Tvær skýrslur

Bjarni BenÁ þessu ári hafa verið ritaðar tvær viðamiklar skýrslur um Ísrael og framferði Ísraela gegn Palestínumönnum.

Önnur skýrslan, kennd við formann rannsóknarnefndarinnar Richard Goldstone, hefur hlotið töluverða umfjöllum víða um heim og verður innan skamms rædd á þingi Sameinuðu þjóðanna. Goldstone skýrslan fjallar um stríðsglæpi í árásarstríði Ísraela gegn Gazabúum um s.l. jól og áramót.

Hin skýrslan, sem var birt í maí á þessu ári, hefur ekki fengið sömu athygli umheimsins eftir því sem ég best veit. Þessi skýrsla ber heitið Hernám, nýlendustefna og kynþáttastefna og undirtitillinn er Endurmat á framferði Ísraels á hernumdum svæðum í ljósi alþjóðalaga.

Skýrslan er unnin í Suður Afríku á vegum The Human Sciences Research Council (HRSC), en þeirri stofnun var komið á fót 1968 og fæst við rannsóknir í þágu ýmissa aðila um allan heim. Markmið HSRC er að stunda víðtækar rannsóknir á sviði félagsvísinda og opinberrar stefnumótunar.Áhugasamir lesendur geta nálgast skýrsluna á netinu: www.hsrc.ac.za/Document-3230.phtml (samantekt) og www.hsrc.ac.za/Document-3227.phtml (öll skýrslan).  19 sérfræðingar á sviði laga og stjórnmála, frá mörgum þjóðlöndum, tóku þátt í ritun skýrslunnar.

Ótvíræð niðurstaða

Upphaf rannsóknar HRSC á framferði Ísraela má rekja til skýrslu prófessors John Dugard eftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna varðandi mannréttindi á hernumdum svæðum Palestínu.

John Dugard varpaði fram eftirfarandi spurningu í skýrslu sinni: „Það er augljóst að Ísrael hefur hernumið Palestínu. Jafnframt framfylgja þeir hernáminu með nýlendustefnu og kynþáttastefnu (apartheid) sem ganga þvert gegn alþjóðalögum. Hverjar eru lagalegar afleiðingar fyrir stjórnvöldin sem stjórna langdregnu hernámi með aðferðum nýlendustefnu og kynþáttastefnu og hverjar eru lagalegar afleiðingar fyrir hernámsríkið og önnur ríki?“

Starfsmenn HRSC ákváðu að leita svara við spurningum John Dugard með því að rannsaka ítarlega ákvæði alþjóðalaga og kanna framferði Ísraela í ljósi laganna. Eftir 15 mánaða rannsóknir skiluðu sérfræðingarnir rúmlega 300 bls. skýrslu og niðurstaðan var ótvíræð: Ísrael er hernámsveldi sem framfylgir stefnu sinni að hætti nýlenduvelda og stundar kynþáttaaðskilnað og brýtur alþjóðalög sem ná yfir alla þessa þætti.

Öllum ríkjum ber skylda til að vinna gegn framferði Ísraels

Í skýrslunni kemur fram að hernám er ekki ólöglegt skv. alþjóðalögum en aldrei er viðurkennt að það sé ástand sem skuli vara til langframa. Ef hernámsþjóðin nýtir sér landgæði hernuminnar þjóðar og framlengir frelsisskerðingu líkt og Ísrael hefur gert þá stangast það á við alþjóðalög. Fari eitthvert ríki fram með þessum hætti þá leggst sú lagaskylda á önnur ríki að viðurkenna ekki gjörninginn og má undir engum kringumstæðum veita hernámsríkinu stuðning. Ólíkt hernámi þá eru nýlendustefna og kynþáttastefna undir öllum kringumstæðum brot gegn alþjóðalögum.

Skylda annarra ríkja

Í skýrslunni er ritað: „Alþjóðalög varðandi nýlendustefnu og kynþáttastefnu eru ófrávíkjanleg, þau eru viðurkennd af alþjóðasamfélaginu án undanþágu.“ Þar kemur einnig fram að hvert einasta ríki er ábyrgt gagnvart öllum öðrum að ástunda ekki slík brot á alþjóðalögum. Það eru hagsmunir allra ríkja að þessum lögum sé fylgt, þau eru grundvallargildi fyrir öll samskipti ríkja.

Ríki sem standa önnur ríki að því að reka nýlendustefnu og kynþáttastefnu bera þríþættar skyldur; að vinna með öðrum ríkjum til þess að stöðva framferði brotlegs ríkis; að neita að viðurkenna hið ólöglega framferði; og að neita brotlegu ríki um alla aðstoð og stuðning.  Niðurstöður rannsóknar HRSC á alþjóðalögum sýna að bæði Bandaríkin og Evrópusambandið brjóta gegn þessum lögum þegar þessi ríki veita Ísrael margvíslega aðstoð og eiga í samvinnu við hið brotlega ríki á mörgum sviðum.

Íslenskum stjórnvöldum ber að hefja aðgerðir

Ísland er ekki undanskilið alþjóðalögum og ber því sömu skyldur og önnur ríki í þessu máli. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu HRSC ber íslenskum yfirvöldum að leggja til við önnur ríki að grípa skuli til aðgerða í þeim tilgangi að stöðva ríkið Ísrael sem beitir aðra þjóð kúgun og framfylgir nýlendustefnu og kynþáttastefnu auk hernáms. Hernámið er ólöglegt m.a. sökum þess að Ísraelar taka sífellt stærra svæði af hernumdu landi til eigin nota, með ólöglegum landtökubyggðum, með byggingu ólöglegs múrs á landi Palestínumanna og yfirtöku vatnsréttinda sem tilheyra öðrum.

Friðarviðræður eru óhugsandi

Niðurstaða skýrslunnar sýnir hversu innantómt allt tal um friðarsamninga á milli Ísraela og Palestínumanna er í raun. Friðarviðræður geta aðeins átt sér stað milli aðila sem ganga til þeirra með það í huga að um eitthvað sé um að semja. En í tilfelli Ísraels er enginn alvara að baki þar sem þeir hafa ekki neina þá stefnu sem getur skilað mönnum í átt til friðar. Það getur aldrei ríkt friður þar sem kúgun er allsráðandi og þar sem hernámsveldi ástundar það leynt og ljóst að ræna landi annars aðilans og framfylgir jafnframt kynþáttastefnu þar sem þjóðir eru flokkaðar sem æðri og lægri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Hernám er ekki ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum.  Hvað er þá vandamálið? 

Björn Heiðdal, 3.11.2009 kl. 09:14

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Hér virðist vandamálið vera mislukkuð tilraun þín til að vera fyndinn.

Hjálmtýr V Heiðdal, 3.11.2009 kl. 09:47

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég var að benda á hræsnina í þessum alþjóðalögum en ekki að reyna vera fyndinn.  Það er ekki hægt að réttlæta hernám með neinu.  Kannski hægt að útskýra það og nota til þess einhver rök en ekki réttlæta það.  Ísrael hefur ekki leyfi til þess að hernema land í skamman tíma. 

Björn Heiðdal, 3.11.2009 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband