Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.5.2008 | 00:45
Ef Akranes yrði óbyggilegt
Afstaða Magnúsar Þórs Hafsteinssonar til flóttamanna er byggð á skammsýni og reynsluleysi. Hann hefur ekki sagt eða skrifað neitt svo ég viti sem flokkast sem kynþáttahyggja. En þó gæti hún leynst í hugskotum hans og er þá sama byggingarefnið notað til að mynda slíka fordóma: skammsýni og reynsluleysi.
Setjum svo að Magnús Þór og Skagamenn lentu í verulegum hremmingum. Til dæmis nýtt Básendaflóð, allt á kaf ; Akranes óbyggilegt og íbúarnir neyðast til að flýja. Þá gerist auðvitað það sama og í Vestmannaeyjagosinu: allir reyna að rétta hjálparhönd. Þetta er eðlilegt og nauðsynlegt. Eðlilegt því að flestir menn eru góðir inn við beinið og nauðsynlegt vegna þess að með þessum hætti heldur lífið áfram og menn ná sér aftur á strik.
Flóttamannavandamálin úti í heimi eru til kominn sökum þess að einstaklingar eða hópar geta ekki búið lengur í sínum heimahögum. Það geta verið stríðsátök eða náttúruhamfarir sem skapa þetta ástand. Eftir að náttúruhamförum linnir þá snúa menn til síns heima. Sama gerist þegar að stríðsátökum linnir, flestir reyna að snúa heim.
En á meðan ástandið varir þá þurfa flóttamennirnir aðstoð, annað hvort alþjóðlega eða staðbundna.
Palestínskir flóttamenn geta ekki snúið aftur til sinna heimahaga vegna þess að Ísraelsríki er búið að ræna landi þeirra og þeir fá ekki að fara heim.
Þá geta Skagamenn komið til sögunnar. Þeir geta tekið nokkra flóttamenn til sín og hjálpað þeim til að komast á réttan kjöl. Lítill dropi í hafið, en dropi sem sýnir að skammsýnin hefur ekki yfirhöndina alla daga.
Allt tal um að það eigi að leysa öll félagsleg vandamál heimafyrir áður en öðrum er sinnt er bara vitleysa. Væri sú afstaða ráðandi þá myndi ekkert ríki taka við flóttamönnum.
19.5.2008 | 17:25
Hvenær á að ræða málin af alvöru?
Geir H. vill ekki ganga í ESB, þá vitum við það. En hann er smeykur við að ræða málin og reynir að stýra flokki sínum frá vitrænni umræðu um málið. Það þykir mér merkilegt, stærsti flokkurinn þorir ekki að taka á einu stærsta málinu. Hvað öfl eru það í flokknum sem eru svona stygg?
Geir nefnir sem dæmi um kosti þess að vara utan ESB að þá hefðum við ekki getað brugðist við þeim vanda sem nú er mestur í efnahagsmálum. En eins og ýmsir hafa bent á þá er það vandi sem við búum til sjálf, og væri sjálfsagt ekki til ef að við hefðum lagað okkar hagkerfi m.a. með því að kasta krónunni.
EES samningurinn og aðlögun okkar að Evrópu hefur skilað bótum í réttarkerfinu, bætt íslenska stjórnsýslu og komið umhverfislöggjöf okkar í betra horf.
Enginn pólitíkus hefur opinberað þá skoðun að við ættum að losa okkur frá EES samningnum. Nú tökum við upp margvíslegar tilskipanir og breytum lögum hér vegna aðildarinnar að EES. En við eigum enga möguleika á að hafa bein áhrif þær umræður og atkvæðagreiðslur þar sem þessar tilskipanir verða til. Það er mjög sérkennileg staða hjá þjóð sem segist vera svo stolt og sjálfstæð.
Það eru kostir og gallar við ESB, að sjálfsögðu. Ef að íslenskur almenningur gæti uppskorið lægra vöruverð og frelsi frá mesta vaxtaokrinu þá hlýtur það að vega mjög þungt á vogarskálinni.
Mér sýnist það blasa við að rökrétt skref í dag er að hefja aðildarviðræður við ESB og sjá hvernig kaupin gerast á Eyrinni. Ef það kemur í ljós að þjóðin telur skilmálana óaðgengilega þá er málið komið á nýtt stig. En að þora ekki að ræða málin og að hefja viðræður ég get ekki skilið þá afstöðu. A.m.k. hefur engin umræða átt sér stað sem hefur getað sannfært mig um að afstaða Geirs H. og Ragnar Arnalds sé í lagi. Jón Sigurðsson fv. ráðherra er á réttri braut og það væri gaman ef að Geir hefði hugrekki til þess að fylgja honum í ítarlegri umræðu.
16.5.2008 | 01:21
Bloggað í Bandaríkjunum
Hér í NY og Washinton er bannað að leggja bílum þvers og kruss, í Reykjavík er bannað að leggja þvers og kruss.
Hér í USA dettur ekki nokkrum manni í hug að leggja bíl eins og fáviti en í Reykjavík er það orðin regla.
Í Reykjavík er þriðji hver bíll á nagladekkjum fram í miðjan maí, annar hver bílstjóri er viðutan að tala í síma og flestar gangstéttir í miðbænum stíflaðar af bílum sem er lagt ólöglega.Það sem er frábrugðið hér í Bandaríkjunum er löggæslan. Hér er tekið á málum en í Reykjavík virðist ekki vera áhugi eða geta til þess að framfylgja lögum.
Þessi hugleiðing er ekki skrifuð til þess að hrósa bandarískum löggum. Málið snýast um það að fólk sem kýs að búa í borgum verður að sýna vissan þroska. Sá sem býr á sveitabæ getur lagt eins og honum sýnist. Í fjóshaugnum ef hann langar til. En þeir sem ætla að búa í nábýli verða að temja sér vissar umgengnisreglur. Ekki að pissa utan í hús, ekki að vera með háreysti um miðjar nætur og ekki aka bíl eða leggja honum án tillitis til umhverfisins.
3.5.2008 | 19:43
Grein sem Mogginn hefur ekki birt enn
Ég sendi þessa grein til Morgunblaðsins 25. mars.
Hún hefur ekki verið birt svo að ég skelli henni hér:
GAZAGETTÓIÐ og sjónarmið Síonistans
Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi skrifaði grein í Morgunblaðið 17. mars s.l. með fyrirsögninni Hryðjuverk og viðbrögð við þeim
Kjarni greinarinnar er þessi: Ef hryðjuverkamennirnir í Hamas hætta að skjóta eldflaugum, ráðast á ísraelsk heimili, sjúkrahús, trúarskóla og barnaheimili þá muni ríkja friður. Ísraelsher hefði þá enga ástæðu til þess að ráðast á Palestínumenn.
Sendiherrann reynir að telja lesendum Mbl. trú um að andspyrna Palestínumanna sé orsök átakanna, hún lýsir Ísraelum sem fórnarlömbum. Við eigum að trúa því að þjóð sem á fjórða sterkasta herinn og nýtur stuðnings öflugasta herveldisins, sé fórnarlamb þjóðar í herkví!
Það er fróðlegt að kynnast málflutningi sendiherrans, hún er opinber talsmaður Ísraelsstjórnar og flytur því afstöðu stjórnarinnar og sjónarmið Síonista ómengaða til okkar. Hún opinberar það sem er svo mikilvægt að almenningur skilji: Talsmenn Ísraela segja aldrei satt og rétt frá þegar þeir ræða átökin við Palestínumenn. Sendiherrann er að verja málstað þeirra sem eru hægt og bítandi eru að reyna að útrýma heilli þjóð! Það er ekki góður málstaður og þess vegna verður að bera fram miklar blekkingar
Sendiherra Síonistanna er djörf í grein sinni; hún hikar ekki við að vísa Palestínumönnum leiðina til lífshamingjunnar og skrifar: ef hryðjuverkaáætlanir, vopnasmíð og upphafning haturs vikju fyrir eðlilegri atvinnustarfsemi. Þessi leiðarvísir sendiherrans hlýtur að vekja upp spurningu; Hvað er eðlileg atvinnustarfsemi hjá þjóð sem hefur verið undirokuð í áratugi? Er hægt að stunda eðlilega atvinnustarfsemi þar sem hernámslið setur upp mörg hundruð vegatálma þar sem akrar eru eyðilagðir þar sem húsnæði er lagt í rúst þar sem fólki er meinaður aðgangur að vatni þar sem fólki er meinuð afnot af vegum þar sem skattatekjum er stolið þar sem fólki er neitað um lifsnauðsynlegan aðgang að heilbrigðisstofnunum þar sem fullkomnustu herþotur varpa sprengjum á þéttbýli þar sem stöðugt er skotið úr skriðdrekum og stórskotaliðsbyssum þar sem ekki er hægt að fá einföldustu varahluti þar sem rafmagn getur farið fyrirvaralaust þar sem ríkir hafnbann þar sem flugvöllurinn hefur verið sprengdur í loft upp þar sem margra metra hár múr skilur að þorp og akra þar sem fatlað fólk er drepið með jarðýtum - þar sem menn geta átt von á fyrirvaralausri fangelsun þar sem börn horfa á foreldra sína niðurlægða þar sem börn eru skotinn til bana á leið í skóla eða við leik - þar sem skólakerfi er skipulega lagt í rúst þar sem tölvum með upplýsingum um þjóðina er stolið þar sem holræsakerfi eru eyðilögð þar sem skriðdrekum er ekið vísvitandi yfir bíla í eigu einstaklinga þar sem land heimamanna er tekið með hervaldi og lagt undir nýbyggingar vopnaðra landtökumanna þar sem fjöldamorð eru regla en ekki undantekning?
Orð sendiherrans um eðilega atvinnustarfsemi afhjúpa takmarkalausan hroka Ísraelsstjórnar gagnvart umheiminum.
Almenningur á Íslandi veit að það eru Palestínumenn sem eru sviptir landi sínu, mannréttindum og möguleikum til þess að lifa því lífi sem allar þjóðir eiga rétt á. Og það eru Ísraelar sem hafa hertekið þessa þjóð, drepið þúsundir, fangelsað þúsundir, eyðilagt heimili tugþúsunda og svipt 10,5 milljónir Palestínumanna landi sínu.
Allir Palestínumenn eru í heljargreipum Ísraela; 4,5 milljónir eru í herkví í Gazagettóinu og á Vesturbakkanum, 1,3 milljónir lifa við skert réttindi í Ísrael og milljónir eru flóttamenn um allan heim og fá ekki að snúa heim. Andspyrna Palestínumanna er réttmæt barátta fyrir réttindum sínum. Þetta er hinn einfaldi sannleikur og blekkingatilraunir sendiherra Síonistanna geta ekki falið raunveruleikann.
Hvað segja íslenskir ráðamenn um þetta ástand? Hvernig geta þeir samþykkt með aðgerðaleysi sínu að svona sé farið með eina þjóð?
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að því miður hafi Ísraelar leiðst út í ógöngur þegar hann fjallar um nýleg fjöldamorð þeirra í Gazagettóinu. Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra heimsótti svæðið, skoðaði rörasprengjur í Sderot og sá með eigin augum fangelsismúrinn sem Ísraelar stækka daglega. Hún skrifaði bréf til utanríkisráðherra Ísrael og mótmælti framferði þeirra á Gaza. En þetta eru máttlausar aðgerðir, hryðjuverkamenn Ísraela hlusta ekki á svona aðfinnslur það er margsannað.
Ofbeldisstjórninni í S-Afríku var komið á kné með baráttu heimamanna og stuðningi umheimsins. Það var sett viðskiptabann á stjórn hvíta minnihlutans í S-Afríku og flest ríki frystu sín samskipti við hana (Ísrael var eitt fárra ríkja sem hélt góðu sambandi).
Ríkisstjórn Íslands á að fylgja hvatningu Desmond Tutu biskups, en hann hefur hvatt til viðskiptabanns á Ísrael. Ef utanríkisráðherra Íslands vill freista þess að hafa áhrif á ástandið þá verður hún að taka skrefið og rjúfa öll samskipti við stjórnvöld í Ísrael. Það er það eina sem fær þau til að skilja að umheimurinn muni ekki líða framferði þeirra. Eftir 60 ára kúgun er kominn tími til aðgerða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.5.2008 kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2008 | 18:26
Meira blogg
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2008 | 17:12
Byrjaður í blogginu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)