4. hluti. Baugur, Borgarnes og smjörklípuaðferðin

VILHJÁLMUR EGILSSON EKKI Í NÁÐINNI

Davíð Oddsson sagði í landsfundarræðunni: „það er þó ekki með sanngirni hægt að neita því að það sýnir athyglisverða kímnigáfu að fela manninum sem var ráðinn af Jóni Ásgeiri, Hreiðari Sigurðssyni og Hannesi Smárasyni til að stýra Samtökum atvinnulífsins að undirbúa nýjar siðareglur fyrir Sjálfstæðismenn.“  

Hver er bakgrunnur þessarar „kímnigáfu“?

Það stóð til að Illugi Gunnarsson tæki við forystu SA með velþóknun sjálfstæðismanna. En fulltrúar Baugs og fleiri fyrirtækja þvertóku fyrir það að fyrrum aðstoðarmaður Davíðs fengið stöðuna og sættust á Vilhjálm Egilsson, annan sjálfstæðismann. Þetta reyndist of stór biti fyrir Davíð að kyngja og því fékk Vilhjálmur þessa grimmu ádeilu frá Davíð.

Hér er enn eitt lifandi dæmið um það sem Ingibjörg Sólrún fjallaði um í Borgarnesræðunni. Hún sagði: „Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðal meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs.“ Og hér er viðeigandi að vitna í grínarann Pétur Jóhann: Sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað meira?

 

AFSÖKUNARBEIÐNIR

Stjörnublaðamaður Sjálfstæðisflokksins, Agnes Bragadóttir, skrifar í Mbl. 29. 03.09 að Geir Haarde hafi beðist afsökunar en ekkert bóli á afsökun Ingibjargar Sólrúnar.

Agnes sleppir því að Geir bað landsfund Sjálfstæðisflokkinn afsökunar á því einu að ríkisstjórn Davíðs brá út af stefnu flokksins um dreifða eignaraðild þegar bankarnir voru einkavæddir. „Hefðu þeir gert það (fylgt stefnu flokksins, innsk. HH) væru líkur á því að bankarnir hefðu ekki verið jafn sókndjarfir og áhættusæknir og raunin varð“ sagði Geir (vefur RÚV 27.03.09).

Hér er komin afsökun á pólitískri aðgerð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Sem leiddi til áhættusækni sem er augljóslega einn af stóru þáttunum í hinu íslenska efnahagshruni.

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins 18. ágúst 1999 var skrifað:  „Hér skal fullyrt, að það verður krafa  almennings í þessu landi að tryggð verði dreifð eignaraðild að öllum  ríkisbönkunum, sem til stendur að einkavæða. Hlutskipti þeirra stjórnmálamanna,  sem reyna að draga úr því að það verði gert eða bregða fæti fyrir það verður  ekki öfundsvert.“

Sjálfstæðisflokkurinn brást, nei sjálfstæðismenn fyrirgefiði, og horfið var frá dreifðri eignaraðild einkavæddu bankanna. Og hér er því spáð í ritstjórnargreininni að stjórnmálamennirnir sem börðust  gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins verði í vondum málum. Í tilvitnaðri ritstjórnargrein er verið að gagnrýna Sighvat Björgvinsson sem átti svo engan þátt í því að einkavinavæða bankana. Það voru Davíð, Geir ofl. sem brugðu fæti fyrir stefnu flokksins og seldu auðmönnum með rétta flokksliti ráðandi hluti í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Geir er búinn að biðjast afsökunar, sá eini af þeim sem gengu þvert gegn „kröfu almennings“.

Ingibjörg Sólrún kom ekki nálægt einkavinavæðingu bankanna og getur því ekki fetað í afsökunarfótspor Geirs eins og Agnes krefst.

En glæpurinn skal vera Samfylkingarinnar og Agnes Bragadóttir kann líka að vitna í Borgarnesræðuna: „Fyrirgefðu, Ingibjörg Sólrún: Hversu langt var nefið sem þú gafst okkur Íslendingum með Borgarnesræðunni þinni? …Kanntu ekki að skammast þín? Er engin ástæða fyrir þig og þinn flokk að biðjast afsökunar á endalausu auðmannasmjaðri, Baugsdýrkun, hjákátlegum tvískinnungi, að þykjast vera fulltrúar alþýðu, en vera ekkert annað en attaníossar útrásarvíkinga? Ég bara spyr.“ (Mbl. 29. mars).

Í miklum ákafa sínum til að sýna þjóðinni að það var Samfylkingin sem í vann rauninni „í þágu þeirra, sem áttu mestan þátt í efnahagshruni Íslendinga“ þá hefur hlutur annarra auðhringa ekki komið til umræðu. Samson/Björgólfar og S-hópurinn viðrast ekki hafa notið ásta Samfylkingarinnar og verður hlutur þeirra því hverfandi í þessari tilraun Sjálfstæðismanna til að koma sök sinni á Samfylkinguna.

Þessir auðhringar áttu þó stóru bankana sem léku svo afdrifaríkt hlutverk í efnahagsóförum þjóðarinnar.

Matthías Johannessen skrifar í Lesbók Mbl.: „þegar Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að sporna gegn óeðlilegum áhrifum auðhringja í íslensku samfélagi“.

Einhver hlýtur að spyrja: var einkavinavæðing bankanna liður í því að sporna við áhrifum auðhringa í íslensku samfélagi?

Og enn má spyrja: hvort hafði verri afleiðingar fyrir efnahag Íslendinga meint „auðmannasmjaður“ Samfylkingarinnar eða einkavæðing bankanna með þeim hætti sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu um? Agnes Bragadóttir, hinn borubratti talsmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki í vafa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband