4.3.2013 | 10:56
Allt fyrir heimilin!
Nú er vinsælt hjá stjórnmálaflokkum sem þyrstir í völd að slá um sig með slagorðum sem eiga að afla atkvæða í komandi kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn hélt heilan landsfund undir slagorðinu Í þágu heimilanna og Framsóknarflokkurinn ályktaði á sínum landsfundi að Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Í fyrra héldu þeir fund undir fyrirsögninni: Framsókn fyrir velferð fólksins og heimilanna.
Flokkunum virðist vera umhugað um heimilin (í merkingunni fjölskyldan væntanlega), ef taka skal mark á slagorðunum. Gott og vel.
Nú steðjar ógn að íslenskum heimilum; Það hefur komið í ljós að margir íslenskir matvöruframleiðendur reyna að svindla á heimilinum.
Það er ekkert nautakjöt í naukabökum, það er iðnaðarsalt í matvælum, eiturefnum er dælt út í andrúmsloftið - kadíum og díoxin, það er enginn hvítlaukur í hvítlaukspönnu og ekkert saltkjöt í saltkjötshakki.
Hvað er mikilvægara fyrir heimilin (fjölskyldurnar/fólkið) en að lifa í þeirri vissu að það sé ekki verið að svindla á þeim og grafa undan heilbrigði einstaklinganna sem búa á heimilum landsins?
Hafa ekki sumir pólitíkusar slegið um sig með hugtökum eins og fæðuöryggi?
En hvað segja fulltrúar flokkanna sem er svo umhugað um heimilin og halda þúsund manna samkomu í þágu heimilanna?
Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins segir í viðtali vð DV:
Ég efast um allan eftirlitsiðnaðinn. Það má raunverulega leggja niður allan eftirlitsiðnaðinn, að frátöldu Fjármálaeftirlitinu. Það má leggja niður allar nefndir og stofnanir sem stofnað hefur verið til með lögum eftir hrun. (DV 6.7.12)
Og ýmsir hægri menn hafa tjáð sig um vondan eftirlitsiðnað:
Eftirlitsiðnaðurinn hefur fengið að blómstra í tíð ríkisstjórnar vinstri flokkanna og hafa margir gagnrýnt útþensluna,
En svo er annað sem skilar litlu... Lausnir VG á vanda virðast vera auknir skattar og stærri opinberar stofnanir. Ekki síst opinberar eftirlitsstofnanir.
Þetta ágæta fólk unir sér svo vart hvíldar þegar kemur að forsjárhyggjuáráttu sinni og framleiðir stofnanir og leyfisnefndir vopnaðar reglugerðum sem hafa í raun ekki annan tilgang en að hafa eftirlit með hvor annarri. (Eyþór Arnalds, Friðrik Friðriksson, Gísli Freyr Valdórsson, Rögnvaldur Hreiðarsson)
Og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hrópaði úr ræðustól landsfundarins: engar nefndir, engar tafir (í þágu heimilanna auðvitað).
Samtök atvinnulífsins (samtök þeirra sem framleiða nautabökur án nautakjöts) ályktuðu árið 2003 að Draga þarf úr umfangi opinbers eftirlits.
Markmið laga um opinbert eftirlit er að stuðla að velferð þjóðarinnar, öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, eðlilegum viðskiptaháttum og neytendavernd. Sem sagt; stuðla að velferð heimilanna.
Þegar lýðskrumið nær hæstum hæðum, þegar heimilisvinirnir hrópa hærra um hag heimilanna, þá verða heimilin virkilega að vara sig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Facebook
Athugasemdir
Jamm- munum ; SKJALDBORGINA SÁLUGU ! þVÍLIKT SKRUM OG LYGAR ! eINNIG ÆTTU ÞEIR SEM STANDA Í REKSTRI FYRIRTÆKJA MEÐ HAGSMUNI SÍNA AÐ LEIÐARLJÓSI EKKI AÐ VERA Á alþingi ! ALÞINGI ER AÐ VERÐA EINS OG SJÁLFSAFGREIÐSLUSTOFNUN FYRIR AUÐVALDSTETT OG FRAMAPOTARA. Það á ekki að líðast að menn seu þar á LAUNUM FRÁ MÖRGUM STOFNUNUM meðan hjúkrunarfræðingur eru boðnar 15000 kr. í hækkun á mánaðarlaunum !!
Erla Magna Alexandersdóttir, 4.3.2013 kl. 18:34
Ósköp held ég að aumingjans samfylkingin væri betur sett í dag ef hún hefði EITTHVAÐ gert fyrir heimilin
Marteinn Sigurþór Arilíusson, 5.3.2013 kl. 16:33
Gaman að sjá hver málefnaleg þið eruð Erla og Marteinn. SVO ER VOÐA STERKT AÐ NOTA HÁSTAFINA ÓSPART. KEMUR Í STAÐIN FYRIR AÐ ÖSKRA HJÁ SUMUM.
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.3.2013 kl. 09:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.