Ögmundur og Guðfríður Lilja gera uppreisn

Ögm og GLTillaga Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um að Alþingi afturkalli ákæru á hendur Geir H Haarde, fyrrverandi formanni sama flokks, byggir á þeirri afstöðu að flokkurinn og forysta hans beri ekki ábyrgð á þeim atburðum sem flestir Íslendingar kalla Hrunið. Því sé það fráleitt að draga Geir fyrir dóm. Það er einnig liður í sókn flokksins til valda að ræða nú um „svokallað hrun“.

Ergo: engin ábyrgð flokksins, og Hrunið, að því marki sem menn viðurkenna tilvist þess, fyrst og fremst komið frá útlöndum sbr. Umsátrið, bók Styrmis Gunnarssonar.

Í þessu ljósi er merkilegt að skoða afstöðu þeirra sem segjast vera jafnaðar- og vinstrimenn og treysta sér jafnframt að styðja málatilbúnað Bjarna og flokksins á þingi og samþykkja þinglega meðferð tillögunnar um niðurfellingu Landsdómsmálsins.

Nú er ég ekki svo versaður í innri lögmálum flokkapólitíkur og hagsmunagæslu stjórnmálanna að ég geti skoðað öll skúmaskot málsins. En sinnaskipti Atla, Ögmundar, Guðfríðar Lilju ofl., og liðsinni þeirra við Sjálfstæðisflokkinn, stemma ekki við hástemmdar yfirlýsingar þeirra um orsakir hrunsins og ábyrgðina á því.

Guðfríður Lilja segir í þættinum Vikulokin á Rás 1 (21.jan.) að afstaða hennar hafi ráðist að lýðræðiskennd, hún vildi að málið fengi efnislega meðferð í nefnd og sú aðgerð segði ekkert til um afstöðu hennar eftir að málið kæmi til atkvæðagreiðslu á þingi. Síðar í þættinum sagði hún svo að ákæruvaldið (Alþingi) hafi brugðist skyldu sinni með því að senda bara einn fyrir dóm. Það sé ekkert uppgjör við hrunið að senda einn meðan aðrir sitja í feitum embættum og sumir á þingi.

Hér eru komnar tvær ástæður hjá Guðfríði Lilju og vantar samræmi í framsetninguna: ef lýðræðisástin ein stýrir því að hún vill styðja þinglega meðferð - og að afstaða hennar síðar þegar þingið greiðir atkvæði um tillöguna sé óráðin - þá stemmir það ekki við orð hennar um að Alþingi hafi brugðist skyldu sinni m eð því að senda bara Geir á bekkinn „á ásanngjörnum forsendum“ skv. Guðfríði Lilju. Því að ef hún greiðir atkvæði gegn tillögu Bjarna eftir nefndarmeðferð þá er hún að bregðast skyldu sinni samkvæmt eigin orðum.

Viðsnúningur Ögmundar ofl. virðist einnig snúast um að það hafi verið mistök að ákæra Geir einan og að ákæran sé um fremur lítilfjörlegan hlut hrunsins. Ögmundur skrifar á heimasíðun sína að: „Málshöfðunin gengur einvörðungu út á meint brot - að uppistöðu til andvaraleysi - í átta mánuði árið 2008“ og „að verja hundruðum milljóna til að finna út hvernig samráði var háttað milli þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, Davíðs Oddsonar og Björgvins G. Sigurðssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Matthíesen á síðustu metrunum í aðdraganda hrunsins, - er peningum illa varið. Sérstaklega er þetta illa gert gagnvart öllu því fólki sem telur að það sé verið að „gera upp hrunið" og tilbúið í góðri trú að verja miklum fjármunum til að það megi gera sem allra best.“

Hér eru þau sammála Guðfríður Lilja og Ögmundur; þetta er ekkert upppgjör og „Stóra uppgjörið“ sé allt annað, eða með orðum Guðfríðar Lilju: „Þetta mál með Geir byggir á mjög afmörkuðum þáttum á afmörkuðu tímabili, þetta eru 8 mánuðir. Ætlar einhver að segja mér að þetta sé uppgjör við hrunið? Allan þennan langa og viðamikla aðdraganda. Er þetta ekki frekar hvítþvottur fólks, ákæruvalds, sem á sama tíma er í feitum embættum“. Það er skv. þessu ekki rétt að ákæra Geir, og varla þá hina þrjá, þar sem þetta spannar aðeins „8 mánuði“ af „löngum og viðamiklum aðdraganda“ og „gerir ekki upp hrunið“.

Nú vill svo til að það var s.k. Atlanefnd sem lagði til að fjórmenningarnir skyldu ákærðir fyrir afglöp í ströfum sínum þessa „8 mánuði“. Hún hélt 54 fundi og lúslas skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og meirihluti nefndarinnar lagði svo fram sína tillögu. Þá tók við umræða á þingi og loks atkvæðagreiðsla.

Enginn af þáv. og núv. þingmönnum VG var á móti niðurstöðu Atlanefndarinnar, þó svo að „málshöfðunin gangi aðeins út á meint brot í átta mánuði“. Ekkert var kvartað mánuðum saman um niðurstöðu þingsins um að senda Geir einan. Vissulega voru menn hissa og sjálfstæðismenn reiðir vegna niðurstöðunnar - en enginn taldi ákæruna léttvæga.

Ákæran byggði á rannsóknarskýrslunni nema í máli Ingibjargar Sólrúnar. Landsdómur tók til starfa og felldi niður hluta ákærunnar en meirihlutinn er tekin til dóms. Mörgum mánuðum eftir afgreiðslu Alþingis og úrskurð Landsdóms kemur svo Bjarni Ben með sína tillögu um frávísun og klofningurinn í VG tekur á sig nýja mynd.

Fyrrverandi þingmenn og „órólega deildin“ undir forystu Ögmundar greiða öll atkvæði með tillögu sem er að margra mati er alvarlegt inngrip í gang réttakerfisins, eða „réttarspjöll“ svo notuð séu orð Þráins Bertelssonar. Hið auma yfirklór Ögmundar og Guðfríðar Liju er að mínu mati sönnun þess að megin ástæðan fyrir afstöðu þeirra sé uppreisn gegn Steingrími Joð og hans liði.

Þótt það feli í sér liðveilsu við lævísleg vinnubrögð Sjálfstæðismanna þá er grimmdin í garð Steingríms svo mikil að annað verður að víkja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Held að þetta sé hárrétt greining hjá þér Hjálmtýr. Hreinlyndi eða kosningaloforð þvælast sjaldan fyrir skítlegu eðli.

hilmar jónsson, 21.1.2012 kl. 23:36

2 identicon

Ætli Ögmundur og Co hafi hugsað þetta mál til enda ?

Núna er það þetta lið sem hefur það á sinni samvisku að þjóðin fá einhverjar fréttir af gjörðum í aðdraganda hrunsins !!!

Ögmundur og Co eru allt í einu komin með hrunið í kjöltu sína !

Ögmundur og Co  geta ekki sagt lengur að gjörðir í hruninu sé ekki þeim að kenna !!!

Ögmundur og Co er að koma í veg fyrir að þjóðin fái að vita hverjir það voru sem bera ábyrgðina á ástandinu hér í dag !

JR (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 23:45

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er kanski full dramatískt að segja að Ögmundur og co muni hindra uppgjörið sem þau segjast þrá svo mjög. En ekki eru þau að hjálpa mikið til með þessu háttalagi.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.1.2012 kl. 23:49

4 identicon

Bestu þakkir fyrir vandaðan og yfirvegaðan pistil, Hjálmtýr. Ég hef fyrir mína parta reyndar lengst af litið svo á að andstaða "órólegu deildarinnar" byggðist á ófrávíkjanlegum heiðarleika og hreinleika hjartans. Sem sagt að þetta fólk sé svo trútt eigin sannfæringu að það geti hvergi slegið af henni. Og það er hægt að hafa samúð með afstöðu sem byggir á hreinleika hjartans.

En hér er eitthvað allt annað á ferðinni. Þú notar orðin "heift" og "grimmd" og mér sýnist það nokkuð gott gisk. Allavega er samúð mín farin veg allrar veraldar.

Jón Daníelsson (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 00:38

5 identicon

Góður pistill Hjálmtýr, og góð tilraun til greiningar á undarlegri og óskiljanlegri hegðun þeirra Ögmundar, Atla og Guðfríðar Lilju.  Ég er sammála þér að þessar útskýringar Guðfríðar Lilju í Vikulokunum í dag voru dapurlegt vitni um þann rakalausa þvætting sem þau þrjú hafa haft uppi sem ástæðu fyrir afstöðu sinni í þessu máli. -  Ég ætla að fá að deila pistlinum til vina minna á fésbók. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 01:22

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sinnaskipti Ögmundar og co. eru ófyrirgefanleg. Ég gef lítið fyrir þær útskýringar þeirra sem ég hef lesið og heyrt.

Verst af öllu finnst mér þó þáttur ráðherranna fyrrverandi úr ríkisstjórn Geirs Haarde. Ég fæ ekki með nokkru móti skilið að þau hafi haft nokkurn einasta siðferðilegasta rétt til þess að greiða atkvæði um ákærur á hendur samráðherrum sínum. Ef þau hefðu setið hjá þegar atkvæði voru greidd 28. sept. 2010, hefðu fleiri ráðherrar en Geir verið ákærðir. Af þeim sökum hefði tillaga Bjarna Ben. tæpast dúkkað upp 15 mánuðum síðar og sett Alþingi í svaðið enn eina ferðina.

Sigurður Hrellir, 22.1.2012 kl. 01:39

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hingað til hef ég verið mjög ánægður með Ögmund, Liljurnar og Atla Gíslason. Ekki í þessu máli og ég hef á tilfinningunni að hér ráði engar hugsjónir, heldur séu þau að koma í veg fyrir að réttvísin nái yfir Geir Haarde.

Og mér sýnist ástæðan vera að þau séu að hefna sín á Steingrími og Jóhönnu, fyrir stjórnlyndi þeirra síðastnefndu, sem ég neita ekki að er sjálfsagt alveg óþolandi.

Theódór Norðkvist, 22.1.2012 kl. 02:12

8 Smámynd: Skaz

Málið virðist vera það að Ögmundur og co. séu bara að gera þetta til þess að hefna fyrir og minna á sig innan VG. Enda eiga þau enga framtíð þar innan dyra eftir þessa stjórnarsetu og vita það ansi vel að á meðan Steingrímur og co. ráða í VG þá eru prófkjör og uppstillingar ekki að fara að verða þeim í hag fyrir næstu kosningar.

Það er ansi líklegt að þetta snúist afar lítið um málefni og lýðræðisást eða rétt vinnubrögð þingsins. Heldur sé þetta bara partur af  innandyrapólitík og framagirnd þessa fólks. Enda sumir eins og nefnt er orðnir ansi margsaga í afstöðu sinni til þessa máls. 

Þetta er í grunninn bara aðallega sorgleg áminning á það að Alþingi er stofnun sem að virkar ekki eins og til er ætlast. Þetta á að heita þjóðþing en er aðallega bara vettvangur persónulegra víga og ágreinings í stíl Morfís keppna. Það kemur enginn neinu jákvæðu í verk þarna á meðan fólk sem að sumt hefur setið í vel á annan áratug (sumir lengur) hangir þarna með sömu ranghugmyndirnar og fordómanna gagnvart hvort öðru.

Við erum bara að verða vitni að persónulegum deilum smitast og blandast út í mál sem að varðar heilbrigði þjóðarinnar. Fólk sem setur slíkt ofar þjóðinni og velferð hennar á ekkert erindi á þing og það er sorglegt hversu margir slíkir aðilar sitja á þinginu.

Skaz, 22.1.2012 kl. 04:02

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Tillaga Bjarna Ben snýst ekki um mannréttindi

Það er stór hluti þessa máls, eins og ýmsir hafa bent á, að með afgreiðslu þingsins á frávísunartillögu Magnúsar Orra ofl. er verið að riðlast á þrískiptingu ríkisvaldsins. Landsdómur er búinn að meta ákærunar og dómtekið 4 af 6. Það er hægt að afturkalla ákæru ef efnisatriði gefa tilefni til. En annars ekki.

Ef það hefði komið í ljós við nánari rannsókn að Geir var ekki forsætisráðherra umrætt tímabil þá er það veigamikið efnisatriði. En öll tiltæk gögn benda til þess að hann hafi verið löglega kjörinn kapteinn. Ákæran gegn honum var tekin gild og líkleg til sakfellingar.

Í þessu ljósi skiptir ekki öllu máli hvort þingmönnun hafi tekist að smygla öðrum ráðherrum frá dómi - þeir verða í raun einnig dæmdir í þessu máli eftir því sem við á. Það munu vitnaleiðslurnar draga fram í dagsljósið. Það er þetta dagsljós sem Bjarni Ben vill ekki að falli á fortíðina.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.1.2012 kl. 12:01

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég er sammála þér Sigurður Hrellir, menn áttu að sjá sóma sinn í því að taka ekki þátt í atkvæðageiðslunni. Í raun er stór spurning hvort þingið geti meðhöndlað þetta mál - þingmenn Hreyfingarinnar bentu á það á sínum tíma.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.1.2012 kl. 12:04

11 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Öll þessi heift í garð Ögmundar og Guðfríðar Lilju fyrir það eitt að vilja leyfa umræðu um málið. Það er ekki á ykkur logið.

Ragnhildur Kolka, 22.1.2012 kl. 13:59

12 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ragnheiður - það er búið að „leyfa“ umræður um málið - í nefnd - á þingi - í fjölmiðlum - á blogginu og fésbókinni. Hvað vilt þú meira.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.1.2012 kl. 14:41

13 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég hef svo mikið álit á þessu fólki að fyrst þau segja þetta þá hlýtur það bara að vera rétt og öllum fyrir bestu

Björn Heiðdal, 22.1.2012 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband