hjálmtýr, þú gætir þurft að bíða lengur.
Einu sinni var fjörður austur á landi sem vildi fá stóriðjuver og hann beið og hann beið. Á meðan biðinni stóð gerðist fátt í firðinum, því alltaf var verið að bíða. Næstu firðir blómstruðu þótt þeir væru ver í sveit settir því þar beið enginn. Að lokum fékk fjörður þessi sitt stóriðjuver og sagan verður að meta hvort biðin hafi verið þess virði. Hvort íbúarnir myndu kjósa aftur að lifa heilan mannsaldur í bæjarfélagi þar sem besta starf sem bauðst var að vera jarðýtustjóri hjá Vegagerðinni.
Eyðum ekki tíu árum í að bíða eftir að fá eitthvað sem ekki verður okkur til góðs þegar það loksins kemur.
Það er verst að Ingibjörg getur lítið hjálpað þér fyrst hún getur ekki boðað til kosninga. Ég skal gefa þér brauðsneið og kakó með og sitja svo hjá þér dagsstund.
Kári Sölmundarson, 30.12.2008 kl. 20:54
Það er einmitt þetta - ég vil ekk bíða. Ég vil bíta í sneiðina og finna bragðið. Þá veit ég hvort ég vil éta alla sneiðina.
Ingibjörg er eitthvað týnd. Eigum við ekki að hittast á Þórsgötunni og skoða brauðtegundir.
Hjálmtýr V Heiðdal, 30.12.2008 kl. 21:26
Vert þú velkominn, ég get boðið þér franska súkkulaðikökku (stolin uppskrift) eða amerískar pönnukökur (úr pakka).
Svo ég gleymi nú ekki kakóinu sem er ættað úr Engey.
Kári Sölmundarson, 30.12.2008 kl. 21:40
Hjálmtýr! Veit ekki hvort þú sérð þessa færslu. Ég var orðhvass (orðljótur) við þig fyrir fáeinum dögum. Þú svaraðir mér eðlilega fullum hálsi. Hafi ég sært þig djúpu (eða grunnu) sári biðst ég velvirðingar á orðum mínum og bið þig fyrirgefningar. Lifðu heill!
Björn Birgisson, 1.1.2009 kl. 02:56
Þú komst með mjög ranga og yfirgengilega yfirlýsingu um mig. Ég tek afsökunarbeiðni þinni og óska þér gleði og farsældar á þessu ári sem við erum að stíga inn í. Mér skilst á stjórnvöldum að það verði ekki mikið dansað á rósum.
Hjálmtýr V Heiðdal, 1.1.2009 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.