Er þetta lýðræði?

Oli JoÓlafur Jóhannsson, formaður félagsins Zion, vinir Ísraels, heldur því fram oft og iðulega að Ísraelsríki sé í raun eina lýðræðisríkið í Mið-Austurlöndum. Mál sitt styður hann gjarnan með því að hann hafi dvalist í landinu og eigi þar vini af öllum trúabrögðum og þekki því vel til ástandsins.

Lýðræðið sem Ólafur hampar svo er mjög ólíkt því lýðræði sem við þekkjum.

Skoðum það nánar.

Ísraelsríki hefur enga stjórnarskrá sem kveður á um lýðræðislegan grundvöll sem þegnum þess og stjórnvöldum ber að virða. Í stað stjórnarskrár gilda nokkrir lagabálkar sem kallast „grundvallarlögin“. Helsti lagabálkurinn sem hér um ræðir er frá 1950 heitir Lög um endurkomu (hebr.: ḥok ha-shvūt). Í þeim lögum er kveðið á um rétt allra manna sem teljast af gyðingastofni og/eða gyðingatrú til að öðlast ríkisborgararétt og setjast að í Ísrael.

Í stofnskrá Ísraelsríkis frá 14. maí 1948 stendur skýrum stöfum að í ríkinu verði „tryggt fullt jafnrétti allra íbúa í stjórnmálum og þjóðfélagsstöðu án tillits til trúarskoðana, kynþáttar eða kynferðis“. Skýrara getur það vart verið á pappírnum, en raunveruleikinn er annar því stofnskráin hefur ekkert lagagildi.

Grunnlögin sem mörg hver voru samþykkt fljótlega eftir stofnun Ísraels eru samin í samræmi við stefnu síonista og því geta þau ekki samræmst fögrum orðum stofnskráarinnar um jafnrétti. Síonisku lögin, lögin um réttindi til landsins, lögin um réttinn til endurkomu og lögin um „fjarverandi“ eigendur (Absentee law) byggja öll á sama grunni: að koma eignum fyrri eigenda landsins og húsnæðisins í hendur síonistum.

Við stofnun Ísraels áttu gyðingar aðeins 6% landsins, en að loknu landvinningastríði síonista 1949 voru þeir búnir að ná 78% Palestínu undir sín yfirráð. Fyrrgreindir lagabálkar tryggðu að Palestínumenn gátu ekki snúið aftur til fyrri eigna og áttu enga möguleika á að krefjast bóta fyrir stuldinn.

Alþjóðalög kveða á um rétt flóttamanna til endurheimtu sinna heimkynna, en Ísrael - í skjóli Bandaríkjanna - hefur komist upp með að hundsa allar samþykktir alþjóðastofnana fram til þessa.

Í grundvallarlögum um „Land Ísraels“ eru ákvæði um að gyðingar eru þeir einu sem geta leigt land í ríkiseigu. Lögin kveða á um að landið sé eign ríkisins og að ríkið geti leigt það til 49 ára í senn til einstaklinga sem eru gyðingar. Aðrir íbúar landsins, arabar, drúsar eða aðrir geta ekki fengið land til að byggja á.

Vegna þess að síonistar stálu næstum öllu því landi sem nú myndar Ísrael þá er mjög lítið landnæði eftir í eigu Palestínumanna sem eru löglegir íbúar í Ísrael. Þar af leiðir að af 1,5 milljón þeirra búa um 700,000 í um 100 þorpum sem ekki eru viðurkennd af stjórn Ísraels. Þetta fólk býr við stöðugar árásir, hús þeirra eru jöfnuð við jörðu og ræktunarland gert upptækt.

Í lögum Ísraels um „endurkomu“ sem Knesset (þing Ísraels) samþykkti 1950 segir að sérhver gyðingur hefur rétt til þess að setjast að í landinu og skal fá landvistarleyfi ef hann óskar þess. Það merkilega við þessi lög er notkun orðsins „endurkoma“, því flestir sem nýta sér þessi lög hafa aldrei komið áður til landsins. Hér er að sjálfsögðu verið að túlka biblíusögur um ríki gyðinga fyrir árþúsundum. Jafnframt er girt fyrir að brotthraktir Palestínumenn sem eru fæddir í landinu geti snúið til baka til fyrri heimkynna.

Þessi lög og ýmis önnur sýna svo ekki veruð um villst að ríkið Ísrael er ríki aðskilnaðarstefnu sem byggir á kynþáttahyggju síonismans.

Ólafur Jóhannson telur að lýðræði ríki í Ísrael, en sannleikurinn er augljóslega allt annar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þyrfti oftar koma fram hlutlaus lestur á "stjórnarskrá" Ísreals eins og Hjálmtýr setur fram. Það eru svotil einungis raddir eins og Ólafs Jóhannssonar og Bernard Henry Levy sem heyrast og fólk sem leggur sig ekki eftir upplýsingum fær bara að heyra þær því ósjálfstæðir fjölmiðlar þora ekki að birta eitthvað sem gæti gengið á móti söluvæni.

Á grundvelli fórnarlamba kúltúrsins hefur Ísraelsríki leyft sér framferði sem minnir meira á dimmar miðaldir en nútíma stjórnmál. Í miðausturlöndum ríkir í flestum ríkjum mikið óréttlæti og skammarlegir stjórnarhættir en ekki síst í Ísrael þessu "eina" lýðræðisríki þessa heimshluta.

fahad Jabali (IP-tala skráð) 30.8.2011 kl. 13:46

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ólafur er enginn kjáni og veit vel hvað er að gerast í Palestínu. Samt talar hann eins og hann gerir, sem upplýsir fullkomlega hverskonar pappír hann er.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.8.2011 kl. 15:29

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Axel

Ólafur er fyrst og fremst síonisti - þess vegna getur hann ekki talað um hlutina eins og þeir eru í raun.

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.8.2011 kl. 15:36

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Áður en Jón Baldvin Hannibalsson fór mikinn á Sprengisandi (á Bylgjunni) var hann daginn áður búinn að hella sama svartagallinu í athugasemd á bloggi mínu. http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1186112/

Ólafur Jóhannsson hefur vissulega á réttu að standa. Ísrael er eina lýðræðisríkið í Miðausturlöndum. Í Ísrael er tryggt fullt jafnrétti allra íbúa í stjórnmálum og þjóðfélagsstöðu án tillits til trúarskoðana, kynþáttar eða kynferðis. Svo er ekki á Gaza eða á svokölluðum Vesturbakka. Kristnir menn eru ofsóttir á þeim slóðum. Gyðingar eru heldur ekki velkomnir á þeim svæðum, þar sem menn sem kalla sig Palestínumenn ætla á næstunni að lýsa yfir stofnun ríkis, sem aldrei hefur verið til. Á Gaza vilja þeir útrýma Ísraelsríki. Hvað kallar maður slíkt stjórnarform?

En hvað styður þú, Týri, stjórnarfarið hjá nágrönnum Ísraels? Leiðinlegt að þú fórst ekki í heimsókn til Assads með Ingibjörgu Sólrúnu, eða systur þinni og mági sem áttu víst unaðslega daga í Líbýu og í öðrum ríkjum sem er stjórnað af brjálæðingum sem misþyrmt hafa þjóðum og þjóðarbrotum þeim sem búa í ríkjum þeim sem þeir stjórna með harðri hendi.

Hjálmtýr, þú ert fyrst og fremst Ísraelshatari - þess vegna getur þú ekki talað um hlutina eins og þeir eru í raun. Þegar þú ert búinn að lesa þér til í öðru en blindum áróðri öfgamanna, kæmi kannski annað hljóð í skrokkinn. Þetta er svo hatrammt hjá þér, en í raun ekkert undarlegt þegar tekið er tillit til þess að þú hefur einnig verið heillaður stuðningsmaður Norður-Kóreu og Albaníu

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.8.2011 kl. 16:53

5 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Vilhjálmur Örn

Þú segir að ég geti ekki „talað um hlutina eins og þeir eru í raun“. Ég vitna í lög sem ráða í þínu elskaða landi - og ég trúi því að þar sé farið eftir þessum lögum „í raun“. Það er þinn siður Vilhjálmur að sletta leiðindunum sem fylla hug þinn í allar áttir. Segir þetta heilmikið um þig. Hvað vilt þú segja um lagabálkana sem ég vitna til?

Ég er ekki að rembast við að ljúga því að ríki sem ekki eru lýðræðisríki ástundi lýðræði. Sýrland og N-Kórea ofl. ríki eru ekki lýðræðisríki og ekki heldur Ísrael. Í Ísrael er þó málfrelsi enn við lýði hjá hluta þjóðarinnar - en það fennir hratt yfir lýðréttindin hjá núverandi stjórnvöldum. Enda fer síonismi og lýðræði ekki saman.

Nú kallar þú mig Ísraelshatara - mörgum sinnum hefur þú nefnt mig gyðingahatara. Hver er munurinn??

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.8.2011 kl. 17:34

6 Smámynd: Jens Guð

Ísrael er rasista- og hryðjuverkaríki.  Aðskilanaðarmúrinn, landrán og árleg fjölda morð á Palestínumönnum staðfesta það.  Í dag eru varla mörg önnur ríki sem hægt er að staðsetja nær nasisma.   Það er einföldun að góla um gyðingahatur þegar á þetta er bent.  Alla vega í minu tilfelli.  Mér getur ekki verið meira sama um það hvort að mínir uppáhalds tónlistarmenn (Bob Dylan eða aðrir) séu gyðingar eða eitthvað annað. 

Jens Guð, 30.8.2011 kl. 23:18

7 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Jens

Þetta mál snýst ekki um gyðinga, það eru margir gyðingar andstæðingar síonismans. Kjarni vandamálsins er stefna stjórnvalda í Ísrael - og það er síonisminn sem ræður för. Það eru mörg atriði í síonismanum sem eru áþekk í nasismanum. Þegar ríkjum er stjórnað með kynþáttalöggjöf eins og Þýskaland nasismans og Ísrael síonismans þá fer margt og mikið úrskeiðis. Mannréttindi þeirra sem réttlausir eru í augum herranna eru ekki virt, landi er rænt og alþjóðareglur virtar að vettugi.

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.8.2011 kl. 23:35

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Í þínu tilfelli Hjálmtýr, og t.d. hjá Jóni Baldvin er enginn munur á gyðingahatrinu og Ísraelshatrinu. Fyrir utan örfáa sjálfshatara eins og Elías Davíðsson, sem má sjá fara á kostum hér: http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1183877/ og vitleysinga sem vilja aftur í gettóin til að láta slátra sér, þá eru yfir 99% allra gyðinga síonistar á einn eða annan hátt. Mannréttindafrömuðir í Ísrael, sem vinna fyrir málstað Palestínuaraba eru líka síonistar, því þeir búa í Ísrael.

Þar sem þú styður samtök sem lýsa ljóst yfir efasemdum á helförinni, þá er ég hræddur um að þú sért óþveginn gyðingahatari.  Þú styður Hamas, sem hefur á stefnu sinni að myrða gyðinga, alveg eins og nasistar. Þú lítur upp til manns sem skrifaði doktorsritgerð í Sovétinu, sem voru verstu fjöldamorðingjar sögunnar. Maður sá heitir Abu Mazen (Abbas). Í ritgerð sinni afneitar hann helför gyðinga, alveg eins og Arafat gerði það endrum og eins, þegar illa lá á honum. Þú styður fólk, (fyrirgefðu þjóð), sem gefur út Mein Kampf á arabísku og selur hana í "nágrannaríki" Ísraels. Þú hlýtur því að vera nasisti og gyðingahatari. Heilvita fólk styður ekki slíkan málstað og slíka útgáfustarfssemi. Þú líkir gjarnan Ísralsmönnum við SS og Ísraelsríki við Þýskaland nasimans og síonisma við nasisma. Það er lögbrot í  ESB og skilgreint sem antisemítismi - og þú veist þess vegna, hvað gerist ef Ísland verður aðildarland í ESB???

Jens Guð, þú þarft greinilega að kynna þér skilgreininguna á fjöldamorði áður en þú notar það orð. Jórdanar frömdu skipulögð fjöldamorð á Palestínuaröbum árið 1969. Hamas og aðrar hryðjuverkadeildir Palestínuaraba hafa skipulagt Fjöldamorð. En þeir Palestínumenn sem Ísraelsmenn fella, falla vegna stríðsátaka og eru ekki saklaust fólk. Palestínumenn taka saklaust fólk sem gísla í hernaði, það er líka fjöldamorð. Í árdaga Ísraels voru framin fjöldamorð á Palestínuaröbum, líkt og Palestínuarabar frömdu fjöldamorð á gyðingum, og fyrir utan einn brjálaðan mann í Hebron, þá eru fjöldamorðin nú flest framin af Palestínumönnum, jafnt á gyðingum sem á þeirra eigin bræðrum!

"My best friends are Jews, but I hate Israel". Haltu endilega áfram, Jens, að vera persónulegur vinur Dylans meðan að þú segir að Ísrael sé rasista og hryðjuverkaríki . Hefur Bubbi Morthens ekki annars stolið frá Robert Zimmermann?  

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 31.8.2011 kl. 06:32

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Já Vilhjálmur - það er margt líkt með síonisma og nasisma.

Þáttur í stjórnmálahugmyndum nasista var s.k. blóðtenging þjóðarinnar við landið, Blut und Boden. Grunnur þeirrar hugmyndar er að vissir kynþættir hefðu söguleg tengsl við ákveðin lönd eða landshluta.

Síonisminn byggir á sama grunnstefi, blóðtenging gyðinga við „landið helga“ er upphaf og endir alls í þessari stefnu. Moshe Sharett, fyrsti utanríkisráðherra Ísraels, sagði árið 1947 að „Bandið milli lands Ísraels og Ísraelsþjóðarinnar er heilagt og óleysanlegt“.

Martin Buber, heimspekingur og prófessor við Hebrew háskólann í Jerúsalem, skrifaði:

„innst inni ræðst tilvera okkar af blóðinu“ og „þegar hún (sál gyðingsins) kemst í snertingu við sína móður jörð (í Palestínu) mun hún geta skapað á ný“. Hér birtast sömu viðhorf og hjá nasistum - Blod und Boden - blóð og bújörð.

Síonisminn var síðkomin þjóðernisstefna og skorti efniviðinn sem þjóðernissinnar annarra landa gátu moðað úr. Það var engin gyðingaþjóð búsett á afmörkuðu landssvæði, það var ekkert eitt tungumál og engin ein sameiginleg baráttusaga. Það sem var tiltækt síonistum voru goðsögur trúarritanna um hina horfnu forfeður sem voru, samkvæmt ritunum, brottreknir fyrir 2000 árum frá landinu sem Rómverjar nefndu Palestínu.

Forystumenn Síonistahreyfingarinnar voru ekki trúræknir gyðingar, þvert á móti þá voru þeir veraldlega þenkjandi og margir þeirra aðhylltust sósíaliskar hugmyndir. Þrátt fyrir trúleysið notuðu síonistarnir sér trúarritin sem grundvöll hugmyndanna um landlausa og útlæga gyðingaþjóðina. David Ben-Gurion, leiðtogi síonista í áratugi, lýsti því yfir 1936 í viðræðum við bresku nýlenduherrana, að réttur gyðinga til Palestínu „er skráður í Biblíunni“ („the Bible is our Mandate“)

Í goðsögnum Biblíunnarer sagt frá gjöf guðsins til gyðinganna. Gjöfin var land annarra þjóða (Kananíta ofl.) sem voru reknar burt með morðum og báli.

Þannig töldu Evrópumenn, sem trúðu ekki á guðinn gjöfula, sig eiga landið sem sami guð gaf ímynduðum forfeðrum þeirra og hófu, líkt og í lýsingu Gamla testamentisins, að reka burt þjóðina (Palestínumenn) sem fyrir var með morðum og báli.

Hjálmtýr V Heiðdal, 31.8.2011 kl. 08:20

10 Smámynd: Björn Heiðdal

Sæll Týri

Vinur þinn Vilhjálmur svarar aldrei erfiðum spurningum.  Auðvitað er það hans réttur að neita að svara en segir allt um málstaðinn sem hann er að verja, fjöldamorð og pyntingar Ísraelsríkis.  

Björn Heiðdal, 9.9.2011 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband