8.3.2012 | 08:36
Hin íslenska leið
Eftir því sem fleiri bera vitni fyrir Landsdómi þá virðist niðurstaðan vera að stjórnendur landsins - embættismenn og stjórnmálamenn - voru í þeirri stöðu að þeir höfðu engin tök á ástandinu.
Og að engar aðgerðir til að vinda ofan af óskapnaðinum tiltækar.
Í þessu ljósi eru ferðir ráðamanna til New York, London og víðar, þar sem þeir sögðu allt í stakasta lagi, hið eina rökrétta í stöðunni.
Hin veika íslenska von um að allt reddist að lokum var eina haldreipið sem stjórnvöld töldu sig hafa.
Blekkingin var sem sagt eina leiðin - er það ekki dæmigert!
5.3.2012 | 16:30
Hinn nýi Íslandsbersi
Leiðtogi Turkmena fram til ársins 2006 tók upp nafnið Türkmenbaşy (leiðtogi Turkmena) og taldi sig ómissandi landsföður. Turkmenabersi þessi gerðist forseti til æviloka með lagabreytingum og beitti ýmsum bolabrögðum til að halda völdum.
Fleiri dæmi kann mannkynssagan um menn sem fá ofurhugmyndir um sjálfa sig; að voðinn sé vís fari þeir frá. Oft er hlegið að tilburðum slíkra manna sem yfirleitt ráða ríkjum í löndum þar sem einræði og fáfræði ríkir.
Þegar ofurmannheilkennið slær niður í huga kjörinna fulltrúa almennings í löndum með ríka lýðræðishefð þá er minna hlegið. Enda ekkert grín þegar stjórnmálamönnum hugnast ekki lýðræðið og þingræðisskipulag.
Nú er komið fram afbrigði þessa heilkennis hér á Íslandi. Forseti Íslands, sem er skv. stjórnarskrá ríkisins ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt, býður sig fram til þess að standa vaktina fyrir hönd þjóðarinnar á óvissutímum.
Í áramótaræðu sinni sagði forsetinn að hann muni hverfa til annarra starfa og að hann og hans frú séu farin að hlakka til frjálsari stunda. Eitt af útbreiddustu dagblöðum landsins tók hann á orðinu og skrifaði í frétt að ÓRG mun ekki bjóða sig fram til forseta Íslands að nýju.
Tveimur mánuðum seinna er komið annað hljóð í strokkinn: aldrei fyrr í sögunni hafi jafn margir grundvallarþættir í stjórnskipan og þjóðfélagsmálum okkar Íslendinga verið jafn ríkulega háðir óvissu og því ætlar forsetinn að bjóða sig fram til fimmta kjörtímabilsins. Tveimur mánuðum eftir að hann var farin að hlakka til frjálsari stunda eru óvissutímar! Hvað gerðist á þessum tveimur mánuðum? Hvaða óvissuástand var í mars sem ekki var í janúar?
Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, að bjóða sig fram á ný er eingöngu byggð á einni ástæðu. Það er vilji hans til að hafa áhrif á gang þjóðmála, pólitískur draumur sem hefur tekið sig upp. Forseti íslenska lýðveldisins hefur, ásamt nánustu bandamönnum, tekið ákvörðun um að nýta embættið í þágu pólitískra stefnumála. Hann hefur niðurlægt embættið í skrípaleikfléttu sem allir sjá í gegnum.
Stuðningsmenn hans hrópa á sterkan landsföður sem skal beitt gegn þingræðislegu skipulagi þjóðarinnar. Gegn réttkjörinni ríkisstjórn og þingi.
Það er í anda Turkmenabersa að ráðast að rótum lýðræðisins með lýðskrumi á óvissutímum. Og það eru óvissutímar á Íslandi þegar æðsti embættismaður landsins gerir atlögu að þingræðinu og þykist einn albúinn til að túlka vilja þjóðarinnar.
Eigum við að hlæja eða gráta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.2.2012 | 15:58
Lítið lóð á vogarskál réttlætisins
Birgir Þórainsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, birti grein um málefni Palestínu og Ísraels í Morgunblaðinu 9. feb. s.l.
Þar lýsir Birgir áhyggjum sínum vegna viðurkenningar Íslands á rétti Palestínumanna til að búa við sjálfstæði líkt og Íslendingar. Það kemur fram í grein Birgis að hann heimsótti Knesset, þing Ísraela, og átti fund með landbúnaðarmálaráðherra Ísraels.
Skilaboð Birgis til Íslendinga eftir förina til Ísrael eru m.a. þau að viðurkenning Íslands á rétti Palestínumanna vinni gegn svokölluðu friðaferli. Að sögn Birgis þá eru Helstu sérfræðingar í deilum Ísraels og Palestínu sammála um að friðarsamkomulag sé forsenda friðar og sjálfstæðis Palestínu. Það kemur ekki fram í grein Birgis hverjir eru helstu sérfræðingarnir, en aðrir fróðir menn telja að sífelld brot Ísraela á alþjóðalögum séu helsta ástæða þess að friðarviðræður, sem staðið hafa í tvo áratugi, hafa ekki skilað árangri.
Aðgerðir síonista, landtökubyggðir á landi Palestínumanna, bygging heilu borganna á stolnu landi og brottrekstur Palestínumanna frá A-Jerúsalem, hafa grafið undan viðræðunum. Hið einfalda lögmál að menn geta ekki étið alla kökuna og samtímis deilt henni með öðrum er í fullu gildi. Það vita helstu sérfræðingar og allt hugsandi fólk.
Það er ójafn leikur þegar hersetin þjóð ræðir frið við hernámsliðið. Viðurkenning Íslands á rétti Palestínumanna er lítið lóð á vogarskál réttlætisins.
Birgir, sem virðist trúa öllu sem ráðherra og þingmenn síonista sögðu honum, flytur okkur sögufalsanir sem helstu sérfræðingar hafa leiðrétt. Birgir skrifar: Ísraelsríki var stofnað af Sameinuðu þjóðunum eftir helför nasista. Þetta er rangt, Ísraelsríki var ekki stofnað af SÞ, það gerðu síonistar með hervaldi 1948. Þann 29. nóvember 1947 samþykkti Allsherjarþing SÞ tillögu um að skipta landi Palestínu milli frumbyggja landsins og aðkomumanna frá Evrópu. Skýrt var skráð í samþykkt SÞ að í engu skyldi svipta aðra íbúa landsins réttindum sínum. Raunin varð önnur.
Áætlanir síonista um stofnun ríkis í Palestínu og brottrekstur Palestínumanna, má hinsvegar rekja allt aftur til ársins 1897 þegar þing alþjóðahreyfingar þeirra ákvað að framtíðarheimili gyðinga skyldi vera í Palestínu. Helförin varð hins vegar til þess að samviskubit Vesturlanda vaknaði og þau samþykktu að ræna Palestínumenn sínum grundvallarréttindum í krafti nýlenduyfirráða sinna.
Dr. Björn Þórðarson, forsætisráðherra Íslands 1942 - 1944, skrifaði árið 1950 um sjálfsákvörðunarrétt þjóða; Arabarnir í Palestínu töldu, að þessi sjálfsákvörðunarréttur ætti einnig að ná til sín. En af því varð nú ekki, og að þessu leyti var farið með þá sem sigraða þjóð. Þeir voru ekki aðeins settir undir forræði annarra, heldur sviptir heimild til að ráða nokkru um það, hvernig farið yrði með land þeirra. Vissum flokki útlendinga úr öllum heimi var boðið upp á að setjast að í landinu, og heimaþjóðinni var það alveg um megn, að spyrna hér á móti broddunum. Hin sigrandi stórveldi heimsins höfðu gert samþykkt um, að þetta land skyldi notað handa öðrum eftir þörfum. (Gyðingar koma heim útg. 1950, bls. 145).
Hér talar einn helsti sérfræðingur okkar á sínum tíma um örlög Palestínumanna þegar vissum flokki útlendinga er gert kleyft að ræna þá heimilum sínum, jarðeignum og réttindum. Var Dr. Björn þó enginn andstæðingur gyðinga, hann dáði þá fyrir dugnað og elju við að vinna að framgangi mála sinna.
Birgir Þórarinsson veit fátt um forsögu málins sem hann ræðir um og lepur upp málflutning þeirra sem rændu landinu og ráku frumbyggja þess á brott. Hann vitnar í ræðu Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og segir ræðuna ákall um frið. Netanyahu er helsti sérfræðingur Ísraels í landráni og kúgun, hann hefur hrósað sjálfum sér fyrir að hindra friðaviðræður með kænskubrögðum. (sjá á slóðinni: http://www.youtube.com/watch?v=eeT_KLuCdug&feature=related).
Ákall um frið frá Benjamin Netanyahu er því blekkingarleikur - og Birgir féll í gildruna.
Birgir telur málefni Ísraels og Palestínu viðkvæm og flókin, væntanlega að mati helstu sérfræðinga. En málið er ekki flókið og alls ekki viðkvæmt ef kappkostað er að halda því á lofti sem felur í sér réttlæti og mannréttindi. Ef Ísrael samþykkti að fara eftir alþjóðareglum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, virða mannréttindi Palestínumanna og hætta hernámi og þjófnaði á landi þeirra, þá leysast málin á undraskömmum tíma. Þetta þarf ekki að bera undir helstu sérfræðinga, þessi lausn liggur á borðinu og bíður eftir samþykkt Ísraels og Bandaríkjastjórnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.2.2012 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2012 | 17:44
Sorry Jón og sorry Stína.
21. feb. s.l. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Guðmundur Edgarsson málmenntafræðing, um ríkisstyrkta menningarstarfsemi.
Skrif Guðmundar er dæmi um hinn árlega héraðsbrest, eins og Pétur Gunnarsson rithöfundur nefnir viðbrögðin, þegar úthlutun listamannalauna er kynnt opinberlega.
Að hætti frjálshyggjumanna setur Guðmundur upp hið einfalda dæmi að skattgreiðendur skuli ekki greiða fyrir menningarstarfsemi sem þeir hafa ekki áhuga á. Guðmundur ræðir málefni Þjóðleikhússins, sem nýtur töluverðra framlaga af skattfé, og Skjás Eins, sem heyr sína lífsbaráttu á grundvelli eigin ágætis og vinsælda.
Að sögn Guðmundar þá er leikhúsrekstur er eins og hver annar atvinnurekstur og á því að lúta lögmálum markaðarins. Þetta er skýrt, list sem ekki höfðar til nægilega margra deyr drottni sínum.
Guðmundur er ekki einn um þessa skoðun, nýlega birti Kristinn Ingi Jónsson ritstjóri sus.is, grein með fyrirsögninni List er fyrir listunnendur. Kristinn leggur fram einfalda spurningu: Hvernig getur það þá verið, að allir skattgreiðendur, sama hvort þeir unni list eður ei, séu neyddir til að greiða ákveðnum listamönnum laun?Niðurstaða Kristins Inga er sú sama; þeir sem vilja njóta lista eiga að borga það sjálfir.
Nú rorra þeir sælir í sinni trú félagarnir Guðmundur og Kristinn og ekkert haggar þeirra sælu sannfæringu. Enda málið fremur augljóst og skýrt séð frá þeirra sjónarhól. Þetta þarf ekki að ræða frekar.
Ræðum því eitthvað annað, t.d. vegakerfið, jafnvel jarðgöng. Jarðgöng eru grafin gegnum fjöll og undir hafsbotninn til þess að auðvelda samgöngur. Það er rætt um að vetrarfærð sé víða varasöm og sumsstaðar geta jarðgöng leyst vandann. Víða eru hættulegir fjallvegir lagðir af og jarðgöng koma í staðinn. Þetta flokkast undir framfarir.
En það er einn galli á jarðgöngum, þau eru staðbundin og yfirleitt greidd af almannafé. Reykvíkingur getur ekki nýtt sér jarðgöng milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar nema endrum og eins. Og þarf að fara langa leið til þess. Samt er hann þátttakandi í kostnaði við gerð ganganna - og viðhaldi þeirra.
Hér er augljóslega verið að sniðganga lögmál Guðmundar og Kristins; jarðgöng eru fyrir jarðgangnaunnendur, þau eiga að lúta lögmálum markaðarins. Það þýðir ekkert að benda á gagnsemi jarðgangna, t.d. samgöngubætur og lægri slysatíðni, grundvallaratriðin eru á hreinu: þeir sem nota jarðgöng eiga að borga þau.
Útreikningar sýna að jarðgöng á Austfjörðum geta aldrei borgað sig nema með himinháum veggjöldum. Sem enginn mundi greiða. Arðsemi Vaðlaheiðaganga, sem eru þó á þéttbýlla svæði, er reiknuð fram og aftur og óvíst um sjálfbærni framkvæmdanna. Margt bendir til þess að vegfarendur aki gamla veginn í stað þess að borga sannvirði fyrir styttri leið í gegnum göngin.
En það er eins með jarðgöng og listina, þau eru þarna vegna þess að sameiginlegt átak skattgreiðenda greiddi kostnaðinn að hluta. Og líkt og listin, þá skila jarðgöng verðmætum til baka. Ég minntist á slysatíðni og við má bæta minni bensíneyðslu og lengri endingu ökutækja sem fara oft sömu leið. Og tími er einnig peningar í einhverjum fræðum.
Hvað fáum við fyrir skattfé sem greitt er til menningarstarfsemi? Íslenskt leikhús, íslenskar kvikmyndir, íslenska tónlist, íslenska myndlist og íslenskar bækur. Ennfremur þýdd erlend leikverk, þýddar bækur og hingað koma stórgóðir erlendir listamenn.
En af prinsipástæðum fara Guðmundur og Kristinn aldrei í leikhús, lesa engar bækur á íslensku og sjá aldrei íslenska kvikmynd - og keyra aldrei um íslenska jarðgöng - þeir vita því fátt um það sem þeir fara á mis við.
Félagarnir Kristinn og Guðmundur telja báðir að Jón og Stína eigi að greiða fyrir sína menningarneyslu, burt séð frá efnum þeirra og aðstæðum. Stína er fremur blönk tveggja barna einstæð móðir og Jón er í hjólastól.
Spólum hratt áfram: Kiddi og Gummi hafa fengið sitt fram. Nú fer Stína ekki í leikhús vegna þess að miðarnir kosta það sem þeir þurfa að kosta 15 - 20,000 pr. sýningu. Jón fer ekki í leikhús vegna þess að hann og nokkrir aðrir fatlaðir geta ekki borgað brú fyrir fatlaða við Þjóðleikhúsið. Þau vita fátt skemmtilegra en að fara í leikhús. En sorry Jón og sorry Stína - samfélagið styður ekki listir og menningu.
Kenningar frjálshyggjumanna um listir og menningu eru af sama sauðahúsi og kenningar þeirra um efnahagsmál. Þær eru skemmtilegt umræðuefni - en stórslys í framkvæmd.
25.2.2012 | 13:13
Gyðingahatur - gamalt og nýtt
Því betur sem ég kynnist síonismanum því skýrari verður það í mínum huga að s.k. gyðingahatur er ein helsta næring síonismans.
Gyðingahatur í Evrópu byggði áður fyrr á bábiljum um þátt gyðinga í krossfestingu Jesú. Trúarofsi byggir ætíð á bábiljum, fordómum og vanþekkingu. Nú er sem betur fer ekki mikill grundvöllur fyrir hið gamla gyðingahatur í þokkalega upplýstu samfélagi.
Þá eru góð ráð dýr fyrir síonista - þá skortir næringuna sem gyðingahatrið gaf. Síonistar hafa því tekið upp þann sig að finna gyðingahatur í hverju skoti. Nú skal grafið upp hið gamla ef ekki gengur betur.
Passíusálmarnir skulu brennimerktir og Páll Magnússon skal gjöra svo vel að fjarlægja þá af dagskrá RÚV að eilífu. Er það sigur fyrir umburðarlyndi og mannréttindi í heiminum? Eða er það liður í herferð síonista til þess að gera alla umfjöllun um framferði síonista ómerka?
Þegar síonistar hrópa gegn öðrum í nafni umburðalyndis og mannréttinda þá er það ansi holur tónn sem heyrist. Svo lengi sem síonistar halda áfram árásum sínum gegn Palestínumönnum er ekkert að marka upphrópanir þeirra um ávirðingar annarra. Þeir eiga næg verkefni fyrir höndum í eigin garði.
Myndin sýnir síonismann í verki - jarðýta Ísraelska hersins jafnar við jörðu hús Palestínumanna.
14.2.2012 | 12:07
Grunnskólakennarinn
Snorri Óskarsson er ekki bara að hnýta út í homma og lesbíur á bloggi sínu - hann er með langan lista yfir mál þar sem það skín í gegn hversu stórfellt afturhald hann er. Allt í nafni guðsins sem hann hefur ánetjast. Allar tilvitnanir eru sóttar á blogg Snorra.
Hann styður sömu hugmyndir og t.d. Sara Palin, fyrrv. frambjóðandi til forseta í BNA, um aldur lífsins á jörðinni og blæs á vísindarannsóknir sem sýna að stengervingar risaeðlanna eru margra milljóna ára gamlir. Menn eru kannski farnir að sjá að lífið hafi ekki haft jafn langan tíma og fyrr var talið, nema um afturgöngu sé að ræða?
Snorri kennir í grunnskóla árið 2012.
Hann styður landvinningastríð síonista í Ísrael og reyndar styður hann nýlendustefnu og landtöku nýlenduþjóða: Þannig eignuðust Bretar land og lýð.(í Palestínu, innsk. HH) Þannig er háttað með sigurvegara í stríði bæði skv. gömlum og nýjum bókum.
Barnakennarinn Snorri kennir kanski sögu og landafræði?.
Hann telur mannréttindi skv. okkar lögum lægra sett en þau réttindi sem hann les út úr Biblíunni. Hann skrifar: Þannig hafa árekstrarnir við samkynhneigðina verið allsstaðar eins, milli hins Evangelíska orðs og svo "mannréttinda".
Kennarinn Snorri setur mannréttindi innan gæsalappa.
Hann er andsnúinn mannréttindum homma og lesbía, hann telur þau ill. Snorri vill ekki leyfa hjónaband þeirra og atyrðir presta sem eru ósammála honum. Svona undirstrikar Guð að hjónabandið er aðeins milli karls og konu. Lög landsins breyta þessu ekki nema til ills.
Snorri, fyrirmynd nemendanna í Brekkuskóla.
Snorri ræðir á bloggi sínu um ólánsmanninn Anders Brevik sem myrti tugi manna í Noregi. Skiptir svo yfir á umræðu um baráttu Palestínumanna fyrir frelsi - en þá er ekki notað orðið ólánsmenn, þá skrifar Snorri hryðjuverkamenn.
Barnakennarinn Snorri.
Hann er andsnúinn flóttamannahjálp ef flóttamennirnir eru af rangri gerð Hann skrifar gegn Palestínukonunum á Akranesi: Við á Íslandi gætum þess vegna lent í því eftir heila öld að Akranes verði gert að sjálfstæðu ríki Múslima á Íslandi ef þeir fjölga sér og neita að lúta íslenskum lögum og reglum.
Snorri, skólakennarinn á Akureyri þar sem nemendurnir eiga að læra um mannréttindi og umheiminn.
Hann er á móti trúfrelsi og atyrðir önnur trúarbrögð og skrifar að: Okkar skylda er að endurhæfa Múslima til að virða kristin gildi og kristna trú.
Snorri kennari í skóla þar sem umburðarlyndi og trúfrelsi er einn af grunnþáttum uppeldisins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.2.2012 | 13:57
Hagfræði til heimabrúks
Það er hreint lýðskrum að tala um afnám verðtryggingarinnar án þess að hafa frammi áætlanir um framhaldið.
Íslenska krónar hefur fallið og fallið .. og fallið - það er hið sögulega samhengi.
Sá sem hyggst lána einhverjum upphæð í íslenskum krónum verður að setja vexti miðað við framtiðarhugmyndir um stöðu krónunnar. Hann lítur á krónuna og sér að hún hefur fallið og fallið ... og fallið. Vaxtakrafan til framtíðar miðast við þessa sögu.
Lántakandinn getur ekki tekið lán til langs tíma á þeim vaxtakjörum sem lánveitandinn vill lána á. Lánveitandinn, banki eða lífeyrissjóður, verður að reyna að tryggja að sem mest af lánsfénu skili sér og með einhverjum hagnaði.
Og þá kemur hugmyndin: verðtryggjum lánið - setjum allt í vísitölubindingu. Lánþeginn fær lán til langs tíma og greiðir niður höfuðstólinn með vöxtum.
Íslenska krónan heldur áfram sinni göngu (þið munið fellur og fellur...) en bankinn og lífeyrissjóðurinn tryggja sig eftir bestu getu og lánþeginn fær lán sem heldur verðgildi. Lánið hækkar og hækkar ... og hækkar því krónan fellur og fellur... og fellur.
Húsnæðið sem er veðsett fyrir láninu hækkar og lækkar - hækkun á sígarettum og brennivíni hækkar lánið hjá lánþeganum. Hækkun á heimsmarkaðsverði olíu hækkar lánið.
Allt í ólgusjó.
Og þjóðin á sér enga ósk heitari en að lifa við öryggi og stöðugleika. Þá er kanski ráð að losa sig við eina meinsemdina: krónuna. Slá þannig á verðbólguna og vaxtaokið. Og leyfa reykingafólkinu að bera verðhækkun á sínum nautnum.
Þetta er hin einfalda hagfræði leikmannsins.
22.1.2012 | 14:26
Ragnheiður Elín segir satt
Þingið er ekki ákærandi í máli Geirs, það er kærandi skv. 14. grein í stjórnarskránni: Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.
Ákæran er síðan gefin út af Landsdómi ef dómurinn telur málið varða við lög (um ráðherraábyrgð). Og það hefur Landsdómur úrskurðað varðandi fjóra liði af sex.
Þetta er sama fyrirkomulag og ef ég kæri einhvern fyrir þjófnað - sá hinn sami verður ekki ákærður nema að undangenginni rannsókn lögreglu og þá aðeins verður þjófurinn ákærður leiði rannsóknin í ljós nægileg rök fyrir sekt.
Geir er í stöðu ákærðs eftir að hafa haft stöðu grunaðs - allt í réttu ferli.
Þá kemur til skoðunar allt talið um að Alþingi, sem ákæruvald eins og Guðfríður Lilja segir, geti dregið kæruna til baka eins og fylgjendur tillögu Bjarna Ben halda fram. Það hefur komið fram að ekki beri að draga kæruna til baka nema ný efnisatriði varðandi kæruna komi fram.
Nú hefur ekkert slíkt gerst. Og saksóknari Alþingis fyrir Landsdómi getur haldið málinu áfram þótt þingið falli frá kærunni.
Það eina sem hefur gerst er eins og Ragnheiður Elín, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áðan í Silfri Egils: Bjarni Ben lagði fram tillöguna núna vegna þess að fram hafði komið sú afstaða hjá nokkrum þingmönnum að þeir hefðu skipt um skoðun í málinu.
Það var nú heila málið.
Flokkurinn fann blóðlykt og rann á slóðina - og þar voru Ögmundur, Guðfríður Lilja og Jón Bjarnason reiðubúin með nýja afstöðu. Ögmundur og co tilbúin að hefna sín á Steingrími og hans liði og eftirleikinn þekkjum við.
21.1.2012 | 23:14
Ögmundur og Guðfríður Lilja gera uppreisn
Tillaga Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um að Alþingi afturkalli ákæru á hendur Geir H Haarde, fyrrverandi formanni sama flokks, byggir á þeirri afstöðu að flokkurinn og forysta hans beri ekki ábyrgð á þeim atburðum sem flestir Íslendingar kalla Hrunið. Því sé það fráleitt að draga Geir fyrir dóm. Það er einnig liður í sókn flokksins til valda að ræða nú um svokallað hrun.
Ergo: engin ábyrgð flokksins, og Hrunið, að því marki sem menn viðurkenna tilvist þess, fyrst og fremst komið frá útlöndum sbr. Umsátrið, bók Styrmis Gunnarssonar.
Í þessu ljósi er merkilegt að skoða afstöðu þeirra sem segjast vera jafnaðar- og vinstrimenn og treysta sér jafnframt að styðja málatilbúnað Bjarna og flokksins á þingi og samþykkja þinglega meðferð tillögunnar um niðurfellingu Landsdómsmálsins.
Nú er ég ekki svo versaður í innri lögmálum flokkapólitíkur og hagsmunagæslu stjórnmálanna að ég geti skoðað öll skúmaskot málsins. En sinnaskipti Atla, Ögmundar, Guðfríðar Lilju ofl., og liðsinni þeirra við Sjálfstæðisflokkinn, stemma ekki við hástemmdar yfirlýsingar þeirra um orsakir hrunsins og ábyrgðina á því.
Guðfríður Lilja segir í þættinum Vikulokin á Rás 1 (21.jan.) að afstaða hennar hafi ráðist að lýðræðiskennd, hún vildi að málið fengi efnislega meðferð í nefnd og sú aðgerð segði ekkert til um afstöðu hennar eftir að málið kæmi til atkvæðagreiðslu á þingi. Síðar í þættinum sagði hún svo að ákæruvaldið (Alþingi) hafi brugðist skyldu sinni með því að senda bara einn fyrir dóm. Það sé ekkert uppgjör við hrunið að senda einn meðan aðrir sitja í feitum embættum og sumir á þingi.
Hér eru komnar tvær ástæður hjá Guðfríði Lilju og vantar samræmi í framsetninguna: ef lýðræðisástin ein stýrir því að hún vill styðja þinglega meðferð - og að afstaða hennar síðar þegar þingið greiðir atkvæði um tillöguna sé óráðin - þá stemmir það ekki við orð hennar um að Alþingi hafi brugðist skyldu sinni m eð því að senda bara Geir á bekkinn á ásanngjörnum forsendum skv. Guðfríði Lilju. Því að ef hún greiðir atkvæði gegn tillögu Bjarna eftir nefndarmeðferð þá er hún að bregðast skyldu sinni samkvæmt eigin orðum.
Viðsnúningur Ögmundar ofl. virðist einnig snúast um að það hafi verið mistök að ákæra Geir einan og að ákæran sé um fremur lítilfjörlegan hlut hrunsins. Ögmundur skrifar á heimasíðun sína að: Málshöfðunin gengur einvörðungu út á meint brot - að uppistöðu til andvaraleysi - í átta mánuði árið 2008 og að verja hundruðum milljóna til að finna út hvernig samráði var háttað milli þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, Davíðs Oddsonar og Björgvins G. Sigurðssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Matthíesen á síðustu metrunum í aðdraganda hrunsins, - er peningum illa varið. Sérstaklega er þetta illa gert gagnvart öllu því fólki sem telur að það sé verið að gera upp hrunið" og tilbúið í góðri trú að verja miklum fjármunum til að það megi gera sem allra best.
Hér eru þau sammála Guðfríður Lilja og Ögmundur; þetta er ekkert upppgjör og Stóra uppgjörið sé allt annað, eða með orðum Guðfríðar Lilju: Þetta mál með Geir byggir á mjög afmörkuðum þáttum á afmörkuðu tímabili, þetta eru 8 mánuðir. Ætlar einhver að segja mér að þetta sé uppgjör við hrunið? Allan þennan langa og viðamikla aðdraganda. Er þetta ekki frekar hvítþvottur fólks, ákæruvalds, sem á sama tíma er í feitum embættum. Það er skv. þessu ekki rétt að ákæra Geir, og varla þá hina þrjá, þar sem þetta spannar aðeins 8 mánuði af löngum og viðamiklum aðdraganda og gerir ekki upp hrunið.
Nú vill svo til að það var s.k. Atlanefnd sem lagði til að fjórmenningarnir skyldu ákærðir fyrir afglöp í ströfum sínum þessa 8 mánuði. Hún hélt 54 fundi og lúslas skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og meirihluti nefndarinnar lagði svo fram sína tillögu. Þá tók við umræða á þingi og loks atkvæðagreiðsla.
Enginn af þáv. og núv. þingmönnum VG var á móti niðurstöðu Atlanefndarinnar, þó svo að málshöfðunin gangi aðeins út á meint brot í átta mánuði. Ekkert var kvartað mánuðum saman um niðurstöðu þingsins um að senda Geir einan. Vissulega voru menn hissa og sjálfstæðismenn reiðir vegna niðurstöðunnar - en enginn taldi ákæruna léttvæga.
Ákæran byggði á rannsóknarskýrslunni nema í máli Ingibjargar Sólrúnar. Landsdómur tók til starfa og felldi niður hluta ákærunnar en meirihlutinn er tekin til dóms. Mörgum mánuðum eftir afgreiðslu Alþingis og úrskurð Landsdóms kemur svo Bjarni Ben með sína tillögu um frávísun og klofningurinn í VG tekur á sig nýja mynd.
Fyrrverandi þingmenn og órólega deildin undir forystu Ögmundar greiða öll atkvæði með tillögu sem er að margra mati er alvarlegt inngrip í gang réttakerfisins, eða réttarspjöll svo notuð séu orð Þráins Bertelssonar. Hið auma yfirklór Ögmundar og Guðfríðar Liju er að mínu mati sönnun þess að megin ástæðan fyrir afstöðu þeirra sé uppreisn gegn Steingrími Joð og hans liði.
Þótt það feli í sér liðveilsu við lævísleg vinnubrögð Sjálfstæðismanna þá er grimmdin í garð Steingríms svo mikil að annað verður að víkja.
9.1.2012 | 16:36
Falskur kór
Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Viðskiptablaðinu: http://www.vb.is/blog/skodun/68934/
Hún er svar við grein eftir Gísla Frey Valdórsson blaðamann Vb. Hans grein er neðar á síðunni. Myndin hér til hliðar sýnir fornleifauppgröft í Jerúsalem.
Falskur kór
Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður Viðskiptablaðsins, skrifaði grein í blaðið þ. 2. des. s.l. vegna viðurkenningar Íslands á sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Fyrirsögn greinarinnar Engin Palestína gefur tóninn.
Gísli gerir það að meginmáli að Palestínumenn hafa aldrei ráðið eigin ríki. Hann er í kórnum sem syngur þetta sama stef, enda er það einn af grunntónum síonismans og hefur verið sunginn hátt og snjallt í rúm 100 ár. Kannski veit Gísli ekki að hann er bakrödd í þessum gamla kór, og kannski veit hann ekki hvað hann syngur.
Aðrir kórfélagar sem hafa nýlega látið í sér heyra eru bandaríski frambjóðandinn Newt Gingrich sem segir Palestínumenn vera tilbúning, e. invented people, og Ólafía Jóhannesdóttir sem segir Palestínumenn vera þjóðleysu (í Mbl.). Áróðurinn um tilvistarleysi Palestínuríkisins hefur þann undirtón að það séu engir Palestínumenn til í raun.
Á þingi síonistahreyfingarinnar árið 1897 var samin fræg yfirlýsing um að Palestína væri land án þjóðar fyrir þjóð án lands (e. Land without people for people without land). Síonistar vissu þó að í landinu fyrirheitna (gjöf guðs til útvalinnar þjóðar) bjó um hálf milljón manns, þar af aðeins um 35.000 gyðingatrúar.En síonistar litu á íbúa Palestínu sem réttlausa aðkomumenn og lögðu strax á ráðin um brottrekstur þeirra.
Blaðamaðurinn Gísli birtist nýlega í þættinum Ísrael í dag, á sjónvarpsstöðinni Omega. Þar á bæ er rekinn linnulaus áróður fyrir stefnu síonista í Ísrael og Bandaríkjunum. Afstaða Omegamanna gagnvart Ísrael hvílir á trúarlegum grunni Gamla Testamentisins þar sem guðinn Jahve leiðir karlmenn, konur, börn og búfénað til slátrunar undir lúðrablæstri rétttrúnaðarins.
Síonisminn og Ísraelsríki byggja alla sína tilveru á goðsögnum Biblíunnar. Hugmyndir um endurkomu gyðinga til Palestínu eiga eingöngu uppruna sinn í þessum sögum. Það er ímyndun margra að landið helga væri til eilífðar frátekið fyrir útvalinn hóp manna, trúarhóp sem hafði talið sjálfum sér og heiminum trú um sannleiksgildi Gamla testamentisins. Stjórnmálamenn Vesturlanda, þ.á.m. íslenskir, trúðu blekkingunum um land án fólks fyrir fólk án lands.
Rannsóknir ísraelskra fornleifafræðinga undanfarin ár hafa sýnt þá niðurstöðu að frásögn Biblíunnar er röng; forn-Ísraelar voru aldrei þrælar í Egyptalandi og þeir lögðu ekki undir sig lönd Kananíta. Niðurstaða margra ára fornleifarannsókna í Jerúsalem sýna að glæsilegt ríki Davíðs og Salómons var í raun aldrei til. Og Ísraelar voru ekki reknir í útlegð af Rómverjum. Þeir sendu yfirstéttir og presta í útlegð en aldrei heilar þjóðir sökum þess að með því hurfu skatttekjurnar. Allar hugmyndir um endurkomu gyðinga og landsréttindi þeirra í Palestínu byggja á Biblíunni, en hún er ekki sagnfræðirit og hefur lítið sagnfræðilegt gildi (sjá Finkelstein og Silberman: The Bible Unearthed: Archaeologys New Vision of Ancient Israel).
Blaðamaðurinn Gísli skrifar að viðurkenning á sjálfstæðu ríki Palestínu vinni gegn hagsmunum Palestínumanna, tímasetningin sé röng og Palestínumönnum enginn greiði gerður með viðurkenningu á sjálfstæðu ríki. Forvitnilegt er að vita hvenær Gísli telur að viðurkenningin sé rétt tímasett, hvenær hún eflir hag Palestínumanna og hvenær það verður góður greiði við þá að bjóða þá velkomna í samfélag sjálfstæðra ríkja?
Grein Gísla:
Engin Palestína?
Gallinn við pólitískan rétttrúnað er hvað hann dreifir sér fljótt. Ef enginn spyrnir við fótum nær rétttrúnaðurinn tökum á ístöðulausum stjórnmálamönnum, svokölluðum álitsgjöfum, vel menntuðum einstaklingum úr akademíunni og auðvitað fjölmiðlum.
Þetta kristallaðist ágætlega þegar meirihluti Alþingis samþykkti í vikunni að veita ríkisstjórninni umboð til þess að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Tæplega 40 þingmenn samþykktu tillöguna en þingmenn Sjálfstæðisflokksins þorðu ekki að greiða atkvæði í málinu.
Nú kann einhver, uppfullur af pólitískum rétttrúnaði, að spyrja hvað sé að því að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og hvað sá sem hér heldur á penna hafi á móti Palestínumönnum. Svarið við því er einfalt. Með hag Palestínumanna fyrir brjósti er þetta röng tímasetning auk þess sem Palestínumönnum er enginn greiði gerður með þessari samþykkt.
Málið verður ekki rakið í heild sinni í stuttum skoðanapistli en það er vert að nefna nokkra punkta. Alþingi telur rétt að miða landamæri Palestínu innan landamæranna fyrir sex daga stríðið 1967. Snillingarnir á
Alþingi vilja þá væntanlega að Jórdanir taki aftur yfir Vesturbakkann, því þeir réðu yfir því svæði áður en sjö arabaríki réðust á Ísrael árið 1967. Sömu þingmenn vilja væntanlega að Egyptar taki aftur yfir Gazaströndina, sem þeir höfðu yfirráð yfir fram til ársins 1967. Þeir hljóta að vita að landið var ekki tekið af Palestínumönnum, enda aldrei verið neitt til sem heitir ríki Palestínu.
Þingmennirnir sem í vikunni náðu varla andanum við að taka við hamingjuóskum hver frá öðrum vegna málsins hefðu átt að spyrja hvað hafi orðið um öll jórdönsku vegabréfin sem hinir svokölluðu Palestínumenn hafa borið hingað til.
En fjölmiðlar tóku líka þátt í fagnaðarlátunum. Enginn fjölmiðill sem greindi frá málinu reyndi að kryfja það með nokkrum hætti, ekki einu sinni Fréttastofa Ríkisins. Allir tóku þeir þó fram að Sjálfstæðismenn hefðu setið hjá í málinu, væntanlega með vísan til þess að það væri röng afstaða. Sem hún auðvitað var því Sjálfstæðismenn áttu að kjósa á móti þessari tillögu. En hjáseta virðist eiga meira upp á pallborðið þar.