24.2.2009 | 12:24
Grín og glens hjá Jóni Magnússyni
Ég kynntist Jóni Magnússyni alþingismanni þegar við unnum saman sumarlangt í Áburðarverksmiðjunni.
Úr og í vinnu ferðuðumst við í boddíbíl sem Bogi bílstjóri stýrði af miklu öryggi. Jón var var skemmtilegur ferðafélagi og gallharður sjálfstæðismaður, það fengu allir að heyra sem ferðuðust í boddíinu milli Gufuness og bæjarins. Jón yfirgaf síðar Flokkinn en hefur nú ratað aftur heim og er það vel. Það gleður mig að á sínum útlegðarárum hefur Jón ekki glatað kímnigáfunni sem einkenndi hann þegar hann var ungur í Áburðarverksmiðjunni.
Hann skrifaði grein í Fréttablaðið í dag, 24. febrúar, og fer mikinn í gríni og glensi:
greini ég það nú skrifar Jón þegar vinstri menn boða aukna þjóðnýtingu, aukna skattheimtu og upplausn ríkir í þjóðfélaginu, að þá beri brýna nauðsyn til að við sem hægra megin erum í stjórnmálum sameinumst um að styrkja Sjálfstæðisflokkinn sem brjóstvörn frjálsrar atvinnustarfsemi, lýðræðis og allsherjarreglu í landinu.
Jón veit, eins og alþjóð, að þjóðnýting allra tíma fer nú fram í boði Sjálfstæðisflokksins og upplausnin sömuleiðis. Best tekst Jóni þó upp í glensinu þegar hann lýsir Flokknum sem brjóstvörn alls þess sem stefna hans undanfarin 18 ár hefur lagt í rúst. Ég vona að grín-öfugmæli Jóns misskiljist ekki, að enginn taki þau alvarlega og haldi að Jóni sé alvara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.