Ræða Obama í Karíó – orð og efndir

090605 obama cairo2Ræða Obama Bandaríkjaforseta í Karíó er merkileg að því leiti að nú kveður við nýjan tón, ólíkan þeim sem við höfum vanist frá forvera hans í embætti. En þótt ræðan sé fyrir marga velkomin breyting þá verður hún aðeins metin í ljósi þeirra aðgerða sem stjórn Obama er reiðubúin að grípa til.

Raunveruleg stefnubreyting birtist í raunverulegum aðgerðum. Stjórn Obama boðar ekki uppgjör við árásarstefnuna sem hefur einkennt framferði BNA svo lengi sem elstu menn muna. Það gildir einu hversu góður vilji býr að baki orðum forsetans, Bandaríkin stjórnast áfram af hagsmunum auðhringa sem framleiða vopn og sækjast í auðlindir um allan heim.

Sem sérstakur áhugamaður um málefni Palestínumanna las ég ræðuna og velti því fyrir mér hvort orð forsetans geti boðað þeim betri tíð. Obama sagði „sterk tengsl BNA við Ísrael séu á allra vitorði“ og að tengslin séu órjúfanleg (unbreakable). Þau byggjast á „viðurkenningu á þrá eftir föðurlandi Gyðinga (Jewish homeland) sem á rætur sínar í sorglegri sögu sem ekki er hægt að afneita“.

Um Palestínumenn sagði Obama: „hinsvegar, og það er einnig staðreynd, að Palestínumenn, jafnt múslimar sem kristnir, hafa þjáðst í leit (pursuit) sinni að föðurlandi. Í rúm 60 ára hafa þeir upplifað kvöl landflótta (dislocation)“.

Þessi orð Obama eru röng að því leiti að Palestínumenn hafa ekki ástundað „leit“ að föðurlandi – þeir hafa alla tíð barist fyrir því að fá að vera um kyrrt á landi forfeðra sinna. Það eru árásir síonistanna, sem hafa stýrt Ísrael frá upphafi með dyggum stuðningi Bandaríkjanna, sem hafa hrakið þá frá landi sínu.

Við Ísraela sagði Obama: „Bandaríkin viðurkenna ekki lögmæti frekara landnáms Ísraela (continued Israeli settlements). Þessi uppbygging brýtur gegn fyrri samningum og grefur undan friðarumleitunum. Það er kominn tími til að stöðva landnámið“.

Nú ríkir í Ísrael ríkisstjórn sem neitar að viðurkenna rétt Palestínumanna til að búa í sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Sama ríkisstjórn leggur áherslu á útþenslu ólöglegra byggða á herteknu landi. Hún framfylgir sömu stefnu og fyrri ríkisstjórnir Ísraela, en er óvenju opinská um sínar áætlanir.

Hér mæta háfleygar óskir Obama köldum veruleika síonismans, sjálfur grundvöllur gyðingaríkisins er að veði. Mismunun á grundvelli trúar og uppruna, ofbeldi gegn réttmætum íbúum landsins; blóðug saga í 60 ár verður ekki að gjalti fyrir fögur orð.

Nú mun reyna á raunverulegan vilja Bandaríkjaforseta, raunverulega ætlun hans. Hann getur, eins og margir fyrri forsetar BNA hafa gert, talað um frið fyrir botni Miðjarðarhafsins en í raun unnið gegn eigin orðum.

Menn geta auðvitað leyft sér örlitla bjartsýni og túlkað ræðu hans sem ávísun á breytta tíma. Ég er tilbúinn að gefa honum 6 mánuði til að sýna að orð hans byggi á raunverulegum vilja til að bæta hag Palestínumanna. En það kæmi mér gleðilega á óvart ef Obama setur Ísraelsstjórn úrslitakosti: farið að lögum og alþjóðasamþykktum eða uppskerið refsingar alþjóðasamfélagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Hjálmtýr og þakka þér pistilinn.

Það sem er enn mest um vert í sambandi við ræðu Obama er að við völd í USA skuli vera maður sem hefur slíkar skoðanir. Ef það er rétt og hann í farhaldi reynir að hrinda þessum hugsjónum í framkvæmd mun hann mæta öflugri andstöðu beggja megin borðs, ekki hvað síst hvað Palestínu snertir.

Á netinu er fólk að fínkemba ræðuna, reyna að finna eitthvað sem gefur þeim ástæðu til að ætla að Obama sé flagð undir fögru skinni eða staðið hann að því að vera tvísaga. En ræðan er frábærlega vel skrifuð og ákaflega trúverðug.

Jafnvel það sem þú bendir á að sé ekki sannleikanum samkvæmt í henni, þ.e. að Palestínumenn hafi sóst eftir (pursuit) föðurlandi sínu eftir að hafa verið hraktir frá því, getur vel verið sönn, eftir því hvernig þú þýðir eitt orð.

Obama segir sjálfur í upphafi ræðunnar að hún ein og sér muni ekki breyta neinu. En það má alveg líta á hana sem yfirgripsmikla verkáætlun.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.6.2009 kl. 12:08

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hjálmtýr:

Þakka þér fyrir vandaðan pistil að vanda! Ég ráðlegg þér að sjá og heyra ræðuna flutta af Obama, því jók mér enn trú að þetta væri hugsanlega maðurinn sem veröldin hefur beðið eftir í áratugi. Að vísu eru það mér nokkur vonbrigði, hvernig Obama hefur tæklað fjármálakrísuna, sem hann hefur gert með því plástra eða búa aðeins að sárum kerfisins. Það sem hefði þurft að gera er að gjörbylta því og heimurinn allur þyrfti að koma sér saman um aðgerðir, bæði til að koma okkur út úr þessari krísu, en jafnframt um nýjar, einfaldar og auðskildari en þó strangari reglur fyrir fjármálamarkaði heimsins en gilt hafa um það hingað til.

Þarna var að mínu mati um tímamótaræðu og algjöra stefnubreytingu að ræða hjá Bandaríkjamönnum, sem var löngu tímabær.

Vandamálin í Miðaustur-Asíu verða ekki leyst á þann hátt, sem Bandaríkin hafa til þessa reynt að gera það.

Því miður má segja það sama um ýmis ríki múslima og hluta leiðtoga Palestínumanna. Sökin liggur því hjá báðum og þess vegna eru mál komin í þann hnút sem þau núna eru.

Sá vægir, sem vitið hefur meira! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.6.2009 kl. 12:13

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ræðan var vissulega merkileg og áhrifamikil. Meira að segja sagði einn talsmanna Hamas að hún minnti á ræðu Martin Luthers King „I have a dream“. Þegar Kennedy tók við embætti í BNA þá fór bylgja vonar um heimsbyggðina. Obama hefur vakið svipaðar kenndir meðal milljóna manna. Það blundar von og vilji um frið og farsæld í brjósti 99,9% manna. Ræðan gefur þessum tilfinningum byr undir vængi. Ég vona hið besta en nota reynsluna til að halda mér við raunveruleikann.

Hjálmtýr V Heiðdal, 6.6.2009 kl. 12:27

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég vil trúa því að nú sé komin ný von um frið í heiminum með Obama. Það tekur vissulega tíma að snúa hjóli hefðanna og viðhorfanna, en kannski mun fjármálakrísa heimsins hjálpa til, hver veit. Við bara verðum að leggast á sveif með Obama og hans fylgendum og tala um frið og biðja um frið hvar og hvenær sem er. Dropinn holar steininn og hugarorka okkar friðarsinna mun vinna á þeim sem tala og hugsa um vopn og stríð.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.6.2009 kl. 17:01

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Ha, ha, ha.  Haldið þið virkilega að Obama ráði einhverju?  Hann bara hafi labbað inn af götunni og sest í stól forseta Bandaríkjanna.  Kaupin gerast bara ekki svona á eyrinni.  Obama er góður leikari sem flytur ræður.  Ekkert meira og ekkert minna heldur.  Mæli með viðtölum við Gerald Celente sem hefur ítrekað hakkað stjórn Obama í sig.  David Icke er líka alltaf góður ef þú vilt virkilega kafa ofan í hlutina.  Ekki má síðan gleyma Alex Jones á prisonplanet.com en hann hefur gert heimildarmynd um Obama og stjórn hans.

Í stuttu máli þá erum við glötuð og það sem er að gerast á Íslandi er líka að gerast annarstaðar.  Þjóðir verða þvingaðar í ánauð í gegnum alþjóðlegt peningavald og hernað.  Notið tækifærin vel því eftir tvö til þrjú ár verða þau ekki til staðar.  

Björn Heiðdal, 6.6.2009 kl. 18:14

6 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Björn - þú sérð ekki marga hamingjubletti í tilverunni. Ertu að breytast í Dómsdagspredikara? Ertu ekki til í að skella þér á nýju Terminator myndinna með mér eitthvert kvöldið á næstunni? Þá sjáum við (í lit) hvert stefnir.

Hjálmtýr V Heiðdal, 6.6.2009 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband