2.12.2008 | 19:42
Hvert fer fylgi Sjálfstæðisflokksins?
Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að þó nokkur hluti sjálfstæðismanna halli sé nú að VG. Það eru þeir sem óttast að landsþingið, sem halda skal í janúar, muni ákveða að stefna á inngönguviðræður við ESB.
Ef kosningar verða á fyrri hluta 2009 þá gæti svo farið að VG, ESB andstæðingar í Sjálfstæðis og Framsókn + mögulega Frjálsyndir (sem verða tæpast á þingi) nái saman um stjórn sem framfylgir einangrunarstefnu og haftapólitík af gömlu gerðinni. Þá yrði barist við að halda krónunni með gífurlegum tilkostnaði.
En það er trúa mín að öfli innan VG taki sönsum og átti sig á þvílíkt gönuhlaup þessi uppákoma yrði fyrir þjóðina. Ég vil kosningar á fyrri hluta 2009 og þá verður afstaðan til ESB stærsta kosningamálið ásamt uppgjöri við frjálshyggjukverúlantana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ekki rétta "analýsa" hjá þér. Sjálfstæðismenn myndu aldrei halla sér að VG - það er hreint út sagt útilokað. Sjálfstæðismenn verða ekki róttækir umhverfissinnar, femínistar og kommúnistar yfir nótt!
Mín tilfinning er að Styrmir hafi haft á réttu að standa, þegar hann sagði að meirihluti fylgis Sjálfstæðismanna í dag (20%) séu á móti ESB aðild og þetta er einmitt fólkið, sem fer á landsfund.
Hin 20% af fylgi flokksins - sem nú hafa yfirgefið flokkinn - voru ekki flokksbundnir og hálfgert lausafylgi. Margir af þeim eru hlynntir ESB aðild. Hluti þessa fólks gæti eflaust hugsað sér að kjósa Samfylkinguna, en hluti eru óákveðnir og bíða niðurstöðu Landsfundur Sjálfstæðisflokksins eða stofnunar nýs hægri flokks.
Innan Sjálfstæðisflokksins (20% fylgi) er u.þ.b. 1/3 fylgjandi ESB aðild. Þetta fólk yfirgefur flokkinn ákveði Landsfundur að ganga ekki til aðildarviðræðna. Þá verður fylgi Sjálfstæðisflokksins u.þ.b. 15%.
Til verður mikill fjöldi hægri manna, sem vilja ESB aðild. Þeir munu stofna öflugan hægri flokk, sem mun að mörgu leyti verða með svipaða stefnuskrá og Sjálfstæðisflokkurinn, en þó ekki með þá öfgafrjálshyggju, sem einkennt hefur flokkinn undanfarin 10-15 ár. Þessi flokkur verður með ESB aðild á stefnuskrá, en einnig skynsamlega stefnu í atvinnumálum, sem byggir á blöndu af sprotastarfsemi og stóriðju. Hann verður frjálslyndari en Sjálfstæðisflokkurinn - nokkurskonar hægri útgáfa af Samfylkingunni.
Flokkurinn gæti orðið stærsti eða næststærsti flokkur landsins með um 30-35% fylgi. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk hefur fengið sitt fullsatt af því liði, sem nú er á þing. Af þessum sökum getur flokkurinn náð fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni, Framsóknarflokknum og Frjálslyndum.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 20:12
Áhugavert plott Hjálmtýr Mikið af fylgi Sjálfstæðisflokks hefur farið yfir á Vinstrigræna og það er sannarlega hætta á að flokkurinn klofni. Guðbjörn hefur rangt fyrir sér þegar hann segir að hægri hluti Sjálfstæðisflokksins muni skilja við hinn hlutann. Ég tel nefnilega að ef flokkurinn klofnar þá verður það "gamli" Sjálfstæðisflokkurinn sem klýfur sig frá hinum hinum.
Af því að ég veit að þú Hjálmtýr hefur góða sýn inn í "gamla" Sjálfstæðisflokkinn þá spyr ég þig þeirra spurningar hvort þú hefðir séð þína forfeður samþykkja að ganga með Sjálfstæðisflokknum í Evrópusambandið?
Ég hef á þessu augnabliki enga trúa á að Sjálfstæðisflokkurinn samþykki aðildarviðræðir á aðalfundinum í Janúar og þá kemur í ljós hvort Sambandssinnar þoli það að verða lýðræðislega undir í atkvæðagreiðslu. Það er ekki reynslan í öðrum löndum heldur er jafnan gengið strax til atkvæða aftur.
Kári Sölmundarson, 2.12.2008 kl. 21:30
Það hefur alltaf verið stutt á milli þeirra sem lengst eru til vinstri og þeirra sem eru lengds til hægri í pólitík og mynda stundum bönd sem talin eru öfugumeggin frá það eru fasistar og kommúnistar ekki góð blanda það.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 2.12.2008 kl. 21:44
Þetta er yfirgripsmikil útlistun hjá þér Guðbjörn. Með prósentum og öllu tilheyrandi. Nú vill svo til að ég þekki persónulega nokkra sjálfstæðismenn sem ætla þá leið sem ég lýsi - yfir til VG ef gamla vígið fellur. Það hefur oft verið talað um VG sem „flokk sem stendur við sín orð“ osfrv. af ýmsum sjálfstæðismönnum. Þetta á eftir að skýrast betur Kári, landsfundurinn gæti komið á óvart.
Hjálmtýr V Heiðdal, 2.12.2008 kl. 21:45
Já en voru vinstri grænir ekki að víkja af leið og farnir að tala um aðildarviðræður? Hvert svo sem ESB andstæðingar sjáfstæðisflokksins fara þá er alveg ljóst að nauðsynlegt er að fá hér öflugan flokk sem er ekki fylgjandi ESB aðild því aðeins þannig fáum við heilbrigða umræðu um málið. Annars held ég að við ættum alveg að bíða með þetta í bili og ná andanum. Það er oft sagt að þeir sem eru í uppnámi geti ekki hugsað rökrétt. Nú er heil þjóð í uppnámi og þá er ekki rétti tíminn til að taka svona ákvarðanir.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 22:18
Sæll Gunnar
Líður þér þannig að þú ert í uppnámi og getir ekki hugsað rökrétt? Mér finnst þjóðin þvert á móti „í stuði“ og vilji ræða málin með rökum - með og á móti.
Ég held að við séum ekki komin að augnabliki ákvörðunarinnar - en við eigum að ræða saman og velta málunum fyrir okkur. Ekki fara að þylja möntruna hans Geirs Haarde að „það sé ekki tímabært“ að ræða málin. Það er mjög lamandi afstaða.
Hjálmtýr V Heiðdal, 2.12.2008 kl. 23:20
Ég held að það sé rétt hjá Hjálmtý að þjóðin sé einmitt vöknuð af gróðærisdvalanum og bæði vilji og geti rætt t.d. ESB aðild á málefnalegum forsendum. Alltaf verða einhverjir innanum sem verða eins og Gunnar í Krossinum með Biblíuna, en flestir virðast vera tilbúnir að taka umræðuna og gera síðan upp hug sinn.
En það er líka mikið til í því sem Gunnar segir - þjóðin er í uppnámi en virðist engu að síður í stakk búin til að hugsa rökrétt og krefjast svara.
Lára Hanna Einarsdóttir, 3.12.2008 kl. 00:42
Sæll Hjálmtýr,
Auðvitað eigum við að ræða málin en ég held að það sé ekkert unnið með því að fara í kosningar núna eða í vor jafnvel þó ég sé í hópi þeirra sem telji stjórnvöld hafa sofið á verðinum.
Við búum núna við abnormal ástand og þess vegna mælist stökkbreyting í viðhorfi þjóðarinnar til hinna ýmsu mála. Þetta viðhorf byggir ekki endilega á yfirveguðum rökræðum um nokkurn skapaðan hlut, heldur byggist þetta fyrst og fremst á uppnámi og reiði.
Ekki gleyma því að almennt viðhorf líðandi stundar virkar stundum fáránlegt þegar frá líður. Held þetta sé kallað múgsefjun á fræðimáli.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 09:16
VG þykist nú vera mikill lýðræðisflokkur, þá væri nú ágætt að fá að sjá það á borðinu með því að þeir leyfi nú þjóðinni að kjósa um ESB.
Varðandi samstarf VG og Sjálfstæðisflokks, ég hef ekki neina einustu trú á því að vinstri grænir vilja snerta við Sjálfstæðisflokknum núna, enda vilja þeir að þessi tími verði gerður upp og liggur alveg fyrir að þeir ætla að beina spjótum sínum að sjálfstæðisflokknum í því uppgjöri, eða öfga hægri stefnunnni sem þeir hafa rekið hér á landi eins og Steingrímur orðar það. Ég hugsa að þeir horfi til stöðu samfylkingarinnar með hryllingi þar sem hún nú situr í stjórn með Sjálfstæðisflokki og virðist þurfa að taka á sig nokkuð stóra sök fyrir 17 ára valdatíð sjálfstæðisflokks.
Plús það að VG er að hirða allt fylgið af sjálfstæðisflokknum um þessar mundir, 11% þjóðarinnar er þegar farinn af Sjálfstæðisflokki yfir til vinstri grænna, afhverju ætti VG eitthvað að vilja hrófla við þessari stöðu? Sé það ekki fyrir mér. Ég er samfylkingarmaður sjálfur en ég er ekkert sérstaklega heitur fyrir samstarfi samfylkingar og VG, alla vega ekki á meðan stefna VG er óbreytt í evrópumálum sem ég held að hún verði. Sjálfstæðisflokkurinn væri ágætis kostur ef hann sneri kúrs en ég sé það ekki heldur gerast. Þannig að það er bara eiginlega von mín að endurnýjaður Framsóknarflokkur komi núna sterkur inn með nýtt fólk og auki fylgi, þá gæti komið upp góð staða fyrir ESB sinna.
Jón Gunnar Bjarkan, 3.12.2008 kl. 09:48
Eigum við nú ekki að láta landsfund líða áður en menn fara að koma með einhverjar spár um að Sjallar ætli að fara yfir til VG. Eins og Styrmir bendir á þá eru hinn þöglu Sjallar á móti ESB, mér hefur reyndar aldrei fundist sá hópur sérstaklega þögull. Hverra skoðunar sem Sjálfstæðismenn eru á þessu máli, hljóta menn að mæta og taka þátt í umræðunni.
Ég hef enga ástæðu til annars en að menn komist að niðurstöðu og standi sameinaðir sem fyrr. Þrátt fyrir ágreining í þessu máli.
Tómasha (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 13:43
Móðursýki og upphrópanir! Voru þessi orð Sigurðar Líndal beint að þér?
Guðmundur Björn, 3.12.2008 kl. 16:15
Í hjarta sínu held ég að Hjálmtýr Heiðdal sé StarTrek sinni. Þessu fólki dreymur um eina ríkisstjórn fyrir alla jarðarbúa, einn gjaldmiðil og frið á jörðu. Til að átta sig betur á skoðunum þessa hóps er nauðsynlegt að skoða fyrstu seríuna í New Generation með captain Picard og félögum. Þar reynir áhöfn Enterprise að framfylgja háleitum markmiðum um heiðarleika, hjálpsemi og svokallaðri "prime directive" reglu. En sú regla gengur einmitt þvert gegn hjálpseminni sem áhafnarmeðlimirnir vilja kenna sig við.
Þessi mótsögn sem er eins og rauður þráður í gegnum allar Star Trek sériurnar er sama mótsögnin og truflar skynsemi hjá ESB aðdáendum. Þessi mótsögn kemur í veg fyrir vitræna umræðu um hvort Íslandi sé betur borgið fyrir utan ESB eða innan. En í hverju felst þessi mótsögn? Hún felst í því að það er ekki bæði hægt að hjálpa fólki og horfa á aðgerðalaus. Dæmi um þetta er hugsanlega lægra matarverð á innfluttri landbúnaðarvöru en á kostnað íslenskra bænda. ESB sinnar vilja hjálpa neytendum en horfa á aðgerðalausir þegar Jón Ásgeir hættir að selja innlenda landabúnaðarvöru.
Björn Heiðdal, 3.12.2008 kl. 23:04
Nei það eina sem er að trufla einhverja skynsemi Björn, er að þú sért að greina pólitískan raunveruleika með hjálp Star trek handrits sem er skrifað af einhverjum nördum út í heimi sem hafa örugglega ekki hundsvit á pólitík fyrir það fyrsta.
Jón Gunnar Bjarkan, 4.12.2008 kl. 07:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.