Mogginn með morgunkaffinu

MblÞað er ekki á hverjum degi sem ég les blaðagrein þar sem ég get samsinnt næstum hverju einasta  orði.

Þetta gerðist þó í morgun þegar ég las moggann minn. Greinina skrifaði Gauti Kristmannsson og hún ber titilinn „Norsk nýlenda eða Kúba norðursins“.

Hér er smá úrdráttur:

„þrátt fyrir að þjóðin er búin að reka eina vanhæfa ríkisstjórn virðist allt eiga að sitja fast í samskiptum okkar við önnur lönd, allt á að sitja fast hvað stærsta efnahagslega vandamálið snertir, gjaldmiðilinn; nema hvað lukkuriddarar íslensks »sjálfstæðis« til hægri og vinstri stinga nú upp á því, í anda hinna ábyrgðarlausu bisnessmanna sem hirða vildu hagnað án eigin framlags, að taka upp annan gjaldmiðil, »einhliða« eins og hægrimennirnir segja, norska krónu vilja sumir til vinstri og viðurkenna báðir hópar vandann þar með.

Þannig viðhalda menn þeirri sjúklegu frestunaráráttu sem hrjáð hefur íslenska pólitík andspænis einu raunverulegu lausninni í gjaldmiðilsmálum Íslendinga, en hún felst í því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna þegar við höfum tekið til hér heima. Þetta er þeim mun alvarlegra fyrir þá sök að íslenska krónan hefur kverkatak á íslenskum almenningi og hefur lengi gert. Þetta á jafnt við um þenslutíma og niðursveiflur síðustu áratuga. Á þenslutímum hefur gengi krónunnar kannski verið hagstætt, of hagstætt eins og við vitum núna, á sama tíma hefur verðtryggð verðbólga séð um að skuldir landsmanna vaxi með góðærinu. Í niðursveiflu sér gengisfelld verðbólgan um að skuldirnar haldi sínu og gott betur, skríllinn skal borga hvernig sem efnahagsstjórnin er.

Lýðskrumarar krónunnar kölluðu það sveigjanleika og kalla það sumir enn. Þetta er öllum ljóst, það er einnig öllum ljóst að vaxtastig og vöruverð hér á landi er alltaf miklu hærra en annars staðar í Evrópu vegna þess eins að við stöndum utan ESB og evrusamstarfsins. Gjaldeyriskreppan á rætur að rekja til þess að traust á íslenskum stjórnvöldum og bankamönnum er minna en ekkert, en er það eðlilegt að skuldaklafinn á íslenskum almenningi sé enn þyngri vegna þessara amatöra sem gert hafa landið að einu þeirra skuldsetnustu í heimi? En íslenskir hægri- og vinstrimenn vilja greinilega umfram allt að íslenskur almenningur búi annaðhvort í norskri nýlendu eða Kúbu norðursins. Halda menn virkilega að Íslendingar fái einhvern í stjórn norska seðlabankans, að Norðmenn taki sérstaklega tillit til vanda í íslensku efnahagslífi við vaxtaákvarðanir? Eru Norðmenn ekki helsta samkeppnisþjóð Íslendinga í sjávarútvegi?

Tugir virtra hagfræðinga hafa bent á þá áhættu sem því fylgir að taka einhliða upp annan gjaldmiðil, enginn lánveitandi til þrautavara, engin trygging sé gegn því að gert verði áhlaup á þessi hrófatildur sem við köllum banka, og samt eru þau öfl sem mesta sök eiga á því að efnahagur landsins hrundi að berjast fyrir slíkri upptöku, eins og það sé réttlætanlegt að taka slíka áhættu á baki íslensks almennings. Það er eins og þessa menn dreymi um að gera Ísland að einangraðri Kúbu norðursins, sjálfstæðri í orði en betlara á borði.

Aðild að ESB og evrusamstarf eru vitaskuld engar »töfralausnir« eins og margtuggið hefur verið, en það eru hinar lausnirnar áreiðanlega ekki heldur; það er hins vegar fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu allra stjórnmálamanna í þessu landi að senda ekki samninganefnd til Brussel til að reyna ná viðunandi samningi; það vita allir að þjóðin fær að hafa síðasta orðið og þá ætti deilum að ljúka. Verði draumar misviturra stjórnmálamanna að gera Ísland að norskri nýlendu eða Kúbu norðursins ofan á er víst að um málið verður deilt aftur á bak og áfram, eða að minnsta kosti fram að næsta hruni.“

Eftir þennan lestur lendi ég á annari grein eftir tvo unga félaga Vinstri grænna:

„Það er algengur misskilningur, mýta, sem vissir stjórnmálamenn ýta undir að aðildarviðræður við ESB séu eins og mátunarklefi sem hægt er að máta flíkur í og skila svo ef þær passa ekki. ESB er öllu heldur eins og önugur klæðskeri sem saumar aðeins föt í einu sniði. ESB tekur ekki tillit til aðstæðna eða hagsmuna þjóða. Frá bæjardyrum ESB séð eru engir hagsmunir þjóða, bara hagsmunir ESB.“

Hér stemmir hvorugt; að „vissir“ stjórnmálamenn lýsi aðildarviðræðum sem mátunarklefa og að ESB sé „eins og önugur klæðskeri“. Hið rétta er að margir hafa talað um að kostir og gallar aðildar komi best fram í beinum aðildarviðræðum og að það hefur sýnt sig að það er tekið tilliti til ýmissa séraðstæðna þjóða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Á Neiinu er grein um vilja Evrópusambandsins til að stofna sinn eigin her. Ekki langar mig til að sjá dóttursyni mína herklæðast gegn fátækum þjóðum. Við tölum bara um gjaldmiðil- ekki um aðrar hliðar á aðild að Evrópusambandinu. Á því þarf að vera breyting. bestu kveðjur.

María Kristjánsdóttir, 24.2.2009 kl. 13:45

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæl María

Ég tel að þetta sé orðum aukið með evrópskan her sem Ísland verður aðili að fari svo að við göngum í ESB. Hér er um að ræða að lönd, sem nú þegar halda úti herjum, ætla að samræma herstjórnir og liðsmenn og kalla fyrirbrigðið: „Synchronised Armed Forces Europe". „"dynamic to further development of co-operation between national armed forces so that they become increasingly synchronised.“

Við munum aldrei þurfa að klæðast herbúningum nema ef við viljum halda áfram að dubba upp slökkviliðsmenn og flugumferðarstjóra (eins og ísl. „friðargæslan“ gerði í Afghanistan) og gera þá að mæjorum og sérgéntum.

Umræðan um ESB verður að vera sönsuð - og ég tel að það sé bara til eitt gott ráð til að komast til botns í málinu, og þ.m.t. hernaðarmálum. Það ráð er: förum í aðildarviðræður. Látum á það reyna hvað innganga hefur í för með sér. Höfnum inngöngu ef það hugnast okkur ekki að auka tengslin við Evrópu. Einfalt.

Hjálmtýr V Heiðdal, 24.2.2009 kl. 15:11

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Hjálmtýr Heiðdal er launaður starfsmaður ESB!  Hann er álíka marktækur í þessari ESB umræðu og þegar Hannes Hólmsteinn ræður um vin sinn Davíð Oddsson.  Bæði Hannes og Hjálmtýr sjá bara góðu hliðarnar á velunnurum sínum.  Þegar María K. bendir Týra á ókosti tilkomandi hernaðararms ESB þá gerir hann lítið úr hennar áhyggjum. 

Síðan er annað sem böggar mig í málflutningi Hjálmtýrs og félaga hans í Hinu íslenska ESB stuðningsmanna og kvennafélagi.  Hjálmtýr og félagar segjast vilja aukið lýðræði, persónukosningar, þjóðaratkvæðagreiðslur og allar auðlindir þjóðarinnar verði ávalt í "íslenskri þjóðareign".  Ekkert af þessum skilyrðum verða uppfyllt með inngöngu í ESB nema Týri flokki það undir meira lýðræði að hafa 5 fulltrúa af tæplega 800 hundruðum í Strassburg.  Síðan er spurning hvað verður um íslenska vatnið og rafmagnið? 

Ef Hjálmtýr er óánægður með stjórn Davíðs, Geirs og Villa viðutan í málefnum Íslands, OR og Landsvirkjunar þá batnar ástandið ekkert með inngöngu í ESB.  Ég held að Týri sé ekkert óánægður með stefnu þessara kappa heldur sé honum bara í nöp við þá persónulega!  Allavega stoppar innganga Íslands ekkert óhagkvæmar risavirkjanir, álver og alþjóðlega peningakreppu.  

Björn Heiðdal, 28.2.2009 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband