6.6.2009 | 17:35
Deilt um Draumalandið
Að undanförnu hafa ýmsir skrifað um heimildakvikmyndina Draumalandið eftir Þorfinn Guðnason og Andra Snæ Magnason. Skúli Thoroddsen ritar grein í Fréttablaðið og telur myndina vera ráðgátu, hann fullyrðir að hún var hvorki heimildamynd, drama né gamanmynd og hann hallast helst að því að sé áróðursmynd, samin til að fullnægja þörfum draumóramanna um afturhvarf til þess sem var.
Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra á vegum Framsóknarflokksins, ritar einnig grein í Fréttablaðið. Jón segir frá því að hann var einn þeirra sem samþykktu byggingu Kárahnjúkavirkjunar og því málið skylt. Jón er, líkt og Skúli, tilbúinn að skilgreina kvikmyndina og kemst að sömu niðurstöðu. Myndin er fyrst og fremst áróðursmynd skrifar Jón.Hann saknar þess að það er langt í frá að hún dragi fram heildarmynd af framvindu mála, á þann hátt sem ég hélt að heimildamyndir ættu að gera. Jón skrifar að hann verði að viðurkenna að ég kann ekki að draga markalínur millin heimildamynda og áróðursmynda. En hann gerir það samt sem áður.
Kristján Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, er ekki í neinum vafa um eðli myndarinnar og skrifar 3. júní: Þetta er áróðursmynd. Kristján telur sig vita að hvernig heimildamyndir eiga að vera: Þar er varpað ljósi á ólíkar skoðanir á mikilvægu máli, farið í saumana á því með viðtölum og rannsóknum en hlutirnir ekki tuggðir og meltir fyrir okkur.
Hvað er það sem þessir heiðursmenn eru að reyna að segja okkur? Hvers vegna eru þeir með sínum hætti að reyna að skilgreina myndina þannig að hún teljist ekki vera heimildamynd? Augljóslega er sumum þeim í nöp við boðskap myndarinnar og telja hana þjóna annarlegum tilgangi. Ég held að hjá þeim leynist ótti um að áhorfendur geti dregið aðra niðurstöðu en þeim er að skapi. Þeir telja það lukkað hjá sér að koma henni í flokk áróðursmynda - mynd sem sýni alranga mynd af málinu sem er til umfjöllunar að þeirra mati. Þannig telja þeir að hægt sé að draga úr áhrifamætti hennar.
Allir hafa þeir skoðanir á því hvernig heimildamyndir eigi að vera. Jón telur upp nokkur atriði sem hefðu átt að vera í myndinni að hans mati. Og hann byggir á sinni skilgreiningu hvernig heimildamyndir eiga að sýna heildarmyndina. Kristján telur að góð heimildamynd varpi ljósi á ólíkar skoðanir.
Ég hef unnið lengi við gerð heimildamynda og fullyrði að þremenningarnir eru að rugla heimildakvikmyndum saman við fræðslumyndir og sagnfræðirit. Heimildamyndir eru sjálfstætt listform, kvikmyndir sem er gerð út frá sjónarmiði höfunda. Það sem þær eiga sameiginlegt með fræðslu- og fréttamyndum er að þær fjalla um raunverulega atburði. Þær falla ekki undir skáldað efni eins og flestar bíómyndir. Heimildamyndinni er ætlað að lýsa ástandi eins og það kemur höfundum myndarinnar fyrir sjónir og túlka það með myndmáli úr raunveruleikanum. Í heimildakvikmynd þarf ekki að vera nein heimild, þ.e. gömul kvikmynd, ljósmynd eða skjal.
Það er ekki hlutverk eða ætlun þeirra sem gerðu myndina Draumalandið að draga fram allt það sem gerðist í þessu máli. Það er ekki mögulegt að búa til heildarmynd málsins. Atburðirnir eru ekki enn til lykta leiddir og það eru uppi margar skoðanir á eðli og afleiðingum framkvæmdanna.Í myndinni er ekki fjallað um áhrif ofurfjárfestinganna á ástand efnahagsmála eftir hrun eða ástandið eins og það er á Austfjörðum í dag. Sú vinna bíður sagnfræðinga og hagfræðinga; að draga saman niðurstöður og skrifa skýrslur.
Áróður er skilgreindur sem boðskapur um tiltekið málefni, ætlaður til þess að fá menn til að samþykkja skoðun áróðursmeistarans. Hann þarf í sjálfu sér ekki að vera neikvæður, það má reka áróður gegn reykingum sem geta verið lífshættulegar. Slíkur boðskapur er ekki settur fram með skírskotun til þeirra sælu sem reykingar virðast veita mörgum reykingamönnum, þvert á móti þá er áherslan á lögð á margsannaða skaðsemi reykinga.
Í heimildamyndinni Draumalandið er sett fram skoðun höfunda á umdeildu máli. Augljóslega eru þeir ekki hrifnir af því álæði sem greip stjórnvöld og þeir birta myndir sem sýna íslenska stjórnmálamenn snúast kringum erlenda álmenn, allir brosandi í austfirskri sól. Þeir liggja ekki á skoðunum sínum um eyðingu náttúru en birta jafnframt skoðanir ráðamanna og þeirra verðmætamat. Með stimplinum áróðursmynd reyna þremenningarnir að koma því inn hjá fólki að myndin sé gerð til að blekkja. Þeir nota orðið augljóslega í neikvæðri merkingu og tefla fram sínum hugmyndum um heimildamyndir til að undirstrika niðurstöðuna.
Með þessum línum vil ég benda þeim á að heimildamyndir eru fjölbreyttar að gerð, þær eru verk höfunda sem nýta þetta form til að tjá sínar skoðanir og tilfinningar. Heimildamyndir segja stundum sögu einstaklinga, stundum sögu heilla þjóða það eru engin raunveruleg takmörk. Draumalandið er góð heimildamynd.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
orðið áróður þyðir reyndar - Að mæla fyrir einhverju og það var Anrdri Snær svo sannarlega að gera- hann var að mæla gegn kárahnúkavirkjun í þessari mynd.<----- Þannig að tæknilega séð eru þessir herramenn ekki að fara með rangt mál ef við erum samkæm sjálfum okkur og skoðum hvað orð íslenskunnar raunverulega heita.
Orðið Heimildarkvikmynd þýðir aftur á móti - Kvikmynd ætluð til að geyma um e-ð um horfin vinnubrögð. -
Þannig að þið farið báðir með rétt mál og báðir með vitlaust mál.
Brynjar Jóhannsson, 6.6.2009 kl. 18:05
Ég er ekki að ræða um orðskýringar - ég er að skoða þá tilraun þremenninganna til að gera myndina tortryggilega með því að neita því að hún sé heimildamynd. Ég skil ekki hvaða skilgreiningu þú setur fram um hvað sé heimildamynd??
Þú ræðir heimildamynd sem nokkurskonar skrásetningarform um horfin vinnubrögð. Það er mjög einkennileg skilgreining og stemmmir ekki við notkun orðsins í daglegri notkun okkar sem vinnum við gerð heimildamynda.Ég gæti haft fleiri orð um þetta en læt staðar numið hér.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.6.2009 kl. 18:11
ESB og álver, jibbí!
Björn Heiðdal, 6.6.2009 kl. 18:19
Sýnist nú að orðabókarhöfundur hafi lagt sína prívat og persónulegu skoðun á því hvað heimildamynd er. Það mætti kannski ræða hvernig ætti að gera orðabækur í framhaldi af þessu.
Góð ádrepa og takk fyrir að bera blak af vini mínum og snillinggi honum Toffa. Séu menn eitthvað á reiki með defineringu heimildamynda, er rétt að þeir kíki á myndirnar hans. Þær hafa m.a. verið sýndar á National Geogrpics stöðinni.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 19:57
Björn frændi - ESB og álver?? Hvað segir þú um að kíkja á Terminator?
Orðabókarskýringin er svona: „Heimildarmynd:mynd sem geymir vitneskju um e-ð, t.d. heimildarkvikmynd“.
Í fyrsta lagi þá er orðið ekki skrifað með erri. Höfundur orðsins tóka það skýrt fram (Þorgeir Þorgeirsson). Í öðru lagi þá eru viðkomandi orðabókarhöfundar með einhverja bókstafsskýringu - hengja sig í orðið „heimild“. Geymsla - skráning - vitneskja...
Tóm þvæla. Þeir eru að tala um fræðslumyndir og sagnaritun. Óviðkomandi heimildamyndum eins og ég hef reynt að útskýra.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.6.2009 kl. 20:33
Hjálmtýr...
mér finnst þetta nú bara brandaraleg rök og dæma sig sjálf. það skiptir nátturulega öllu máli að heimildakvikmynd sé ekki MEÐ R-I .. Ég vísaði í orðabókina og sagði nákvæmlega hvað þessi orð þýða.... Ég sagði hvergi að skilgreining þín á orðinu Heimildamynd væri röng heldur benti ég réttilega á að þeir eru í fullum rétti að kalla Draumalandið áróðursmynd.
þannig að viðkvæmni þín er bæði óþörf og óskiljanleg enda sagði ég -
"Þannig að þið farið báðir með rétt mál og báðir með vitlaust mál."
Sem sagt þá er það rangt hjá þér að það sé rangt hjá þeim að kalla Draumalandið Áróðursmynd því það er hún svo sannarlega en hún er að sjálfsögðu um leið heimilda(r)mynd samkvæmt skilgreiningu orðsins.(sem þú nota bene ert búin að upplýsa sem tóma þvælu) Því kárahnúkar fjalla um heimildir sem bráðum verða undir vatni.
Orðið áróður þýðir að standa fyrir einhverju og það var Andri snær að gera. Ég skil ekki hvað þú ert svona viðkvæmur fyrir þessu orði því að þeir sem gerðu heimildarmyndina corpiracion sögðu skýrlega að þetta væri hrein og klár áróður gegn stórfyritækjum.
Brynjar Jóhannsson, 6.6.2009 kl. 21:22
Corporation áttirðu væntanlega við Brynjar. Fann hitt ekki í orðabók. Mátti til að höggva...
Kannski voru þeir með áróður í þeim skilningi að reka áróður álgeggjaranna ofan í þá aftur. Þeir fara með staðreyndir, ljúga engu og eru svo heiðarlegir að leyfa efniviðnum að tala sínu máli. Þurfti ekki miklu að bæta við þar. Látbragðið og öfugmælin var eitthvað svo himinhrópandi. Áróðursmynd er þetta ekki samkvæmt mínum kokkabókum og hef ég hrærst í kvikmyndagerð í 20 ár. Það má þó vel vera að ég hafi bæði rétt og gangt fyrir sér. Menn hljóta að túlka eftir því hve efnið heggur nærri samviskunni, eins og augljóslegt er í dæmum Hjálmtýs hér í upphafi.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 22:28
Allt fram til 1998 var ég hvattur af öllum almenningi til að gera þær heimildamyndir um land og fólk sem ég gerði.
1999 brá hins vegar svo við að enda þótt ég gerði heimildamyndir á nákvæmlega sama hátt og ég hafði alltaf gert var ég sakaður um að gera "áróðursmyndir."
Það eitt var talinn "áróður" að ég dirfðist að sýna svæði eða staði sem átti að nýta vil virkjana fyrir álverin.
Besta dæmið var umfjöllun mín um Trölladyngju, Höskuldarvelli og Sogin í Stikluþætti 1985. Margir voru mér þakklátir fyrir að fjalla um þetta svæði sem var svo fáum kunnugt.
Þegar ég síðan sýndi myndir af svæðinu eftir að búið var að raska því stórlega 20 árum síðar vegna komandi virkjanaframkvæmda breyttist hljóðið.
Þá var það allt í einu orðinn "áróður" að sýna myndir af svæðinu sem talið hafði verið svo mikilvægt 1985.
Þegar ég fór í fyrsta sinn gangandi inn á Eyjabakka og niður í Hjalladal varð allt vitlaust í bæði skiptin. Ég var sakaður um áróður fyrir að hafa sýnt umrædd svæði.
Hafði ég þó yfirleitt sýnt önnur svæði í hundruðum frétta og heimildarþátta í áratugi án þess að vera sakaður um hlutdrægni og áróður.
Forstjóri Landsvirkjunar átaldi mig fyrir að sýna virkjanasvæðin í góðu veðri. Það væri ekki alltaf svona gott veður þarna og þetta gæfi því ranga mynd.
Samkvæmt þessu ætti alls ekki að taka mynd af Esjunni í sæmilegu veðri ef til stæði að hefja þar malartekju frá rótum upp á topp. Sýna ætti Esjuna í slæmu veðri og helst alls ekki !
Ómar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 23:23
Asta la vista baby sagði Jóhanna um leið og hún skrifaði fyrir hönd ófæddra Íslendinga undir Ice-save skuldirnar. Henni var létt því fulltrúar Breta og AGS voru búnir að bögga hana mikið og jafnvel hringt heim til hennar um miðjar nætur. Hún hugsaði með sjálfri sér að bráðum kæmu betri tímar. Fulltrúi AGS hafði lofað henni góðu veðri árið 2010 en hún vissi betur. Það kæmi ekki fyrr en á seinni hluta ársins 2011. En þá kæmu virkilega góðir tímar og gott veður.
Eftir smá fund með aðstoðarmanni sínum og einum stuttum kossi á skalla Skallagríms kvaddi hún daginn og lagðist til svefns. Hana dreymdi um föngulegar konur í ESB klæðum einum fata. Heilög Jóhanna stóðst ekki mátið og fór úr svarta náttdressinu og byrjaði að elta feitustu konuna. Ekki var þessi feita fallegust heldur var hún fótafúin og auðveld viðureignar. Þótt þetta væri bara draumur þá sá Jóhanna engan mun og lamdi feitu kerlinguna í klessu. Því næst tók hún stóra búrhnífin og stakk á kaf í holdið., ,., .Úps! þetta gengur ekki. Best að byrja aftur á sögunni.
Einu sinni var feit drottning í ríki sínu sem hét Davíð Oddsson. Hún átti þrjá syni sem hétu Ingibjörg, Jóhanna og Steingrímur. Dag einn kom skip að landi sem í var ungur prins að Nafni Hannes Hólmsteinn. Hann var búinn að fara víða og leyta sér að öðrum prinsi til að giftast. Ýmist voru þeir of gáfaðir eða svo ljótir að gamla pokatrikkið yfir hausinn virkaði alls ekki. En í konungsríkinu Íslandi hafði hann heyrt af þremur vel gefnum og fallegum prinsum sem væru á lausu.
Ungi prinsinn hraðaði sér á fund drottningar. Davíð bauð Hannesi að velja sér einn son í karlfang. Þessi er of feitur sagði hann um Ingibjörgu. Þessi er of mikið notaður sagði hann um Jóhönnu. En þegar hann sá Steingrím roðnaði Hannes allir í framan og sagði þennan vil ég fá. Skemmst er frá því að segja að eftir brauðkaup aldarinnar lifðu Steingrímur og Hannes saman til æviloka.
Björn Heiðdal, 7.6.2009 kl. 00:13
*Þetta er snilld Björn
*Mér persónulega finnst ekki draumalandið (þá er ég að tala um bókina) áróður, bara vegna þess að ég þarf ekki að fara í orðabók til að skilja aðgerðið fólks. DRAUMALANDIÐ er algjört RUSL, þannig leið mér þegar ég var búinn að lesa bókina. Bull og ekkert annað. Mig langar á myndina en veit að ég mun fá sama vonsvikis fílinginn þegar myndin er búin (þannig leið mér eftir bókina) og varla fyrirgefa sjálfum mér að ég hafi styrkt þessa vitleysinga
ps. Björn, þetta er bara fyndið :)
einarchef (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 02:03
Jón steinar..
Ég ætlaði fyrst að samsinna öllu því sem Hjálmtýr sagði en til þess að vera sannviss í minni sök þá fór ég í orðabókina og fletti þessum orðum upp. þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að tæknilega séð getur Draumalandið fallst undir orðið áróður þá gat ég ekki annað en upplýst þessa skýringu, ellega hefði ég ekki verið samkvæmur sjálfum mér. Pistillinn sem slíkur er alveg hárréttur hjá honum Hjálmtýri að það eru valin upp ákveðin upphhórpunaryrði! Til þess að varpa rýrð á málstaði eins og t.d Samsæriskenninar eða áróður. Aðgerðasinnar í peningamálum tala um hagræðingu en þeir sem eru á móti nefna nákvæmlega sama málið niðurskurð því það er neikvæðara orð. Ég tel að besta lausnin sé að upplýsa nákvæmlega hvað þessi orð þýða .
Ég er á þeirri skoðun að orðið áróður sé engan vegin neikvætt orð heldur hvernig fólk hefur litað þetta orð upp. Dæmi um hvernig orðið áróður er jákvæður er t.d að Feministar hafa staðið fyrir áróðri gegn nauðgunum og umferðaökuráð heldur uppi áróðri fyrir því að fara varðlega í umferðinni. Sama mætti segja um starfsemi armnesti Inernatural og hið sama getur gengið um Draumalandið. Ég veit vel að heimildir þær sem koma fram í þeirri bók eru vel ígrundaðar og hárrréttar - enda hef ég aldrei sagt annað en að hún sé líka heimildarmynd.
Brynjar Jóhannsson, 7.6.2009 kl. 05:04
Fyrir mína parta, þá fannst mér myndin góð.
Draumalandið er að sjálfsögðu áróður með landinu og fallegri náttúru. Hún er líka áróður gegn gengdalausri iðnvæðingu. Það kom margt fram í myndinni sem fékk mann til að hugsa hvað íslenskur moldbúaháttur mátti sín oft lítils gegn fjármagninu og alþjóðavæðingu stórfyrirtækja.
Er ekki annars flestar bíómyndir áróður í einhverri mynd, þar sem verið er að segja sögu þar sem hið góða er að takast á við hið illa með einum eða öðrum hætti.
Biblían er líka áróður!
Það hafa ófáar bíómyndir verið gerðar um "draumalandið" Bandaríkin og þar er oft ekki verið að skafa af hlutunum. Það er líka hlutverk frétta og kvikmynda að gagnrýna og skapa umræðu.
Ef það gerist ekki, þá getur illa farið!
Á endanum er það alltaf hlutverk hins viti borna áhorfanda að mynda sér skoðun á því sem hann sér.
Íslensk umræða hefur litast mjög af því síðustu árin að settar eru upp fylkingar sem eru að reyna að berjast um hylli og skoðanir svo hægt sé að réttlæta þennan eða hinn gjörninginn. Nú hefur augljóslega komið í ljós að þeir sem stýrðu fjármagninu, hafa því miður náð að stjórna fjölmiðlum óeðlilega mikið í sína þágu ... og nánast fengið að framkvæma allt sem þeim datt í hug.
Tímabil græðgisvæðingarinnar á því miður eftir að verða svartur blettur á sögu þjóðarinnar um ókomna tíð. Myndin Draumalandið er aðeins lítill dropi í hafið til að rétta af allt það bull sem búið er að vera í gangi síðustu árin.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 7.6.2009 kl. 09:09
Ég ætla ekki að fara að bera í bakkafullan lækinn, því að þetta er að verða eins og umræða um kóngsins skegg, eða upphaf allra orða að undirstaðan rétt sé fundin, eða eru einhverjar klísjur fleiri sem þið getið fundið upp!? Ég mundi segja að þessi mynd sé aðallega collage af myndbrotum og fréttum héðan og þaðan, og því spurningin hvaða heildarmynd skilar hún sem listaverk, svipað verkum Errós eða þannig. Ég hefði viljað sjá einarðlegra háð og og spé, og sannfæring höfunda hefði mátt skína enn betur í gegn, því að ég sem hef verið andstæðingur kárahnjúka var farinn að efast um þá afstöðu mína þegar upp var staðið, þetta var orðið eins og útþynnt 2. útgáfa af bíómynd nr. 1,(sbr. Basic instinct 2 sem sýnd var í gærkveldi) og þá frekar léleg áróðursmynd að mínu mati, en sem heimildamynd þá heimildamynd um hvað!?
Hermann (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 10:06
Orðið "áróður", hefur á sér neikvæðan blæ í íslensku. Fólk tengir það við óvönduð meðöl, ýkjur og einhliða afstöðu til mála, en ekki bara eins og túlkun orðabóka hljóðar, "Draumalandið" er áróðursmynd og ekkert annað, og það í ómerklegri kantinum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.6.2009 kl. 15:25
Er eiginlega nokkuð hægt að gagnrýna þessa mynd á nokkurn hátt án þess að það sé talið vera tilraun til að gera hana tortryggilega? Allir gagnrýnednur eru a.m.k. litnir mjög grunsamlegum augum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.6.2009 kl. 17:11
Sem áróðursmynd hefði Draumalndið getað tekið mörg atriði í viðbót sem hefðu þétt að mun þann boðskap sem undir liggur. Hvergi hef ég séð í umfjöllun þeirra neikvæðu neitt sem bendir til falsana eða ósanninda enda var engin þörf á að gera myndina snautlegri fyrir aðstandendur Kárahnjúkavirkjunar og álvers en raun ber vitni. Mesta náttúrunauðgun Íslandssögunnar og ekki orð um það meira.
Ófyrirséðar afleiðingar af röskun lífríkis við strendur N-A lands vegna söfnunar lífrænna efna í setlónið við Kárahnjúka; lífefna sem nærðu lífríkið úti fyrir sröndinni og var hlekkur í fjölþættri lífkeðju hafsins úti fyrir.Efnahagslegt hrun gæti verið yfirvofandi með gjaldþroti Landsvirkjunar og full erlend yfirráð við yfirtöku erlendra lánardrottna. Gaman, gaman!
Dómur sögunnar mun verða óvæginn og hans verður ekki langt að bíða.
En nú vantar okkur fleiri áróðursmyndi gegn græðgi og sóun.
Árni Gunnarsson, 7.6.2009 kl. 17:33
Hvaða lífrænu efni ertu að tala um Árni minn? Ertu að tala um jökulleirinn? Hann verður nú seint flokkaður sem lífrænn orkugjafi. Í honum er helkuldi og súrefnisleysi og hann er gjörsneyddur öllu lífrænu og fáar jarðvegstegundir eru t.d. ver fallnar undir ræktun eins og hann.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.6.2009 kl. 02:38
Gunnar Th: Í myndin rekinn áróður fyrir sjónarmiði höfunda. Það er á hreinu. Hún er auðvitað ekki að þínu skapi - þú hefur allt annað sjónarhorn. En ég var í meginatriðum að reyna að segja það að heimildamyndir eru ekki „skrásetningarmyndir“ - þær eru kvikmyndir sem bera sýn höfunda vitni. Þeir sem ég deili á eru að halda því fram að heimildamyndir eigi að vera eftir þeirra kokkabókum. Þeir hafa ekki fylgst með þeirri þróun sem hefur orðið í gerð heimildamynda.
Það að nota orðið áróður með neikvæðum formerkjum er lenska hér eins og þú bendir á. En ég vil halda því fram að áróður geti verið bæði jákvæður og neikvæður.
Orðabókaskýringar sýna einnig að þær geta verið hæpnar sbr. dæmin sem hafa komið fram í þessari umræðu.
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.6.2009 kl. 08:26
Leiðrétt: Í myndinni...
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.6.2009 kl. 08:27
Þetta er sem sagt heimildarmynd um skoðun Andra Snæs Magnasonar?
Alvöru heimildarmyndir leita heimilda, en ekki bara úr einni átt. Ef það er gert, þá breytist heimildamyndin í áróðursmynd.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.6.2009 kl. 13:45
Gunnar: Alvöru heimildamyndir fjalla um raunveruleikann, raunverulegt fólk, raunverulega atburði- en þær eru ekki skýrslur. Þær geta túlkað margvísleg viðhorf og þær geta verið hallar undir einn málstað fremur öðrum. Þær þurfa ekki, eins og þú virðist álíta, að gera öllum hliðum mála skil. Þær þurfa ekki að vera hlutlausar - og geta aldrei verið það. Áróðursmynd þarf ekki að vera neikvætt fyrirbrigði - þú virðist halda að mynd breytist í vonda mynd - áróðursmynd - ef hún sé ekki „alvöru heimildamynd“. Ég vona að þú skiljir hvað ég er að reyna að segja um heimildamyndir. Það þarf ekki að vera nein bein „heimild„ í myndinni. Hún er höfundaverk og mun alltaf bera þess merki hver gerir myndina. Burt séð frá því hverju höfundurinn vill koma á framfæri.
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.6.2009 kl. 15:11
Vá, er fólk að rífast um orðið "heimildarmynd". Það er gott veður úti!
Björn Heiðdal, 8.6.2009 kl. 17:54
Öllum sjónarmiðum á að gera jafn hátt undir höfði. Annars er ekkert að marka
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.6.2009 kl. 18:31
Stóridómur fallinn. Og þú skilur ekki hvað ég er að reyna að segja þér. Með þessum orðum ertu að segja að það séu engar heimildakvikmyndir til - þú krefst þess að þær séu nokkursskonar skýrslur um málefni. Það er ekki hægt að gera svona myndir - þá er betra að skrifa skýrslur eða bækur.
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.6.2009 kl. 19:01
Já, hún er sigur viljans.
Andrés Magnússon, 8.6.2009 kl. 22:50
Sæll Andrés. Það eru til tvær kvikmyndir með þessu nafni: Mynd sem SÍBS lét gera ca. 1950 um starfsemi samtakanna - og svo myndin sem Leni gerði. Mynd SÍBS er n.k. kynningarmynd, ekki gerð sem höfundaverk. En hún er góð hemild um ýmislegt frá þessum tíma. Hún er leikin að hluta og er áróðursmynd fyrir samtök berklasjúklinga.
Mynd Leni er sviðsett og er ætlað að reka áróður fyrir stefnu nasista. Hún er vissulega höfundaverk og jafnframt heimild um sjónarmið margra frá Hitlerstímanum. Ég hef ekki kynnt mér það sem Leni Riefenstahl hefur sjálf sagt um þetta verk - eða önnur verk sín. Leni Riefenstahl var frumherji á sviði kvikmyndatækni - en tengsl hennar við nasismann yfirskyggði allt hennar ævistarf.
Hjálmtýr V Heiðdal, 9.6.2009 kl. 09:26
"Heimildarmynd" hefur á sér virðingarstimpil. Það virðist þú ekki skilja Hjálmtýr. Menn eins og Michael Moore og Andri Snær Magnason, koma óorði á heimildarmyndir því myndir þeirra eru eins og úlfar í sauðagæru. Þykjast vera upplýsandi á hlutlausan hátt en eru í raun áróðursmyndir með skemmtigildi. Þetta er orðinn "Show-biz".
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.6.2009 kl. 15:29
Hvaða alger fíflagangur er þetta hjá þér Gunnar! Hvorki Moore eða Andri halda því fram að myndir þeirra séu "hlutlausar". Eins og þú vilt skilja hugtakið hlutlaus þá eru einu myndirnar sem falla í þann flokk veðurtunglamyndir. Það eru bara ekki til hlutlausar myndir sem einhver höfundur gerir. Þetta hlýtur þú að skilja eða a.m.k. getur skilið ef vilji er fyrir hendi.
Síðan er nokkuð ljóst að þú ert ekki hlutlaus heldur með áróður gegn þessum mönnum og myndum þeirra. Þú ert með ýkjur, einhliða afstöðu og notar óvönduð meðul til að koma þínum skoðununum á framfæri. Snúðu þig út úr þessu ef þú getur.
Björn Heiðdal, 10.6.2009 kl. 22:16
Gunnar - þú ert að ímynda þér að til séu myndir sem uppfylla einhverjar kröfur frá þér og öðlist þar með „virðingu“. Það eru þá væntanlerga myndir sem þú ert sammála. T.d eins og Björn frændi bendir á: veðurtunglamyndir. Þær eru hreinræktaðar heimildamyndir. Geran öllum „sjónarmiðum“ skil og eru hlutlausar. Upplýsingamyndir eru ekki heimildamyndir.
Hér er svo smá ritgerð sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum. Gunnar - þér til fróðleiks og vangaveltu:
Skilgreining á heimildamyndum
Heimildamyndir geta verið margskonar; náttúrulífsmyndir, myndir um sögu þjóða, persónusögur, atburðalýsingar ofl. Notkun heimilda (gamlar kvikmyndir, skjöl, ljósmyndir og aðrar upplýsingar) eru ekki skilyrði þess að mynd verði að heimildamynd. Ef til vill er hér kominn hluti af vandamálinu, sjálft orðið heimildamynd getur verið dálítið villandi ef menn reyna ekki að skilja eðli þess. En það hefur öðlast þegnrétt í málinu og tilgangslaust að reyna að hrófla við því með nýyrðasmíði. (John Grierson skrifaði sjálfur:"Documentary is a clumsy description, but let it stand"). Orðið ber það með sér að viðkomandi myndir eru byggðar á raunveruleikanum, þ.e. það eru raunverulegar heimildir að baki verkinu en ekki tilbúningur.
Uppruni orðsins
Enska orðið documentary sem Þorgeir Þorgeirson þýddi sem heimildamynd kemur úr latínu; docere, og þýðir "að kenna". Það leiðir hugann að því sem við köllum fræðslumyndir, þeim er ætlað að fræða og kenna en geta verið leiknar og teiknaðar og eru víðsfjarri því sem við skilgreinum sem heimildamyndir.
Í árdaga kvikmynda var myndavélunum beint að fólki og umhverfi, því sem fyrir augu bar. Ýmsar nafngiftir urðu þá til um þessar kvikmyndir sem sýndu raunveruleikann, s.s. documentaries (skráningamyndir), actualités (efst á baugi, fréttamyndir), topicals (málefnamyndir), educationals (fræðslumyndir) og travelogues (ferðafrásagnir). Þessar gömlu kvikmyndir eru margar merkar heimildir t.d. þegar þær sýna okkur heim sem er horfinn.
Enskir hafa komið sér upp orðinu Factual programming og nær það yfir mest allt kvikmyndaefni sem ekki er leikið. Svokallaðir raunveruleikaþættir í sjónvarpi falla undir þetta ásamt kokkaþáttum, þáttum um ríka fólkið ofl. Allt eru þetta að sjálfsögðu heimildir um eitt og annað, m.a. hversu langt er hægt að leiða fólk í fíflaskap þegar peningavonin hangir á spýtunni (fólk étur t.d. orma og margskonar ógeð til að sigra og vinna milljón dollara).
Höfundar með sköpunargáfu
En ekki eru þetta heimildamyndir eins og John Grierson skilgreindi þær. Skv. Grierson er heimildamynd kvikmynd sem sýnir "skapandi túlkun hins raunverulega" og "kreatíf dóka" er skv. skilgreiningu sem MEDIA áætlunin notast við kvikmynd sem sýnir túlkun höfundar á efninu, þ.e. ber hans einkenni. ("Creative documentaries take a real-life subject as their starting point but require substantial original writing and set out an author’s and/or director’s point of view").
Höfundar heimildamynda skrá og túlka hið raunverulega með myndum sínum, heildarútkoman ræðst svo af hversu skapandi (creative) þeir eru.
Metnaður og þekking
Það er sem sagt ekki nóg að beina myndavélinni að tilteknum hlut og fjalla um hann í texta og klippa saman myndefnið henda inn (margnotuðum) bút úr gamalli kvikmynd og skella tónlist undir. Samt eru sumir sem telja sig vera á kafi í heimildamyndagerð að gera nákvæmlega þetta. Svo eru aðrir sem setja sín einkenni á verkið en samt nær verkið ekki hæðum sem góð heimildamynd. Hér er ég ekki að ráðast á neinn, mönnum eru mislagðar hendur en allir vilja gera sitt besta og verður því flóran fjölbreytt og er það vel. Kvikmyndagerðarmenn verða að ræða verkin til þess að við lærum að skilja hvað það er sem lyftir einu verki upp en öðru ekki og þannig upplyftist næstum allur skarinn og það verður framþróun sem skilar okkur fleiri góðum myndum. Slík þróun er raunar byrjuð, með tilkomu sérstakar deildar innan Kvikmyndamiðstöðvar hefur hagur heimildamyndgerðar batnað og meiri þekking og metnaður greinilegur á þeirri bylgju heimildamynda sem nú rís.
Svindl, plat og sviðsetningar
S.k. mocumentaries (samsett úr mockery: að hæða og gera að athlægi og documentary) eða svindl/grín- og platmyndir er ein tegund kvikmynda, þær byggja á formi heimildamyndarinnar en eru alfarið sviðsettar eins og leiknar myndir. Það sýnir okkur að heimildamyndir eiga sér tiltekið form sem menn líkja eftir. Einnig er til fyrirbrigði sem kallast leiknar heimildamyndir, e. dramatic documentary, myndir byggðar á sönnum atburðum en með sviðsetningum er reynt að líkja eftir þeim. Oft eru það atburðir sem áttu sér stað fyrir daga ljósmynda og kvikmynda. Ég er frekar á móti því að skilgreina margar slíkar myndir sem heimildamyndir, frekar eru þetta leiknar myndir sem byggja á sögu raunverulegra einstaklinga eða atburða svipað og margar "hreinræktaðar" leiknar kvikmyndir. Þegar heimildir eru af skornum skammti skálda höfundar í eyðurnar og yfirgefa þar með heimildamyndaformið og færast yfir í dramað.
En sviðsetningar eru notaðar í heimildamyndum með misjöfnum árangri, fræg er hin sígilda íslenska sena þar sem aðalpersóna myndarinnar stendur við glugga og er í þungum þönkum (Jónas Hallgrímsson, Árni Magnússon, Hvítárvallabaróninn, Sveinbjörn Egilsson, Guðjón Samúelsson ofl.), einnig er oft gripið til þess að láta sögupersónuna rápa um hálfa myndina eða ríða á milli bæja undir þulartexta. Þessar myndskreytingar eru gjarnan fremur hlutlausar og oft bæta þær litlu við verkið, verða jafnvel vandræðalegar þegar mikið er horft út um gluggann og rápið langdregið.
Umfjöllun gagnrýnenda um heimildamyndir
En eins og góðir fagmenn á öllum sviðum þekkja þá er fátt leiðinlegra en þegar hálfgert fúsk er hafið til vegs til jafns við verk sem eru gerð af mun meiri metnaði og þekkingu. Að sjálfsögðu eru skoðanir á verkunum jafn fjölbreyttar og fólkið sjálft og engin einn stóri-sannleikur til þegar huglægt mat fer fram og byggir á smekk hvers og eins. Þótt fólk geti yfirleitt greint falskan söngvara þá er það er ekki öllum gefið að sjá í gegnum meðalmennsku á ýmsum öðrum sviðum. Það vitlausasta í þessu sambandi er þegar því sem er lakara er gagnrýnislaust hampað sem hinu besta efni, bæði af gerendum og fjölmiðlamönnum. Gagnrýni á bókmenntir, leiklist og listmálun byggir á gamalli hefð og er stunduð af fagfólki. Gagnrýni á heimildamyndir er hinsvegar fremur ný af nálinni og mörg dæmi um ómarkvissa og innihaldslitla gagnrýni. Hér þarf að bæta úr og gæti það stuðlað að meiri þekkingu meðal kvikmyndagerðarmanna og alls almennings með umræðu. Spurningin sem varpa skal fram er einföld: er þetta góð, vond eða miðlungs kvikmynd að mati þess sem spurður er og þá hvers vegna? Höfundur verksins sem rætt er um hefur birt sitt verk og getur ekki haft neitt nema gott af umfjöllun þar sem reynt er að draga fram hið góða og hið slæma. Enginn þarf að vera sammála gagnrýni en trúlega geta allir lært eitthvað og tekið eitt skref áfram.
Heimildir:
Grierson on Documentary, edited by Forsyth Hardy (1979)
Documentary. A history of the Non-Fiction Film e. Erik Barnouw (1974).
Documentary Film e. Paul Rotha. Sinclair Road & Richard Griffith
með formála eftir John Grierson (1939).
The Concise English Dictonary e. Dr. Annandale
Hjálmtýr V Heiðdal, 10.6.2009 kl. 22:50
Sæll Hljálmtýr,
Þér finnst Draumalandið góð heimildamynd vegna þess að hún samrýmist skoðunum þínum í þessu deilumáli, en fyrir þann sem ekki hefur myndað sér skoðun á málinu getur myndin ekki talist góð heimildamynd heldur í besta falli miðlungs áróðursmynd. Þannig er ég viss um að þér þætti ekki mikið til myndar koma sem fjallaði um dielur Ísraela og Palestínumanna þar sem eingöngu er skýrt frá hryðjuverkum Palestínumanna en lítið sem ekkert fjallað um það hvernig Ísraelar koma fram við þá. Draumalandið er svoleiðis mynd.
Ef við berum saman mynd Þorfinns annarsvegar og svo myndaflokk Steingríms Karlssonar hinsvegar sem fjallaði um Kárahnukavirkjun þá verður ekki annað hægt að segja að myndaflokkur Steingríms gefi mun betri mynd af málinu og um leið fær áhorfandinn tækifæri til að mynda sér sína eigin skoðun út frá upplýsingum sem fram koma í myndinni. Ég er þeirrar skoðunar að þegar framleiddar eru heimildamyndir um deilumál verði höfundur að fjalla um báðar hliðar málsins þ.e.a.s. ef hann er ekki beinlínis að framleiða áróðursmynd.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 12:13
Sæll Gunni Jó
Þér finnst Draumalandið vera áróðursmynd vegna þess að hún samrýmist ekki skoðunum þínum í þessu deilumáli......
Mynd sem eingöngu segði frá neikvæðum hliðum á baráttu Palestínumanna myndi segja meira um þá sem gerður myndina en deiluna sem þeir sækja sinn efnivið í.
Myndir Denn voru greiddar af Landsvirkjun og segja lítið um skoðanir Denna sjálfs. Draumalandið segir mikið um skoðanir þeirra sem gerðu myndina.
Þú segir að heimildamynd um deilumál verði að fjalla um báðar hliðar. Annars verðir þær áróðursmyndir. Eru allar áróðursmyndir slæmar? Er ekki málefnið misgott. Þú gætir verið sammála einhverri heimildamynd sem sýnir skoðanir höfundar - ekki breytist hún í „vonda“ áróðursmynd við það að þú ert sammála henni?? Eða öfugt. Góð heimildamynd getur flutt áróður. Í grein minni er ég að segja að heimildamyndir eru ekki skýrslur eða ritgerðir. Þær eru höfundaverk - misjöfn að gæðum og gerð.
Hjálmtýr V Heiðdal, 12.6.2009 kl. 14:33
Ég er alveg sammála þér í meginatriðum og var í raun bara að lýsa þeirri prívat skoðun minni á heimildamyndum sem fjalla um deilumál. Persónulega tek ég ekki mark á myndum sem fjalla bara um aðra hlið málsins. Áróðursmyndir geta verið góðar ef ekki er deilt um efnið eins og þú bentir á í tengslum við reykingamynd sem sýnir bara hversu skaðlegt það er að reykja. Það deilir enginn um það.
Varðandi myndir Denna þá get ég nú sagt þér að hann þurfti að berjast nokkuð fyrir því sem í myndunum kom fram bæði texta og myndum og ef þú þekkir hann rétt þá lét hann Landsvirkjun ekkert segja sér fyrir verkum. Eftir stendur að myndir hans gefa miklu betri heildarmynd af þessu deildumáli.
Hinsvegar getur það verið beinlínis skaðlegt þegar menn sem almenningur tekur mark á framleiða áróðursmyndir sem eru kannski uppfullar af rangfærslum og bulli eins og t.d. í tilfelli Al Gore.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 15:16
... í tilfelli Al Gore.... og Andra Snæs..... og Michael Moore.....
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 02:00
Orðabókaskýringar sýna einnig að þær geta verið hæpnar sbr. dæmin sem hafa komið fram í þessari umræðu. ?
Hvernig þá ? á ég að taka þessu alvarlega ??
Orðið Heimild... þýðir upplýsing - eða staðreynd...
og orðið ÁRÓÐUR er nákvæmlega það sem ég sagði hér að ofan
LÆRÐU ÍSLENSKU áður en þú þvaðrar svona helvítis VITLEYSU...
OKEI ... ég orða ekki hlutina alltaf rétt... en ég veit ÞÓ HVAÐ ORÐIN ÞÝÐA ..
Ég vil ekki trúa því að þú sést svona forheimkst fífl...
Brynjar Jóhannsson, 13.6.2009 kl. 07:32
Eitthvað virðist Gunnar Th. misskilja hlutina, vonandi viljandi. Því góðar "áróðursmyndir" geta haldið sjónarmiðum allra á lofti! Þær breytast ekki í "vandaðar heimildarmyndir" fyrir vikið eins og þú skilgreinir orðið heimildarmyndir.
Björn Heiðdal, 13.6.2009 kl. 08:01
Ég hafði voðalega mikinn áhuga á fræðslu og heimildarmyndum í sjónvarpinu á árdögum þess, þá var ég í kringum tíu ára aldurinn. Í dag ríður pólitískur rétttrúnaður röftum í þessari tegund kvikmyndagerðar. Maður þarf að skoða feril kvikmyndagerðarmannsins, til þess að vita hvað klukkan slær.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 15:14
Gunnar Th. Þetta er dæmigerður sleggjudómur um „pólitískan réttrúnað“. Það eru myndir af öllum gerðum í framleiðslu og nýbúið að sýna t.s. Sólskinsdrenginn, myndina um Sæma Rokk og Bobby Fischer, mynd um öðruvísi fegruðarsamkeppni sem var haldin á ísafirði ofl. ofl. Þú veist ekkert hvað þú ert að tala um góurinn. Þér er í nöp við Draumalandið og það sem hún boðar. Hún er ekki nema lítið brot af framboðinu. Ég er með 3 myndir í framleiðslu og ég er viss um að þú getur ekki sett þinn „réttrúnaðarstimpil“ á þær. Þær verða vonandi allar sýndar á þessu ári.
Hjálmtýr V Heiðdal, 14.6.2009 kl. 21:45
Hjálmtýr, þú segir í grein þinni; "Í heimildakvikmynd þarf ekki að vera nein „heimild“, þ.e. gömul kvikmynd, ljósmynd eða skjal."
Ég hef aldrei heyrt um það, að það sem á að heita heimildarverk, hvort sem það er heimildarritgerð eða heimildarkvikmynd, þurfi ekki að vera byggð á heimildum.
Ég er hræddur um að nemandi sem væri að skrifa lokaverkefni við háskóla, verkefni sem ætti að vera byggt á heimildum, myndi falla á prófinu ef ekki væru neinar heimildir á bak við verkefnið.
Hitt er annað mál að deilurnar um hvort Draumalandið sé heimildar- eða áróðursmynda skipta hér litlu. Hér er að mínu mati um að ræða kvikmynd er lýsir persónulegum sjónarmiðum og skoðunum höfundar.
Myndir virðist vera full af hálfsannleik sem þar að auki er skrumskældur að smekk höfundar. Mörg atriði myndarinnar eru þar að auki sviðsett og sett í búning svo sá veruleiki sem sýndur er í myndinni falli að smekk og skoðunum höfundarins. Veruleikin í myndinn er klipptur og skorinn til þannig að sú mynd sem blasir við á að gera aðstandendur Kárahnjúkavirkjunarinnar og álversins á Reyðarfirði ótrúverðuga og jafnvel fáránlega. Allt í þeim tilgangi að gera þetta fólk ótrúverðugt.
Til að reyna að draga upp sem fáránlegasta mynd af framkvæmdunum fyrir austan, eru sýndar myndar af tómum og óseldum íbúðarhúsm sem nýlega hafa verið byggð. Þessi hús gæti alveg eins hafa verið í Reykjavík eða Kópavogi, eins og fyrir austan, því að á mörgum stöðum á landinu var reist gríðarlega mikið af íbúðarhúsnæði á undaförnum árum sem enn er óselt.
Eitt versta atriði myndarinnar er það atriði er á að sýna hreindýrskálfa sem munaðarleysingja vegna Kárahnjúkavirkjunarinnar. Það atriði er greinilega sviðsett þar sem flugvél/þyrla er notuð til að elta upp hreindýrskálfa og nánast sprengja þá úr hræðslu. Þetta atriði er ljótt og ógeðfellt og jafnvel siðlaust.
Út frá þessu mætti skilgreina Draumlandið sem "mocumentary" þar sem raunveruleikinn er skrumskældur og settur í búning sem hentar skoðunum framleiðendans.
Draumlandið er alls ekki heimildarmynd þar sem þær litlu heimildir sem þar eru, eru skrumskældar og matreiddar að hætti hödundarins svo útkoman verði honum að skapi. Góð heimildarmynd dregur upp hlutlausa mynd af raunveruleikanum þar sem rætt er með ýmsa aðila er tengjast viðfangsefninu (þ.e. Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði), bæði við þá sem eru hlyntir viðfangsefninu og þá sem eru á móti því. Ekki væri verra að dregin væri upp mynd af viðfangsefninu fyrir og eftir framkvæmd og rætt við sömu aðila í báðum tilvikum, þ.e. fyrir og eftir framkvæmd til að fá sem víðasta afstöðu til viðfangsefnisins.
Segja má að Kárahnjúkar og framkvæmdirnar fyrir austan hafi komið Andra Snæ verulega á kortið og skotið honum upp á stjörnuhimininn, amk. í augum margra. Maður spyr sig svo bara, hvað hefði orðið um Andra Snæ ef Kárahnjúkaframkvæmdirnar hefðu ekki orðið að veruleika. Hefði hann orðið svona "frægur"? ef ekki hefði orðið af framkvæmdunum þarna fyrir austan - og hversu mikið hefur hann í raun hagnast svona óbeint á þessum framkvæmdum?
Nær væri því að kalla Draumlandið fyrir "umhverfisklámmynd", svo mikið er raunveruleikinn í kringum umhverfisáhrif framkvæmdanna fyrir austan mikið skrumskældur og sviðsettur.
Björn M. Jónasson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 09:54
BJÖRN M. JÓNASSON
Hér er útskýring mín á orðinu heimildamynd: „Notkun heimilda (gamlar kvikmyndir, skjöl, ljósmyndir og aðrar upplýsingar) eru ekki skilyrði þess að mynd verði að heimildamynd. Ef til vill er hér kominn hluti af vandamálinu, sjálft orðið heimildamynd getur verið dálítið villandi ef menn reyna ekki að skilja eðli þess. En það hefur öðlast þegnrétt í málinu og tilgangslaust að reyna að hrófla við því með nýyrðasmíði. (John Grierson skrifaði sjálfur:"Documentary is a clumsy description, but let it stand"). Orðið ber það með sér að viðkomandi myndir eru byggðar á raunveruleikanum, þ.e. það eru raunverulegar heimildir að baki verkinu en ekki tilbúningur.“
Þú ræðir heimildaritgerð og heimildamynd og hefur aldrei heyrt um heimildamynd sem ekki er byggð á heimildum. Þær eru byggðar á raunverulegum atburðum eða fólki, ekki endilega heimildum í merkingunni skjöl eða ljósmyndir. Kárahnjúkavirkjun og allt það mál er raunverulegt. Fólkið sem kemur fyrir í myndinni er raunverulegt - en túlkun höfundar myndarinnar á gerðum þess er hans eigin.
Heimildamynd þarf ekki að vara sama og „hlutlaus“ skýrsla eða úttekt á verki. Mocumentary er svo annað form - þá er form heimildamyndarnnar notað en myndin leikin/sviðsett.
Hjálmtýr V Heiðdal, 16.6.2009 kl. 10:37
Hljálmtýr:
Við getum þá verið sammála um það að túlkun Andra Snæs á Kárahnjúkaverkefninu er hans eigin og því ekki hlutlausl. Ekki satt?
Hins vegar finnst mér Draumlandið verið áróðursmynd byggð á því sem þú kallar heimildir. Boðskapurinn í myndinni eru nefnilega skoðanir Andra Snæs sem hann vill koma á framfæri.
Ekki veit ég til þess að hann hafi gert neitt sérstakt fyrir umhverfisvernd eða náttúruvernd, og alls ekki á landsbyggðinni, nema er vera skyldi andstöðu hans við stórframkvæmdir þar. Á hinn bóginn kippir hann sér ekkert við stórframkvæmdir á Höfuðborgarsvæðinu og hvernig náttúruperlur í nágrenni við borgarlandið eru eyðilagðar undir umferðarmannvirki og byggingar. Sorgleg dæmi um þetta eru þessi reðurtákn í formi háhýsa sem eiga að gefa Höfuðborgarsvæðinu "international look".
Svo virðist sem að "borgarbarnið" Andri Snær sé bara sáttur við borgina sína og uni sér hvergi betur en þar hér á landi. Alla vegana hefur hann ekki skrifað bók um öll skipulagsslysin þar og hversu ljót Reykjavík í raun er. Í Reykjavík eru nær engin manneskjuleg græn svæði í formi fallegra almenningsgarða. Og þar eru engir fallegir gosbrunnar, og við sem eigum allt þetta vatn. Alemennigssamgöngur þar eru ill mögulegar og hin útþanda höfuðborg er sannkölluð bílaborg, þar sem fók ekur um á mini-álverum í formi ofurjeppa. Verðugt viðfangsefni þetta fyrir fólk eins og Andra Snæ, nema að þeir sjái bara flísina á auga síns bróður en ekki bjálkan í sínu eigin.
Og ekki veit ég til þess að "peningamaðurinn" Sigurður Gísli Pálmason, annar framleiðandi Draumlandsins, hafi komið nálægt neinu sem kallast geti náttúruvernd. Sá hinn sami er hins vegar einn aðili fyrir byggingarverkefni á Höfuðborgarsvæðinu er kallast; "Urriðaholt". Verkefni þetta var mjög umdeilt þar sem taka átti náttúruperlur í nágrenni Garðabæjar og umbreyta þeim í snobb-íbúðabyggðir í bland við risavöruhús sem nú þegar eru risin þar og heita BYKO og IKEA. Ætli umhverfisverndarsinnar hefðu ekki fengið flog hefði álíka verkefni átt sér stað úti á landsbyggðinni?
Hér er kannski komið verðugt efni fyrir þig, Hljálmtýr, í heimildarmynd?
Björn M. Jónasson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 16:31
Þú ert á smá villigötum Björn; afstaða til bygginga og ýmislegra framkvæmda í þéttbýli byggir á öðru en afstaða til framkvæmda á ósnortnu landi sem Skipulagsstofnun hefur dæmt úr leik vegna stórfelldra náttúruspjalla. Svo þú skal gleyma þessum árásum þínum á Andra Snæ sem byggja á slíkum vangaveltum þínum. Þetta er í raunmjög hallærisleg nálgun hjá þér (og fleirum) og sýnir ekki vilja til að ræða mál af sanngirni. Ég hef ekki kynnt mér þetta mál vegna Urriðaholtsins - en gef ekkert fyrir þennan söng um að menn í þéttbýli hafi aðra afstöðu til náttúrverndar en dreifbýlisbúar.
Hjálmtýr V Heiðdal, 16.6.2009 kl. 21:55
Mér finnst þetta einmitt EKKI hallærisleg nálgun hjá Birni M., en svar þitt á gagnrýni Björns er hins vegar í aumara lagi.
Smásölurisinn, Sigurður Gísli Pálmason, barðist í upphafi gegn framkvæmdunum á Austurlandi, af öðrum ástæðum en hann gefur upp í dag. Þegar Smáralindin var opnuð um svipað leiti og ákvaranir voru teknar um Kárahnjúka og álverið á Reyðarfirði, var fyrirsjáanleg aukin samkeppni á smásölumarkaði, þ.e. mikil aukning á verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þær áætlanir sem lágu til grundvallar þessu aukna framboði af verslunarhúsnæði, gerðu ráð fyrir því að tiltekin íbúafjölgun yrði á höfuðborgarsvæðinu en sú íbúafjölgun var meiri en náttúruleg fjölgun gat séð fyrir.
Sú byggðaþróun sem verið hefur í landinu undanfarna áratugi, var því kærkomin í áætlanir smásölurisana. Öllu sem ógnað gæti þessari íbúaþróun var barist gegn af hörku og náttúruverndarsamtök voru styrkt til áróðursherferðar gegn Kárahnjúkaverkefninu af miklum rausnarskap.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.6.2009 kl. 13:19
Aumingjaskapur minn stafar af skorti á djúphygli. Það viðurkennist hér með. Þeir eru slóttugri en ég hefði trúað að óreyndu böllaðir smásölurisarnir (skondið orð - líkt og risadvergur). Þú hefur vinninginn Gunnar.
Hjálmtýr V Heiðdal, 20.6.2009 kl. 15:52
Leiðrétting: bölvaðir átti það að vera. Böllaðir er hins vegar ágætis orð. Það vantar bara eitthvert fyrirbrigði til að skella því á.
Einhverjar tillögur?
Hjálmtýr V Heiðdal, 20.6.2009 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.