20.2.2009 | 10:50
Alltaf gaman hjá Hannesi
Það er fróðlegt og skemmtilegt að lesa greinar eftir prófessor Hannes Hólmstein Gissurarson. Fréttablaðið birtir í dag (20. febrúar) enn eina grein hans um uppáhaldsefni hans: forseta vorn, fjölmiðlafrumvarpið og Baugsmiðla. Hér er skýring Hannesar á óförum Íslendinga sem leiddi til hins hrikalega efnahagshruns: Átökin umfjölmiðlalögin 2004 mörkuðu tímamót. Eftir þetta töldu auðjöfrar sér alla vegi færa. Þeir eignuðust flesta fjölmiðla. Forsetinn gerðist klappstýra þeirra og veislustjóri. Allir vita, hvernig þeirri ferð lauk.
Sökudólgarnir eru hér skilmerkilega skráðir og skilgreindir.
En svo verður manni á að flétta upp í gömlu viðtali við Hannes (sept. 2007) og þá er öðrum eignaður heiðurinn af ferðinni sem allir vita hvernig lauk.
Þar stendur orðrétt haft eftir prófessor Hannesi : Og ég kemst að þeirri niðurstöðu að íslenska efnahagsundrið eigi sér alveg eðlilegar skýringar. Og þessar skýringar eru fólgnar í því að það sem við gerðum að við virkjuðum fjármagn sem áður lá dautt.Við gerðum það á tveimur sviðum. Í fyrsta lagi voru fiskistofnarnir verðlausir áður fyrr. Þeir voru óframseljanlegir, óveðhæfir, óseljanlegir. Síðan er kvótum úthlutað og þá verður til fjármagn þarna. Hitt atriðið var að ríkisfyrirtækin, þau láu einmitt dauð. Þetta var fjármagn sem var óframseljanlegt, óveðhæft, óskráð. Enginn átti, enginn bar ábyrgð á. Fyrirtækin voru seld og þá verður skyndilega til fjármagn. Þannig að af þessum tveimur ástæðum, bæði kvótakerfið og einkavæðingin, þá varð til fjármagn sem ekki var til áður....Þannig að á Íslandi hefur verið síðustu 16 árin að myndast gífurlegt fjármagn, og svo fóru bara víkingarnir með þetta fjármagn út.
Og áfram: . Hugsið ykkur, bankakerfið hefur á milli sjö og tífaldast á svona, þessum fjórum fimm árum. Og hugsið ykkur hvað það væri nú gaman ef við bara héldum áfram og gæfum í.
Nú verð ég aðeins að klóra mér í höfðinu og kanna hvort það sé einn og sami maðurinn sem skrifar undir þessu nafni. Það er nefnilega þekkt fyrirbrigði að menn hafa stolist í texta annarra og skráð undir sínu nafni. Og hlotið dóma fyrir.
En hér er ekkert slíkt á ferð, þetta er allt eftir Hannes Hólmstein.
Maðurinn sem eignar sér (það sem við gerðum) heiðurinn af íslenska efnahagsundrinu hefur nú afsalað sér heiðrinum og tilnefnir forsetann sem sökudólg Ólafur Ragnar var nátengdur Baugsfeðgum og er að sögn prófessorsins upphafsmaður ferðarinnar með því að neita að undirrita fjölmiðlalögin.
Og nú er það ekki neinn heiður að hafa átt upptökin, nú er það glæpur.
Hvað eiga menn að gera þegar aðal hugmyndafræðingur Skussaflokksins býður upp á svona skrif? Sjálfur segir hann í upphafi greinar sinnar í dag:
Íslands óhamingju verður allt að vopni. Ég tek undir þessi orð hans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Facebook
Athugasemdir
Og svo þarf kvikmyndagerðarmaðurinn að spyrja út í við hvað er átt, þegar ýjað er að því að hann og aðrir útrásarvinir hlaupi til verndar í hvert sinn sem Ólafur Grímsson er gagnrýndur!
Halldór Halldórsson, 20.2.2009 kl. 13:08
Ég verð að spyrja aftur.
Það sem ég skrifa er ekki vörn fyrir Ólaf Ragnar (hvern ég hef aldrei kosið-hvorki í pólitísk störf eða forsetastörf). Ég er að skoða HHG og hans loftfimleika í grein minni. Þá skondnu þversögn sem hann býður okkur uppá.
Þú verður, Halldór minn, að vera skýrari í kollinum til þess að ég skilji þig og þín vandamál.
Hjálmtýr V Heiðdal, 20.2.2009 kl. 13:22
Tvískinnungurinn er algjör!
Þetta á við fleiri en HHG. Þegar að vel gekk þá voru margir sem vildu eigna sér heiðurinn en nú vill engin þeirra taka ábyrgð.
Man ummælin ekki alveg orðrétt en voru skemmtileg frá Geir Haarde ekki fyrir svo löngu síðan: "Ef ég hef gert eitthvað rangt þá þykir mér það leitt".
Ég held að við fáum ekkert betri afsökunarbeiðni en þetta.
JC (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 15:47
Hannes er sennilega skemmtilegasti rugludallur bloggheima. En hann hefur þó vit á að hafa ekki opið fyrir komment á bloggi sínu. Enda veit hann að þar yrði hann ævinlega skotinn í kaf.
Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 17:57
Hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar engjast nú eins og ormar á öngli. Heimsmynd þeirra, þar sem græðgi og auðsöfnun er ofar öllu, hefur siglt öllu í strand. Það verður fróðlegt að fylgjast með hugmyndafræðilegum fimleikum þeirra næstu mánuðina. Gott hjá þér, Hjálmtýr, að halda skrifum Hannesar Hólmsteins til haga.
Ólafur Ingólfsson, 20.2.2009 kl. 22:49
Mjög góð samantekt. Reyndar var mér oft orðið á orði löngu fyrir hrun að gaman væri að taka saman rit um rök og málflutning HHG sem gæti heitið „Hannes gegn Hannesi“ því í rökum hans og málatilbúnað hefur alla tíð verið að finna algerlega andstæð rök eftir því hvað þarf að fóðra hverju sinni. - Þetta er skýrt dæmi um það.
Helgi Jóhann Hauksson, 21.2.2009 kl. 03:07
Eftir að ég hætti að taka ruglið í HHG alvarlega og líta frekar á þetta sem rugl í honum sem einn stóran brandara hef ég æ oftar hlegið að ruglinu í honum.
Maðurinn er dæmdur ritþjófur og rugudallur svo ekki sé meira sagt.
Væri gaman að fara í gegnum skrif hans síðan hann fór að blogga og sjá hvernig hann gjörsamlega hringsnýst í skoðunum sínum eftir því hvernig vindurinn blæs.
Vorkenni satt best að segja ættingjum hans fyrir að þurfa að gangast við þessu skoffíni.
Jack Daniel's, 21.2.2009 kl. 07:03
Nákvæmlega rétt lýsing á þversögnunum í HHG Týri, ljósara verður það ekki. Þessi taglhnýtingur og yfiraðdáandi Davíðs er ótrúlegt fyrirbrigði svo ekki verður kveðið sterkar að án þess að verða dónalegur.
Í kjölfar hrunsins og farsans við að koma Davíð út úr yfirstjórn Íslands hafa Sjálfstæðismenn fórnað öllu. Það er nánast eins og allur þeirra málflutningur nú snúist um að vernda kallinn í Svörtuloftum og skiptir engu hverju er til fórnað. Það þarf að fara langt aftur í söguna til að finna annað eins átrúnaðargoð, þetta er eins og hjá illa biluðum sérstrúarsöfnuði.Haukur Nikulásson, 21.2.2009 kl. 07:26
Hannes er mælskur, svo mælskur að hann trúir sjálfur því sem hann fullyrðir hverju sinni. Hann situr enn í Bankaráði Seðlabankans - fer út með skolvatninu þegar DO tappinn er tekinn úr.
En hann er örugglega ekki af baki dottinn og mun dandalast áfram um ritvöllinn á sinni truntu.
Kanski er það best.
Hjálmtýr V Heiðdal, 21.2.2009 kl. 10:55
Það gerir mig alltaf svo hryggan að heyra þegar fullorðnir menn haga sér barnalega. Hannes Hólmsteinn ætti eiginlega að flytja til útlanda þar sem fólk er ekki búið að fá sig fullsatt af dellunni hans og draumasögum í ætt við ævintýri Lock!
Hannes Hólmsteinn er orðinn all sorglegur þegar hann í birtuleika sínum ræðst á herra Ólaf Ragnar forseta. Það var jú forsetinn sem beðinn var að ganga erinda ríkisvaldsins við útrásarpiltana. Ekki öfugt!
Baldur Gautur Baldursson, 22.2.2009 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.