Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.7.2008 | 10:43
Í hraða nútímans – rjúkandi réttir á faraldsfæti
Fréttablaðið birti þ. 18. júlí viðtal við Stefán Stefánsson veitingamann sem hefur, ásamt eignkonu sinni, opnað nýjan veitingastað. Það er ekki fréttnæmt að nýir veitingastaðir skjóti upp kollinum í Reykjavík, en það sem stingur í augun er nafn staðarins Just Food to go. Hvað býr að baki þegar íslenskur veitingamaður sem rekur veitingastað á Íslandi velur slíkt nafn? Stefán hyggst svara kalli tímans og selja góðan mat í hraða nútímans. Nafn staðarins á að upplýsa okkur um þetta en tekst illa að mínu mati. Bein þýðing er erfið eingöngu matur til að taka með. Uppsetning nafnsins eins og það birtist í fréttinni sýnir orðin Just Food sem aðalnafn. Sem má skilja sem réttlát fæða eða eingöngu matur. Maturinn hjá Stefáni er seldur eftir vigt og felst réttlætið kanski í þeirri aðferð.
Stefán gerir sér sjálfsagt grein fyrir því að það eru stundum fleiri útlendingar á Íslandi en innfæddir. Hingað koma 500,000 ferðamenn og svo eru einhverjir tugir þúsunda útlendinga sem vinna hér um lengri eða skemmri tíma. Væntanlegir viðskiptavinir hans eru íslenskir borgarbúar og útlendingar. Hann á ekki marga viðskiptavini meðal dreifbýlisbúa og eldri borgarbúa, þeir elda sinn mat heima eða borða í mötuneytum. Það eru ferðamenn og yngri borgarbúar sem fara út að borða. Nýi veitingastaðurinn virðist þó eiga að sinna þörfum þeirra sem vilja taka matinn með sér heim og þá eru ferðamennirnir ekki líklegir viðskiptavinir. Þessi nýi veitingastaður virðist því aðallega þjóna Íslendingum sem eru að flýta sér.
Ég tel réttast í svona tilfellum, þegar viðskiptavinirnir eru f.o.f. íslenskir, að finna gott íslenskt nafn og hafa svo undirtitil á ensku. Allt annað virkar fremur hallærislegt í mínum augum.
Og Stefán í Just Food to go verður að átta sig á því að útlendingar sem hingað koma vilja upplifa Ísland sem eitthvað sérstakt, ekki bara sem enn eitt útibú amríkaniseringunnar. Og svo eru ekki allir útlendingar enskumælandi.
Stefán rak áður veitingastaðinn Rauðará við Rauðarárstíg. Ekki féll hann í þá freistingu að kalla staðinn Red River Restaurant.
17.7.2008 | 19:32
Páll, Evran og ESB
Eftir mikil ferðalög innanlands sem utan þá er kominn tími til þess að taka til við að tjá sig.
1. Beðið eftir Birni. Vonandi tekur Björn af skarið og veitir Páli Ramses hæli hér. Ég tel að Íslendingar (embættismenn) eigi að sýna mannúð í verki og breyta um verklag í þessum málum. Skoða mál einstaklinga sem hingað leita með því hugarfari að eftilvill er hægt að hýsa viðkomandi - ekki byrja á hinum endanum eins og gert var í máli Páls.
2. Evran og ESB. Ekki skil ég þessa leikfimi hjá þeim sem vilja að við reynum að taka upp Evruna án þess að gerast aðilar að ESB. Þetta er ekki gerlegt og þessi umræða er tilgangslaus. Það eina vitræna er að hefja aðildarviðræður og kanna hvaða möguleikar eru til staðar. Þjóðin getur ekki vegið og metið aðstæður ef það er ekki farið í alvöru umræðu um þetta mál. Með aðildarviðræðum skýrast málin og menn geta hætt að velta fyrir sér ýmsum hjáleiðum, það er tímaeyðsla.
3. ESB og Ísrael. Af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum hefur ESB ákveðið að auka tengsl sín við Ísrael -bæði pólitískt og á svið efnahagsmála. Þetta er gert þrátt fyrir að Ísrael brýtur allar reglur um mannréttindi sem ESB þykist halda í heiðri. Og hefur hent Gefnarsáttmálanum út í hafsauga. Það er rætt um að Tyrkir eigi erfitt með að uppfylla inngönguskilyrði ESB á sviði mannréttinda. En Ísrael er alltaf stikkfrí. Það hafa jafnvel heyrst raddir um að Ísrael gæti fengið aðild að ESB. Þeir eru jú í Evróvisíón!
17.6.2008 | 11:16
Íþróttarásin RÚV
Á hvaða sviðum keppir RÚV við Stöð 2? Aðalslagurinn hefur staðið um Formúluna og enska boltann! Stöð 2 er fremri í gerð framhaldsþátta (Pressan, Nætur- og Dagvaktin) og almenns efnis um Íslendinga (Sjálfstætt fólk). Og svo stálu þeir Formúlunni!
Í rauninni ætti Sjónvarpið að vera sjónvarpsútgáfa af Rás 1. Meginefnið: Menning og menntir. Og svo, ef þörf krefur, má setja á laggirnar sérstaka íþróttarás. Það er ekki mikið mál sbr. allr rásirnar sem 365 miðlar reka.
9.6.2008 | 10:01
Obama bummer
Í bloggi mínu þ. 22. maí fjallaði ég um Obama og þær vonir sem við hann væru bundnar. Þar skrifaði ég að afstaða hans til málefna Miðausturlanda væri vafasöm eftir að hann lýsti sig gallharðan (Stahlwart) stuðningsmann Ísrael.Nú hefur hann gengið enn lengra og lýst því yfir að Jerúsalem skuli vera óskipt höfðuborg Ísrael: "Jerusalem will remain the capital of Israel, and it must remain undivided." Hér hefur hann gegnið lengra en sjálfur Bush sem hefur tekið tillit til þess að það er ein meginkrafa Palestínumanna að Jerúsalem sé einnig þeirra höfuðborg. Þessi yfirlýsing Obama sýnir að ákafi hans til að þóknast Ísraelslobbíinu og reynsluleysi hefur leitt hann í gildru Síonista. Enda vöktu þessi ummæli hans gleði meðal þeirra.Obama hefur eftir því sem best verður séð reynt að klóra eitthvað yfir þessi afglöp en raunveruleg stefna hans á eftir að koma betur í ljós.
Sjá nánar: www.huffingtonpost.com/daoud-kuttab/so-sad-to-see-obama-surre_b_105604.html
4.6.2008 | 10:39
Pólitískt morð?
Nú er það dráp ísbjarnarins sem setur Þórunni umhverfismálaráðherra á sakabekkinn. Öfugt við afstöðu Magnúsar í flóttamannamálinu - þá reynist Magnús nú hafa ráð undir rifi hverju. Hann gerir sér lítið fyrir og birtir nákvæman aðgerðalista um það hvernig hefði mátt bjarga bangsa. Ég er sammála Magnúsi, það hefði verið skemmtilegra fyrir björninn og þjóðina ef menn hefðu náð honum lifandi. En ég sé ekki betur en að niðurstaða Magnúsar sé sú að hér hafi verið framið pólitískt morð og að Samfylkingin sé útötuð í bjarnarblóði, nánast staðin að verki.
sjá: http://magnusthor.eyjan.is/
3.6.2008 | 10:21
Meira um Mogens
Ég kíkti betur á Kastljósið frá því í gær og danska stjórnmálamanninn Mogens Camre. Hann er afdráttarlaus: Það er bara til ein siðmenning, og það er okkar siðmenning.
Menn eins og Mogens gera hlutina einfalda, þeir pakka pólitíkinni í neytendavænar umbúðir, ekkert vesen, einfalt og þægilegt. Hann skiptir heiminum í okkur og hina sem eru á lægra siðferðisstigi.
Þegar samskiptasaga vestrænna nýlenduvelda við heim múslima eru skoðuð þá gæti sú hugsun skotið upp kollinum að þar sé að finna hluta þess vanda sem Mogens þykist vera með lausnina á.
Bretar, Bandaríkjamenn og Frakkar eiga ljóta sögu að baki í heimi múslima. Stóra afrekið var auðvitað að stofna Ísrael með endalausum átökum sem ekki lýkur í bráð.
Það er athyglisvert að í september 1947, skömmu áður en Allsherjarþing SÞ samþykkti skiptingu Palestínu, voru margir sérfræðingar í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna algjörlega mótfallnir því að BNA styddu skiptingu landsins. Loy Henderson, stjórnandi þeirra deildar innan ráðuneytisins sem annaðist málefni Austurlanda nær, skrifaði minnisblað sem vert er að skoða í ljósi reynslunnar. Henderson skrifaði í skýrslu sinni að skiptingin væri ávísun á endalaus vandræði: áætlun nefndarinnar (UNSCOP-sérnefnd SÞ um málefni Palestínu) er ekki aðeins óframkvæmanleg; ef henni verður hrint í framkvæmd mun það tryggja að Palestínuvandamálið verður varanlegt og enn flóknara eftir því sem tímar líða. Tillögur nefndarinnar sniðganga ekki aðeins grundvallaratriði alþjóðasamskipta, en viðhald þeirra þjónar hagsmunum Bandaríkjanna, þær eru einnig andstæðar ýmsum ákvæðum sáttmála SÞ og grundvallaratriðum sem bandarísk stjórnsýsla byggir á
Tillögurnar sniðganga grundvallarréttindi s.s. rétt til sjálfsákvörðunar og meirihlutavalds. Tillögur sem felast í áætlun nefndarinnar eru ekki aðeins á skjön við reglur, í þeim er viðurkennt að byggja megi ríki á trúalegum grunni og kynþáttamismun og leyfir í mörgum tilfellum mismunun á grundvelli trúar og uppruna gegn fólki sem býr utan Palestínu. Fram til þessa höfum við alltaf fylgt þeirri reglu í samskiptum við önnur lönd, að bandarískir borgarar njóti jafnræðis án tillits til uppruna og trúar. Sú áhersla sem hér er lögð á það hvort menn séu gyðingar eður ei mun örugglega auka þá tilfinningu meðal gyðinga og annarra að þeir hafi sérstöðu. Okkur ber engin skylda til þess að stuðla að stofnun gyðingaríkis.
Svo mörg voru þau orð. Varnaðarorð Loy Henderson sýna okkur hversu illa var staðið að málum þegar 33 ríki, þar á meðal Ísland, ákváðu að hundsa réttindi Palestínumanna. Afstaða nýlenduveldanna ásamt sögulegum skírskotunum gyðinga og ofsóknum nasista leiddu til stofnunar Ísraelsríkis 1948. Fyrstu afleiðingarnar voru skipulagðar þjóðernishreinsanir, brottrekstur 750,000 Palestínumanna og útþurrkun 300 Palestínskra þorpa af yfirborði jarðar.
Framferði Bandaríkjanna í seinni tíð og öll saga Ísraels eru m.a. ástæður vaxandi öfga meðal múslima. Sem síðan vekja til lífsins danska öfgasinna sem Mogens nærir með sínum málflutningi. Innrásin í Írak, gerð undir því yfirskyni að velta einsræðisherra búinn gereyðingavopnum, er bara einn þáttur þessa máls.
(Mér varð það á í síðasta bloggi að þýða torklæde sem handklæði - en mér skilst nú að Danir noti þetta orð yfir slæður)
3.6.2008 | 00:05
Kynþáttahatur í Kastljósi
Kastljós kvöldsins (2/6) flutti okkur viðtal við Mogens Camre, danskan þingmann á Evrópuþinginu. Mogens flutti þann boðskap að hætta vofi yfir þjóðfélögum Evrópu sökum sóknar Íslam. Hann lauk orðum sínum með því að ef Evrópumenn tækju höndum saman við Bandaríkjamenn þá væri enn von. Málflutningur hans var þesslegur að margir geta séð hann sem eðlileg viðbrögð venjulegs Evrópumanns. En Mogens þessi er venjulegur lýðskrumari sem reynir að gera sér póitískan mat með útbreiðslu fordóma um þjóðir og túarhópa.
Nokkrar tilvitnanir í rit þessa manns sýna hvaða stefnu hann fylgir. Um múslimann Asmaa Abdol-Hamid, lýðræðislega kjörna þingkonu á danska þinginu skrifar hann: Það er sjúkleg hugmynd og ónáttúruleg, að strangtrúarsinni með handklæði eigi að sitja á lýðræðislegu þingi okkar. Hún þarfnast aðstoðar sálfræðings. Svona fólk verður að fá umönnun. Það eru nokkrir heilaþvegnir vesalingar sem ganga um með handklæði. Fylgdu siðum okkar lands eða komdu þér burt. Því fyrr sem hún fer því betra. Og meira: Íslam tilheyrir ekki Evrópu og forgangsverkefni okkar er að senda múslimana heim til sín
pólitísk markmið múslima er samskonar tortímingarstefna og nasisminn.
Í Danmörku búa 5,475,000 sálir, af þeim eru um 180,000 múslimar, eða 3,3% landsmanna. Innfæddir Danir sem hafa gengið Íslam á hönd eru um 5,000. Framtíðarsýn Mogens Camre er sú að þessi 3,3% stefni að, og muni að lokum eyðileggja danskt samfélag. Lausn hans er sú að ráðast með oddi og egg gegn þessu fólki, gera líf þess í Danmörku að helvíti og reyna að flæma það burt.
Hvernig skyldi ástandið í Danmörku vera daginn sem síðasti músliminn er færður í járnum upp í flugvél. Myndi einhver hugsa til ofsóknanna gegn gyðingum fyrr á tímum? Margir töldu gyðinga ógna lífsháttum evrópumanna og nasistar náðu byr í seglin með áróðri og ofsóknum gegn þeim.
Það er nauðsynlegt að reyna að botna í þessum öfgum sem þrífast bæði í Danmörku og hér á landi og birtast nú um stundir sem hatursskrif gegn múslimum. Öfgar eru alltaf til staðar en breytast líkt og tískufyrirbrigði. Þannig er það með meðborgara okkar sem hafa ekki siðferðiskenndina og manngæskuna í lagi þeir þurfa sífellt að finna ný fórnarlömb og ánetjast þeirri stefnu sem gagnast hverju sinni. Nasistar fundu útrás í gyðingahatri, bandarískir öfgamenn í rasisma og kommúnistahatri og danskir og íslenskir labbakútar og duslimenni hamast nú gegn múslimum. Þetta hefur ekkert með trú og trúarstefnur að gera. Fordómar nærast á þekkingarleysi og ótta og ala á þröngsýni. Alhæfingar er mikilvægar þegar búa skal til fordóma og æsa gegn hinum og þessu fólki. Þeir sem drepa í nafni islam, gyðingatrúar eða kristni eru ekkert uppá trúabrögð komnir. Þeir finna sér alltaf réttlætingu á einhverri blaðsíðu trúarritanna. Mogens Camre er bara einn af þessum æsingamönnum sem reyna að hagnast á lægstu hvötum siðlausra manna.
28.5.2008 | 16:02
100% lausn
Það er greinilega orðið nokkuð flókið flóttamannavandamálið í Frjálslynda flokknum. Jón Magnússon þingmaður skrifar á bloggsíðunni sinni að þessi væntanlegi hópur sé bara 1,5% þeirra sem hýrast í Al-Waleed búðunum og hjálpin því eingöngu táknræn. Hér er nýtt sjónarhorn í málinu. Ef þetta væru 20,000 manna búðir þá væri prósenta Jóns orðin svo lítil að það tæki því ekki að ræða málið eins og hann leggur það upp. En 30 manns eru 30 sálir með tilfinningar eins og þú og ég.
Mér sýnist eins og að það sé orðið höfuðatriðið að Frjálslyndi flokkurinn nái að hanga saman eftir klofninginn á Skaganum. Það er augljóst að Magnús óð af stað af lítilli skynsemi. Hann setti sig á móti komu flóttamannanna til Akraness með það að yfirvarpi að bærinn væri ekki nægilega vel í stakk búinn og að undirbúningurinn væri allur í skötulíki. Við vitum það flest að það verður aldrei hægt að leysa vandamál heimsins eða Akurnesinga endanlega og undirbúning má bæta. Það er hjartagæskan sem skiptir máli. Magnús hefði betur tekið undir boðið til flóttamannanna og farið í málið af jákvæðni og einurð. Og gagnrýna það sem var illa gert eftir efnum og ástæðum. En eitthvað í hans afstöðu, ekki rasismi að mínu mati, gerir það að verkum að hann og nú allur þingflokkurinn - nema Sleggjan, eru eins og nátttröll í þessu máli.
Flóttafólkið er heimilslaust svipt öllu fyrir tilstuðlan m.a. okkar þegar Ísland studdi stofnun Ísraelsríkis 1947. Réttast væri því að bjóða hingað öllum flóttamönnunum úr þessum búðum. Þeir eru ekki nema 1,500 - 2,000 og sjálfsagt einhverjir þeirra sem vilja ekki fara hingað.
Þessi skoðun mín mun að sjálfsögðu falla í misgrýttan jarðveg en með því að dreifa fólkinu um landið þá er þetta lítið mál. Jón, vinur minn og samstarfsmaður úr Áburðarverksmiðjunni, Magnússon verður kátur yfir þessu þar sem hann var að vandræðast með prósenturnar. Hér er dæmið leyst 100%.
22.5.2008 | 13:32
Yo mama say´s Obama
Það virðist sem Obama sé að ná því að verða útnefndur forsetaframbjóðandi Demókrata. Ef hann siglir alla leið í Hvíta húsið þá er það að mínu mati skásta útkoman fyrir Bandaríkjamenn og heiminn. Að vísu á það eftir að koma í ljós hvort kjör hans breyti einhverju, en hann kemur úr óvæntri átt, það gefur vissa von. Kanski er hann ekki forritaður skv. sömu formúlu og flestir forsetar BNA og það gefur smá möguleika á breytingum.
Eitt mál bendir þó til þess að ekki er hægt að binda mikla vonir við hann.
Áður fyrr var hann búinn að kynna sér málstað Palestínumanna og hafði m.a. hitt Edward heitinn Said, hinn stórgóða talsmanna þeirra í BNA. Bandarískir blökkumenn voru margir tortryggnir út í Ísraelsríki vegna stuðnings þess við kúgunarstjórn hvíta minnihlutans í S-Afríku. Afstaða hins margfræga prests sem gifti Obamahjónin er dæmi um það.
En Síonistar eiga sér ofursterka talsmenn í Bandaríkjunum, s.k. Ísraelslobbý. Þeir taka hvern einasta frambjóðanda fyrir og grilla hann og krefjast algjörs stuðnings við glæpsamlega stefnu Síonistanna sem stýra Ísrael. Obama hefur nú lýst yfir stuðningi við Ísrael, en án slíkrar yfirlýsingar hefur hann ekki hinn minnsta möguleika á að komast í Hvíta húsið.
En hann hefur ekki, líkt og Hillary, hrósað þeim fyrir að byggja hinn ólöglega fangelsismúr kringum byggðir Palestínumanna á Vesturbakkanum. Eina vonin um þessar mundir um breytingar á ástandinu í Palestínu byggjast á stefnubreytingu Bandaríkjastjórnar. Vonin er lítil en Obama er sá eini sem virðist hafa séð aðra hlið mála en Hillary og McCain.
Fyrirsögn greinarinnar - Yo mama say´s Obama sá ég í glugga í hverfi fátækra blökkumanna í Brooklun.
20.5.2008 | 20:07
Í hverfum fátækra í Brooklyn
Yo mama say´s Obama.
Í hverfi nær miðborginni var annað skilti í glugga: Nobama. Skýr skilaboð það.
En heildarniðurstaða ferðarinnar er þessi: leigubílstjórar New York borgar eru úti að aka. Allir sex sem okkur tókst að fá til að aka okkur á milli staða féllu á prófinu. Ýmist rötuðu þeir ekki, óku vísvitandi of langt eða keyrðu svo skrykkjótt að okkur varð óglatt. Verstir voru þó þeir sem einfaldlega neituðu að taka okkur um borð ef þeim líkaði ekki áfangastaðurinn. Skrýtið.