6.5.2009 | 21:47
Allt á réttri leið
Það stefnir allt í að Íslendingar hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið. Meirihluti þjóðarinnar, 61,2%, vill vita hvað aðild að ESB hefur í för með sér.
Andstæðingar aðildarviðræðna hafa dregið upp fremur ógeðfellda mynd af sambandinu, en ekki haft erindi sem erfiði. 26,9 þjóðarinnar eru skv. könnun RÚV/Gallup könnuninni eindregið á móti viðræðum og aðild.
Það vekur athygli mína að meirihluti fylgismanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins eru fylgjandi aðildarviðræðum. Meirihluti kjósenda Vinstri grænna lokar engum dyrum og augljóst að forysta flokksins gerir rétt með því að samþykkja þann farveg sem málið stefnir í.
Vonandi ber Alþingi gæfu til að afgreiða málið þannig að viðræður geti hafist á næsta misseri.
Tæplega 40% aðspurðra eru hlynntir aðild og treysta sér til að taka afstöðu áður en niðurstaða viðræðnanna liggur fyrir og næstum jafn stór hópur er andvígur aðild í dag. Hluti andstæðinga ESB aðildar eru þó til í að kíkja í pakkann og vita meira um hvað hann inniheldur.
Það stefnir í harðar deilur um málið, fyrst um það hvort þjóðin eigi að samþykkja viðræður og svo þegar niðurstöður eru komnar þá hefst túlkunarstríð og hatrammar deilur um hvert smáatriði.
Samtímis verður þjóðin að vinna sig upp úr öldudalnum. Það verður nóg að gera á öllum vígstöðvum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þá er spurningin: Hvernig eiga menn að komast í aðildarviðræður án þess að sækja um aðild því að kannanir sýna það jafnan að þar er meirihlutinn á móti.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 21:49
Aðildarviðræður fara í gang eftir að formleg umsókn hefur verið lögð fram. Meirihlutinn vill semsagt sækja um aðild og kjósa síðan um endanlega aðiild eður ei. Þetta hlýtur þú að skilja Hans.
Ég tek eftir því að margir andstæðingar ESB eru viðkvæmir gagnvart þessari niðurstöðu sem könnunin sýndi.
Verða menn ekki bara að bíta á jaxlinn og sjá hvaða stefnu málin taka.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.5.2009 kl. 22:19
Æ, Hjálmar. Þú ert ekki svona vitlaus.
Það eina sem þessar kannanir sýna er að stór hluti fólks hefur ekki meiri áhuga á Evrópumálum til eða frá en svo að það fylgist ekki með af nægilegri eftirtekt til þess að vita að umsókn þarf til þess að hefja viðræður. Það er nú allt Evrópuákallið.
Svo er umsókn ekkert formsatriði heldur upphaf af löngu og flóknu (og dýru) ferli þar sem fulltrúar 27 þjóða eiga aðkomu.
Er það ekki lágmark að halda þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að knýja fram alvöru umræðu og fá það á hreint hvort að þjóðin hefur einhvern áhuga á þessu fyrirbæri yfirleitt áður en farið er í heilt umsóknarferli til þess eins að komast að því hvaða sérþarfareglugerðir við fengjum?
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 22:43
Var ekki meirihluti landsmanna líka hlyntur bönkunum fyrir hrunið? Allir vita nú hvað var bak við fallega brosið á þjónustufulltrúanum sem vildi endilega lána þér íslenska krónur tengdar við evru og yen. Við vitum líka að Jón Ásgeir og Björgólfur eru þjófar en ekki viðskiptamenn ársins eins og blöðin þeirra sögðu okkur! Þó fronturinn sé fallegur er ekki endilega víst að afturendinn sé vel skeindur og boðlegur í hvíta sófa.
Hjálmtýr Heiðdal skiptir Íslendingum í tvo hópa. Þeir sem vilja samvinnu og ESB og síðan hina sem hann kallar "labbakútar sem þurfa sérmeðferð og sérkjör." og halda að þeir séu mestir og bestir. En í þessari hugsun kristallast ranghugmynd Hjálmtýrs um sambandið og þarna er líka komin skýringin á því afhverju hann vill ganga þarna inn.
Hann vill sem sagt ekki vera montinn labbakútur út í horni. Þegar málunum er stillt svona upp vill ég heldur ekki vera labbakútur sem þarf sérmeðferð og sérkjör. En ESB er ekki samvinnustofnum Evrópu heldur yfirþjóðlegt vald sem miðstýrt er frá Brussel. Eina samvinnan sem þar fer fram er eitthvað sem útleggst á íslensku "pólitískt hrossakaup".
Ég sé það núna að kannski er Hjálmtýr ekkert að misskilja hlutina. Hann vill vera þegn Sambandsins og lúta þeim reglum sem þar gilda. Samvinna í hans huga er þá að fara eftir lögum og reglum sem koma frá ESB í stóru sem smáu. Íslenskur fiskur, vitlaust svar, ESB fiskur! Íslenskt vatn, rangt aftur, ESB vatn! Alþingi Íslendinga, rangt svar, ESB þing í Strasburg. Íslenskir kvótagreifar, nei, erlendir kvótaeigendur.
Má ég frekar biðja íslenska tómata til henda í Alþingi Íslendinga en flugmiða til Belgíu.
Björn Heiðdal, 6.5.2009 kl. 23:13
Berin eru súr! Ég vill ekki smakka á þeim því þau eru súr! Ég vill ekki að aðrir smakki á þeim því þau eru súr! Ég vill ekki að að neinn ímyndi sér að þau séu ekki súr! Ég vil ekki að menn komist að því að berin séu mögulega sæt! Ég vill ekki að menn komist að því að berin eru sæt!
Er þetta ekki nokkurn vegin þankagangur þeirra sem vilja hafa vit fyrir öðrum og hindra að kíkt sé í pakkann?
En svo eru berin kannski súr eftir alltsaman en þá nær það bara ekki lengra, málið dautt!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 6.5.2009 kl. 23:40
"Aðild" að EB hentar kannski þinni ágætu stétt kvikmyndagerðarmanna, Hjálmtýr, en ekki undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og heldur ekki þjóðinni sjálfri í heild, ef hún vill halda sínum fullvalda, æðstu og úrslita-löggjafarréttindum.
"Ask not what your people can do for you; ask what you can do for your people."
Jón Valur Jensson, 7.5.2009 kl. 01:32
ESB andstæðingaelítan er á vaktinni, það er gott.
„Var ekki meirihluti landsmanna líka hlyntur bönkunum fyrir hrunið?“ skrifar Björn. Hann meinar að Íslendingar séu ekki færir um að vega og meta hluti svona yfirleitt. Það sé auðvelt að plata þá.
Ég held að menn hafi verið hrifnir af því að fá mikið af peningum á góðum kjörum. Hluti þjóðarinnar lét síðan blekkjast og fór í áhættulán - sem eiga aldrei við hjá launafólki.
Björn málar allt mjög sterkum litum, ég er nokkuð viss um að bráðum vill hann fella stafina e-s-b úr íslenska stafrófinu.
(E)ru Danir (e)kki l(e)ngur Danir? Þ(e)ir (e)ru (b)únir að v(e)ra l(e)ng(s)t norrænna þjóða í .....
Nú stefnir allt í aðildarviðræður og elíta andstæðinga á eftir að láta ljós sitt skína sem aldrei fyrr. Með beinum viðræðum við ESB fáið þið mörg bitbein til að fjalla um. Hátíð í bæ!
Hjálmtýr V Heiðdal, 7.5.2009 kl. 08:23
Núna er ég orðin að fulltrúa elítunnar, já og kannski bara kvótagreifanna líka. Spurning hvort Hjálmtýr Heiðdal sé ekki Leni Riefenstahl okkar Frónbúa? Fenginn af hinni raunverulegu elítu, bankamenn og stórkaupmenn, til að flytja áróður ofan í svanga mallakúta.
Það virðist vera frekar auðvelt að plata Íslendinga sbr. allt góðærið sem Davíð og Geir Haarde bjuggu til handa þjóðinni. Þú hélst nú líka að það væri gott að búa á Íslandi í smá tíma og Geir væri traustur maður. En ESB snýst ekki bara um krónur og aura heldur hjá hverjum þjóðinn vill að löggjafarvaldið sé. Hvað þarf að fara í gegnum mörg lög af stjórnsýslu áður en komið er að þeim sem ráða.
Sú framtíðarsýn sem Hjálmtýr Heiðdal hefur handa börnum og barnabörnum sínum er glæsileg. Valdalítið þing í Strassborg með fimm íslenskum fulltrúum sem eru þó ekki fulltrúar Íslands heldur tilheyra einhverjum ESB flokkum. Síðan er framkvæmdavaldið ásamt raunverulegu löggjafarvaldi hjá fólki sem engin kaus til þeirra verka. Meira lýðræði eða minna lýðræði? Ég held minna lýðræði fyrir Íslendinga a.m.k.
En Hjálmtýr hefur lýst því yfir að innganga Íslands snúist ekki um smáátriði eða krónur og aura. Heldur sé þetta spurning um útópíu gamalla ráðstjórnamanna sem nefnist "SAMVINNA". Hvað fellst í þessari samvinnu samkvæmt Hjálmtýri Heiðdal. Jú, bara það sem hver og einn vill og allir fá eitthvað við sitt hæfi. Hann fær evru, Jón Ásgeir þarf ekki að versla við íslenska bændur, þingflokkur Samfylkingarinnar getur flutt til Brussels, Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að kyssa Ingibjörgu eða giftast Jóhönnu og venjulegt fólk á Íslandi fær fleiri reglur til að fara eftir.
Síðan er algjört lágmark að kynna sér ESB og þær reglur sem þar gilda. Lesa líka Lissbon sáttmálann til að átta sig á framtíðinni.
Björn Heiðdal, 7.5.2009 kl. 10:55
Hvort er lýðræðislegra að fara í þjóðaratkvæðagreiðlsu um aðildarviðræður, þar sem umræðan mun fyrst og fremst um linnulausan áróður og rangfærslur með og á móti aðild
eða
þjóðaratkvæðagreiðslu um raunverulegan aðildarsamning þar sem stórum hluta af þessum áróðri og rangfærslum hefur verið svarað og raunverulegir kostir og gallar eru uppi á borðinu fyrir þjóðina?
Jóhannes (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 11:29
Síðan hvenær hefur meirihlutinn rétt fyrir sér, þegar hann veður í villu? ESB er ekki til heilla fyrir Íslenska þjóð.
Palli (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 14:32
"Lýðræði byggir á þjóðfélagslegu samþykki sem er okkur svo sjálfsagt að það þarf venjulega ekki að minnast á það: Það ER til sannleikur. Í opnu þjóðfélagi vitum við að það kann að vera farið í kringum staðreyndir og þær spunnar til og frá í rökræðum, en sannleikurinn er byrjunarreiturinn þaðan sem spuninn byrjar. Lýðræði byggir á ábyrgð; og til að geta sagt sannleikann þurfum við fyrst að vera sammála um að sannleikurinn skiptir máli. Ef grundvöllur lýðræðis er sannleikurinn, er grundvöllur einræðis staðhæfingar."
Björn Heiðdal, 7.5.2009 kl. 15:16
''ESB Andstæðingaelítan''. Sagt í háði. Afhvejru geta menn ekki rætt málin án þess að gera lítið úr þeim sem eru á annari skoðun. Má ekki alveg eins uppnefna þá sem eru með aðild með einhverju háðsyrði? En skilar það einhverju?
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.5.2009 kl. 18:38
Elítugrínið byggir á umælum Steingríms Joð um elítu esb-sinna. Svo tóku nokkrir þetta upp og ég er að leika á sömu strengi.
ESB fylgjendur eru kallaðir landráðamenn hjá Jóni Vali ofl. Auðvitað eiga menn ekki að eyða vitrænni orku í svona.
Ég stóðst bara ekki mátið. Biðst forláts.
Hjálmtýr V Heiðdal, 7.5.2009 kl. 19:31
Jóhannes:
Það sem Evrópusambandssinnar hafa nær eingöngu gert út á í áróðri sínum fyrir inngöngu í Evrópusambandið eru fullyrðingar um að hér muni verðlag og vextir lækka ef af henni yrði. Ekkert um það myndi hins vegar koma fram í viðræðum um inngöngu í sambandið eða í samningi þar um. Það kæmi aðeins í ljós eftir að inn í Evrópusambandið væri komið hvernig það yrði.
Við vitum m.ö.o. jafn mikið um þau mál núna og eftir að búið væri að setja saman samning um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hver verður þá næsti áróður Evrópusambandssinna? Að við vitum ekkert hvað innganga í sambandið hafi í för með sér fyrr en við förum þangað inn??
Þetta er svo endalaus vitleysa að það hálfa væri mikið meira en nóg.Hjörtur J. Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 20:12
Staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekkert sem segir að almenningur í þessu landi hafi einhvern sérstakan áhuga á að taka einhver skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið. Þó einhverjir segist styðja eitthvað segir það t.a.m. ekkert um það hversu miklu máli það skiptir viðkomandi eða hvort það skipti hann einhverju yfir höfuð. T.d. voru gerðar a.m.k. tvær skoðanakannanir fyrir kosningarnar 2007 þar sem spurt var hversu miklu máli einstök mál skiptu fólk og það er skemmst frá því að segja að í öðru tilfellinu var Evrópusambandið í neðsta sæti og í hinni í næst neðsta. A.m.k. ein slík könnun var gerð rétt fyrir síðustu kosningar og niðurstaðan þar var með sama hætti. Þessar kannanir, ólíkt þessum venjulegu, segja eitthvað til um forgangsröðunina hjá fólki, hvað skiptir það máli og hvað ekki. Samkvæmt þeim er ljóst að innganga í Evrópusambandið er nákvæmlega ekkert forgangsmál.
Hjörtur J. Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 20:18
Hjálmtýr:
Ekki fullyrða um skoðanir sjálfstæðismanna, núverandi og fyrrverandi, því ég tel hægri menn almennt vera hlynntari ESB aðild, en skoðanakannanir segja til um. Lengst af voru sjálfstæðismenn með 36-38 % fylgi í kosningum. Í síðustu kosningum snéri 1/3 kjósenda bakinu við Sjálfstæðisflokknum og því er flokkurinn nú í 24% fylgi. Af þessum 24%, vilja 4 sjálfstæðismenn af hverjum 10 viðræður við ESB, 5 eru andvígir og einn er ekki alveg viss.
Þetta þýðir í raun að 10 % af þessum 24 % vilja viðræður, 12 % eru andsnúnir viðræðum og 2 % vita ekki sitt rjúkandi ráð. Ef við tökum fyrrgreind 10 % og bætum við fylgistapi flokksins (12 %), en ég er þeirrar skoðunar að stærstur hluti þess fólks séu aðildarviðræðusinna, þá eru a.m.k. 20-25 % hægri manna hlynntir viðræðum á meðan 12-15 hægri manna eru andvígir þeim. Þetta eru útgerðarmenn (LÍÚ), íhaldssamir bændur og heildsalar, sem missa spón úr aski sínum þegar evrópskar matvörukeðjur byrja að bjóða vöru sínar hér á landi fyrir 20-25 % lægra verð, stórir fjármagnseigendur, sem verða að hætta að okra á okkur með vöxtum og verðtryggingu.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.5.2009 kl. 21:14
Eru menn búnir að gleyma því, hvernig vöruverð HÆKKAÐI umtalsvert í ýmsum EB-löndum, ekki sízt í Suður-Evrópu, við upptöku evrunnar? Ekki hafa Þjóðverjar gleymt því og eru enn margir hverjir fúlir út í umskiptin frá sínu ágæta marki yfir í evruna.
Jón Valur Jensson, 7.5.2009 kl. 21:21
Jón segir að matarverð hjá Finnum hafi lækkað um 20% við inngöngu. Afhverju?
Er hægt að segja að Ísland verði eins og Portúgal eða Grikkland við inngöngu. Kannski fáum við matarverð eins og í Grikklandi en ekki Finnlandi! Væri það ekki betra fyrir okkur?
Jón staðhæfir að aðrar þjóðir hafi líka fengið 20% matarlækkun! Líka slóvakar?
Þegar sannleikurinn er hættur að skipta máli er stutt í einræði. Davíð Oddsson einhver!
Björn Heiðdal, 7.5.2009 kl. 21:21
Guðbjörn er greinilega með sín mál á hreinu. Þeir sem ekki vilja ESB eru LÍÚ, bændur og tveir einokunarkaupmenn. Það þarf töluvert hugmyndaflug að setja Jón Ásgeir og Krónukallinn á sama bekk og rollubændur fyrir norðan. Matarverð lækkar ekki við inngöngu ef evran kostar 170 kall. Heldur Guðbjörn að gengisfall krónunnar hafi alls engin áhrif á samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu.
Björn Heiðdal, 7.5.2009 kl. 21:30
Guðbjörn - þessar upplýsingar um fylgismenn Sjálfstæðisflokksins eru skv. þessari könnun sem ég vitna í. Sennilega hafa þeir spurt þá sem kusu flokkinn í síðustu kosningum.
Umræðan um mögulega verðlækkun leiðir ekki til neinnar niðurstöðu fyrr en á reynir. En það er marga sannað og kannað að hér á landi er eitt hæsta vöruverð í Evrópu og hefur lengi verið. Að hluta er það vegna flutninga og að hluta vegna annarra orsaka. En eftir inngönguna (húrra!) þá verður auðveldara að bera saman vöruverð og þá myndast þrýystingur.
Björn bendir á að gengi evrunnar skiptir máli þegar við tökum hana upp (húrra!). Það verður vonandi búið að hemja krónusvíngið þegar þar að kemur, enda eru skilyrði fyrir upptöku m.a. að þjóðin hafi náð ákveðinni festu í sínum fjármálum.
Hjörtur skrifar: „Staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekkert sem segir að almenningur í þessu landi hafi einhvern sérstakan áhuga á að taka einhver skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið“. Um hvaða land ertu að fjalla? Ef þú átt við Ísland þá er þetta ekki rétt. Almenningur vill að Ísland losni við margvísleg vandamál sem fylgja örmyntinni okkar. Almenningur vill stöðugleika og frjálst þjóðfélag, lýðræði og góð lífskjör.
Í dag er efnahagslífið í rúst, óstöðugt framundan, lífskjör á niðurleið og ýmis höft í gildi. Lýðræðið leiðir okkur til kosninga um ESB aðild og ég tel að þá munu kostir samstarfsins verða fyrir valinu. (húrra!)
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.5.2009 kl. 08:16
Hjálmtýr segir að eftir inngögu í ESB verði auðveldara að bera saman vöruverð. Hvernig má það vera? Evruna fáum við ekki strax og þó hún fengi að fljóta með í gúddí pokanum hans strax við inngöngu þá má alveg notast við vasareikni til að bera saman krónur og evrur. Segjum t.d. að eplasafi kosti, gott merki, 1,5 evru á Ítaliu í dag. Þá tekur Hjálmtýr bara fram reiknivélina og stimplar inn 1,5*170(gengi krónu) og fær út að safinn kostar 255 krónur. (Jibbí, svaka ódýrt)
Hvað ertu að steypa með lýðræði endalaust, kæri frændi. Ertu að meina eina þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort leggja eigi niður lýðræði á Íslandi til frambúðar og fela stjórn landsins framkvæmdastjórn ESB. Ein atkvæðagreiðsla einu sinni eða tvisvar um hvort eigi að leggja niður atkvæðagreiðslur. (Jibbí, svaka lýðræði)
Innganga snýst um að afsala sér rétti til að setja íslensk lög sem henta Íslandi. Með inngöngu snýst dæmið um gera hagsmunabandalög við t.d. hin Norðurlöndin og kannski Eystrasaltsríkinn í einhverri innbyrðis baráttu innan ESB. Ísland og vinir á móti Ítalaíu og Þýskalandi. Ísland og Danmörk á móti Bretlandi. Ísland og hinar smáþjóðirnar á móti Framkvæmdastjórn ESB. Svokallað samstarf eins og Hjálmtýr nefnir það. (Jibbí!)
Björn Heiðdal, 8.5.2009 kl. 09:03
Það er rétt sem Hjálmtýr segir, framundan er (meiri) hellidemba af upphrópunum, spásögnum, ágiskunum og misgóðum upplýsingum um framtíðina í ESB. Það verður hver að bjarga sér sem best getur og átta sig á hlutunum. Borgarahreyfingin hefur kallað eftir hlutlausri upplýsingastofnun en auðvitað er ekkert hlutleysi til í þessu en þó eru til augljósar rangfærslur.
Mér hefur t.d. þótt erfitt að greina vandann í sjávarútveginum. Þetta held ég að sé ljóst: a. Staðbundnu stofnarnir verða bara veiddir af Íslendingum. b. Sameiginlegu stofnanirnir eru þegar háðir samningum og þeir standa áfram. c. Makríllinn er í samningaferli enda verður svo að vera, innan eða utan við Sambandið. d. Opnað verður fyrir erlendar fjárfestingar í ísl. sjávarútvegi, með einhverjum takmörkunum eða hvað?.
Þetta síðasta, er það vandamál? Vantar ekki erlent fé og kunnáttu? Er það ekki meginvandamál t.d. að enginn erlendur aðili skuli hafa haft áhuga á íslenskum bönkum?
Það væri gaman að fá rökræðu og upplýsingar um svona mál eins langt og hægt er, án mikilla formælinga.
Þorsteinn helgason (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 13:18
Hvernig í ósköpunum stendur á því, Þorsteinn, að þú telur það "ljóst", að staðbundnu stofnarnir verði "bara veiddir af Íslendingum"?
Hefurðu ekki heyrt um Grænbókina og tillögurnar þar um að leggja niður regluna um "hlutfallslegan stöðugleika" í aflasókn hvers ríkis og að í staðinn gæti t.d. komið frjálst framsal aflaheimilda innan bandalagsins eða 12 sjómílna fiskveiðilögsaga hvers ríkis (en að hafið milli 12 og 200 míla yrði þá það sem þeir kalla "Evrópusambandshaf")?
Þar að auki hefur verið ærið kvótahopp í Bretlandi ÞRÁTT FYRIR regluna um hlutfallslegan stöðugleika, fjórði hver skozkur sjómaður misst vinnuna og spænskar útgerðir sótt verulega á um aflaheimildir, enda fátt til varnar og auðvelt að snúa á varnarreglur brezkra stjórnvalda.
Svo segirðu: "Sameiginlegu stofnanirnir eru þegar háðir samningum og þeir standa áfram," en þú þarft að vita hitt, að þegar Ísland væri orðið innlimað í bandalagið, þá væri einn aðili til að semja um þessa flökkustofna, að því leyti sem þeir færu um á milli EB-landa, og sá væri Evrópubandalagið sjálft, sem sæti þar báðum megin samningaborðsins. Við hefðum ekki lengur vald yfir slíkum samningum okkar, ekki frekar en tollasamningum við önnur ríki veraldarinnar – EB réði þeim eitt, og þar miðast stefnan við hagsmuni stóru meðlimaríkjanna, ekki smáríkis eins og okkar.
Jón Valur Jensson, 8.5.2009 kl. 14:23
Þakka þér andsvarið, Jón Valur, en er ekki meginmálið að landfræðilega er Ísland með allt aðrar aðstæður en hin Evrópuríkin sem hafa samhangandi strendur og eru því eðlilega með flóknari og samfléttaðri hagsmuni? Við ætlum ekkert að hætta að vera sérstök og ég held að Evrópuríkin vilji það heldur ekki. Það er sérstaða okkar sem þau hafa áhuga á.
Eigum við að spá í breytingar sem seinna verða í ESB? Sumir tala eins og þar fari allt á versta veg í framtíðinni og allt verði það okkur til tjóns en hjá okkur MUNI EKKERT BREYTAST! Þetta héldum við líka þegar sólin skein á okkur í góðærinu og svo hrundi allt saman. Er ekki gott sjónarmið að leita öryggis hjá grannþjóðum sem við treystum best? En eitt er víst: allt breytist, það hafa orðið breytingar með EES og með WTO og áfram verða breytingar. Líka hjá okkur einum og óstuddum ef við kjósum þann kost.
Þorsteinn Helgason (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 17:45
Það eru auðlindir okkar, sem EB-ríkin og ráðamenn í Brussel hafa áhuga á, Þorsteinn, hefurðu ekki tekið eftir því í nýlegum yfirlýsingum Joes Borg og Olla Rehn?
Kommissarar bandalagsins hafa jafnframt sagt okkur, að við fáum engin frávik frá stefnu og sáttmálum bandalagsins.
Þetta um "samhangandi strendur" er einhver óskhyggja frá sjálfum þér eða meðtekin frá öðrum sem ekki tala í nafni stefnu bandalagsins. Telurðu t.d., að allur Litlu-Asíu-hluti Tyrklands fengi einhverja sérmeðferð í bandalaginu við inngöngu þess ríkis? Sá hluti er ekki "samhangandi" við strendur Evrópu.
Nei, Þorsteinn, það er EKKI sjálfgefið, að það sé "gott sjónarmið að leita öryggis hjá grannþjóðum sem við treystum best?" Hvaða ástæðu höfum við til að treysta bezt þessum grannþjóðum? Og eru ekki Grænlendingar, Færeyingar og Norðmenn meiri grannþjóðir okkar og betri? Ertu búinn að gleyma yfirgangi hins skozka Gordons Brown við okkur? Hefurðu sömuleiðis ýtt út í gleymskunnar móðu framkomu EB við okkur vegna Icesave? Og hafa ekki Bandaríkin reynzt okkur langtum betur en Evrópubandalagið?
Já, það verða áfram breytingar, og EB hefði æðstu fullveldisréttindin, ef við værum búin að láta innlimast, og stefnan væri eftir það miðuð við hagsmuni hinna stóru í Evrópu, ekki okkar, sem erum 1670 sinnum fámennari en þjóðirnar 27 í Evrópubandalaginu.
"Treystið ekki mönnunum, hverfulan lífsanda hafa þeir í brjósti sér." Margir hafa farið flatt á oftraust í viðskiptum og handsali eignaheimilda og réttinda. Tökum ekki þá áhættu, Þorsteinn, að koma þjóð okkar í ógöngur eða vandræði í framtíðinni.
Með góðum óskum.
PS. Ertu sonur Helga skólastjóra Þorlákssonar?
Jón Valur Jensson, 8.5.2009 kl. 18:45
Svar við PS-spurningu Jóns Vals: já.
Málefnið: Jú, Norðurlandaþjóðirnar eru vinir okkar. Ég tek oft þá samlíkingu að þær séu fjölskylda en Bretar nágrannar. Fjölskylda hefur skyldur og yfirgefur mann ekki þó maður geri eitthvað af sér en nágrannanum rennur ekki slíkt blóð til skyldunnar. En líkingin gengur ekki alltaf upp og nú stendur ekki annað til boða en klúbburinn sem Norðurlöndin eru komin í og vilja vera fjölskylda okkar þar. Norðmenn einir og sér duga ekki. Norræna efnahagsbandalagið eftir stríð gekk ekki upp svo að þetta er eini kosturinn ef við viljum ekki taka áhættuna af því að standa alein og berskjölduð. Því miður.
Þorsteinn Helgason (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.