2.5.2009 | 09:12
Ár í blogginu
3. maí 2008 byrjaði ég að blogga á Moggablogginu. Nú gríp ég þessi tímamót til að líta yfir farinn veg, bæði til skemmtunar og fróðleiks.
Ég ákvað að prófa þennan vinsæla vettvang m.a. vegna þess að ég sendi stöku sinnum greinar til birtingar í dagblöðum og oft varð biðin eftir birtingu all löng.
Grein sem er ætluð til birtingar í blaði lýtur öðrum lögmálum en bloggið. Hún er takmörkuð við þá lengd sem blaðið ákveður og er skrifuð með stóran lesendahóp í huga. Viðbrögð við blaðagreinum mínum eru alltaf einhver, bæði frá vinum og fjölskyldu og stundum frá alókunnugu fólki. 90% viðbragðanna hafa verið jákvæð.
Það sem ég skrifa á bloggsíðuna er yfirleitt persónulegra og frjálslegra en blaðagrein og sambandið við þá sem lesa beinna og fljótlegra. Mikið birtist af andmælum gegn því sem ég set fram og er það oft fróðlegt og skemmtilegt, en stundum fáránlegt. Einnig birtist mikið af athugasemdum frá þeim sem samsinna mér og beina þeir oft spjótum sínum að þeim sem eru að andmæla þeim málstað sem ég held fram. Flestar hafa athugasemdir við bloggfærslu hjá mér orðið 103. Sú grein hét reyndar Bloggað um blogg og var m.a. um ofbeldið gegn þjóð Palestínumanna. Skrif um það mál kallar oftast fram mikið af viðbrögðum.
Ég byrjaði bloggferilinn á einföldum nótum, tjáði mig um umferðarmál í miðbænum þar sem ég bý. Það kom ein athugasemd við þá færslu og hún var frá konu sem bauð mig velkominn í bloggarahópinn. Það verður að teljast góð byrjun og saklaus miðað við margan óhroðan sem átti eftir að hellast inn á bloggsíðuna.
Ekki vissi ég frekar en aðrir Íslendingar (nema Davíð Oddsson auðvitað) hvað beið þjóðarinnar á haustmánuðum. Hamfarir sem komu upp á yfirborðið í lok september og þátttaka mín í bloggheimum á þessu tímabili gefa skrifkúnstum mínum aukið gildi fyrir mig. Ég les eldri færslur og fylgst með því sem ég taldi markvert hverju sinni og hvað það var sem hvatti mig til að setja fram mínar skoðanir. Nú er bara að sjá hvort næsta bloggár verður með svipuðum lagi. Kanski fer fyrir mér eins og svo mörgum bloggurum sem hafa hætt virku bloggi.
Sjáum til.
Sambloggurum þakka ég fyrir fjölbreytt samskipti þá 12 mánuði sem ég hef verið virkur moggabloggari. Og Morgunblaðinu færi ég einnig þakkir fyrir að halda úti þessum lýðræðislega leikvangi.
Hér er svo smá tölfræði yfir þetta viðburðaríka ár:
Fjöldi blogggreina sem ég hef skrifað: 106
Flettingar: 72000
Bloggvinafjöld: 53
Athugasemdir frá bloggurum: 1375
Fjöldi orða sem ég hef skrifað: 37828
Fjöldi stafa: 201132
Vídeó frá mér: 3
Vinsælustu umfjöllunarefnin:
Kreppan
Hannes Hólmsteinn
Palestína/Ísrael
Davíð Oddsson
ESB
Borgarskipulag
Sjálfstæðisflokkurinn
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með afmælið. Ég fylgist alltaf með skrifum þínum og finnst þau fróðleg. Þau eru dálítið fábreytileg og þú mættir alveg breikka málefnasviðið, þú ert alveg maður til þess. Ég er ánægður með þá tóntegund sem ríkir á þessari síðu, hæfileg háttvísi og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Lítið um skítkast. Vona að næsta ár verði okkur lesendum þínum jafn ánægjulegt.
Baldur Hermannsson, 2.5.2009 kl. 11:05
Þakka hamingjuóskir og samskipti í bloggheimum. Það verður kaka og með því á tveggja ára afmælinu.
Viðurkenni vandamálið með málefnasviðin. Vinn í því.
Hjálmtýr V Heiðdal, 2.5.2009 kl. 15:01
Til hamingju með bloggafmælið. Það var gaman að sjá þig birtast á svæðinu. Og ekki síður gaman að lesa bloggfærslurnar þínar.
Jens Guð, 2.5.2009 kl. 23:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.