Að rífa hús

GH0KCK0QMaðurinn sem reif húsið á Álftanesi var kominn í vonda stöðu, hann var búinn að missa eignir sínar vegna aðstæðna sem hann og aðrir sköpuðu.

Hann tók áhættulán, maður með tekjur í íslenskum krónum en lán í erlendri mynt. Bankahrunið og hin ónýta króna sendu hann svo út á eyðimörkina, bjargarlausan. Hann reiddist og reif niður hús bankans og gaf dauðann og djöfulinn í afleiðingarnar. Hann jók skuldir sínar og skapaði sér skaðabótaábyrgð og verður að taka úr sína refsingu. Fjölskyldan hans er farin til annarra landa.

Margir Íslendingar eru farnir að hugsa líkt og maðurinn sem reif húsið sem hann hafði misst í klær bankans. Andstaðan gegn Icesave-samningnum er hjá mörgum mótuð af svipuðu viðhorfi. Þjóðin er líka reið, hún er kominn í aðstæður sem hún ræður ekki hvernig úr spilast. Hún tók sjálf ákvörðun um þá pólitísku skipan sem hér hefur ríkt undanfarna áratugi og vel flestir Íslendingar tóku lán á háum verðtryggðum vöxtum eða í erlendri mynt. Annað bauðst ekki vegna krónunnar.

Síðan brestur hið pólitíska kerfi, fjárglæframenn vaða uppi með ríkisábyrgð í vasanum og þjóðin situr eftir með risavaxnar skuldir og einhverjar eignir á móti. Sumir vilja fara þá leið að neita að borga vegna þess að þeir stofnuðu ekki til þessara skulda og að þjóðin beri ekki sök á því hvernig fór.  En með því að borga ekki þá segja Íslendingar sig úr lögum við alþjóðasamfélagið líkt og maðurinn sem reif húsið og steig þar með út fyrir ramma laganna.

Lögum má breyta en gildandi lögum ber að fylgja. Þess vegna átti húseigandinn fyrrverandi ekki að rífa húsið og þess vegna verða Íslendingar að axla ábyrgð á Icesaveskuldunum. Síðan er það næsta skref að búa svo um hnútana að óréttlætið verði ekki endurtekið. Það verður að kasta krónunni, losna við verðtrygginguna, endurbæta eftirlitskerfi fjármálastarfseminnar og stöðu einstaklinga við gjaldþrot.  Ef sú afstaða, að borga ekki, mun ráða á Alþingi, þá munu öll viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir versna enn frekar.

Hér mun verða þjóðfélag viðskipta- og gjaldeyrishafta, neðanjarðarhagkerfi mun blómstra og pólitísk stýring á öllum sviðum þjóðfélagsins mun aukast.  Fjölskylda mannsins sem reif húsið er farin úr landi.

Ísland verður ekki álitlegur kostur fyrir komandi kynslóðir og framsækin fyrirtæki munu ekki þrífast hér – fjölskyldan mun fara úr landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er erfitt, Kreppukall, að „meika sens“ úr þessari vitleysu sem þetta allt Icesave mál er. En málið er staðreynd og það verður að bregðast við því sem var gerti í okkar nafni. Ef þú lánar vini þínum veð í húsinu þínu og hann greiðir ekki lánið þá kemur lánveitandinn til þín og vill fá húsið þitt. Þar við situr. Sparifjáreigendur í Hollandi og Bretlandi voru í góðri trú og íslenskur almenningur líka.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.6.2009 kl. 18:53

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Aðalatriðið í skrifum þínum Hjálmtýr er þetta:" Ísland verður ekki álitlegur kostur fyrir komandi kynslóðir og framsækin fyrirtæki munu ekki þrífast hér ..."

Þannig að við höfum tvo kosti: 1. Borga Icesae skuldbindingar einkafyrirtækis og Ísland verður ekki álitlegur kostur fyrir komandi kynslóðir og framsækin fyrirtæki munu ekki þrífast hér,

eða 2. Borga ekki og  "En með því að borga ekki þá segja Íslendingar sig úr lögum við alþjóðasamfélagið".

Mér finnst það réttlætismál að borga ekki fyrir óráðsíu og fáránleikastjórnun bankastjórnar Landsbanka Íslands hf. Nú ef að við förum úr lögum við alþjóðasamfélagið þá það, það verður hvort eð er ekki byggilegt hér ef að hin leiðin verður farin, eins og þú bendir réttilega á.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 21.6.2009 kl. 20:12

3 identicon

Þessi maður var kominn á hausinn löngu áður en kreppan skall á. Ætlaði bara að nota kreppuna til að verða einhverskonar Píslarvættur. Sveik líka milljónir af öðru fólki..! Fyrir alla muni opnið þið augun..! Hætta þessarri þvælu, að reyna að nota svona rugl í vafasaman málstað..!

Snæbjørn Bjornsson Birnir (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 20:13

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

S næbjörn: hvað munum við sjá ef við opnum augun?

Hvort sem þessi maður var kominn í vond mál fyrir krappu breytir ekki öllu - hann var í skítamálum og lét reiði sína gegn bankanum bitna á húsinu. Hann var þáttakandi og líka fórnarlamb.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.6.2009 kl. 20:32

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Eitthvað er nú Hjálmtýr Heiðdal að misskilja hlutina.  Ef við borgum þá fara allir okkar peningar í þetta og vel það.  Það verður ekkert eftir til að reka spítala eða byggja vegi.  Skattar verða hækkaðir upp úr öllu valdi og í framhaldi mun neðanjarðarhagkerfið blómstra.  Þegar skatttekjur ríkisins hverfa mun geta þess til að borga öll nýju fínu lánin okkar verða engin.  Hvað gera fjallagrasabændur og álverssinnar þá?

Hinn kosturinn að borga ekki er sennilega betri.  Allavega heldur Micheal Hudson því fram.

Er Hjálmtýr Heiðdal að leika duglegann Samfylkingarmann með þessum skrifum sínum!  Er Hjálmtýr í ríkisstjórn og vill sýna ábyrgð?

Björn Heiðdal, 21.6.2009 kl. 21:33

6 identicon

Þessar "alþjóðlegu skuldbindingar" okkar byggja á eftirá hentugleikatúlkun Breta, Hollendinga og ESB á Evróputilskipun um innstæðutryggingar sem þeir hafa ekki meiri trú á en svo að þeir leggja ekki í að láta reyna á hana fyrir dómi.

Segðu mér annars, úr því að þessi skilningur Breta og hinna þess efnis að ríkið beri ábyrgð á tryggingasjóði er svo öruggur og augljós, hvers vegna þeir gera það að kröfu sinni í "samningnum" að Alþingi setji lög um ríkisábyrgð á tryggingasjóði. Átti ábyrgðin ekki að vera til staðar fyrir?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 01:10

7 identicon

Umræðan um Icesave er sérstakt íslenskt fyrirbæri. Ef þetta væri nú mál sem í raun og veru skipti sköpum fyrir Ísland um aldir alda þá mætti ætla að um það væri fjallað víðar en á Íslandi. Svo er ekki. Leita má lengi eftir einhverjum fréttum eða umfjöllun um Icesave í fjölmiðlum erlendis. Hér í Noregi er þetta ekki fréttaefni, gagnstætt hinu stóra málinu sem er umsókn um aðild að ESB, sem er oft og títt í fréttum. Allir norðmenn sem ég tala við og þekkja eitthvað til skilja ekki Icesave öðruvísi en að Ísland verði að gera upp. Þegar norðmenn fengu bankakreppuna yfir sig hér um árið þurfti norska ríkið að kaupa einkabankana og gera dæmið upp. Það voru því norski skattgreiðendur og norska þjóðarbúið sem þurfti að leggja út fyrir þessu. Að borga ekki er heimskuleg lausn og raunar ekki nein lausn. Segjum svo að þeir sem skulda Landsbankanum (þrotabúi) hafi sömu afstöðu - bankin farin á hausinn og við borgum ekki. Sá gamli og góði (nú látinn) Fred Åkerstrøm söng hér fyrrum eitthvað á þessa leið "Sådan er kapitalismen, utakk er den armes lønn" -. Séð að utan er allt þetta mál skelfilegt, en efnahagskaflinn er smámál í samanburði við þann skaða sem stjórnmálaöfl hafa unnið á íslensku samfélagi og lýðræði. Það mun taka mörg ár að gera við lýðræðisstoðirnar í samfélaginu.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 07:26

8 identicon

Umræðan um Icesave er sérstakt íslenskt fyrirbæri. Ef þetta væri nú mál sem í raun og veru skipti sköpum fyrir Ísland um aldir alda þá mætti ætla að um það væri fjallað víðar en á Íslandi. Svo er ekki. Leita má lengi eftir einhverjum fréttum eða umfjöllun um Icesave í fjölmiðlum erlendis. Hér í Noregi er þetta ekki fréttaefni, gagnstætt hinu stóra málinu sem er umsókn um aðild að ESB, sem er oft og títt í fréttum. Allir norðmenn sem ég tala við og þekkja eitthvað til skilja ekki Icesave öðruvísi en að Ísland verði að gera upp. Þegar norðmenn fengu bankakreppuna yfir sig hér um árið þurfti norska ríkið að kaupa einkabankana og gera dæmið upp. Það voru því norski skattgreiðendur og norska þjóðarbúið sem þurfti að leggja út fyrir þessu.

Að borga ekki er heimskuleg lausn og raunar ekki nein lausn. Segjum svo að þeir sem skulda Landsbankanum (þrotabúi) hafi sömu afstöðu - bankinn farin á hausinn og við borgum ekki. Sá gamli og góði (nú látinn) Fred Åkerstrøm söng hér fyrrum eitthvað á þessa leið "Sådan er kapitalismen, utakk er den armes lønn" -. Séð að utan er allt þetta mál skelfilegt, en efnahagskaflinn er smámál í samanburði við þann skaða sem stjórnmálaöfl hafa unnið á íslensku samfélagi og lýðræði. Það mun taka mörg ár að gera við lýðræðisstoðirnar í samfélaginu.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 07:29

9 Smámynd: Sverrir Einarsson

Þessi gaur þarna á Álftansinu er bara ótýndur glæpamaður og ekkert annað. Hann sveik nokkrar millur út úr trúgjörnu fólki og hélt að hann myndi komast upp með það......hann er samt ekki alveg "blankur" fyrst hann gat borgað undir fjölskylduna úr landi (ekki hefur það nú verið alveg frítt) og trúlega hefur hann flutt innbúið með fjöslkyldunni. Mér finnst að það ætti að spyrða hann saman við þenna dúdda sem brjálaðist út í lögguna í gær........ók á löggubíla og fleira miður gáfulegt, báðir með svipaða geyndarvísitölu.´

Ég tók enginn myntkörfulán, engin húsnæðislán eða verðtryggð lán samt þarf ég að taka þátt í að greiða eitthvað sem ég hafði engin tök á að hafa eitthvað um að segja. Ég þarf víst (eins og svo margir aðrir) að borga hærri skatta af mínum tekjum og mér er spurn afhverju eru þeir sem stofnuðu til þessara Icesave dæmis ekki bara látnir borga þetta sjálfir og hvar eru allar þessar innistæður? þetta eru ekki neinir smáaurar einhverstaðar hljóta þeir að vera...hví er ekki tékkað á því?....skyldi þó ekki vera að þeir sem eiga að "rannsaka" þetta séu of tengdir (peningalega, ættarlega eða pólitískt) það kæmi mér ekki á óvart......allavega er veitt mikil andspyrna við því að fá "utanaðkomandi rannskóknaraðila erlendis frá".......afhverju skyldi það nú stafa

Sverrir Einarsson, 22.6.2009 kl. 08:35

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sverrir - þú ert ekki einn þeirra sem komu þjóðinni í klípu - en þú verður samt að taka á þig byrðar. Vonandi eru eignir sem koma á móti einhvers virði og vonandi geta rannsakendur fundið einhver verðmæti sem fjárglæframennirnir hafa komið undan á Tortóla eða annarsstaðar. En staðan er þannig að það þýðir ekki að rífa hús eða keyra á loggustöðina (eins og gerðist í gær). Sá kostur - að borga ekki - er ekki í boði. Nema við viljum vera nokkurskonar „Nígeríubréfamenn“ Evrópu. Þjóð sem enginn treystir og enginn vill eiga viðskipti við nema með afarkjörum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.6.2009 kl. 09:53

11 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Björn frændi - þú ætlar ekki að borga - og hvað svo?

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.6.2009 kl. 09:55

12 identicon

Hjálmtýr hefur margt til síns máls þ.e. að menn ættu að vakna upp og skoða stöðuna eins og hún er í raun í stað þess að afneita stöðunni og halda höfðinum ofurlítið lengur ofan í sandinum í þeirri von að allt verði gott seinna.

 Ég hef ekki tekið nein slæm lán og er ekki að kvarta yfir því. Ég þarf samt að borga og ætla heldur ekki að kvarta yfir því. Það sem maður setur óneitanlega spurningarmerki við eru þessi ótrúlegu kjör sem þessar tvær þjóðir settu okkur. Þetta eru tvær fyrrverandi nýlendurherraþjóðir sem vanar eru að mergsjúga saklaust fólk og þeim munar ekki um að mergsjúga okkur næstu 20 árin eða svo. Við komum á hnjánum til þeirra og að sjálfsögðu vorum við keyrðir ennþá lengra niður í svaðið með ótrúlega háum vaxtargreiðslum og kjörum sem eru ekki sæmandi nokkurri þjóð. Þetta ættum við Íslendingar að muna. Við borgum en það er engin sem segir að við þurfum að gera það brosandi og bjóða hina kinnina.

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 10:44

13 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Skorrdal - ég skil það vel að þú telur þig ekki eiga að borga þessa skuld. Ég er á svipuðu róli og þú, aðeins lítið húsnæðilán og smá yfirdráttur. En ég get ekki frekar en þú neitað að borga. Þú verður að skipta um ríkisfang, flytja til annars lands og gerast ríkisborgari til að sleppa. Það tekur að vísu sinn tíma og er því ekki kostur í þessu máli. Íslendingar geta ekki einangrað sig frá umheiminum ef þeir vilja búa við svipuð kjör og þjóðir í kringum okkur. Ef við borgum ekki þá mun landið einangrast - það er hin harða staðreynd. Einangrað land verður ekki valkostur fyrir nýjar kynslóðir. Það verður heldur ekkert sældarlíf að þurfa að borga það sem eftir stendur af skuldum eftir eignasölu. En það er betri kostur - og sá eini í raun.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.6.2009 kl. 12:26

14 identicon

Hjálmtýr, það er bara til eitt orð til að lýsa þessum samningi og það er orðið "kúgun".  Það er rétt hjá þér að maðurinn sem steig út fyrir ramma laganna er búinn að dæma sig úr leik.  En með þessum icesave samningum er okkur meinað að ganga eftir línum laganna og hreinlega láta á það reyna fyrir dómstólum hvort okkur beri skylda til að ábyrgjast allar þessar innstæður og erum í stað þess kúguð til að skrifa undir allskonar afarkosti sem eru svo vitlausir að enginn mátti fá að sjá þá.  Þú getur varla kvittað fyrir svona vinnubrögð Hjálmtýr.  Auðvitað áttum við að semja við Breta og Hollendinga en við áttum ekki að láta banna okkur að leita til dómstóla, því það er kúgun.

kv

Gunni

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 12:31

15 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Íslendingar tóku lán á háum verðtryggðum vöxtum eða í erlendri mynt. Annað bauðst ekki vegna krónunnar.

Að hafa eigin gjaldmiðil þýðir ekki að það er skylda að hafa verðtryggingu og því gengu ekki að halda því fram að annað hafi ekki boðist vegna krónunnar.

Frekar myndi ég persónulega kenna guðmóður verðtryggingarinnar (Jóhanna Sig) og stjórnvöldum um að það hafi verið verðtrygging á lánum hér, það er kannski skiljanlegt að verðtryggingin hafi verið sett á á sínum tíma en það hefði átt að vera löngu búið að afnema hana í góðærinu.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 22.6.2009 kl. 12:55

16 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Gunni Jó

Auðvitað er þetta kúgun - að borga skuld sem þú stofnaðir ekki til. En eins og ég benti á í fyrri færslu þá lendir þú í þessu ef þú hefur lánað veð í húsinu þínu og sá sem fékk lánað veðið borgar ekki. Þá kemur bankinn til þín og þú verður að borga eða missa húsið. Við lánuðum „veð“ í þjóðarbúskapnum án þess að vita það. Þjóðin stóð í þeirri trú að einkabankar bæru sjálfir ábyrgð á sínum gjörðum. En annað hefur komið í ljós, allir bankar eru reknir með ríkisábyrgð í raun. Þess vegna er það mjög alvarlegt hvernig stjórnvöld sváfu á verðinum. Sér í lagi virðist Fjármálaeftirlitið hafa verið gagnslaust.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.6.2009 kl. 12:59

17 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Doddi - verðtrygging er tilkomin vegna þess að það væri ekki hægt að lána eða að fá lán í því umhverfi sem hin ótsöðuga króna bauð uppá. Þessi verðtrygging er verkfæri andskotans að því leiti að þegar ríkisstjórnin hækkar álögur á tóbak og áfengi þá hækka lánin jafnt hjá reyklausum bindindismönnum og hjá spúandi drykkjusvolum. Það er hægt að afnema hana með því að skipta um gjaldeyrir - Evra og inn í ESB.

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.6.2009 kl. 13:03

18 identicon

Glitnir vann vandlega í að fá fólk til að taka myntkörfulán... þeir hringdu í mig í jan. 2008 og boðuðu mig á fund.
Ég skelli mér og þar er maður sem lofsamar þessi lán alveg upp til guðs, ég segi við hann að ég telji allt vera að fara til fjandans, nei nei segir hann, bara tímabundið vanamál... ég kveð og byrja að ganga út, hann kallar á eftir mér: HEY HEY hvað segir þú um að breyta 50% af láninu... ég sagði: Hasta la vista

DoctorE (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 15:54

19 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þessi verðtrygging er verkfæri andskotans að því leiti að þegar ríkisstjórnin hækkar álögur á tóbak og áfengi þá hækka lánin jafnt hjá reyklausum bindindismönnum og hjá spúandi drykkjusvolum. 

Alveg sammála þér þar, enda var þetta sett á þegar við vorum í svipaðri stöðu og við erum nú, þ.e. gengi krónunnar var lágt, það sem ég er að segja er að það hefði átt (og var eflaust lofað á sínum tíma) að leggja verðtrygginguna niður þegar var komið upp úr þeim öldudal sem var þá.

Það er hægt að afnema hana með því að skipta um gjaldeyrir

Það er einnig hægt að afnema hana án þess að skipta um gjaldeyrir og ganga í ESB.

Það sem hér vantar er betra regluverk utan um fjármálageirann til að koma í veg fyrir þetta rugl sem kom upp (ekki má gleyma að mikið af þessu regluverki sem er hér í gangi í fjármálageiranum er tekið beint upp úr reglugerðum ESB í gegnum EES samninginn).

Krónan er það besta sem við getum notast við, hún gefur stjórnvöldum færi á að vinna í fjármálaerfiðleikum, ef við værum með evruna þá gætum við ekkert gert í málum eins og við erum t.d. í núna því evrunni er stjórnað utan frá.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 22.6.2009 kl. 16:13

20 identicon

Hjálmtýr, við lánuðum aldrei nein veð í þjóðarbúskapnum, hvorki meðvitað né ómeðvitað.  Það er bara túlkun ýmissa aðila að svo sé og við megum ekki einu sinni láta skera úr um það fyrir dómstólum.  Það er ekki kúgun að borga skuld sem þú hefur kvittað uppá með því að lána veð í húsi.  Ég er ansi hræddur um að gott veður í aðildarviðræðum við ESB hangi þarna á spítunni enda myndi enginn heilvita maður samþykkja svona framkomu nema þar lægi eitthvað á bakvið sem ekki hefur alveg komið fram ennþá.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 00:10

21 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Davíð Oddsson (langt síðan ég hef skrifað þetta nafn) sagði í ræðu að einkavæddu bankarnir störfuðu á eigin ábyrgð.

Það hefur komið í ljós að svo var ekki - þeir voru með veð í þér og mér. „Gott veður“ í viðræðum við ESB er bara endurspeglun á nauðsyn þess að hafa „gott veður“ í öllum samskiptum milli þjóða. Það verða allir að fylgja reglum sem þjóðir samþykkja sín á milli.

Hjálmtýr V Heiðdal, 23.6.2009 kl. 07:59

22 Smámynd: Björn Heiðdal

Hjálmtýr frændi hefur greinilega ekki kynnt sér skrif Michael Hudsonar eða er hann kannski ósammála þeim?  Hans rök eru einföld.  Ríki sem ekki geta lengur greitt af lánum sínum og eru búin að selja allar eignir eru allar bjargir bannaðar.  Svoleiðis þjóðir fá ekki lán til fjárfestinga heldur matarsendingar frá UN.

Hjálmtýr Heiðdal hefur því tvo kosti.  Tapa öllu með þessum "fína" samningi sem félagi Svavar náði við Breta og Hollendinga eða taka á sig veruleg óþægindi í einhver ár meðan við borgum þjófnað Björgólfs úr okkar eigin vasa.  Semjum við Hollendinga og Breta á þeim forsendum að við getum ekki borgað þetta upp í topp enda beri okkur ekki skylda til (Nema búið sé að gera einhvern leynisamning um það).  

Þegar aðilar deila er yfirleitt reynt að mætast á miðri leið.  Í þessu tilviki var ekki um slíkt að ræða.  Allir virðast vera sammála um að þetta sé frekar pólitískt frekar en lögfræðilegt deilumál.  Þess vegna er það þeim óskiljanlegra að ekki var hægt að ná betra samkomulagi.  Borga t.d. eitthvað málamiðlunargjald en ekki alla upphæðina plús fulla vexti.

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 08:52

23 identicon

Það þýðir ekkert að reyna að klóra sig útúr þessu klúðri sem þetta samkomulag er.  Davíð vinur þinn hafði á réttu að standa þegar hann sagði að bankarnir störfuðu á eigin ábyrgð en það voru veikgeðja stjórnmálamenn sem ekki gátu staðið í lappirnar sem stýrðu þessu í þann farveg sem það er nú.  Ekki orð um það meir.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 09:49

24 Smámynd: Héðinn Björnsson

Að skrifa undir þessa samninga er að skrifa enn einn gúmmí tékkann sem við getum ekki borgað. Við verðum að horfast í augu við eigin vanmátt og viðurkenna fyrir okkur sjálfum og útlöndum að við getum ekki greitt þetta. Það er sjálfsagt að biðjast fyrirgefningar og vera sorry yfir þessu, en það breytir því ekki að við getum ekki greitt þessar skuldir eftir þessu plani. Verði skrifað undir gefur það Íslendingum einhvern tíma til að stinga af og komast þannig undan allri greiðslubyrðinni en það mun hvorki hjálpa okkur né vera í hag Breta og Hollendinga. Heiðarleiki er forsenda þess að hér myndist nýtt samfélag, en áframhaldandi afneitun mun bara halda sama spírallnum gangandi.

Héðinn Björnsson, 23.6.2009 kl. 10:10

25 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Gunni Jó - voðaleg vitleysa er þetta hjá þér. „Davíð vinur þinn hafði á réttu að standa þegar hann sagði að bankarnir störfuðu á eigin ábyrgð“. Þetta er ekki og var ekki rétt - bankarnir voru með alla þjóðina sem gísla. Ekki orð um það meir.

Héðinn - við getum reynt að biðjast fyrirgefningar - en við verðum líka að borga eftir bestu getu. Það er ekkert annað í stöðunni.

Hjálmtýr V Heiðdal, 23.6.2009 kl. 10:32

26 Smámynd: Sverrir Einarsson

Ég styn bara og borga mína skatta, bölva upphátt og hugsa sumum þegjandi þörfina. Lífið heldur áfram ég hef mína vinnu (það er meira en sumir hafa) og ekki hækka neinar skuldir hjá mér þó vísitalan hækki og hækki. Ég vil bara finna allar þessar millur sem Icesave innistæðurnar voru, einhverstaðar eru þær. Þegar þær finnast notum við þær bara til að borga þetta. Þeir sem komu okkur í þennan fjanda eru furðu rólegir þó á pappírum séu þeir gjaldþrota. Sjáið þið einhvern lífsstílsmunstur breytingu hjá þeim. Ekki ég þannig að þeir virðast hafa óheftan aðgang að fjármagni sem þeir í raun eru búnir að stela en við eigum svo að borga......því eru þeir ekki handteknir strax og settir í gæsluvarðhald á meðan rannsókn stendur yfir svo þeir spilli ekki rannsóknarhagsmunum. Held að þeir hafi nefnilega lagt net sín víða og hóta svo núna að taka þá með í fallinu verði  hróflað við þeim og þeir hinir sömu þegja og gera ekki neitt til að upp um þá sjálfa komist ekki.

Segi enn og aftur.........SKÍTAPAKK

Sverrir Einarsson, 23.6.2009 kl. 11:22

27 identicon

Hjálmtýr, á hverju byggir þú þá fullyrðingu þína að bankarnir hafi verið á ábyrgð ríkisins?  Það er a.m.k. ekki í neinum lögum hvorki innlendum né alþjóðlegum.  Mér finnst það skrítið að maður eins og þú sem ert ákafur baráttumaður gegn kúgun í útlöndum skulir vilja láta kúga þína eigin þjóð.  Við eigum einfaldlega að fara eftir lögum og reglum sem gilda um þetta og þannig á að útkljá svona mál en ekki  með hótunum og kúgun.  Hvers vegna telur þú að ekki megi leita til dómstóla með þetta eins og hvern annann ágreining?

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 12:29

28 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Góður pistill hjá þér Hjálmtýr. Sumir virðast halda að það sé hægt að biðjast afsökunar af heilum hug og samtímis því að neita að semja um það sem er í okkar ábyrgð. Fjármálaeftirlitið sveik.

Svona er tilheyra þjóð. það fylgja með góðu og vondu málin, en ekki bara góðu málin. það rifjaðist upp fyrir mér að hingað kom flóttafólk til Akraness sem ekki tilheyrði neinni þjóð, hvorki ríkri né fátækri.

Við getum víst ekki hagað okkur eins og óábyrgir krakkar í þessu máli þó við gjarnan vildum. Hef oft furðað mig á því að fólk skuli ekki hafa velt því fyrir sér fyrr hvort allt væri með felldu í hinu svokallaða góðæri. Trúa allir því að alvöru peningar verði til í bönkum. Voru þeir ekki upphaflega hugsaðir til að sleppa við ervið vöruskipti? Erum við ekki aðeins komin of langt frá raunveruleikanum á köflum?

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.6.2009 kl. 13:02

29 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég er búinn að svara þinni spurningu.  Þorir þú að svara minni?

Björn Heiðdal, 23.6.2009 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband