8.4.2009 | 09:37
3. hluti. Baugur, Borgarnesræðan og smjörklípuaðferðin
SKIPT Í LIÐ
Áróðurssmiðir Davíðs skiptu öllum í tvö lið; við og Baugsliðið. Þetta er hagkvæmt og þægilegt, línurnar dregnar hreint og klárt, og skotleyfi gefið á alla sem Davíð, Birni Bjarnasyni og Hannesi hugnast ekki.Auk afdrifa fjölmiðlalaganna er helgisögnin um samtengingu Samfylkingarinnar og Baugsveldsins mikilvæg í málflutningi áhangenda Davíðs. Henni er haldið á lofti með tilvísunum í Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 9. febrúar 2003. Með þessu er Samfylkingunni skellt í Baugsliðið í heilu lagi og þá rennur kenningin um afdrif fjölmiðlalaganna saman við heimavist Samfylkingarinnar hjá Baugi.
Og um Baug/Samfylkingu sagði DO m.a. í landsfundarræðunni: Þegar Sigmundur Ernir fór af fréttastofu Baugs beint í framboð Samfylkingarinnar fyrir norðan rakst ég á fyrrverandi starfsmann af þeirri stöð. Ég var að undrast þessi hröðu vistaskipti en sá sagði að þetta væri ekkert merkilegt. Sigmundur Ernir ákvað bara að færa sig til innan samsteypunnar.
Björn Bjarnason fyrrv. dómsmálaráðherra skrifar á bloggi sínu um Borgarnesræðuna: Þá tók Samfylkingin afstöðu með Baugi gegn Sjálfstæðisflokknum, eins og fræg Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir þykir sýna. Og að þar: hafi hún gefið veiðileyfi á Davíð Oddsson (BB á vef sínum 22.2.09 og 8.3.2003).
Samfylkingin, og sérstaklega Ingibjörg Sólrún, tók afstöðu með Baugi og þá liggur beinast við að segja í framhaldinu: og stuðlaði þannig að efnahagshruninu sem varð nokkrum árum seinna! Langsótt? Nei rökrétt út frá því sem Davíð og Hannes hafa upplýst okkur um afleiðingar hins mesta pólitíska skemmdarverks í síðara tíma pólitískri sögu Íslands, eyðilegging fjölmiðlalaga Davíðs Oddssonar.
Enda skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgnublaðsins og einn innmúraðasti flokksmaður Sjálfstæðisflokksins, í herhvatningu sinni til Sjálfstæðismanna á AMX vefnum: Í umræðum á undanförnum mánuðum hefur verið dregin upp of einföld mynd af því, sem gerzt hefur. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, og þá sérstaklega Samfylkingin eiga hér meiri hlut að máli en fram hefur komið og ástæða til fyrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að halda því til haga í kosningabaráttunni.Þessi útgáfa þarf að snúast um eigin orð opinberra og óopinberra talsmanna Samfylkingarinnar um framvindu íslenzks viðskiptalífs á undanförnum árum, hugsunarlausa hyllingu þeirra á svonefndum útrásarvíkingum, herferð þeirra gegn eftirlitsstofnunum, sem samfélagið hafði komið á fót og svívirðingum þeirra um þá einstaklinga, sem höfðu aðra skoðun á því, sem hér var að gerast, að ekki sé talað um þá, sem sinntu lögbundnum skyldustörfum á því sviði. Umtöluð Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hlýtur að skipa sérstakan sess á Þeirraeiginorð.is. Ríkt tilefni er til að hún verði aðgengileg öllum þeim, sem hafa áhuga á að kynnast formlegu upphafi sóknar Samfylkingarinnar í þágu þeirra, sem áttu mestan þátt í efnahagshruni Íslendinga.
Og gamla brýnið Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, mætir líka til leiks og skrifar: Það breytir heldur ekki öllu um ábyrgð okkar að aðrir flokkar gerðu lítið sem ekkert þegar Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að sporna gegn óeðlilegum áhrifum auðhringja í íslensku samfélagi, og sumir þeirra lögðust reyndar á árarnar með stórfyrirtækjunum í þeim átökum. En lögregla og ákæruvald áttu mjög undir högg að sækja og þá ekki sízt vegna þess að forysta Samfylkingarinnar með Borgarnesræðu formannsins á vígorðaspjaldi dægurbaráttunnar ýtti undir þessar lágkúrulegu pólitísku ásakanir.Rannsókn á hruninu mun væntanlega leiða Baugsdekur samfylkingarmanna í ljós, en Sjálfstæðisflokkurinn er saklaus af því, enda hafa forystumenn hans ekki farið varhluta af ofsóknum Baugsmiðlanna. Þeirra syndir eru aðrar og þá einkum andvaraleysi og barnaskapur andspænis grimmu og harðsvíruðu auðvaldi sem sveifst einskis. (Lesbók Mbl. 4. apríl 09)
Borgarnesræða ISG er margnefnd sem sönnunargagn um Baugsdekur samfylkingarmanna og að þar hafi hún gefið veiðileyfi á Davíð Oddsson.Hér er enginn að hafa fyrir því að vitna í sjálfa ræðuna sem hefur verið svo afdrifarík. Menn hljóta að verða forvitnir um innihald þessar ógnarplaggs og kynnast formlegu upphafi sóknar Samfylkingarinnar í þágu þeirra, sem áttu mestan þátt í efnahagshruni Íslendinga. eins og Styrmir Gunnarsson skrifar.
BORGARNESRÆÐAN
Hér ætla ég að bregða út af vananum og vitna beint í ræðuna, reyna að finna allt þetta sem hér hefur verið tínt til um kyngimagnað innihaldið. Það er erfitt að finna þá hluta ræðunnar sem Sjálfstæðismenn vísa svo kyrfilega til (án þess þó að birta þá) og eiga að sanna hvernig Samfylkingin gekk í björg Baugsveldisns.
Hér eru tvær ítarlegar tilvitnanir sem fjalla um leikreglur þjóðfélagsins og innihalda kröftuga gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Davíðs: Og þess vegna held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé fastur í viðjum fortíðar sem einu sinni var og aldrei kemur aftur þegar hann hafnar öllum leikreglum í lýðræði sem ekki fela í sér fulltrúalýðræði í einhverri mynd. Honum finnst merkilegra að fá niðurstöðu um Evrópusambandið á 1300 manna landsfundi en í 3000 manna almennri kosningu. Hann er flokkur hins stjórnlynda lýðræðis andspænis frjálslyndu lýðræði Samfylkingarinnar. 
En hvað er átt við með frjálslyndu lýðræði? Jú, í hinu frjálslynda lýðræði er hinum frjálsa einstaklingi skipað hærra en stofnunum samfélagsins eða eins og einhvern tímann var sagt frjáls þróun einstaklingsins er forsenda frjálsrar þróunar heildarinnar og öfugt. Merkilegt að það skuli þurfa að kenna sjálfstæðismönnum þessi grundvallaratriði einstaklingshyggjunnar! Í hinu frjálslynda lýðræði tekur einstaklingurinn að sér að verja ákveðin grundvallarréttindi mannsins, þ.e. rétt hvers og eins til þess að skapa sjálfan sig, vera til á eigin forsendum, hafa sérstöðu og njóta viðurkenningar sem slíkur (konur, samkynhneigðir, innflytjendur). Í hinu fjrálslynda lýðræði virðum við rétt fólks til skoðana, þar byggjum við á samskiptum og samræðum milli stjórnvalda og samfélags óbreyttra borgara (andófshreyfingar, foreldrafélög, íbúasamtök, einsmálshreyfingar). Samfélag óbreyttra borgara er sífellt að verða sterkara og um leið gerir vart við sig sú tilhneiging flokkanna ekki síst Sjálfstæðisflokksins að ná tökum á þessu samfélagi, koma ár sinni þar vel fyrir borð, nýta þau í flokkspólitískum tilgangi, gera þau að tæki í verkfærasafni sínu og draga þannig úr sjálfstæði þeirra og þar með lýðræðislegu hlutverki og áhrifum. Hið stjórnlynda lýðræði reynir að ýta hinu frjálslynda lýðræði til hliðar.
Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir. Ef ketti er ætlað að veiða mýs þá má einu gilda hvort hann er svartur eða hvítur svo lengi sem hann gegnir sínu hlutverki. Í atvinnu- og efnahagslífinu eru það umferðarreglurnar sem gilda og þær eiga að vera skynsamlegar og í þágu alls almennings. Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á leikreglunum en leikendur bera ábyrgð á því að fara eftir þeim. Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við.
Hér er varað við afskiptum stjórnmálamanna af málum einstakra fyrirtækja.
Dæmi um slík afskipti eru síbylja sjálfstæðismanna s.s. Björns Bjarnasonar um Baugsmiðla og hið sláandi dæmi um handstýringu forystumanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokka á einkavæðingu bankanna. Nefna má fleira, Íslenskir aðalverktakar og viðskiptin kringum herinn í áratugi.
Ingibjörg Sólrún er greinilega að velt við steini sem ekki má snerta. Ræðan snýst einfaldlega ekki um það sem áróðursmenn Sjálfstæðisflokksins fullyrða aftur og aftur að hér sé upphafi sóknar Samfylkingarinnar í þágu þeirra, sem áttu mestan þátt í efnahagshruni Íslendinga.Allir sem kynna sér málið án augnleppa flokksins sjá að þessi málflutningur Styrmis, Davíðs, Björns, Matthíasar og Hannesar er fádæma ósvífinn.
Í Borgarnesræðunni fjallaði Ingibjörg Sólrún nefnilega um flokkspólitísk afskipti af atvinnulífinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ástundað í áratugi þess vegna er þeim svona uppsigað við ISG; hún kom við kauninn. Hún sagði það sem má ekki segja upphátt og uppskar einhverjar mestu árásir sem einn stjórnmálamaður hefur mátt búa við.
Það er megin inntak í málflutning þeirra forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem hér er vitnað til um Baug og Samfylkinguna að sanna skal ábyrgð Samfylkingarinnar á efnahagshruninu. Þá er bara eftir að spyrja: en hvað um Samson/Björgúlfsfeðga, Farmsóknarflokkinn og S-hópinn. Hvaða saklausu kórdrengir eru þar á ferð. Aðilar sem hvergi koma við sögu þegar sýna skal sókn Samfylkingarinnar í þágu þeirra sem sendu okkur fram af bjargbrúninni! Segir þessi vöntun eitthvað um málatilbúnaðinn?
Ég læt lesendur um að draga sínar niðurstöður.
Í 4. hluta mætir Agnes Bragadóttir til leiks - með Borgarnesræðuna í farteskinu (að sjálfsögðu).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.