Góður dagur

PalestinufaniÍ dag samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust eftirfarandi þingsályktunartillögu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skorar Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Alþingi áréttar að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnir jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Alþingi krefst þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.“

Ísland verður fyrsta vestræna ríkið sem tekur þetta mikilvæga skref og verður vonandi til þess að fleiri ríki geri það líka.

Það er mikilvægt atriði í þessari ályktun að þar er skýr afstaða til réttinda flóttamanna til að snúa til síns heima. Þetta er alþjóðleg samþykkt og mjög þýðingarmikil. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í umræðunni á Alþingi um tillöguna sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins: “Í þessu sambandi má nefna að Frelsissamtök Palestínu, PLO, hafa ekki viljað viðurkenna sjálfstæðan rétt gyðinga til ríkis. Abbas sagði nýlega á Evrópuþinginu að það væri afar erfitt að viðurkenna gyðingaríki. Og þetta skiptir verulega miklu máli“.

Ragnheiður átelur Palestínumenn fyrir að vilja ekki viðurkenna Ísrael sem ríki gyðinga. Hún virðist ekki skilja að í þessu máli er það stuðningur við kynþáttastefnu síonista sem ráða Ísrael að samþykkja Ísrael sem ríki gyðinga.

Í Ísrael er um 25% íbúanna ekki gyðingatrúar eða afkomendur gyðinga. Og þeir verða að bera persónuskilríki sem sýna að þeir tilheyra ekki gyðingum. Í Ísrael eru í gildi fjöldi lagabálka þar sem réttindi íbúanna eru skilgreind eftir því hvort þeir eru gyðingar eða af öðrum stofni.

Viðurkenni Palestínumenn Ísrael sem ríki gyðinga eru þeir þar með að viðurkenna kynþáttastefnu síonismans. Ef samskonar stefna ríkti hér á íslandi jafngilti það yfirlýsingu um að 60,000 Íslendingar stæðu lakar gagnvart ýmsum landsins gæðum. Og þá er skammt undan hið rasíska slagorð „Ísland fyrir Íslendinga“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Við getum minnst þess að Íslendingar voru fyrsta þjóð í veröldinni sem viðurkenndi sjálfstæði Ísrael á sínum tíma.

Þessi þingsályktun sem var samþykkt í dag er algjörlega í samræmi við fyrri viðurkenningu. Við getum verið sátt um þessa ákvörðun en: af hverju sat flokkur Sjálfstæðismanna hjá eins og einn maður? Var einhver sem tók ákvörðunina fyrir flokkinn?

Mér finnst miður að Alþingi samþykkti ekki þessa þingsályktun ekki samhljóða eins og gerðist þegar ísraelsríki var viðurkennt.

Góðar stundir

Guðjón Sigþór Jensson, 29.11.2011 kl. 19:44

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

"Við getum minnst þess að Íslendingar voru fyrsta þjóð í veröldinni sem viðurkenndi sjálfstæði Ísrael á sínum tíma"

Hvað hefur þú fyrir þér í þessu Guðjón. Tillagan um að Ísrael yrði að sjálfstæðu ríki var reyndar borin upp á Thor Thors, en Bandaríkin og Sovétríkin voru fyrst til að viðurkenna Ísrael formlega.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.11.2011 kl. 01:49

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Bandaríkin voru fyrst - ellefu mínútum eftir yfirlýsingu Ben Gurion um stofnun Ísraels. Plaggið braut reyndar reglur sem gilda um slíkt í BNA. Það var samið löngu fyrir 14. maí, en regla BNA var (er?) sú að ríki sem æskja viðurkenningar skuli vera raunverulega til þegar viðurkenningarbeiðnin er sett fram.

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.11.2011 kl. 08:03

4 identicon

Vissi að Bandaríkin og Sovétríkin hefðu verið fyrstu ríkin að samþykkja Ísrael. Hvenær nákvæmlega samþykktu Sovétríkin Ísrael?

Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband