Framsókn á faraldsfæti

Sigm. DavíðFramsóknarmenn voru upprunalega heimakærir sveitamenn, uppteknir við málefni síns hrepps og heyskaparhorfur. Sjónarhorn þeirra var sjónarhorn þess sem stóð báðum fótum í íslenskri mold, vel vitandi um það hvernig vöxtur og viðgangur alls byggðist á hógværri nýtingu landsins gæða.

Svo lentu þeir í vondum félagsskap helmingaskiptanna um hermangið og verslunareinokunar SÍS og Kolkrabbans. Og loks kom Halldór Ásgrímsson með kvótaþjófnaðinn, stóriðjubrjálæði og Íraksuppáskrift.  Fylgi flokksins fór að fjara út og tilraun Halldórs til að auka fylgi flokksins í þéttbýli mistókst.

Upplausn varð í flokknum, formenn komu og fóru á færibandi og ballið endaði með því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson „datt inn af götunni“ og gerðist formaður. Að vísu ekki fyrr en að Höskuldur Þórhallsson hafði verið formaður í fimmtán mínútur eins og frægt er.

Nú er flokknum mikið í mun að sýna sig og sanna, mikið ber á Sigmundi Davíð og hann er krítískur mjög á allt sem ríkisstjórnin er að gera. Nú fer hann, ásamt Höskuldi, um lönd og þykist ætla að bjarga þjóð sinni frá Icesave, AGS og hinni vondu ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms.

Allt er þetta hið hlægilegasta mál – yfir okkur dynja yfirlýsingar frá norskum ráðamönnum um að ekkert fáist án lausnar á Icesavemálinu. En riddarinn hugumstóri og fylgdarsveinn hans halda reiðinni áfram og við bíðum spennt eftir því að vita hvar þá ber niður næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Nú þeir munu náttúrlega reyna að toga sig upp á hárinu

Þorsteinn H. Gunnarsson, 10.10.2009 kl. 21:15

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þegar varið var að stofna fyrstu verslunarfélögin hér á landi fyrir og um aldamótin 1900, undanfara Kaupfélaganna, voru menn að tala um mun stærri svæði en síðan urðu viðskiptasvæði Kaupfélaga. Hvort þetta á við um allt land veit ég ekki, en þetta var reyndin hér í Vestur Húnavatnssýslu, en þar var stofnað verslunarfélag sem náði töluvert út fyrir þá sýslu. Framsóknarflokkurinn sá sér snemma leik á borði og klófestu Kaupfélögin.

Lög deildarskiptra Samvinnufélaga eru þannig sett upp að það er efsti toppur pýramýdans sem fer með völdin. Almennir félagsmenn geta ekki haft áhrif á ákvarðanir stjórnar, þar sem þeir hafa ekki einu sinni vald til að álykta um mál svo stjórn sé skylt að taka þá ályktun til skoðunar, hvað þá meir. Stjórn getur tekið ákvörðun gegn vilja meiri hluta félagsmanna, sýnist henni svo.

Ég hygg að meiri hluti bænda (í það minnsta þeirra eldri) trúi á Framsóknarflokkinn sem sitt bjargráð. Það er líka mín tilfinning að gamla hugsun sé helst að finna í sveitum landsins. Þar er fólk enn að hluta til haldið hugarfari moldarkofakynslóðarinnar. Ég er fædd og uppalin í stóru landbúnaðarhéraði og skynja þetta töluvert enn, þó það sé vissulega á undanhaldi.

Þú talar um vonda ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Þetta hljómar eins og maður með tannverk sem er í nöp við tannlækninn. Ríkisstjórnin er vissulega með vond mál í fanginu og spilin sem lögð hafa verið á borðið eru kolsvört. En þessi spil eru arfur frá Ríkisstjórnum Sjálfstæðis og Framsóknarflokka sem hafa gamblað með þjóðarauðinn og leyft sínum dekurdátum og snótum að leika sé eftirlitslaust með peningamarkaðinn okkar. Seinasta ríkisstjórn fyrir og í hruni er að sjálfsögðu skipuð Sjálfstæðismönnum og Samfylkingu eins og alþjóð veit. Þar fóru sjálfstæðismenn með forsætis og fjármálaráðuneyti sem samþykktu að ábyrgast ICESAVE skuldir ásamt Samfylkingarráðherrum. Sú ríkisstjórn ákvað að sækja um aðstoð hjá AGS. Sjálfstæðismenn draga nú lappir sem mest þeir mega, meðan Samfylking ásamt VG er að vinna hörðum höndum að því að framfylgja og standa við ákvarðanir fyrri stjórnar. VG er að vísu í vanda sem stendur, en ég vænti þess að þeir greini kjarnann frá hisminu og gangi til þeirra verka sem bíða.

Framsókn er búin að skreppa saman á undanförnum árum og gerir það trúlega áfram.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.10.2009 kl. 22:41

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Samfylkingin og leigupennar hennar geta greinilega ekki hætt að hugsa um Davíð.  Nú er það ekki Davíð Oddsson sem fangar hug þeirra allann heldur Sigmundur Davíð.  Maðurinn sem gaf upp 30.000 krónur til skatts á mánuði en fitnaði samt eins og púkinn á fjósbitanum.  Svo komst hann inn á þing og blés út eins og loftbelgur.  En auðvitað gat það ekki gengið endalaust og kappinn þurfti að blása smá lofti út.  En viti menn þá skammast Samfylkinn yfir öllu prumpinu og tekur fyrir nefið.  Hver veit nema loftbelgurinn verði kominn í ríkisstjórn að keyra landið í kaf frekari skulda og skattahækkana í boði AGS og Björgólfs Thors áður en langt um líður.

Björn Heiðdal, 10.10.2009 kl. 23:18

4 identicon

Eru Framsóknarmenn nýju útrásarvíkingarnir?   Nei nei bara jok. Flott að athuga allar mögulega leiðir.

Davíð Bredesen (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 23:49

5 identicon

Nú tek ég fram Sturlungu og fer að lesa. Undanfarin misseri finnst mér ég upplifa mig í þeim darraðadansi sem þá var stundaðir, án hjaðningavíga að vísu, allavega eru þau ekki eins blóðug og þá.

Hlaupa til Noregs, biðja þá um hjálp. Hvernig væri að draga fram Gamla sáttmála? Fá að nota kónginn þeirra og setja Ólaf Ragnar af? Sigmundur Davíð verður fulltrúi kóngs á Suðurlandi og Höskuldur goði á Norðurlandi?

Nú er búið að kviðrista gullgæsina og ætla menn að hirða úr henni eggin, en þá er þar aðeins eitt egg skv. náttúrulögmálinu, gæsin að drepast og þau egg sem hún hefði annars verpt glötuð framtíð.

Hildur Harðardóttir (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 05:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband